03.04.1937
Neðri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í C-deild Alþingistíðinda. (1817)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Héðinn Valdimarsson:

Eins og hæstv. fjmrh. gat um, hefir samkv. lögum um fiskimálan. verið veitt fé til hraðfrystihúsa og til tilrauna á sölu frysts fiskjar. Sú reynsla, sem fengizt hefir af þessu í tvö ár, er þess vegna frá fiskimálanefnd fengin, þótt að vísu hafi tilraunir verið gerðar áður. En fyrstu tilraunirnar, sem kunnugt er um hér á landi í stórum stíl, tókust illa, en þó hafa þær tilraunir, sem Sænsk-íslenzka frystihúsið hefir gert, gengið nokkurnveginn vel.

Fiskimálan. hefir ekki styrkt hraðfrystihúsin, heldur lánað til þeirra fé út á þau veð, sem peningastofnanir hafa getað sætt sig við. Nú á síðastl. ári hefir verið komið upp hraðfrystihúsum á Akureyri, Húsavík, Ísafirði, Seyðisfirði og Norðfirði, auk þess sem sett hefir verið upp litið hraðfrystihús hér í Reykjavík, sem fiskimálan. hefir notað til tilrauna sinna. Nú virðist, eins og flestir þeir, sem við fiskimál fást, álíta, að stefni mjög í þá átt, að sala á þessum afurðum geti orðið mikil og sérstaklega heppileg fyrir okkur Íslendinga. Það hafa verið gerðar tilraunir með sölu á hraðfrystum fiski til Bandaríkjanna. Á fyrri tilrauninni, sem gerð var, varð tap, og síðari tilraunin gat ekki heldur gefið góðan árangur. Af því sem ennþá hefir frétzt um markað í Bandaríkjunum, er útlit fyrir, að hann sé takmarkaður, vegna þess að vart sé um aðra mánuði að ræða en 2 til 3 fyrstu mánuði ársins, sem komið geti til greina að senda þangað frystan fisk. En reynslan er ekki komin svo löng á þetta ennþá, að menn geti um það sagt. Það er jafnvel álitið, að það geti ekki orðið hagur af því, að senda fisk héðan til Bandaríkjanna, nema annaðhvert ár, því að t. d. eins og núna, þegar frost eru lítil í Bandaríkjunum, þá er mikið af innlendum fiski, sem fellir verðið á aðfluttum fiski. Það yrði því aðeins um árin að ræða, sem mikil frost eru í Bandaríkjunum. Aftur á móti er frystur fiskur lítið þekktur í Evrópu. Þó hefir bæði Sænsk-íslenzk, frystihúsinu og eins fiskimálan. tekizt að ná markaði í Englandi, en hann er að mestu leyti bundinn við flatfisk, svo að til þess að geta notað hann, er nauðsynlegt, að hægt verði að koma í gegnum þingið frv. um breytingu á lögunum um dragnótaveiði. Verði héraðabannið afnumið, ætti á þeim stöðum að vera hægt að fá mikinn afla.

Eftir að samningar tókust við England um þessi mál, hefir fiskimálan. staðið fyrir stöðugum útflutningi frá því litla frystihúsi, sem hún hefir hér í Reykjavík. Það hefir gengið vel; greiðsla hefir komið fyrir fiskinn jafnóðum og fiskurinn hefir selzt. En sem sagt, þetta byggist á því, að hægt sé að veiða flatfisk, en þorsk er ekki hægt að taka nema í litlu hlutfalli, og meira að segja óvíst, hvort það borgar sig. En aftur á móti, þar sem leitað hefir verið til annara landa, eru þær tilraunir skammt á veg komnar, þó hefir verið reynt mikið í Sviss nú nýlega. Fyrir 2 mánuðum hefir tekizt í annað sinn að ná sambandi við stórt félag þar, en það fer eftir því, hvort hægt verður að selja þangað hraðfrystan fisk. Í Tékkó-Slóvakíu eru líkur til, að hægt verði að útvega markað, þó að þeim tilraunum sé svo skammt á veg komið, að ekki sé hægt að byggja á því. Þá hefir verið selt til Póllands með sæmilegu verði. Niðurstaðan af þessu verður því sú, að það eigi að halda áfram með þessar tilraunir, og við höfum a. m. k. vissan markað í Englandi fyrir betri tegundir af fiski.

Ég get fyrir mitt leyti og flokksmanna minna hér í d. verið samþ. því, að þetta frv. verði samþ. og vísað til 2. umr. og athugað í n. En ég vil geta þess, að í frv. því, sem liggur fyrir Alþingi, um ráðstafanir til viðreisnar sjávarútveginum, er þetta mál, um byggingu hraðfrystihúsa, tekið fyrir og það nokkru ýtarlegar heldur en hér er gert. Að ýmsu leyti er því mismunur á þessum frv., t. d. er í frv. því, sem við flytjum alþýðuflokksþm., þessu hnýtt saman við þær tilraunir, sem nú eru gerðar með framlagi úr fiskimálasjóði, og eins er í því séð fyrir, hvernig skuli ná í peninga til þess að koma þessum hlutum fram. Að öðru leyti vil ég ekki fara út í þetta, en mér finnst þetta frv. ganga of skammt og ætti því að athugast í n. í sambandi við okkar frv. Ég vil aðeins minnast á það atriði, sem hæstv. fjmrh. og frummælandi töluðu um, styrk og ábyrgð til bygginga hraðfrystihúsa. Við alþýðuflokksmenn álitum rétt, að ríkið styrki slíkar byggingar að 1/4 kostnaðar, og eins í þeim tilfellum, þegar ekki er auðvelt að fá lán til bygginganna í peningastofnunum, sé hægt að veita lán úr fiskimálasjóði gegn tryggingu í húsunum, eins og lagt er til í frv. okkar alþýðuflokksmanna á þskj. 151. Aftur á móti tel ég, að óhætt sé. eins og gengið er út frá í okkar frv., að vænta þess, að framlög fáist frá þeim, er húsin byggja, er nemi a. m. k. 15% af kostnaðarverði húsanna.