15.04.1937
Sameinað þing: 10. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (2320)

46. mál, meðferð utanríkismála o. fl.

Forseti (JBald):

Út af orðum, sem hv. 2. landsk. lét falla hér áðan viðvíkjandi skjölum og gerðabók í vörzlum Alþ., vil ég taka fram, að það mun vera rétt hjá honum, að gerðabók fullveldisnefnda hefir ekki fundizt í vörzlum Alþ. við eftirgrennslanir, og það hefir ekki verið hægt að spyrja uppi, hvar sú bók er niður komin, eða bækur, ef um fleiri en eina slíka bók hefir verið að ræða. Það er náttúrlega leitt, að Alþ. skuli ekki vita um svo merkilegt plagg sem þetta. Og ég tel rétt, að gerð verði gangskör að því að leita að þessari bók eða bókum.

Hinsvegar hefi ég fengið upplýsingar frá skrifstofustjóra alþ. um, að ekki hafi neinn innsiglaður skjalaböggull glatazt þaðan, og skrifstofustjóri kannast ekki við, að neinn innsiglaður skjalaböggull hafi verið í vörzlum alþ. frá Magnúsi Kristjánssyni, frá því er hann tók við forstöðu skrifstofu Alþ. (MT: Ég hefi séð þennan böggul með mínum eigin augum). Ég er að segja það, sem ég hefi fengið upplýsingar um frá skrifstofustjóra alþ.