02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (1761)

88. mál, atvinna við siglingar

*Páll Þorbjörnsson:

Ég heyrði ekki nema nokkuð af ræðu hv. flm. En mér þykir sennilegt, að ég hafi heyrt það af ræðu hv. þm., sem við kemur því, sem ég sagði hér áðan.

Hv. þm. sagði, að fiskifloti landsmanna ætti ekki að vera nein skólaskip. Ég er alveg á sama máli um það. En ég vil bara benda hv. þm. Barð. á, að það þurfa fleiri en sýslumenn og bæjarfógetar að fá undirbúning undir sitt starf. Og það hefir ekki ennþá þótt henta, að þeir menn, sem vinna eiga á sjónum, lærðu sitt starf annarsstaðar, t. d. uppi í sveit. Þeir hafa enn sem komið er þurft að læra það úti á skipum, til þess að geta innt það sæmilega af hendi. Þess vegna verður ekki framhjá því farið, að þeir verða að vera nægilega lengi um borð í skipi.

Þá sagði hv. þm., að hann hefði getið um það, að hann væri fús til að færa niður takmarkið úr 75 smálestum niður í 40 smálestir, fyrir stærð skipa viðvíkjandi undanþágum fyrir stýrimenn. En þetta raskar ekki því, sem ég sagði. L. um atvinnu við siglingar kveða svo á, að til þess að maður geti orðið skipstjóri, þurfi hann fyrst að vera stýrimaður. Og þó að skip séu ekki nema 40 smálestir að stærð, þá getur enginn orðið skipstjóri á þeim, nema hann hafi áður verið stýrimaður á einhverju skipi.

Þá hélt hv. þm. Barð. því fram, að mikill fengur væri í því, að geta fækkað þessum starfsmönnum. Ég sýndi honum fram á, að hvað sem löggjöfin segir um þetta efni, þá er ekki hægt að fækka þessum starfsmönnum á togurum. Þessum mönnum kemur til með að verða borgað sama kaup í báðum tilfellum, og er hér því ekki um neinn sparnað að ræða, heldur bara svona skrautstafi á prenti. Ég vil ennfremur benda hv. þm. á, að það er alls ekki svo, að fjölgað hafi verið um einn einasta mann á mótorbátunum. Það eru nákvæmlega jafnmargir á bátunum, síðan ákveðið var að stýrimenn skyldu vera á þeim, eins og áður, bæði í sýslu hv. flm. og annarsstaðar. Öryggið hefir bara aukizt við það, að fleiri menn eru um borð í hverju skipi, sem kunna til þeirra sérstöku verka, sem stundum þarf að grípa til. Hv. þm. minntist einnig á vélgæzlumennina. Ég vil benda honum á, að það er búið að henda í sjóinn stórfé á undanförnum árum, jafnvel hundruðum þúsunda. eingöngu vegna þess að lítt hæfir menn hafa gætt vélanna í bátunum. Hver vélin á fætur annari hefir verið eyðilögð af þekkingarleysi, sem eðlilegt er, þegar kannske aðeins einn maður er um borð til þess að gæta vélar, sem gengur sólarhring eftir sólarhring. Þessi eini maður verður að sofa eins og aðrir menn, og þá verða að vera við vélina á meðan mens, sem alls enga eða mjög takmarkaða þekkingu hafa á henni. Það er áreiðanlegur hlutur, að þessi ímyndaði sparnaður, að hafa ekki nema einn vélamann, hefir komið út sem stórkostlegt tap.

Þá var hv. flm. að tala um, að það hvíldi sú skylda á okkur andmælendum frv., að sanna, að öryggi sjómannanna væri skert með því að samþ. frv. Ég hygg, að það sé ákaflega auðvelt, auðveldara heldur en oftast er að sanna sitt mál. Það getur enginn neitað því, að það hlýtur t. d. að vera meira öryggi í því, að hafa tvo vélamenn um borð. Hvernig á að fara að, ef aðeins einn maður kann að fara með vélina og hann dettur fyrir borð? Ef tveir eru, er þó annar eftir. Sama er að segja um störfin á þilfari. Er ekki meira öryggi, ef fleiri en einn maður er um borð, sem kann að taka stefnu og þvíumlíkt? Það er þetta sama öryggi í báðum tilfellum, sem felst í því, að fleiri en einn maður sé á skipinu, sem kann þau verk, sem allt getur oltið á, að sæmilega séu leyst af hendi. Það er yfir höfuð svo, að til þess að skapa öryggi þarf allsstaðar eitthvað að vera til vara.

Hv. þm. var að tala um, að Eimskipafélag Íslands hefði í fyrra sent harðorð mótmæli gegn l., sem þá voru sett um atvinnu við siglingar. Mér þykir þetta mjög sennilegt, því að það er ekki hægt að ganga framhjá því, að Eimskipafélag Íslands er á mörgum sviðum mjög afturhaldssöm stofnun. því til sönnunar má t. d. benda á, að þótt skip Eimskipafélagsins séu ekki öll gömul, þá er ekki einu einasta þeirra stjórnað úr lokaðri brú, þótt yfirleitt sé hætt að hafa opna brú á farþegaskipum annarsstaðar. Eitt sjálfsagt öryggistæki held ég, að öll ríkisskipin hafi, bæði farþegaskipin og varðskipin, en eimskipafélagsskipin ekki, sem þó þykir ekki hlýða, að nútímafarþegaskip vanti, nefnilega dýptarmæli. Þetta sýnir, að Eimskipafélag Íslands er fremur afturhaldssamt fyrirtæki, og annað kemur ekki fram í þeim mótmælum, sem hv. þm. talaði um.

Hv. flm. fannst það ekki tilheyra, að ég væri að blanda inn í þessar umr. frv. okkar alþýðuflokksmanna um viðreisn sjávarútvegsins. Mér fannst rétt, þegar hann stendur hér upp og talar um hina miklu umhyggju sína og síns flokks fyrir sjávarútveginum, að vekja athygli á því, að honum gefst nú tækifæri til að sýna á haldbetri hátt, hver hugur fylgir máli. T. d. greiðir sjávarútvegurinn útflutningsgjald, sem landbúnaðurinn gerir ekki. Nú er tækifæri til að létta því af. (PO: Það var nú líka tækifæri til þess á síðasta þingi. Hvernig var því tekið?) Það má vera, en það, sem ekki var gert á síðasta þingi, hlýtur að vera eins gott nú, hafi það verið til bóta þá. (PO: Það er gott að iðrast fyrir dauðann). Ég vona að hv. þm. Borgf. fari nú að iðrast afstöðu sinnar til dragnótaveiðanna. (PO: Við tölum nú um það síðar).

Hv. þm. Barð. sagði, að það lægi engin alvara á bak við flutning frv. okkar alþýðuflokksmanna um viðreisn sjávarútvegsins. Ég veit ekki, hvort hann heldur, að við munum hætta við að greiða þeim atkv., ef þau fá nægilegan stuðning til að ganga fram. En ef meiri alvara liggur bak við orð hans um umhyggju fyrir velferð sjávarútvegsins á meðal hans flokksmanna, þá gefst þeim tækifæri til að sannprófa, hvort við hvikum frá því, að greiða viðreisnarfrv. atkv. Það er nú ekki gengið lengra í þessum frv. en það, að miklu minna fé er ráðgert að verja til viðreisnar sjávarútveginum heldur en á sínum tíma var tekið til að rétta við landbúnaðinn.

Hv. þm. Barð. sagði, að það væri ekki umhyggja fyrir öryggi sjómanna, sem fyrir mér og hv. 9. landsk,.vekti, þegar við andmæltum þessu frv., heldur hagsmunir vissra stétta í þjóðfélaginu. Ég skal alls ekki neita því, að við berum þá menn að einhverju leyti fyrir brjósti líka, sem hafa atvinnu af þeim starfsgreinum, sem frv. nær til. En fyrst og fremst eru þessi umræddu ákvæði komin í löggjöfina til þess að auka öryggið, og það öryggi er jafnnauðsynlegt nú eins og það var fyrir 8 mánuðum, þegar löggjöfin um atvinnu við siglingar var samþ. Hitt er náttúrlega rétt, að ég og aðrir hafa tilhneigingu til að vera ekki að svipta menn þeirri atvinnu, sem þeir hafa einu sinni fengið og búið sig undir að gera að æfistarfi.