06.03.1937
Efri deild: 15. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í C-deild Alþingistíðinda. (2058)

48. mál, uppeldisheimili fyrir vangæf börn og unglinga

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það eru ekki mörg atriði í sambandi við þetta mál, sem ég sé ástæðu til að drepa á, en vil þó minnast á nokkur.

Það hefir verið rætt hér um, hvort ástandið á því sviði, sem hér er um að ræða. muni hafa farið svo mikið versnandi, sem hv. flm. hefir haldið fram og stutt sig þar við skýrslur, sem lesnar hafa verið upp. Ég hygg það rétt, að ástandið muni hafa versnað nokkuð, en tel jafnframt vafalaust, að það hafi ekki versnað eins mikið eins og þessar skýrslur í fljótu bragði sýna. Þær eru dálítið villandi vegna þess, að áður voru ekki haldnar eins nákvæmar skýrslur um þetta efni hjá lögreglunni eins og barnaverndarnefndirnar gera, síðan þær tóku málið í sínar hendur. Hvað miklu getur skakkað, er ekki gott að segja. Hitt er vafalaust, að ástandið hefir eitthvað versnað hér eins og annarsstaðar. Það eru eftirstríðsáhrifin, sem eru mjög margháttuð og viðurkennt er, að hafn áhrif á börnin í öllum löndum.

Hv. flm. talar um, að ekki dugi að sofa á málinu, eitthvað verði að gera. Það er náttúrlega rétt, að eitthvað þarf að gera, en það þarf að vera eitthvað, sem vitað er, að komi að gagni. Það er ekki nóg að gera bara eitthvað. Ég verð að segja, að þegar gengið var frá l. um barnaverndarnefndir, þá fylgdu þeim l. þær vonir, að með þeim væri komið þeirri skipun á þetta mál fyrir landið í heild, sem gæti komið að verulegu gagni. Þau l. voru rökstudd með því, að með þeim væri skapað kerfi um allt landið, þannig að samstarf n. gerði auðveldara að koma börnum fyrir á góðum sveitaheimilum. Því verður heldur ekki neitað, að með skipun barnaverndarnefndanna var stigið verulega stórt skref á þessu sviði. Nú hefir dómsmrn. gefið leyfi til að barnaverndarnefndin hér í Reykjavík megi hafa með sér sérfróðan mann, til þess að reyna að komast fyrir orsakir óknyttanna og hvaða meðferð hæfi börnunum hverju fyrir sig. Ég lét þá skoðun í ljós, þegar l. um barnaverndarnefndir voru selt, og er á sömu skoðun ennþá, að leggja beri aðaláherzluna á, að koma börnunum fyrir á góðum heimilum í sveit. Styst ég þar nokkuð við reynslu mína, síðan ég var lögreglustjóri. Þegar vel tókst að koma vandræðabörnum fyrir í sveit, bar það svo góðan árangur, að hann hefði aldrei orðið meiri á sérstöku barnaheimili. Þetta er líka í samræmi við reynslu annara þjóða. Dagheimili barna, eins og notuð hafa verið hér í Reykjavík til mikilla bóta, og alstaðar hafa reynzt til bóta, eru ekki sambærileg við þau barnahæli, sem hér er talað um og reynzt hafa misjafnlega annarsstaðar. Ég reyndi nokkuð að kyna mér þessi mál, meðan ég var lögreglustjóri, sérstaklega á ferðalagi um Norðurlönd. Og mér er óbætt að segja, að það var einróma álit þeirra, sem fengust við þetta mál, að bezta lausnin á því væri það, ef hægt væri að standa í sambandi við góð sveitaheimili og koma börnunum fyrir þar, — að það bæri ekki að fara inn á þá braut, að nota sérstök barnahæli fyrir vandræðabörn nema í sárustu neyð, þegar börnin væru svo óþæg, að ekki væri hægt að hemja þau á heimilum. Meira að segja álitu þeir, sem mesta höfðu reynsluna, ef ég man rétt, að það væri ekki gerlegt að hafa slík barnaheimili stærri heldur en fyrir svona 12 börn. Ef þau eru stærri, fara þau að líkjast hælum, en ekki heimilum. Þessi barnaheimili þurfa að líkjast sem mest góðum heimilum, og það gera þau helzt, ef góð forstöðukona kemst yfir að hafa góða yfirsýn með öllum börnunum. Að þessi hæli hafa stundum ekki reynzt sem bezt, stafar sennilega að einhverju leyti af því, að oft verður að velja þeim forstöðu, sem ekki er komin reynsla á. Hinsvegar eru oft fyrir hendi heimili, sem góð reynsla er fengin um. Það er rétt hjá hv. flm., að hér er forstaðan fyrir öllu.

Ég saknaði þess, þegar ég las þetta frv., að grg. þess er ekki ýtarleg, og frv. sjálft er líka mjög stutt. Það gerir e. t. v. ekki mikið til, þótt frv. sé ekki ýtarlegra en það, að hér eigi að koma á stofn uppeldisheimili og að um rekstur þess fari eftir reglugerð, er dómsmrh. setur. Ég vil þó benda n. þeirri, er væntanlega fær þetta mál til meðferðar, á það, að samkv. 3. gr. frv. getur ekki verið um það að ræða að ákveða í reglugerð, að framfærslusveit barnanna beri eitthvað af dvalarkostnaði þeirra. Það er beinlinis tekið fram í 3. gr. frv., að hælið skuli rekið á ríkisins kostnað, og það væri ekki leyfi til að fara út fyrir það í reglugerð. — Þá gerir frv. ráð fyrir, að hælið skuli taka 25–30 börn. Ég vil biðja n. að athuga vel, hvort sú tala er ekki of há. Ég álít, að heppilegra væri að stofna fleiri en eitt hæli, ef nauðsyn krefði, að tekið væri á móti svo mörgum börnum.

Ég sakna þess, að í grg. frv. skuli ekki vera rakin sú reynsla, sem fengizt hefir á Norðurlöndum um þessi mál. Hún er okkur, að ég hygg, mikils virði og er nauðsynlegt að taka tillit til hennar, ef þetta mál á að fara vel úr hendi. Vil ég beina því til þeirra, er málið fá til meðferðar. Það má finna margt til fyrirmyndar og einnig mörg mistök, sem einkum hafa stafað af því, að hælin hafa verið of stór. Yfirleitt er sú stefna uppi á Norðurlöndum, að hafa barnaheimilin lítil, og koma börnunum heldur fyrir á sveitaheimilum, ef það er hægt. Við eigum að styðja okkur við reynslu hinna Norðurlandanna, og þá þarf hún að liggja fyrir eins og hún er. Ég vona, að þeir, sem fá málið til meðferðar. verði mér sammála um, að það eigi að athuga þessa leið fyrst og fremst, áður en ákvörðun er tekin um málið.