20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 784 í C-deild Alþingistíðinda. (2140)

76. mál, Kreppulánasjóður

*Flm. (Páll Hermannsson):

Það eru að nokkru leyti viss tengsl milli þessa frv. og frv. um búnaðarbankann, sem umræðulaust var vísað til n. í hv. deild í gær. Í frv. er sem sé gengið út frá því, að breyta þannig stjórn Búnaðarbankans, að framvegis verði þar ekki nema einn bankastjóri. Hinsvegar er gert ráð fyrir því í l. um Kreppulánasjóð frá 1933, að eftir að sjóðurinn hefir lokið útlánastarfsemi sinni, skuli stjórn Búnaðarbankans annast um stjórn kreppulánasjóðs. Menn sjá það náttúrlega, að ef horfið er að því ráði, að fækka bankastjórum Búnaðarbankans úr þremur í einn, þá víkur því nokkuð öðruvísi við, en auk þess hafa verið uppi mismunandi raddir um það, hvernig heppilegast væri að haga stjórn kreppulánasjóðs, og hér er gengið út frá, að henni bæri að haga þannig framvegis, að sinn maður frá hverjum banka landsins hefði með höndum stjórn þessara mála. Náttúrlega mætti færa ýmislegt fleira fram sem ástæðu fyrir því, að stungið er upp á þessari breyt., en ég sé ekki frekari þörf á því, nema umræður hefjist verulega um málið.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði vísað til hv. landbn. að þessari umræðu lokinni.