02.04.1937
Neðri deild: 29. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í C-deild Alþingistíðinda. (1766)

88. mál, atvinna við siglingar

*Flm. (Bergur Jónsson):

Ég hefi ekki ástæðu til að segja mikið um það, sem fram hefir komið í síðustu ræðum. Ég vil mótmæla því, að þetta frv. sé borið fram vegna ákveðins skips, Laxfoss. Ég skil satt að segja ekki, hvernig hv. þm. getur verið með svona rökleysur hér í hv. d. Frv. þetta nær bæði til smábátaútvegsins, flutningaskipa og svo togara. Annars talaði þessi hv. þm., 9. landsk., aðallega til hv. þm. Borgf. Þessi langa ræða hv. 9. landsk. gekk nú aðallega út á að sanna, að hann hefði eitthvað óskaplega mikið vit á þessum málum. Ég efast ekkert um, að hann heldur það sjálfur. En hann hélt nú líka, að hann væri fær um að ganga undir samkeppnispróf um dósentsembættið í guðfræði við háskólann, en það fór nú á annan veg. Hann fór nú að gera mun á okkur báðum. Mér þykir ekkert á móti því, að gerður sé munur á okkur 9. landsk. Hann var að tala um, að ég færi með fúkyrði. Það gerir hann ekki! Ég legg það undir dóm fólks, hvor okkar sé meiri gosi, hann eða ég. Það er einn stór munur á okkur, mér og þessum hv. þm.; það er sá munur, sem er á baráttuaðferðum okkar. Hv. þm. hefir í sínum viðskiptum við mig aldrei gengið framan að mér með nokkurn hlut, en hann hefir unnið margfalt á bak. Það er sú baráttuaðferð, sem hann hefir notað og ég verð að lýsa yfir, að ég fyrirlít. Og ég verð að segja, að það er ekki vel samboðið manni, sem er að leitast við að verða guðfræðikennari, manni úr prestastétt, manni, sem hefir á hendi ábyrgðarmiklar stöður, að nota slíkar baráttuaðferðir gagnvart keppinaut sínum, að vera eins og þessi hv. þm. eins og mús á fundum, en fara síðan hús úr húsi og rægja. Það er heldur ekki sæmileg aðferð, að skrifa sjálfur blað, sem er 10 dálkar lof um hann sjálfan, en einn dálkur svívirðingar um andstöðumanninn. Þetta er mönnum kunnara vestra heldur en hér syðra. En hræddur er ég um, að það sýni sig við næstu kosningar, að það er munur á þessum baráttuaðferðum, og að sá munur skiptir nokkru máli. Ég vildi aðeins minnast á þetta, svo að ég ekki nefni þá afarsnjöllu aðferð þessa hv. þm., er hann býr til heila pésa og sendir þá út um allar sveitir, þar sem hann þakkar sér alla hluti, sem hafa verið gerðir innan sýslunnar, en þeirra manna er litið getið, sem hafa staðið að baki hans. Þetta hefir ekki aðeins komið fram í okkar viðskiptum. Hv. þm. hefir borið hér fram 2 frv. á þessu þingi, og það hefir upplýstst, að þeim er báðum hnuplað. Annað er garyrkjufrv. og hitt er frv. um atvinnu handa unglingum, sem hv. þm. tók í leyfisleysi frá forseta ungmennasambandsins. Að þessu leyti kæri ég mig ekki um að líkjast þessum hv. þm., og ég vil raunar, að það sé gerður munur á okkur í sem flestum hlutum.