08.04.1937
Efri deild: 34. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í C-deild Alþingistíðinda. (2246)

114. mál, stuðningur við togaraútgerðina

Magnús Jónsson:

Herra forseti! Hér hefir nú verið rætt svo mikið um þetta frv., að allir flokkar, aðrir en flutningsmennirnir, hafa gengið svo frá því, að ég sé enga ástæðu til að vega oftar í þann knérunn. En það er önnur hlið á þessu máli, sem vitanlega er aðalatriðið, og hún er sú, að hér er um hreint hégómamál að ræða — kosningabombu. Málið er því ekki þess virði að ræða það efnislega, en ég vil leiða rök að hinu, að hér sé eingöngu um kosningabombu að ræða.

Hér á að stofna til félags, sem taki að sér rekstur allra þeirra togara á Íslandi, sem komast í kröggur, og annast allan þann rekstur, sem er í sambandi við þá, og þar sem í greinargerðinni er spáð illa fyrir allri togaraútgerð, og þeir, sem að þessu máli standa, eru samkv. innræti sínu og stefnu allra manna vísastir til að gera sitt til að koma henni á kné, ef þeir eru nokkurs megnugir, þá er hér hvorki um meira né minna að ræða en útgerð nálega alls togaraflotans íslenzka, sem er nú í einstaklingaeign, og allt, sem er í sambandi við hann, hagnýtingu, verkun, sölu á aflanum og innkaup á þörfum til flotans. Hér er því vafalaust stofnað til langstærsta fyrirtækis, sem nokkurntíma hefir verið rekið á Íslandi. En þó er þetta ekki nema brot eitt af því, sem þessir nýju spámenn þjóðarinnar ætla að gera á næstunni, eftir því sem þeir segja. Auk þess á nú að kaupa eða láta byggja heilan nýjan flota togara og reisa frystihús um land allt, fiskimjöls-, síldar- og karfavinnsluverksmiðjur um land allt. og niðursuðuverksmiðjur. Er ýmislegt gott og þarft í þessu, enda tillögur um þetta bornar fram af sjálfstæðismönnum þing eftir þing, en sætt fjandskap einmitt þeirra, sem nú þykjast vera upphafsmenn þess. Verður þetta vafalaust rakið nánar síðar í útvarpsumræðum héðan frá hinu háa Alþingi. Svo á að stofna iðnaðarbanka með 24 milljóna starfsfé, og ég veit ekki hvað og hvað. Ég er næst um því undrandi á því, úr því þessir menn eru á annað borð komnir á stað, að þeir skuli þá ekki líka snöggvast byggja upp alla sveitabæi á landinu, rækta allt óræktað land, leggja akbrautir um öll öræfin og annað þess háttar, — þessir síauralausu menn með hinn galtóma ríkissjóð.

Á öllu þessu er bara ein skýring, og hún er líka alveg nægileg. Þessir menn ganga með dálítinn kvilla, sem gerir alltaf vart við sig undir hverjar kosningar, eins og gigtin í sumu gamla fólkinu veit á illviðri. Þessi kvilli heitir kjósendahræðsla, og liggur hann eðlilega sérstaklega þungt á þeim, sem eru kosnir upp á stór loforð og áætlanir, en hafa fátt af því getað efnt.

Svo menn geti skilið hugarástand þessara manna og til að færra nánari rök fyrir máli mínu, að hér sé aðeins um kosningaloforð að ræða, vil ég nefna nokkur dæmi af handahofi, og tek ég þá hina svokölluðu fjögurra ára áætlun Alþfl. Hún er gefin út af Alþfl. fyrir síðustu kosningar og er starfsskrá þess flokks. Hún er því sú aðalheimild, sem fylgismenn þess flokks höfðu að fara eftir, þegar þeir ákváðu fylgi sitt við flokkinn. Hún er gefin út í flokksins nafni og er hvergi myrk í máli. Í 36 greinum telur hún upp þau mál, sem flokkurinn ætlaði að beita sér fyrir, ef hann fengi meiri hl. og stjórnaraðstöðu. Það ætti því að vera alveg eðlileg og rokrétt afleiðing, að sömu kjósendur veittu þessum flokki stuðning áfram, ef hann hefði efnt þessi loforð, en refsaði honum, ef hann hefði svikið loforðin og þann veg logið að kjósendunum. Allt annað væri svo mikil einfeldni og aumingjaskapur, að vonandi er ekki mikið til af slíku meðal kjósenda landsins.

Fyrsta greinin er prentuð með afarstóru letri. Bæði það og að, fyrsta greinin er svo feitletruð mun eiga að skilja svo, að hér sé aðalkjarninn í allri stefnuskránni. Eftir henni á að koma á „auknum atvinnurekstri eftir nákvæmri áætlun“ — þetta er með enn stærra letri — og hafa „það markmið að útrýma með öllu atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar, og færa nýtt fjör í atvinnuvegi þjóðarinnar“ o. s. frv. Þetta er þá fyrsta og stærsta boðorðið, og eftir þessu eina ætti í raun og veru að vera hægt að dæma um það, hvort hinn vinnandi lýður, sem fékk þeim völdin í hendur, hefir verið gabbaður eða ekki. Og hvað sýnir svo reynslan? Er atvinnuleysið horfið, eða er það að hverfa? Tölurnar tala, og þær segja, að atvinnuleysið hefir stóraukizt. Og það þýðir ekkert að segja, að þessar mismunandi tölur, sem sýna aukninguna, stafi af einhverju öðru. Þær stafa af þverrandi atvinnu, og engu öðru. Og meira að segja, þó að engar tölur væru til, þá er ástandið svo skýrt, að það mundi segja til sín án þess. Eða hvað segja menn þá um fjörið í atvinnuvegunum og það, að engin kreppu geri nú framar vart við sig með afleiðingum sínum? Allt hefir þetta reynzt einn vefur af ósannindum og blekkingum. Og þetta var aðalstefnuskráratriðið — aðalkosninganúmerið. Sjálfur grundvöllurinn hefir því hrunið saman. Einmitt þetta frv., sem hér liggur fyrir, og grg. þess, þar sem ekkert sest annað en rústir og eymd, æpir gegn flutningsmönnunum, sem sjálfir eru kosnir upp á gyllingar fjögurra ára áætlunarinnar. Þetta kom þá í stað þess, að nóg atvinna byðist, kreppan hyrfi og fjör kæmi í atvinnuvegina. Atvinnuleysið hefir aðeins horfið á einu sviði, og það er hjá flokksforingjunum sjálfum, sem virðast ekki alveg á nástráum. Þar er ánægja með ástandið. En dugar verkamönnum, sjómönnum og iðnaðarmönnum og fjölskyldum þeirra það? Þeir segja nei, þegar beðið verður um endurnýjun á umboðinu.

Þá er í þessum sama fyrsta lið talað um ráðgefandi nefnd. Þessi nefnd átti að skila hinni vísindalegu áætlun í ársbyrjun 193a. En hvað varð úr þessum síðari hluta fyrsta liðs? Áætlunin var ekki búin í ársbyrjun 1935, og ekki í ársbyrjun 1936, og ekki í ársbyrjun 1937. En nú, þegar hillir undir kosningarnar, kreistir kjósendahræðslan út úr nefndinni, ekki neina vísindalega áætlun, eins og lofað var, heldur eitt af þessum þykku nefndarálitum með allskonar tölum og bollaleggingum, prýðilegt plagg til þess að fara á hilluna með öðrum samskonar bókum og vera þar þangað til hún er sokkin í gleymsku og ryk.

En umbjóðendur þessara manna, sem héldu, að starf þeirra ætti að miða að því að útrýma bágindum þeirra og hjálpa þeim í lífsbaráttunni. þeir verða svo að athuga nánar, hvort loforðin við þá hafa verið haldin eða svikin. Mér finnst, að þau hafi verið svikin. Þeir svara auðvitað fyrir sig.

Eitt atriði þessarar stefnuskrár var þó ekki svikið. Það er bezt að unna þeim sannmælis. Þeir sviku ekki að skipa nefndina, og hún sveik ekki að ráða sér starfsfólk. Hún hefir kostað tugi þúsunda á ári, svo að ekki er hægt að neita því alveg, að hún hafi unnið að því að bæta úr atvinnuleysinu. Hvort þeir, sem fólu þessum herrum völdin, hafa þó lagt þennan skilning inn í fjögurra ára áætlunina, skal ég láta ósagt. Því svara þeir sjálfir.

Þetta var nú allt um fyrsta liðinn, og er hætt við, að það yrði langt mál, ef svo skyldi áfram haldið, enda er það ekki tilgangurinn. En það er nálega sama, hvar gripið er niður í þessa loforðakássu Alþfl. Ýmislegt af því er þó hégóminn einber og þvaður. Hér er t. d. í þriðja lið: Að vinna að því, að vísindin verði tekin í þjónustu atvinnuveganna til lands og sjávar n. a. frv. Þetta má náttúrlega alltaf segja. En hvar eru vísindamennirnir, sem sósialistar hafa skipað á? Í virkileikanum hefir þetta loforð verið þannig haldið, að hverskonar hlaupastrákar og smápésar hafa verið hafðir til umráða, aðeins ef þeir voru flokksmenn. Þ. e. a. s., vísindamennirnir hafa verið skilgreindir þannig, að það væru flokksmenn.

Svo koma nú nokkrir liðir, sem hafa átt að laða bændur, svo sem það, að setja átti verksmiðjur þar, sem fjölbyggðar sveitir væru í kring, svo að bændum verði að þeim sem mestur stuðningur, vegna aukins markaðar landbúnaðarafurða. Bændur hafa víst ekki vitað lítið af þessum markaði í verksmiðjuhverfum sósíalista? Ég spyr. En af því að bændur munu aldrei hafa fest mikinn trúnað við loforð sósíalista, ætla ég ekki að rekja þessi svik frekar.

Í 11. lið er lofað lækkun vaxta, m. a. með lækkun innlánsvaxta. Hvar er þessi vaxtalækkun?

Í 13. lið er lofað sem fullkomnastri landhelgisgæzlu, og var byrjað á framkvæmd þess loforðs með því að selja hið ágæta skip Óðin burt úr landinu.

Í 14. lið er lofað að gera samgöngur á sjó og landi örari, víðtækari og ódýrari. En alstaðar þar, sem ég hefi komið eða spurt til, hafa þessar ferðir bæði orðið strjálli og dýrari og á allan hátt erfiðari og óhentugri fyrir almenning.

Þá er 15. liður mjög merkilegur. Þar er lofað, að tollum verði létt af nauðsynjum, og mundu menn hlæja að þessum lið og efndum þessa loforðs, ef þeim mönnum væri hlátur í hug, sem eru að berjast við að hafa í sig og á. Eitt blaðið birti hér fyrir nokkru fjöldamargar smáskýrslur, þar sem gerður var samanburður á tollum nú og 1934 í ýmsum greinum, svo sem í eldhúsi, við þvott og önnur dagleg störf eða daglegar þarfir hvers heimilis. Þessar skýrslur ættu að vera á hverju heimili, eins og hrópandi rödd um þau ógurlegu svik, sem hér hafa verið framan við almenning.

Hér er svo í 22. lið, að tryggja bæjar- og sveitarfélögum fasta tekjustofna. Þetta er nauðsynjamál. En svo er langt frá því, að þeir hafi gert þetta, að allar tilraunir annara þingmanna í þessu skyni hafa strandað, og það ekki sízt á andstöðu þessara þingmanna sjálfra.

Ég verð nú að hætta þessu. En ég vil þó drepa á 32. liðinn, af því að hann er svo nauðaeinfalt og ljóst dæmi upp á heilindi alþýðuflokksleiðtoganna, ef þeir lofa einhverju. Liðurinn er svona: Að vinna að því, að öllum verði gefin jöfn aðstaða til að keppa um stöður við hverskonar opinberar stofnanir, og eingöngu verði valið í stöðurnar eftir hæfileikum umsækjendanna“. Mér er nær að halda, að þó Spegillinn hefði lagt sig í framkróka, þá hefði hann ekki getað búið til neyðarlegri háðsögu um embættaveitingaaðferð stjórnarflokkanna en hér er gert í þeirra eigin stefnuskrá. Hvenær hefir þetta loforð verið efnt? Embættum hefir ekki einu sinni verið slegið upp oft og einatt. Hvernig var um samkeppnina í Árnessýslu, þegar það embætti var veitt svo ungum flokksmanni, að það varðaði við lög? Hefir verið keppt um forstjórastöðurnar við ríkisstofnanirnar? Var keppt um vitamálastjórastöðuna? Svona mætti halda áfram að telja í það óendanlega. En þó er kannske allra mest gaman, ef nokkurntíma er gaman að svikum, að athuga aðferðir sósíalistaráðherrans við eina ríkisstofnun, þar sem beinlínis er ákveðið í lögum og reglugerð, að keppa skuli um stöðurnar, ef það sé talið nauðsynlegt til úrskurðar. Hér er því stofnun, sem er beinlínis í samræmi við 32. lið áætlunar Alþfl. Þessi stofnun er Háskóli Íslands. Þar hafa nú tvær kennarastöður verið til veitingar með skömmu millibili, og í báðum tilfellum var ákveðin samkeppni, alveg í samræmi við fjögurra ára áætlunina. En hvernig bregður þá við? Í fyrra tilfellinu neitar annar umsækjandinn að keppa, neitar að ganga í jafna aðstöðu eins og hinn umsækjandinn. En ráðherrann, einn af þeim, sem kosnir eru upp á loforð fjögurra ára áætlunarinnur, gerir sér hægt um hönd og veitir honum stöðuna umsvifalaust. — Svo kemur hitt dæmið. Þar fór samkeppnin fram, og dæmt var milli keppendanna, þannig að einn af keppendunum hlaut öll atkvæði 5 manna dómnefndar, og þar á meðal var einn erlendur vísindamaður, sem fenginn var til að tryggja enn betur fullkomið hlutleysi. Hér var því loks fjögurra ára áætluninni fylgt út í æsar. En þá er eins og þessi sami ráðherra, sem lofað hafði að fara alltaf svona að, þegar veittar væru stöður, verði fyrst í vandræðum. Og eftir langar og miklar þrautir setur hann — ekki veitir — heldur setur hann þennan mann „fyrst um sinn, þar til öðruvísi verður ákveðið“. Það er eins og honum sé það hreint og beint kvalræði, ef hann skyldi einu sinni verða að halda eitt loforð við kjósendur Alþýðuflokksins.

Ég hefi nú sýnt fram á það, með hverskonar syndabagga sósíalistarnir koma til kjósendanna, og þá hygg ég, að það fari að verða nokkurnveginn ljóst, hvers vegna þetta frv. og önnur slík eru hér fram komin. Þeir sjá, að þeir verða að koma með eitthvað annað en þennan syndabagga fram fyrir kjósendurna. Þau eru ekki borin fram í neinni alvöru. Þau eru ekki fram komin til neinna úrbóta á erfiðleikum almennings. Þau eru alveg af sama toga og Kveldúlfsmálið var. Þau eru reykbombur, sem eiga að hylja svikin, skyggja á staðreyndirnar, hvellur sem á að fá menn til að hrökkva við og gleyma því liðna. Þetta er nú aðalatriðið í þessu máli. því að þegar mál er borið þannig fram, eingöngu sem kosninganúmer, þá er í rauninni sama, hvernig málið er í sjálfu sér; það á ekki að vera að tefja sig á að ræða það efnislega. Allt frv. er ljós vottur um það, hve mikinn skilning alþfl. hefir á gildi togaraútvegsins, og hve innileg umhyggja hans er fyrir þeim mönnum, sem við hann vinna og hafa uppeldi sitt af honum. Í stað þess, að milljónir hafa verið settar í að bjarga öðrum atvinnuvegum til lands og sjávar, svo og til þess að hjálpa sveitar- og bæjarfélögum, þá á hér að fara allt aðrar leiðir, eins og í grg. frv. stendur. Hér á ekki að veita stórfellda aðstoð — ekki einu sinni litla aðstoð. Það á ekki einu sinni að láta togarana sigla sinn sjó í friði. Nei, það á bara að hjálpa þeim á einn veg. Það á bara að hjálpa þeim til að fara á hausinn. Ríkið, sem hefir staðið með útréttar milljónir öðrum til handa, hefir ekkert til að rétta þessum máttarstöðum þjóðfélagsins, annað en skilanefndir og gjaldþrotatilboð. Þessa aðþrengdu eigendur í að draga fyrir lög og dóm, í stað þess að aðrir hafa verið reistir við. Þessar eignir á að setja á markaðinn, þegar allt er í því ástandi, að hver slík eign má heita verðlaus, þegar öðrum eignum hefir verið bjargað frá þeim örlögum. Og þó er því lýst í grg., að ástæðan til erfiðleikanna sé markaðsmissir og önnur slík óviðráðanleg atvik. Jafnframt er því lýst, að nú virðist vera að rofa til, því að nýjar leiðir eru að opnast. En þessa nýju möguleika mega togarafélögin ekki nota. Það á að grípa tækifærið á þessum hættulega umskiptatíma til þess að leggja allt í rústir. Það er þessi aðferð, sem réttlætir þau ummæli, að hér sé beinlínis stofnað til þess að gera togarafélögin gjaldþrota. Það er ekki að furða, þó að Alþýðublaðið noti stóra letrið, þegar það er að tala um þessa viðreisn togaraflotans, þessa viðreisn, sem á að byrja í rústum og gjaldþroti.

Og hvað er það svo, sem á taka við? Það er æðikyndugur óskapnaður. Það er kallað hlutafélag, og er byggt þannig upp, að kröfuhafarnir, sem eru aðallega bankarnir, eiga að leggja allt féð til. Ég ætla annars ekki að lýsu þessu, af því að aðrir þingmenn hafa lýst því svo greinilega á undan mer. En að þeir eiga að leggja til allt féð, sest á því, að fyrst eiga þeir að leggja 1/9 fram sem hlutafé, síðan eiga þeir, ef ríkinu býður svo við að horfa, að lána því 2/9 gegn lágum vöxtum, eingöngu í því skyni að afsala sér öllum völdum yfir fyrirtækinu, því að fyrir þetta fé kaupir ríkið meiri hluta hlutabréfanna, og ræður þannig öllu. Þarna er þá kominn 1/3 þess, sem í félaginu stendur. Hina 2/3 hlutana af fénu verða svo þessir sömu aðiljar að lána félaginu, og eiga hjá því, gegn veði í eignunum, og svo auk þess vafalaust að leggja því til stórkostlegt rekstrarfé. Hér er því ekki hægt að segja, að um nein sældarkjör sé að ræða. Bankarnir eiga sem sagt að afhenda ríkinu allt þetta fé, en afsala sér öllum verulegum afskiptum. jafnótt og skilanefnd getur komið einu félaginu eftir annað á kné. Þetta er viðreisn togaraflotans, sem hér er um að ræða.

Ég á nú bágt með að trúa því, að allar þær þúsundir manna, sem eiga allan sinn hag undir rekstri togaraútgerðarinnar, geti horft rólega á aðfarir eins og þessar. Hvað yrði um þeirra hag, ef svo að segja allur togaraflotinn væri kominn í samskonar ástand eins og samvinnuútgerðin á Ísafirði, bæjarútgerðin í Hafnarfirði og togaraútgerðin á Norðfirði?

Hér er náttúrlega ekki fram undan nema tvennt: Annaðhvort gjaldþrot þessa fyrirtækis og sú stöðvun, sem af því leiðir, eða þá aðferðin, sem beitt er við síldarverksmiðjur ríkisins, að skammta þeim nógu litið, sem við fyrirtækið vinna. Á undanförnum árum hefir orðið stórkostlegt tap á allri útgerð, og það eru ekki í þessu frv. gerðar neinar ráðstafanir til þess, að þettl tap hætti, þó að ríkið taki við, og þá er auðsjáanlegt, að það hlýtur að lenda annaðhvort í gjaldþroti eða þeir, sem við fyrirtækin vinna, fái minna. Þjóðnýting togaraflotans þýðir annað af þessu tvennu: Gjaldþrot og vinnustöðvun, eða minna til þeirra, sem við það vinna, þ. e. a. s. kauplækkun.

Ég gæti vel skilið þá togaraeigendur, sem hörmuðu ekki svo mjög, þó ríkið tæki að sér togaraflotann, eins og nú er búið að honum. En mér er alveg ómögulegt að skilja þá sjómenn og verkamenn, sem geta horft rólegir fram á það ástand, sem þá mundi skapast. Því ef þeim hefir stundum þótt erfitt að kljást við einkakapítalismann — einkafjármagnið —. hvernig mun þeim þá ganga að halda sínu fyrir ríkiskapítalismanum — ríkisfjármagninu? Það hafa þeir fengið að reyna, þó í litlu sé, við síldarbræðsluna, er tekur alveg miskunnarlaust 70 aura af hverju máli síldar, og ætlaði að taka 2 krónur af hverju máli síldar, þó að játað sé, að þetta fé hafi fengizt í ágóða, og þeir, sem síldina hafa lagt inn, eiga þetta fé. Þetta er sú raunverulega kauplækkun. Þetta er kauplækkunin, sem hæstv. atvmrh., Haraldur Guðmundsson. faldi meðal eins af tilræðum íhaldsins við verkamennina. En það eru þeir sjálfir, sem stofna til þessarar kauplækkunar. Ég vil því segja, að frá öllum sjónarmiðum er þetta mál jafnfráleitt, og ef það ætti að koma til framkvæmda, myndi það leiða til ógæfu. En það svívirðilegasta við það er þó í raun og veru það, að málið er bersýnilega borið fram sem kosningabomba, borið fram til að fela svik Alþfl.þingmannanna við flokk sinn og kjósendur, og til að reyna enn á ný að veiða þá til fylgis með innihaldslausum loforðum.