16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í C-deild Alþingistíðinda. (1957)

109. mál, viðreisn sjávarútvegsins

*Jóhann Jósefsson:

Herra forseti! Góðir hlustendur: Árum saman og þing eftir þing höfum við sjálfstæðismenn flutt ýms frv. til þess að efla hag sjávarútvegsmanna og ráða bót á ýmsum vandkvæðum þeim, er að steðja þessum atvinnuvegi. Og þing eftir þing hafa sósíalistar á Alþingi staðið öndverðir gegn þeim viðreisnarmálum, sem við sjálfstæðismenn höfum flutt, og ýmist eyðilagt þau með öllu eða limlest.

Nú, þegar í almæli er, að kosningar fari í hönd mjög bráðlega, snara sósialistar út 2 frv., því sem rætt var á dögunum í hv. Ed., um ráðstafanir til stuðnings togaraútgerðinni, og frv. því, er hér liggur fyrir, um ýmsar ráðstafanir til viðreisnar sjávarútveginum. Flokksbróðir minn, hv. 6. þm. Reykv., rakti í stórum dráttum, hvað við sjálfstæðismenn höfum flutt til viðreisnar sjávarútveginum, síðan 1928 og allt fram á þetta þing, er nú stendur yfir, var þar með greinilega sannað og sýnt fram á, hver endemis fjarstæða það var, sem hv. 4. landsk. (JBald) hélt fram í umr. í hv. Ed. á dögunum um afskipti þingflokks sjálfstæðismanna af sjávarútvegsmálum. Þá sýndi hv. 6. þm. Reykv. ennfremur ljóslega fram á það, að þær till., sem í þessu frv. sósíalista felast og til verulegra bóta horfa, eru allar soðnar upp úr því, sem við sjálfstæðismenn höfum fyrr og síðar til þessara mála lagt.

Till. okkar sjálfstæðismanna, er við á ýmsum tímum höfum borið fram hér á Alþ. til hagsbóta fyrir sjávrútveginn og þá, er hann stunda, hafa ávallt byggzt á reynsluþekkingu þeirra manna, sem árum saman hafa sjálfir stundað þessa atvinnugrein, og á þeirri þörf, er í hvert sinn hefir verið aðkallandi. Af þessum ástæðum höfum við frá upphafi barizt fyrir því, að fiskveiðasjóður Íslands yrði efldur svo sem hægt væri, svo að hann gæti veitt hagkvæm lán til endurnýjunar fiskiskipaflotans og til stofnsetningar þess iðnrekstrar til hagnýtingar sjávarafurða, sem sýnt þótti, að nauðsynlegur væri eða að nauðsynlegur yrði.

Af þessum ástæðum áttum við sjálfstæðismenn frumkvæðið að því á þinginu 1933, að skipuð yrði milliþn. til að rannsaka hag útgerðarinnar og koma með till. til lausnar hinna margvíslegu vandkvæða hennar. Af þessum ástæðum höfum við borið fram frv. um rekstrarlán fyrir bátaútveginn, og af þessum ástæðum höfum við lagt það til þing eftir þing, að útflutningsgjaldið af sjávarafurðum,sem þessi atvinnuvegur, einn allra atvinnuvega landsins, er látinn greiða í ríkissjóð, væri látið renna í sjóð til viðreisnar sjávarútveginum, þar á meðal til endurnýjunar fiskiskipaflotans. Það er ekki fyrst nú, að bent hefir verið á það, hve alvarleg hætta af því stafar í framtíðinni, að ekki hefir í tíma verið séð fyrir því, að unnt væri að endurnýja skipastólinn, eignast ný skip smátt og smátt, eftir því sem hin eldri detta úr leik. Aldrei hefir á alþ. verið sýnt eins greinilega fram á þessa hættu eins og við sjálfstæðísmenn gerðum á þinginu 1934, eftir að athugun milliþn. í sjávarútvegsmálum á högum útgerðarinnar hafði farið fram. Ekki fengust samt sósíalistarnir þá til þess að sinna till. okkar. Nei, það þurfti til viðbótar 3 ára hnignun sjávarútvegsins og 3 ára hrörnun skipastólsins til þess að frá þeim fengist þó viðurkenning á þörfinni fyrir meiri nærgætni sjávarútveginum til handa heldur en hann hefir átt að mæta frá stjórnarflokkunum á undanförnum síðustu þingum.

Þótt sósíalistar taki nú upp í frv. sitt kjarnann úr því, sem við sjálfstæðismenn höfum áður til þessara mála lagt, er engin ástæða til þess fyrir okkur að fagna því eða taka það sem vott þess, að nú hafi þeir séð sig um hönd og vilji nú fyrir alvöru sinna þessum baráttumálum okkar. Þeir bera fram þessi mál þann veg, að auðsætt er, að það er aðeins gert til gyllingar þeim sjálfum og til atkvæðaveiða meðal þeirra landsmanna, sem bíða eftir, að handa sé hafizt til að veita sjávarútvegsmönnum betri aðstöðu og betri afkomuskilyrði. Ef þeir geta safnað að sér atkvæðum með þessu, er þeirra tilgangi náð. Og komist þeir svo í valdaaðstöðu, svíkja þeir í þessum málum, eins og þeir hafa svikið hina frægu 4 ára áætlun, sem höfð var til að ginna fólkið 1934.

Á þinginu 1934, sama þinginu og sjálfstæðismenn báru fram frv. sín um skuldaskilasjóð útgerðarmanna, um stórfellda nýskipulagningu fiskveiðasjóðs Íslands og eflingu hans, og um rekstrarlánafélög bátaútvegsmanna, var lagt fram frv. hv. þm. G.-K. Ólafs Thors, um fiskiráð. Verkefni fiskiráðsins skyldi vera að rannsaka og gera till. um breyttar og nýjar aðferðir um framleiðslu og sölu sjávarafurða, útvegun nýrra markaða og annað, sem lyti að vexti og viðgangi sjávarútvegsins. Var fiskiráðinu ætluð forusta í þessum efnum.

Fyrir sama þingi lá skýrsla í sjávarútvegsmálum frá 1934, en í þeirri n. voru 2 sjálfstæðismenn og 1 framsóknarmaður. var þar m. a. lögð áherzla á nauðsyn fjölbreyttari verkunaraðferða, að þegar í stað yrði byrjað á herzlu á fiski, hraðfrystingu og niðursuðu o. s. frv. Get ég þessa vegna þess, að í ræðum sósíalista kemur það jafnan fram, er sjávarútvegsmálin ber á góma, að þeir telja sig hafa átt frumkvæði að því, að nokkuð hefir verið breytt til um verkunaraðferðir eða þær gerðar fjölbreyttari.

þegar hér var komið málum, lét atvmrh. bera fram og lögfesta á sama þingi frv. til l. um fiskimálanefnd, hagnýtingu markaða o. fl. Með l. þessum var þrengt svo að kosti Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, sem þá hafði nýskeð fengið fast og vel viðunandi skipulag samþ. af fundi fiskframleiðenda víðsvegar af landinu, að skipulaginu var ekki líft eftir þær aðgerðir atvmrh., og varð hann nokkru eftir að því þingi lauk, er setti þessi lög, að gefa út bráðabirgðal. til breyt. þessum lögum, til þess að samtök fiskframleiðenda, sem fram að þessu höfðu reynzt hin affarabeztu fyrir sjávarútvegsmenn, yrðu ekki lögð í rústir með þessari lagasetningu. Þó var offors atvmrh. svo mikið, meðan frv. var til meðferðar á þinginu, að ekki var komandi nærri því, að nokkur brtt. frá þm. Sjálfstfl. við frv. væri tekin til greina, og voru þær þó margar, því að frv. var stórgallað, eins og sýndi sig, þegar ráðh. átti að fara að framkvæma l., eins og áður er getið. Þá voru teknar upp í frv. um fiskimálanefnd að efni til tillögur Ólafs Thors um fiskiráð, eða fiskimálanefnd falið verkefnið — forustan í nýjum verkunaraðferðum og öflun nýrra markaða. Í l. um fiskimálan. var ekkert, er til umbóta horfði, er ekki fólst í till. og skýrslu mþn. í sjávarútvegsmálum eða í frv. Ólafs Thors um fiskiráð. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt. Hvaðan er líkara, að haldkvæm ráð komi heldur en frá þeim mönnum, sem sjálfir stunda og hafa stundað þessa atvinnugrein, og hver getur til þess ætlazt, að hv. 2. þm. Reykv., (HV), sem er form. fiskimálan., verði allt í einu með ráðherraúrskurði sérfræðingur í öllu, sem snertir veiði, verkun, hagnýtingu og sölu á fiski, eða yfir höfuð serfræðingar í öðrum sjávarútvegsmálum?

Í frv. hv. þm. G.-K., Ólafs Thors, um fiskiráð hafði höfuðáherzlan verið á það lögð, að framkvæmdir til viðreisnar sjávarútveginum yrðu reistar á þekkingu eða reynslu. Þá gall við fyrirlitningarhróp sjá sósíalistum: Já. En peningarnir? Og valdið? Ólafur Thors er að tala um fjölbreyttari verkunaraðferðir, um nýjan iðnrekstur, um skipulagða markaðsleit o. s. frv. En það vantar valdið og peningana til þess að framkvæma valdboðin!

Hugsanlegt er, að reynslan eigi eftir að kenna þessum mönnum það, að valdið er tvíeggjað sverð og verður því aðeins að liði, að því fylgi þekking. Fiskimálan. fékk bæði peningana og valdið. Allur kostnaður við nefndarstörfin skyldi að sjálfsögðu greiddur úr ríkissjóði. Þá var ríkisstj. heimilað að afhenda fiskimálan. til ráðstöfunar samkv. hinum nýju l. millj. króna. Á næsta Alþ. var svo lagður nýr skattur á sjávarútvegsmenn, er mátti vera 1/2–3/4 % af útfluttum sjávarafurðum, til þess að standa straum af kostnaðinum við störf þessarar nefndar. Þá var og fiskimálasjóður stofnaður. Fiskimálanefnd hefir nú haft til meðferðar völdin og peningana á þriðja ár. En ennþá hefir engin skýrsla birzt um störf hennar og engin opinber reikningsskil frá henni sézt. Hvaða kostnað hefir ríkissjóður borið af störfum n.? Hvað hefir skatturinn, sem á útvegsmenn var lagður, fært fiskimálasjóði miklar tekjur, og til hvers hefir þeim verið varið? Og svo loks milljónin. Hefir n. fengið hana með öllu, eða að hve miklu leyti, og til hvers hefir fénu verið varið?

Á aðalfundi S. Í. F., sem haldinn var 4. des. síðastl. ár, beindi einn fulltrúinn utan af landi þeirri spurningu til form. fiskimálanefndar. Héðins Valdimarssonar, hvenær von væri á skýrslum og reikningsskilum frá fiskimálanefnd, og svaraði Héðinn þá því, að reikningsskil og skýrslur fiskimálan. mundu birtar verða í janúar (þ. e. síðastl.). Síðan þetta gerðist er nú komið á fimmta mánuð, og enn hefir ekkert verið almenningi birt af þessu tægi. Þegar nú hér er borið fram frv. um að auka svo milljónum skiptir fiskimálasjóðinn, sem lagt er til, að ráðstafað verði til lána og framlaga eftir till. og áliti fiskimálan., er það eðlileg og sjálfsögð krafa, að þjóðin fái að sjá grg. nefndarinnar fyrir því, hvernig hún hefir varið því mikla fé, sem hún hefir haft til meðferðar, bæði úr ríkissjóði og beint frá útvegsmönnum, síðan hún tók til starfa árið 1935, og hvernig hún hefir farið með vald sitt. Þetta er nauðsynlegt, til þess að þjóðin geti dæmt um það, hvort heppilegasta fyrirkomulagið sé það að fela fiskimálan. enn víðtækari íhlutun á málefnum sjávarútvegsins en hún hefir haft fram að þessu.

Það er aðallega þrennt, sem einkennir þetta frv. Í fyrsta lagi er hér saman tínt flest það, er við sjálfstæðismenn höfum barizt fyrir í mörg ár, en sósíalistar hafa beitt sér gegn, eða jafnvel barizt gegn. Þar með er talið það, sem gagnlegt er í frv. Þó er þetta þannig, að það, sem sjálfstæðismenn hafa ætlazt til, að væri styrkur til stuðnings frjálsu framtaki einstaklinga, á samkv. till. sósíalista um leið að verða fjötur um fót útvegsmanna og gera þá háða ríkisíhlutun um allar framkvæmdir, sem þeir fá styrk til.

Í öðru lagi er hér rekstur bæjar- og sveitarfélaga gerður rétthærri en rekstur einstaklinga, hlutafélaga eða samvinnufélaga. Það er, eins og vant er hjá sósíalistum, ríkis- eða bæjarreksturinn, sem þeir vilja öllu fremur.

Í þriðja lagi réttindaafsal allra þeirra, sem styrk eða framlög fá úr fiskimálasjóði, á stjórn og rekstri fyrirtækjanna í hendi fiskimálan., og sölu afurðanna sömuleiðis, ef fiskimálanefnd skipar svo fyrir.

Löngu áður en sósíalistar komu fram með frv. þetta höfðum við sjálfstæðismenn borið fram á yfirstandandi þingi frv. til l. um byggingu hraðfrystihúsa. Það frv. gerir ráð fyrir meiri og hagkvæmari stuðningi til þeirra, er koma vilja upp hraðfrystihúsum, heldur en frv. sósíalista þerir. Þörfin fyrir hraðfrystihús í sem flestum veiðistöðvum er brýn. Sjálfstæðismenn vilja gera ráðstafanir til að sinna henni nú þegar.

Hvað gera sósíalistar? Þeir koma með till. um styrk til hraðfrystihúsa að vísu, í þessu frv., en þó minni hjálp en við höfum lagt til, að veitt yrði. Auk þess demba þeir þessu máli saman við þann graut af till. og bollaleggingum um ýms önnur efni í þessu frv., þannig að sýnt er, að þeir ætlast ekki til, að málið nái afgreiðslu á þessu þingi.

Sósíalistar segjast vilja veita milljóna lán til þess að kaupa nýtízku togara. Þeir gera ráð fyrir, að mögulegt sé að fá einstaklinga, hlutafélög eða samvinnufélög til að leggja fram 10% af andvirði skipanna. Hitt á allt að vera lán. Hafa þeir trú á því, að félag, sem byrjaði útgerð nú með togara og fengi 90% af stofnfénu lánað, gæti lengi staðið undir taprekstri, þegar byrjað væri með svo stóran skuldabagga á skipinu sjálfu? Mundu þeir vilja leggja fé sitt í þennan rekstur? Þeir menn, sem hingað til hafa hætt fé sínu og lagt fram starfskrafta sína til togaraútgerðar, vita nú, hvert hlutskipti bíður þeirra samkv. frv. sósíalista, er rætt var í hv. Ed. á dögunum, þegar skuldir fara að hlaðast á útgerðina vegna tapa, er á atvinnurekstrinum verða. Sósíalistar ætla þeim eitt hlutskipti Það að gera þá upp, taka útgerðarfyrirtækin til gjaldþrotaskipta. Á rústunum ætla svo sósíalistar að byggja hinn eftirþráða ríkisrekstur togaranna. Þegar litið er á afskipti sósíalista af togaraútgerðinni síðan hún hófst hér á landi, er engin ástæða til að ætla, að þeir skipti um hugarfar framvegis gagnvart þessum atvinnurekstri.

Fiskimálasjóður, með þriggja milljóna kr. stofnfé ríkissjóðs og árlegar tekjur 500–600 þús. kr. eða meira, sem sé skatt af útfluttum sjávarafurðum, á samkv. þessu frv. að vera einskonar banki eða lánstofnun, þar sem lánin eru ýmist afturkræf eða óafturkræf, eftir því sem bankastjórnin, fiskimálan. og atvmrh. kunna að álíta í hvert sinn. Fiskimálasjóður yrði með þessu móti sambland af láns- og styrktarstofnun, alveg eins og fiskimálan. er orðin sambland af verzlunarfyrirtæki og tilraunastofnun, sem hið opinbera fær hundruð þúsunda kr. til meðferðar og engar skýrslur eða skilagreinar sjást frá, en þó er vitað, að hefir tekizt allslysalega með ýmsar sínar tilraunir.

Í þrem köflum frv. eru upp talin hvers kyns framlög og lán til ýmsra iðnfyrirtækja sjávarútvegsins, ef þau finna náð fyrir augum fiskimálanefndar. 8 kafli frv. nefnist „ýms ákvæði“, en þar segir svo m. a., að framlögin eða styrkirnir til hraðfrystihúsa til síldar-, karfa- og fiskimjöls, sem og niðursuðuverksmiðja, skuli teljast hlutafé eða stofnsjóðstillag fiskimálasjóðs í fyrirtækjunum, og veiti þau fiskimálan. eða umboðsmanni hennar um stjórn og rekstur sömu réttindi og félagsmanni eða hverjum hluthafa. Auk þess getur fiskimálan., ef Alþ. samykkir, endurkrafið þessa eign sína eða selt hana öðrum.

Sé um bæjarfyrirtæki að ræða, t. d. síldarverksmiðju eða þess háttar verksmiðju, er nýtur styrks frá fiskimálasjóði, skoðast það sem sameign fiskimálasjóðs og viðkomandi bæjar- eða hreppsfélags.

Þessir bögglar fylgja skammrifjum sósíalista, og þó er ekki allt upptalið, því að fiskimálan. getur ákveðið, að fengnu samþykki ráðh., að frystihús skuli taka þátt í samsölu og útflutningi kældra fiskafurða, og sama rétt hefir stjórn síldarbræðsluverksmiðja ríkisins til að ákveða, að afurðir þeirra verksmiðja, er notið hafa aðstoðar frá fiskimálasjóði, skuli seldar í sambandi við sölu á afurðum ríkisverksmiðjanna.

Alþ. hefir á undanförnum árum lagt fram drjúgan skerf til að koma upp kjötfrystihúsum og mjólkurbúum, án þess að láta nein slík skilyrði fylgja, sem hér er gert ráð fyrir gagnvart útvegsmönnum. Framlögin, sem flaggað er með í þessu frv., eru því engan veginn samskonar styrkveiting til viðreisnar sjávarútveginum eins og þau framlög, sem hið opinbera hefir veitt til kjötfrystihúsa og mjólkurbúa. Sósíalistar ætla sjávarútvegsmönnum að kaupa hliðstæða hjálp hins opinbera fyrir afsal réttinda sinna að nokkru leyti á stjórn og rekstri fyrirtækjanna og fyrir fullkomið afsal á ráðstöfunarrétti afurðanna eða sölu á þeim, ef fiskimálan. vill svo vera láta.

Í lok grg. frv. segjast flm. leggja á það höfuðáherzluna, að frv. þetta verði afgr. nú á þessu þingi. Þessari höfuðáherzlu, sem þeir svo kalla, fylgdi nú svo mikil alvara, eða hitt þó heldur, að frv. er fyrst lagt fyrir þingið 1. apríl, en Alþ. hófst, eins og kunnugt er, 15. febrúar. Hv. þm. Ísaf. (FJ) segir, að þetta frv. sé ekki nein kosningabomba, því að frumdrættir frv. séu shlj. starfsskrá Alþýðusambandsins, sem samþ. var á alýðusambandsþingi í haust síðastl. Þeir hafa þá flýtt sér að því, sósarnir, á maður víst að halda, að koma fram í frumvarpsformi á Alþ. þessu stefnumáli Alþýðusambandsins, þar sem Kveldúlfsfrv. var vísað til n. í Nd. 30. marz, og lágu þá fyrir fullar yfirlýsingar framsóknarráðherranna um það, að þeir myndu ekki samþ. það mál. Ágreiningurinn um það mál lá því fyrir 30. marz, og þá mátti búast við þingrofi að viku liðinni — og þá er það, sem sósíalistarnir leggja fram þetta frv. sitt með höfuðáherzlunni á því, að það nái fram að ganga á þessu þingi.

Hið pólitíska ástand var þannig, að engin ástæða var til að ætla, að þingið sæti lengur en viku eða svo úr því. Þá er það, sem sósíalistar koma með þessi frv. sín, sem manni skilst þeir leggja höfuðáherzluna á, að fáist afgr. á þessu þingi. Það hafa menn, sem standa sósíalistum miklu nær heldur en við sjálfstæðismenn, lagt dóm á það, hvað mikil alvara fylgir þessum málaflutningi sósíalistanna. við umr. í Ed. sagði hv. 1. þm. Eyf., að þeir bæru þessi mál fram til þess að fá þau felld, og hv. þm. S.-Þ. sagði, að þeir flyttu þau til þess að skemmta fólkinu o. s. frv. Þessir menn hafa reynslu af einlægni sósíalista í 10 ára náinni samvinnu, svo ég get látið liggja milli hluta fyrir mitt leyti; til hvers þessi mál sósíalistanna eru borin fram. Hitt vil ég segja, að það mál, sem hér er um að ræða, er alvarlegra mál en svo, að það eigi nokkur flokkur að nota það á þennan hátt, sem sósíalistar gera nú.