19.03.1937
Efri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í C-deild Alþingistíðinda. (2088)

69. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Dæmin eru deginum ljósari um það, að tekjur ýmsra bæjar- og sveitarfélaga nægja ekki fyrir gjöldunum. Bæjar- og sveitarfélögin hafa yfirleitt ekki aðrar tekjur, svo að teljandi sé, en útsvörin, sem jafnað er niður eftir efnum og ástæðum. En nú hefir það sýnt sig, að niðurjöfnunarnefndir og hreppsnefndir hafa sumpart ekki getað jafnað niður nægilega háum upphæðum, til þess að standast útgjöld bæjar- og sveitarfélaganna, og í öðru lagi hefir ekki verið hægt að innheimta útsvörin, þó að þeim hafi verið jafnað niður. Af þessu hefir svo leitt það, að mörg bæjar- og sveitarfélög hafa komizt í fjárþröng, eins og uppgerð ýmsra þeirra í kreppulánasjóði sýnir ljósast. Þó aldrei nema hagur sumra þeirra hafi eitthvað batnað við þessa uppgerð, þá er hann þá ekki betri en það, að sum þeirra treysta sér ekki til þess að gera fjárhagsáætlun fyrir yfirstandandi ár vegna tekjuskorts.

Um ástæðurnar fyrir þessu ástandi þýðir ekki að deila. Ýmsir vilja kenna löggjafarvaldinu um, hvernig komið sé, o. s. frv. En ég hygg, að aðalorsökina sé að finna í hinum sívaxandi kröfum, sem gerðar eru til bæjar- og sveitarsjóðanna, kröfum sem fulltrúar fólksins í kaupstöðunum a. m. k. sjá sér ekki annað fært en að sinna. Skal ég svo ekki að sinni fara frekar út í það.

Til þess að bæta úr þessu ástandi hefir aðallega verið talað um 3 möguleika. Fyrst það, að hlutaðeigandi bæjar- og sveitarsjóðir gætu sparað meira en þeir gera nú. Það er aldrei nema rétt og sjálfsagt að gera þessar kröfur, enda þótt slíkt sparnaðarhjal beri oft lítinn árangur. Þá er í öðru lagi talað um beint framlag ríkissjóðs til hjálpar þessum illa stöddu bæjar- og sveitarfélögum, a. m. k. þegar örðugleikarnir steðja að. Hvað þetta atriði snertir, þá verð ég að segja það, að mér finnst ríkið hafa nóg á sinni könnu, þó að ekki sé farið að bæta þessum bagga á það. Þetta er líka aðeins krókaleið, því að hinar auknu byrðar ríkissjóðs vegna þessara útgjalda myndu vitanlega lenda á gjaldendunum, og að því leyti bæri þar allt að sama brunni. Þá er þriðja leiðin eftir, og hún er sú, að útvega nýja tekjustofna, sem hrokkið gætu fyrir skynsamlegum útgjöldum. Þessa leið ákvað þingið 1935 að fara, því að það samþ. heimild til atvmrh. um að skipa 3 manna n. til þess að athuga, hvaða leiðir heppilegast væri að fara til þess að afla bæjar- og sveitarfélögunum þessara föstu tekjustofna. Um skipun n. er öllum hv. þdm. kunnugt. Í framhaldi af þessu bárum svo við hv. l. þm. Skagf. og ég, sem sæti áttum í milliþn., fram frv. á þinginu í fyrra um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög. Eftir því frv. áttu bæjar- og sveitarfélög að fá nýja tekjustofna. Sem gert var ráð fyrir, að myndu geta gefið allt að 1,8 millj. á ári. Það var ekki hægt að segja, að frv. Þessu væri beinlínis illa tekið af þinginu í fyrra til þess að byrja með, því að ræður manna hnigu mjög í þá átt, að nauðsyn bæri til að setja löggjöf um þetta efni. En þingið fór þó þannig með þetta nauðsynlega mál, að ekkert varð úr framkvæmdum.

N., sem fékk það til meðferðar hér í d., byrjaði á því að sitja allt of lengi á því, áður en hún afgr. það til d. Þó að svo færi nú, að frv. væri allmjög skemmt í meðferð hv. n. og þessarar hv. d., þá fór það þó þannig héðan, að það hefði getið orðið til allmikilla bóta fyrir hlutaðeigendur, ef það hefði ekki verið brjálað ennþá meira. Þegar til Nd. kom, voru gerðar á því miklar breyt., og að síðustu sofnaði það alveg út af.

Ég verð að telja mjög illa farið, að frv. skyldi fá slíka meðferð, sem hér hefir verið lýst, því að það hefði óneitanlega getað orðið til mikils gagns, ef það hefði fengið að ganga fram í sinni upphaflegu mynd eða þá eins og þessi hv. d. gekk frá því.

Síðastl. haust fékk svo mþn. aftur tilmæli frá hæstv. atvmrh. um að taka útsvarslögin til athugunar. Kom n. því saman í október í haust og hélt þá nokkra fundi. Henni kom þá þegar saman um það, að enda þótt mikil þörf væri á að endurskoða útsvarslögin, þá væri þó meiri ástæða til þess að setja lög um nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélögin. Skipti n. þá þegar með sér verkum. Nokkru fyrir þing í vetur hélt hún svo aftur fundi, en á þeim fundum gat ég ekki mætt, en í minn stað mætti annar maður úr Framsfl. Í n. náðist þá ekki fullt samkomulag um að bera fram frv. frá í fyrra óbreytt eða samkomulag um breyt. á því. En aftur á móti var n. á einu máli um það, að finna þyrfti nýja tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, ef ekki ætti verr að fara.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, eru lítil nýmæli, því að það er að miklu leyti byggt á frv. mþn. frá í fyrra. Þó er tekið tillit til þeirra breyt., sem gerðar voru á því hér í Ed.

Í fyrra var hugmyndin að fara aðallega tvær leiðir til þessarar tekjuöflunar. Fyrst þá, að leggja á fasteignaskatt. En sá kafli er ekki í frv. nú. Er það ekki sakir þess, að ég sé þeirri leið mótfallinn, heldur er það af því, að sá nm., sem sæti á í Nd., hefir fastákveðið að flytja sérstakt trv. um þennan skatt í Nd.

Hin leiðin, sem fara átti til tekjuöflunur, var sú, að ná gjaldi af verzlun landsmanna, bæði með vörugjaldi í kaupstöðum og kauptúnum og viðauka á tolla, sem síðar átti að skipta út til hreppanna. Eins og hv. þdm. munu eflaust muna, þá felldi Ed. vörugjaldið niður, en hækkaði tollaviðaukann um helming og ákvað, að það skyldi skiptast á milli sveitar- og bæjarfélaga. Í frv. mínu er þessu fylgt, og ég legg til, að skiptingin verði sú sama og ætlazt var til af hv. Ed. í fyrra. En jafnframt legg ég til, að tollaviðaukinn verði hækkaður um 1/3, eða úr 10% upp í 13%, og að 10% af því gangi til bæjar- og sýslusjóða, en 5%, eða 1/3, gangi til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga. Fær sá sjóður þannig samkvæmt þessu þrefaldar tekjur á móts við það, sem ætlazt var til í fyrra í frv. mþn.

Ég þykist nú vita, að þessi kafli frv. míns, um tollaviðaukann, verði ekki vinsæll, því að það er aldrei vinsælt að leggja ný gjöld á borgarana. En þess ber að gæta, að gjöldin verða að koma einhversstaðar frá, því að það þýðir ekki að heimta og heimta fé til allra mögulegra hluta án þess að jafnframt sé séð fyrir einhverjum möguleikum til þess að afla fjárins. Ég vil því í þessu sambandi beina því til þeirra, sem kunna að vera á móti þessum till. mínum um tollaviðaukann, að benda á eitthvað skynsamlegt, sem komið getur í hans stað. Á útsvörin þýðir ekkert að benda; þau er ekki hægt að hækka frá því sem nú er. Það lætur að sjálfsögðu vel í eyrum að segja, að fólkið geti ekki borgað þetta og hitt, og gera svo kröfur til hins opinbera um aðstoð án allrar ábyrgðar.

Annar kafli frv., um skatt ríkisstofnana, er að efni til alveg hinn sami og í frv. mþn.

Þá er þriðji kafli frv. Hann er að nokkru leyti sá sami og í frv. í fyrra, en fyllri að því er snertir jöfnunarsjóði sveitar- og bæjarfélaga, því að eins og ég gat um áðan, þá fær hann þriðjungi hærri tekjur eftir frv. mínu en eftir frv. okkar í fyrra, og því hefi ég sett nánari ákvæði um starfsemi hans, sem líka er eðlilegt, einnig af því, að starfsemi hans verður miklu víðtækari. Eftir frv. í fyrra var t. d. gengið út frá því, að sjóður þessi yrði aðeins notaður til þess að greiða með honum skuldir kaupstaða og kauptúna og bæta tjón af völdum náttúrunnar. Að sjálfsögðu er gengið út frá því, að þetta gangi fyrir um styrkveitingar úr sjóðnum, en vegna hins aukna starfssviðs hans er gert ráð fyrir, að hann geti og sinnt fleira. Þegar sjóðurinn stækkar, eins og hér eru lögð drög til, má búast við, að mikið kapphlaup verði um að ná í styrk úr honum, og fyrir því slæ ég varnaglann og legg til í 13. gr., að bæjar- eða sveitarstjórn, sem vill verða aðnjótandi styrks úr honum, verði að senda umsókn um hann fyrir febrúarlok ár hvert og að umsókninni fylgi ýtarlegar skýrslur um efnahagsástæður umsækjanda, svo að stjórn sjóðsins geti áttað sig á því, hvort um þörf sé að ræða hjá hlutaðeiganda eða aðeins ágengni.

Þá er það nýmæli í 19. gr., að ef sveitar- eða bæjarstjórn sækir um styrk, sem sannanlegt er, að sjálf eigi sök á þrengingum sveitarfélagsins, þá megi ekki veita styrkinn nema undir serstökum skilyrðum. Legg ég til, að gerðar séu ákveðnar ráðstafanir út af þessu, þannig að bæjarstjórnum eða sveitarstjórnum sé settur meðráðamaður og að ekki megi verja neinu af þeim styrk, sem bæjar- eða sveitarfélögin fá, öðruvísi en eftir ákvörðunum ráðh., sem yrði að sjálfsögðu einnig í samráði við þennan meðráðamann, og einnig það, að það ár, sem styrkurinn er veittur. megi ekkert greiða úr bæjar- eða sveitarsjóði nema með samþykki meðráðamanns.

Þetta þykir kannske hart, en ég fyrir mitt leyti álít það nauðsynlegt, að setja einhver varúðarákvæði í þessu skyni.

Í grg. frv. þessa er ofurlítil áætlun um, hvaða tekjur bæjar- og sveitarsjóðir munu af þessu hafa, ef frv. yrði að lögum, og eru þær áætlanir byggðar á því sama og áætlanir mþn. í fyrra. Nú hafa náttúrlega ýmsar breyt. orðið síðan, sem kynnu að raska þessari áætlun að einhverju leyti, en stórvægilegar munu þær ekki vera. Og samkv. þessari áætlun minni, sem ég hygg, að fari ekki mjög langt frá því sanna, eru þær tekjur, sem gengju beint til bæjar-, sýslu- og sveitarsjóða um 1/2 millj. kr., en tekjur þær, sem jöfnunarsjóður ætti árlega að fá, eru 325 þús. kr., eða tekjur samkv. þessu frv. samtals nokkuð yfir 800 þús. kr. Þetta er auðvitað miklu lægri upphæð heldur en mþn. í fyrra gerði ráð fyrir, að gæti fengizt samkvæmt frv. sínu, en ég hygg þó samt, að ef þetta frv. yrði að lögum, gæti verstu örðugleikunum í þessu efni verið aflétt, ekki sízt sökum þess, að þegar jöfnunarsjóður fengi þó það miklar tekjur, sem hér er gert ráð fyrir, mætti að sjálfsögðu mikið hlaupa undir bagga með þeim bæjar- og sveifarfélögum, sem verst eru sett. Ég veit sérstaklega um eitt bæjarfélag, sem mundi töluvert rétta hag sinn með þeim tekjum, sem hér er ætlað, að gangi beint til bæjar- og sveitarsjóða. Ég geri svo ráð fyrir, að þar að auki verði lagt fram frv. um fasteignaskatt, og ef það yrði samþ., sem gera má ráð fyrir, þá teldi ég, að þetta þing hafi gert skyldu sína í þessu efni, ef það hvorttveggja yrði samþ. En menn verða að skilja það, að ástandið í þessu efni er orðið það alvarlegt sumsstaðar, að það er hrein og bein skylda þessa Alþingis, að skiljast ekki við, fyrr en einhver bót er á því ráðin.

Það er langt frá því, að ég haldi því fram, að ég hafi fundið hér það eina rétta, sem eigi að vera í þessu efni, og ég er fús til þess að taka allar sanngjarnar breyt. til greina og yfirleitt til samninga um aðrar leiðir, ef hægt er að sannfæra mig um, að þær séu eins góðar eða betri. En því vil ég slá föstu, að minna má ekki gera á þessu þingi heldur en það, sem farið er fram á í þessu frv.

Ég vil leggja til, að þessu frv. verði vísað til n., en ég er dálítið í vafa um, til hvaða n. Það var í hv. allshn. í fyrra, og ég verð að segja, að meðferð hennar á málinu var ekki þannig, að ég telji hana forsvaranlega að því leyti, hvað n. sat lengi á málinu. Ég held þó, þar sem þetta mál heyrir að sjálfsögðu undir allshn., að ég verði að leggja til, að málinu verði þangað vísað, en ég vil mælast til við hæstv. forseta, að hann gangi eftir þessu máli hjá n., ef það sýnir sig, að hann ætlar að hafa það óhæfilega lengi. Ég þykist hafa fullt tilefni til þess af reynslunni frá því í fyrra, að láta þennan fyrirvara fylgja till. um að vísa málinu til allshn.