30.03.1937
Neðri deild: 27. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (1803)

91. mál, hampspuni

*Guðbrandur Ísberg:

Hv. mnm. mínir hafa dregið fram flest þau rök, sem mæla með þessu máli. Þó er eitt atriði, sem ég vil benda betur á en gert hefir verið, og það er, að í bréfi, sem Hampiðjan sendi iðnn. og er prentað sem grg. með þessum frv., er það sagt berum orðum, að fyrirtækið ætli sér að vinna á fullkomnum samkeppnisgrundvelli, miðað við erlendan iðnrekstur í sömu grein. Þeir menn, sem að þessu standa og voru til viðtals við n., lýstu einnig yfir því, að fyrir þeim vekti alls ekki það að fá neina vernd á nokkurn hátt, en að þeim yrði tryggt, að það kæmu ekki aðrir með sömu starfsemi yfir þá fyrstu árin eftir að þeir settu þennan iðnrekstur á stofn, vegna þess að stofnkostnaðurinn væri svo mikill, að þeir mundu ekki þola það, miðað við það, að selja vöruna áfram á fullkomnum samkeppnisgrundvelli. Ef til kasta gjaldeyrisnefndar kæmi í þessu sambandi, þá þarf hún ekki að vera í neinum vafa út af þessu; ef þeir, sem hér eiga hlut að máli, kæmu til hennar og færu fram á vernd, þannig að innflutningur á spunnum hampi yrði takmarkaður eða bannaður með öllu, þá er hægt að benda á þessa yfirlýsingu í grg. frv. Það er þetta atriði í fyrsta lagi, ásamt því, að þeir, sem að þessu fyrirtæki standa, hafa hagsmuni af því, að vörurnar séu sem ódýrastar, og í þriðja lagi það, að það er nokkur trygging fyrir því, að þessu fyrirtæki takist að halda þessu samkeppnisfæra verði, ef komið verður í veg fyrir, að aðrir setji upp samskonar fyrirtæki, sem hefir gert það að verkum, að ég og fleiri nm. sáum okkur fært að fylgja þessu frv., jafnvel þótt ekki sé hægt að neita því, að þessi einkaleyfisveiting, sem farið er fram á, sé dálítið óvanaleg aðferð.