05.03.1937
Sameinað þing: 5. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (2296)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Ólafur Thors:

Ég fór fram á það við hæstv. forseta síðastl. mánudag, þegar þetta mál var til umr., að það yrði tekið út af dagskrá, til þess að Sjálfstfl. gæfist tækifæri til þess að ræða það á flokksfundi, hvaða afstöðu hann vildi taka til þessarar till. til þál. Ég skýrði frá því, að Sjálfstfl. hefði frá þingbyrjun haft þessi mál til umr., en ekki gengið endanlega frá þeim till., sem hann vildi koma með í málinu. Sjálfstfl. hefir nú sagt skýrt og ótvírætt til um sinn vilja í málinu, eins og brtt. á þskj. 71 ber með sér.

Það verður að játa, að það hefir verið fremur hljótt um sjálfstæðismál þjóðarinnar lengst af þann tíma, sem liðinn er síðan sambandslögin gengu í gildi 1918. Þó hefir þessi lögin stundum verið rofin. Á síðari árum hafa blöð Sjálfstfl. oft minnzt á þetta mál, og ýmsir af málsvörum flokksins hafa gert það að umtalsefni á fundum. Þó hefir þögnin eftirminnilegast verið rofin 1928, þegar þáv. þm. Dal., Sigurður Eggerz, fyrrv. forsrh., bar fram þá fyrirspurn, sem frummælandi málsins, hv. þm. Mýr., las upp eða gat um í sinni frumræðu. Þessa fyrirspurn er að sjá í A-deild Alþt. frá 1928 á bls. 120. Þáverandi þm. Dal. spurði þá að því. hvort ríkisstjórnin mundi vinna að því, að sambandslagasamningnum yrði sagt upp, þegar tækifæri gæfist til þess, og í því sambandi láta íhuga, á hvern hátt utanríkismálum vorum verði komið fyrir, er vér tökum þau að fullu í vorar hendur. Þessari fyrirspurn var svarað mjög greinilega af þáv. hæstv. forsrh., Tryggva Þórhallssyni, sem þá var aðalráðamaður Framsfl. Henni var einnig svarað af núv. hv. 1. þm. Skagf. fyrir hönd þess flokks, er þá var nefndur Íhaldsflokkur, og hv. 2. þm. Reykv. fyrir hönd Alþfl. Og þó að mér þyki, að tvímælis orki um, að hans svar hafi verið svo greinilegt sem skyldi, þá hefi ég þó enga ástæðu til að véfengja, að hann hafi viljað kveða skýrt á um afstöðu sína í þessu máli, sízt eftir að hafa hlustað á ræðu hans hér nú. Því er haldið fram í grg. fyrir þessari till., að vegna þess að Sjálfstfl. var ekki stofnaður 1928, þá geti verið vafi á því, hvort hann vilji skrifa undir það, sem þá var talað fyrir hönd Íhaldsflokksins. Þetta gefur mér tilefni til að segja það, að enda þótt Tryggvi Þórhallsson, þáv. forsrh., hafi á Alþ. 1928 lýst því yfir fyrir hönd síns flokks, að hann mundi skýrt og óhikað vilja hagnýta þann rétt, sem 18. gr. sambandslaganna gefur Íslendingum til þess að losna undan þeim samningi, þá sé með þeirri yfirlýsingu ekki fengin nein óyggjandi vissa fyrir því, að núverandi þingflokkur framsóknarmanna sé á sömu skoðun. Með alveg sömu rökum getur maður sagt, að enda þótt Alþfl. 1928 hafi talið rétt að ganga hina sömu braut, þá sé ekki þar með fengin vissa fyrir því, að Alþfl. á Alþ. nú, sem mun vera helmingi mannfleiri, vilji það sama. Ég verð einnig að vekja athygli á því, að það hafa komið fram, a. m. k. á erlendum vettvangi, ummæli, sem gætu að vissu leyti dregið úr fullvissu sambandsþjóðarinnar um fyrirætlanir Íslendinga í þessu efni. Ég minnist ekki að hafa verið á stjórnmálafundum, þar sem forystumenn stjórnarflokkanna hafi látið falla ummæli, er bentu til þess, að þeir mundu ætla sér að sýna linkind í þessum málum, en ég hefi margsinnis séð ummæli, sem höfð hafa verið eftir þeim, að vísu á erlendum vettvangi, sem kveða mjög óskýrt á um, hvað fyrir íslenzku þjóðinni vakir á sínum tíma um uppsögn sambandslagasamningsins. Ég man ekki betur en síðustu ummælin væru höfð eftir hv. 2. þm. Árn. á síðastl. vori, þar sem sagt var eftir honum, að enginn áhugi ríkti fyrir sjálfstæðismálinu á Íslandi. Aðstaða Sjálfstfl. til málsins er hinsvegar alveg skýr. m. a. vegna þess, að í hinni stuttu prentuðu stefnuskrá flokksins eru markaðar tvímælalausar línur í þessu máli, á þann hátt að óyggjandi er, að Sjálfstfl. krefst þess, að uppsagnarákvæði 18. gr. sambandsl. séu hagnýtt þegar í stað, er lög leyfa, og taki þá Íslendingar í sínar hendur alla stjórn allra sinna mála og séu landsins gæði hagnýtt landsins börnum einum til framdráttar.

Sjálfstfl. hefir nú talið ástæðu til að bera fram þessa brtt. og vill með því kveða skýrar á og marka ákveðnar stefnu þjóðarinnar í þessu máli heldur en gert er með till. stjórnarsinna á þskj. nr. 46. Hv. frsm., hv. þm. Mýr., sagði að vísu, að þessari till. væri ætlað að þýða eitt og hið sama eins og kæmi fram í till. sjálfstæðismanna á Þskj. 71. Ja, ég verð nú um það að segja, að ef það hefir verið tilgangurinn, þá er a. m. k. hæpið, að ég ekki kveði sterkar að orði, að hann hafi tekizt. Í till. hv. stjórnarsinna segir í sjálfu sér ekki annað en það, að það sé skorað á ríkisstj. „að undirbúa í samráði við utanríkismálin, skipulag á meðferð utanríkismála, innanlands og utan, sem bezt kann að henta, er Íslendingar taka alla stjórn „þeirra mála“ í sínar eigin hendur.“ — Ég vek athygli þingheims á því, að það er skýrt sagt stjórn „þeirra“ mála. Ef tilgangurinn hefði verið að marka skýra afstöðu með þessari till., án þess þó að láta hana fjalla um annað og meira en utanríkismál, þá hefði mér sýnzt, svona fljótt á litið, að það hefði verið réttara að segja: „er Íslendingar taka alla stjórn sinna mála í sínar eigin hendur“, í staðinn fyrir að segja „alla stjórn þeirra mála“. Ég verð að segja það, að auk þess sem þessi till. stjórnarsinna, eins og hún er, ekki nær eins vítt eða segir eins mikið eins og till. okkar sjálfstæðismanna í þessu efni, þá má leiða líkur að því, að hún sé vitandi vits og af ásettu ráði látin kveða þannig á, að hægt sé að skilja það svo, að við Íslendingar séum nú í dag ekki ráðnir í öðru en því, að taka stjórn utanríkismáhinna í okkar hendur, þótt ég verði að viðurkenna, að ræður beggja þeirra hv. þm., sem hér hafa talað fyrir hönd Framsfl. og Alþýðufl., gefa tilefni til að mótmæla, ef á okkur væri borið, að þessi skilningur hefði eingöngu vakað fyrir. En sjálf till., eins og hún er orðuð, gefur nú samt sitt tilefni til að álykta á þá leið, sem ég hefi greint. Ég get hinsvegar ekki séð, að það geti verið neinum á móti skapi, sem hugsar á þá leið, sem frsm. flokkanna hafa kveðið á, að samþ. þá brtt., sem við sjálfstæðismenn berum fram á þskj. 71. Þessi till. tekur af öll tvímæli um það, hvað Íslendingar ætla sér í þessum efnum, þegar tilskilinn tími er útrunninn. Og það, sem Alþ. lýsir yfir, ef samþ. verður þessi till. Sjálfstfl., er skýrt og skorinort þetta: Við Íslendingar viljum nota heimild 18. gr. sambandsl. til þess að krefjast þess, að strax eftir árslok 1940 verði byrjað á samningum um endurskoðun sambandsl. Í öðru lagi viljum við enga samninga gera í staðinn, heldur hagnýta ákvæði sömu gr. um að fella sanmingana með öllu úr gildi þremur árum eftir að þessi endurskoðunarkrafa kemur fram.

Þetta er stefna Sjálfstfl. í þessu máli. Og ef stjórnarfl. eru á sama máli, þá taka þeir af öll tvímæli með því að samþ. till. Sjálfstfl. Þeir eiga hægra með að gera þetta, þar sem báðir frsm. flokkanna eru í raun og veru búnir að segja, að það vakti ósköp svipað fyrir þeim.

Fyrir mér vakir í þessu máli engin tilhneiging til þess að helga Sjálfstfl. einhverja sérstöðu í þessu efni, eins og t. d. að hann vilji ganga lengra í þjóðernisátt eða að hann sé skeleggari í þessu máli en hinir flokkarnir. Fyrir mér vakir það eitt, að gera ýtrustu tilraun til þess að Sjálfstfl. og stjórnarfl. megi eiga samleið um að kveða skýrt og ótvírætt á um það, að við Íslendingar ætlum að hagnýta okkur til hins ýtrasta allan þann rétt, sem 18. gr. sambandsl. gefur okkur til þess að losna í einu og öllu við sambandsl. Ég vil taka það skýrt fram líka, að í þessu liggja frá okkar hendi engin ámæli í garð Dana, ekki allra minnsti vottur af kala til dönsku þjóðarinnar. En við teljum eingöngu, að uppsögn sambandsl. og það, að Íslendingar taki í sínar hendur alla meðferð sinna mála og hagnýti öll gæði landsins landsins börnum einum til framdráttar, sé bæði metnaðar- og hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar. Og það er út frá því, og eingöngu út frá því sjónarmiði, sem þessi till. er borin fram.

Það hefir verið vikið hér að því af hv. 1. flm. þáltill. stjórnarsinna, þm. Mýr., að við Íslendingar höfum tekið landhelgisgæzluna að langmestu leyti í okkar hendur. Ég gat ekki betur skilið en svo, að hann teldi það ákaflega eðlilegt, að við hefðum gert þetta. En ef það er eðlilegt, að við Íslendingar önnumst landhelgisgæzlu okkar að langmestu leyti, þrátt fyrir fátækt okkar annarsvegar og mikinn tilkostnað hinsvegar, þá er það ekki aðeins eðlilegt, heldur sjálfsagt, að við stigum lokasporið í þessu máli og tökum alla landhelgisgæzluna í okkar hendur. Og þetta verður því eðlilegra, sem það verður æ ljósara, að sú gæzla, sem Danir hafa hér við land, er að mestu leyti nafnið tómt. Hagnaður okkar af henni er að mestu leyti sú ánægja, að vita, að önnur þjóð heldur uppi landhelgisgæzlu við okkar land, — að erlend þjóð annast það, sem íslenzk lögregla á að annast. Það er enginn sjálfstæðisþembingur, þó að ég segi, að ég tel ákaflega leiðinlegt, að við Íslendingar fyrir þá sáralitlu hagsmuni, sem þarna kunna að vera í boði, látum það lengur við gangast, að Danir sigli í íslenzkri landhelgi undir dönskum fána sem lögregla íslenzkrar landhelgi. Ég er sannfærður um það, að þegar við erum búnir að búa við það um stutt árabil, að hafa landhelgisgæzluna að olíu leyti í okkar höndum, því þykir jafnhlægilegt, að okkur skuli nokkurn tíma hafa dottið í hug að láta Dani hafa það starf með höndum, eins og það þykir nú, að Danir skyldu hugsa sér þann möguleika, að sjálfstætt og fullvalda ríki ætti sinn æðsta dómstól í höfuðborg annars ríkis. Ég viðurkenni mjög fúslega, að það er ákaflega miklum vandkvæðum bundið hér í okkar fámenna þjóðfélagi í landi kunningsskaparins, en hinsvegar landi fjandskaparins — að það er ákaflega erfitt að halda uppi öruggu réttlæti í dómsmálum með fámennum innlendum dómstólum. En sjálfstæði þjóðarinnar, hvort sem hún er fámenn eða fjölmenn, á ekkert val í þessu efni. Íslendingar skildu, að þeir urðu að flytja dómstólinn inn í landið, þegar þeir voru búnir að fá viðurkenningu fyrir að vera fullvalda þjóð. Alveg á sama hátt álít ég, að við eigum að taka landhelgisgæzluna í okkar hendur.

Um utanríkismál get ég að mörgu leyti tekið undir það, sem hv. þm. Mýr. sagði, að við Íslendingar erum búnir að hafa með höndum að efnishliðinni til um allmörg ár stjórn þeirra mála. Það kom berlegast í ljós í ófriðnum mikla 1914–18, að við áttum ekkert til Dana að sækja um stjórn utanríkismála okkar. Við sendum þá upp á okkar eindæmi okkar menn til Englands til þess að semja þar við Englendinga um öll okkar viðskiptamál. Og við höfum æfinlega síðan, þegar eitthvað hefir skipt verulegu máli, sent okkar eigin menn, sem hafa auðvitað að eðlilegum hætti orðið að bera hita og þunga dagsins. Þetta er ákaflega eðlilegt og alveg ámælislaust fyrir Dani, þó að Íslendingar lýsi yfir, að Íslendingar hljóti að vera færastir um að fara með stjórn sinni eigin utanríkismála, eins og annara sinna mála. Við þekkjum bezt, hvar skórinn kreppir að, og við höfum — að Dönum alveg ólöstuðum og með fullri viðurkenningu á góðum vilja þeirra og mikilli viðleitni okkur til framdráttar — mestan áhuga sjálfir á að lina skókreppuna. við sjálfir vitum bezt, hvar og á hverjum tíma ber að leggja höfuðáherzlu á einstök samningsatriði í milliríkjasamningum milli Íslands og annara þjóða.

Ég er sammála því, sem till. hv. stjórnarsinna áreiðanlega skýrt kveður á um, að við Íslendingar eigum í einu og öllu að taka stjórn utanríkismála í okkar hendur. Enda er það svo, að búin er að vera í mörg ár alveg sérstök skrifstofa í stjórnarráðinu, sem hefir sérstakan skrifstofustjóra, sem stjórnar öllum þessum málum og leggur þau upp í hendur þess ráðh., sem á hverjum tíma fer með utanríkismál. En engu að síður er það leiðinlegt að þurfa að biðja aðra þjóð að forminu til um leyfi til þess að mega koma fram eins og fulltíða menn í þessu efni.

Þegar ég var við riðinn samninga við Norðmenn árið 1932, kom það í ljós, um það bil sem þeim var lokið, að við áttum undir högg að sækja um það, hvort við, sem höfðum gert samningana, fengjum að skrifa undir þá eða sendiherra Dana í Osló skrifaði undir þá, maður sem á engan hátt hafði nærri samningunum komið og vissi ekkert, hvað í þeim stóð. Og satt að segja brutu Norðmenn aldagamlar venjur í sínum utanríkismálum til þess að gera Íslendingum kleift að undirskrifa samningana, án þess að Danir kæmu þar til. Þetta og þvílíkt er að minni hyggju ákaflega óviðfelldið.

Ég vil beina því sérstaklega til framsögumanna stjórnarflokkanna, að mér hefir ekki þótt vera nægilega skýrt tekið fram og ótvírætt í þeirra ræðum, að Íslendingar telji, að ákvæði 6. gr. sambandsl., jafnréttisákvæðin, séu með öllu óviðunandi. Það nær ekki nokkurri átt, að þjóð eins og við, sem á gnægð ónotaðra fjársjóða, bæði í sjónum við strendur landsins og í sjálfu landinu, veiti annari þjóð, sem er 30 sinnum fjölmennari en við, og meir en það, sama rétt til þess að hagnýta sér landsins gæði eins og landsins eigin börn hafa. Það nær engri átt að gera þetta í býttum fyrir það, að við megum njóta samskonar réttar í Danmörku. Og það nær ekki nokkurri átt að láta þetta í skiptum fyrir neitt. Þetta er réttur, sem íslenzka þjóðin má aldrei afhenda nokkurri annari þjóð, hvað svo sem hún fengi í staðinn. Því að enda þótt Danir hafi ekki hagnýtt sér þennan rétt — ég verð að segja þeim til lofs og okkur til láns — þannig, að okkur hafi verið neinn voði að, þá hefðu þeir getað verið búnir á þessum 25 árum að hagnýta sér þennan rétt til þess að festa sig svo hér í landinu, fjárhagslega og á ýmsan hátt, að okkur hefði getað orðið nokkuð örðugt um að segja upp samningunum. Ég hefi alltaf talið, að þessi 6. gr. væri langskaðlegasta gr. sambandsl., og ég vona, að stjórnarfl. vilji kveða skýrt og greinilega á um þetta efni nú þegar, svo að það þurfi ekki að orka neins tvímælis.

Við sjálfstæðismenn álitum, að samningar sambandsl. hafi verið okkur mjög hagkvæmir, þegar þeir voru gerðir, en þó hafi 18. gr. þeirra verið það dýrmætasta, sem við eignuðumst með þeim, — gr. sem heimilar okkur að losna við þá með öllu. Ég vil taka undir ummæli Sigurðar Eggerz, er hann komst þannig að orði á Alþ.-–1928:

„En hve langt erum vér frá markinu, ef sambandslögin væru skoðuð sem seinasta sporið? Og hve stutt er ekki að markinu, ef vér gerum skyldu vora og notum fyrirheit sambandsl.?“

Ég vona, að við berum allir gæfu til þess að sameinast um þetta mál, þannig að óeining verði okkur ekki þar að ógæfu fyrir sjálfa okkur og niðja okkar.

Ég skal svo aðeins að öðru leyti út af ummælum frsm. flokkanna segja það, að ég tel það rangt hjá hv. þm. Mýr., að það gildi einu, hvort sú n., sem á að fjalla um þessi mál, verður kosin sérstaklega, þannig að miðstjórnir flokkanna nefni hver sinn mann í hana, eða hvort utanríkismálan. á að undirbúa þetta mál í samráði við ríkisstj. Þetta gildir ekki einu þegar af þeirri ástæðu, að einn flokkur þingsins, Bændafl., á engan mann í utanríkismálan. Það hefir oftar en einu sinni komið í ljós, að stjórnarfl. vilja ekki, að hann fái sæti í þeirri n., þó að hann hafi óskað eftir því. Og ef hv. þm. Mýr. og hv. 2. þm. Reykv. hafa meint nokkurn skapaðan hlut með fagurgala — nei, ég skal ekki nota það orð — þeim hugðnæmu orðum, sem þeir viðhöfðu hér í sambandi við einlægar og hjartfólgnar óskir um samstarf og samvinnu í þessu efni, þá hlýtur afleiðing þess að verða sú, að þeir vilji gefa öllum stjórnmálafl. Alþ. kost á að hafa mann í þeirri n., sem á að undirbúa þessi mál.

Út af þeim ummælum hv. 2. þm. Reykv., að ástæðan fyrir því, að sjálfstæðismenn hafa sagt upp samvinnu í utanríkismálan, sé sú, að ég vilji persónulega ekki sitja í n., sem Jónas Jónsson á sæti í, og að ekkert annað hafi heyrzt sem ástæða fyrir því, vil ég láta nægja að segja aðeins það, að hv. 2. þm. Reykv. veit miklu betur. En ég ætla ekki að nota tíma þingsins í dag til þess að gera þetta að umræðuefni. Ég hygg, að blærinn á Sþ. í dag yrði ekkert virðulegri, þó að farið væri að gera upp sakirnar í þeim efnum, og geri það ekki, enda þótt hv. stjórnarfl. hafi gefið nokkurt tilefni til umr. um það mál. Ég leiði þess vegna hjá mér að svara þessum ummælum að þessu sinni.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að eins og það er ekki rétt hjá hv. þm. Mýr., að það skipti engu máli, á hvern hátt þessi n. er skipuð, þá er að minni hyggju það heldur ekki rétt, að engu máli skipti, hvort til þess sé vandað, að í ályktunum og samþykktum Alþ. um sjálfstæðismálið komi vilji þjóðarinnar skýrt og ótvírætt fram. Og ég leyfi mér í lengstu lög að vona, að hv. stjórnarsinnar geti sætt sig við að kveða skýrar á en gert er í þeirra till. með því að samþ. okkar till. Og ég leiði athygli þeirra að því, að ef þeir fella okkar till., Þá verður það kannske af einhverjum skilið þannig, að þeim hafi þótt of skýrt kveðið á í okkar till. um það, hvers þjóðin ætlaðist til í þeim efnum. En við skulum forðast að gefa nokkrum aðilja, hvort það er sambandssjóð okkar eða aðrir, tilefni til að álíta, að við séum ekki einhuga og án alls flokkarígs ákveðnir í að leiða þetta mál farsællega til lykta.