16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í C-deild Alþingistíðinda. (1956)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

*Finnur Jónsson:

Þetta frv., sem hér er til umr., hefir vakið mikinn ótta að því er virðist, sérstaklega hjá sjálfstæðismönnum. Þeir hafa haldið því fram, að það væri einskonar kosningabomba, sem Alþfl. hefði sent út, þegar sýnilegt hefði verið, að samvinnan mundi slitna milli núv. stjórnarflokka. Nú er þetta vitanlega alveg rangt. Samninginn um stjórnarsamvinnuna, sem gerður var, þegar gengið var til samvinnu milli Alþfl. og Framsfl. 1934, var búið að framkvæma í öllum atriðum nema tveimur. Sambandsþing Alþfl. á síðasta hausti, sem setið var af 150 fulltrúum fyrir 13 þús. félagsbundna verkamenn og verkakonur, gerði því uppkast að nýjum samningi frá Alþfl. hálfu. Þetta uppkast sem átti að vera skilyrði fyrir því, að stjórnarsamvinnan héldi áfram, er starfsskrá Alþfl.

Frv. þau, sem hér hafa verið til umr., svo sem frv. um uppgerð Kveldúlfs, breyt. á Landsbankalögunum og svo þetta frv., eru einstakir liðir í þessari starfsskrá. Það er því helber uppspuni, að þessi frv. séu búin til af Alþfl. hálfu sem kosningafrv., þvert á móti þau eru kröfur um viðreisn atvinnulífsins við sjávarsíðuna, kröfur þessara 13 þús. manna og kvenna, sem eru skipulögð í Alþýðusambandi Íslands. Hræðsla íhaldsins við þessi frv. er skiljanleg, þegar athuguð er framkoma þess í sjávarútvegsmálum á síðari árum, þegar það er athugað, að íhaldið hefir á sínum tíma og hefir raunar nú bankana alveg eins og þeir væru þeirra eigin eign, vilja ausa úr þeim fé eins og þeir hafa gert. Það hefir notað gjaldeyrinn, ekki til þess að mynda varasjóð fyrir útgerðina, ekki til þess að endurnýja togarana, heldur látið þá grotna niður, svo að þeir eru eins og form. Sjálfstfl. lýsti þeim, ryðkláfar og fúaduggur. Fé það, sem komið hefir inn og átt hefði að nota sem varasjóð, hefir íhaldið notað í allt annað, sér til persónulegrar eyslu og bílífis og til að byggja sumarbústaði, og a. m. k. í einu tilfelli notað í búskap upp í sveit; búskap, sem alls ekki getur borið sig eins og hann er rekinn. Það er þess vegna von, að íhaldið skelfist, þegar það sér, að fram eru komnar frá Alþfl. alvarlegar till. um alhliða viðreisn sjávarútvegsins.

Þau frv., sem íhaldið lagði fram og samin voru af milliþn. í sjávarútvegsmálum, voru, eins og hv. 6. þm. Reykv. lýsti, frv. um afnám útflutningsgjalds af sjávarafurðum, frv. um skuldaskilasjóð, og ennfremur frv. um fiskiráð. Ég hefi ekki tíma til að fara nákvæmlega út í þessi frv., en viðvíkjandi skuldaskilunum vil ég segja, að frá Alþfl. hálfu stóð aldrei á að gera till. um fjárframlög til viðreisnar vélbátaútveginum. Hitt vildi Alþfl. alls ekki aðhyllast, að leggja 31/2 millj. kr. til skuldaskila togara til þess að láta eigendur togaranna halda áfram með það fé, sem komið var í þeirra rekstur, draga það út úr rekstrinum og leggja það í hallir, búskap uppi í sveit eða beinlinis nota það í óhæfilega eyðslu handa sjálfum sér.

Frv. sjálfstæðismanna um fiskiráð var ekkert nema ráðleggingar. Sjálfstfl. sá eins og aðrir, að sjávarútvegurinn stóð höllum fæti og var raunar að sökkva fjárhagslega. Hvað gerir hann þá? Hann kemur með frv. um ráðleggingar, ekkert nema ráðleggingar. Engar framkvæmdir var talað um í þessu frv. Það var meira að segja sagt í þessu ágæta frv. sjálfstæðismanna, að ríkissjóður eigi alls ekki að leggja fram neitt fé til viðreisnar sjávarútveginum. Þvert á móti er þar sagt, að undir þessari viðreisn verði útgerðin sjálf að standa og það muni vera affarasælast. Ríkisvaldið eigi a. m. k. fyrst um sinn ekki að láta neitt af hendi, en aðeins skipa ráðleggingarnefnd, sem ekkert framkvæmdarvald hafi og yfir engu fjármagni ráði. Þetta er samskonar aðferð og sagt var frá í gamansögu, að hafi verið höfð við mann, sem var að drukkna. Annar maður var þar nærstaddur og sagði: „Bíddu með að drukkna, meðan ég tek af mér skóna.“ Sjálfstfl. hefir borið fram till. samskonar og þetta. Hann hefir sagt við sjávarútveginn, að hann skuli bíða, meðan hann taki af sér skóna. Það voru ráðleggingarnar, sem hann gaf sjávarútvegsmönnum.

Þegar þetta er borið saman við þær framkvæmdir, sem Alþfl. og Framsfl. hafa hafið til viðreisnar sjávarútveginum, þá er það vitanlega ákaflega ólíku saman að jafna. Það er engin furða, þó að Sjálfstfl. skelfist, þessi flokkur, sem alltaf hefir kallað sig málsvara sjávarútvegsins, en hefir þó legið eins og mara ofan á framkvæmdum hans alla tíð og stjórnar málum hans með framúrskarandi ábyrgðarleysi og skipulagsleysi.

Í þessu frv., sem Alþfl. hefir lagt fram, eru settar fram óskir og kröfur hinna vinnandi stétta við sjávarsíðuna um skipulag sjávarútvegsins, til þess að létta af því böli, sem leitt hefir af því, að markaðirnir í Suðurlöndum hafa lokazt mikið til. Og þessar kröfur eru, eins og Alþfl. hefir sett þær fram, vel framkvæmanlegar. Til þess að koma fram þeim málum, sem ræðir um í þessu frv., þarf ekki meira fé en það, sem eitt togarafyrirtæki skuldar Landsbankanum. Það er ekki furða, þó að framsóknarmönnum, sem illu heilli björguðu þessu svindlfyrirtæki, blæði í augum þessi upphæð sem gert er ráð fyrir í þessu frv., að lögð sé fram til þeirra hluta, sem lagt er til í frv.

Ég þykist vita, að hæstv. fjmrh., sem væntanlegra talar hér bráðlega, lýsi miklum vandkvæðum á því að koma þessu í framkvæmd, vegna þess að ríkissjóð vanti peninga. En ef hægt er að halda áfram að leggja 700000 kr. á ári, samkv. jarðræktarl., til sveitanna, er þá hægt að neita því að leggja fram álíka upphæð til þess að reisa við sjávarútveginn, sem annars hefir staðið að miklu leyti undir útgjöldum ríkissjóðs, en er nú í þeirri þröng, að hann getur það ekki lengur? Er nokkurt vit í að neita því?

Hv. þm. Barð. sagði, að þetta frv. fæli í sér m. a. glæfralegar till. um nýjar lántökur til þess að leggja fé í togara. Nú er þetta vitanlega ekki rétt. Þetta er ekkert annað en sjálfsagðar till. um endurnýjun togaraflotans, sem er genginn mjög úr sér. Og það er ómögulegt að neita því með neinum rökum, að þetta sé framkvæmanlegt fyrir ríkissjóð og algerlega sjálfsagt. Og þeir, sem halda því fram, að þessar till. séu glæfralegar, þeir eru skyldugir til að koma og bera fram skýringar á því. Hvaða till. vilja þeir þá gera um viðreisn togaraflotans? Vilja þeir láta stórútgerðina, einn stærsta þáttinn í atvinnulífi þjóðarinnar algerlega leggjast niður? Eða hvað vilja þeir gera til viðreisnar togaraflotanum, ef þeir vilja ekki láta stórútgerðina leggjast niður?

Kröfur Alþfl. í þessu sambandi eru, eins og ég hefi þegar sagt, ekki neinar kosningakröfur, búnar út í flaustri og bráðræði, heldur kröfur hinna vinnandi stétta við sjávarsíðuna um viðreisn atvinnuveganna við sjóinn á heilbrigðum grundvelli.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði, að þessi till. væri örþrifaráð flokks, sem gengi hræddur til kosninga. En ég ætla að ljúka máli mínu með þeirri spá, að hv. 6. þm. Reykv., sem allajafna í viðskiptum sínum við Alþfl. hefir borið nokkuð mikið lægra hlut og hrökklaðist loks burt frá Ísafirði og í skjól Kveldúlfs í Reykjavík, hann muni sanna það við næstu kosningar og eftir þær, að þessar till., sem nú liggja hér fyrir til umr. eru ekki örþrifaráð flokks, sem gengur hræddur til kosninga, heldur þær kröfur, sem alþýða manna við sjávarsíðuna fylkir sér um við væntanlegar kosningar og sýnir svo mikinn vilja til sigurs, að móti þeim kröfum verði ekki staðið eftir næstu kosningar.