16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í C-deild Alþingistíðinda. (1835)

93. mál, hraðfrysting fisks

*Bergur Jónsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefir komið áður hér til umr., og ég gerði aths. við það þá. Ég benti á, að það væri of þröngt ákvæði, að láta aðeins sjómenn og útgerðarmenn hafa heimild til þess að mynda félög um þetta; það yrði t. d. líka að láta hreppana hafa þessa heimild. Málið hefir fengið afgreiðslu hjá hv. sjútvn., sem má heita viðunandi, en hitt er annað mál, að þar sem það er nokkurnveginn vita, að þingið á aðeins eftir að sitja fáeina daga, þá er engin von til þess, að frv. geti fengið afgreiðslu, og það veit hv. aðalflm., hv. þm. Snæf., og þess vegna hefi ég og hv. 2. þm. S.-M. borið fram till. í Sþ. um að veita 1/4 styrks í þessu skyni, en í stað þess, að farið er fram á ábyrgð í frv., leggjum við til, að ríkisstj. sé skylt að veita aðstoð sína til þess. Það segir sig sjálft, að yfirleitt er óþarft, þegar veittir eru styrkir, að fara fram á ríkisábyrgð; það er fyrir löngu búið að taka þá stefnu hér á þinginu, að takmarka ríkisábyrgðir, og það hefir verið borið fram frv. til þess að gera útgerðarsamvinnufélög þannig úr garði, að forsvaranlegt sé að veita þeim frekari lán en öðrum félögum. Þetta hefir ekki fengið áheyrn hjá hv. þm. annarra fl., og frv. hefir verið svæft. Við viljum taka sömu stefnu í þessu máli. Við viljum láta ríkið veita 1/4 styrks og skylda hæstv. ríkisstj. til að veita aðstoð í þessu efni, og ef hún gerir það, þá er það nægilegt, því að þá hljóta þessi frystihús, sem hafa fengið 25 þús. kr. af 100 þús. kr. í beinan styrk, að fá lánveitingu, svo framarlega sem hyggilegt er að setja frystihús á hlutaðeigandi stað. En annað, sem okkar leið hefir fram yfir leið frv., er það, að hún er fljótlegri. Það er meiri vissa fyrir því, að hægt sé að koma þessari till. okkar fram, ef menn vilja af alvöru reyna að koma málinu fram. Þess vegna vona ég, að hv. flm. þessa frv. geti sætt sig við þetta. Það er yfirleitt alls ekki sæmilegt, að hv. þm. láti það eitt ráða atkv. sínu í þýðingarmiklum málum, hvaðan málið er komið. Ég skal fúslega gefa sjálfstæðismönnum það eftir, að þeir hafi verið á undan okkur í því að koma með frv., og ég skal líka viðurkenna, að sjálfstæðismenn hafi líka komið með till. um þetta efni í frumvarpsformi á undan okkur, sem sé í sambandi við aðrar til., sem vitað er, að aðrir hv. þm. vildu ekki ganga inn á. En hvað sem því liður, þá finnst mér, þar sem þáltill. formið er fljótasta leiðin til þess að koma málinu fram núna, að þetta sé prófsteinninn á það, hvort veruleg alvara er hjá þeim mönnum, sem bera fram till. í þessa átt, í því að fylgja málinu eða ekki. Ef þingrof er á næstunni, eins og allir búast við, og nýjar kosningar fram undan, og hugur þm. breytist ekki verulega viðvíkjandi þessu máli, þó að mannval breytist eitthvað hér í þinginu eftir kosningar, þá má ganga út frá því sem gefnu, að það verði gengið inn á skynsamlega leið til þess að leysa þetta mál, og þá gerir ekki svo mikið til, þó að við höfum það í þáltill.-formi á þessu þingi og förum sömu leið, og farin var á aukaþinginu 1933, að leysa fjárhagsmál með þáltill., til þess að koma þeim fljótt af í stað þess að hafa frumvarpsform, sem tekur 3 umr. í hvorri d. með dellum um einstök smáatriði, sem geta tafið málið.

Þó að ég að þessu sinni muni fylgja frv. til 3. umr., vona ég, að menn geri sig ánægða með þessa lausn málsins, hvort sem menn álíta of langt eða skammt gengið.