01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2356)

34. mál, sjómælingar og rannsóknir fiskimiða

*Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Ég þarf ekki að tala langt mál um þessa till. Hún er beint framhald af þál., sem samþ. var hér á þingi í fyrra. Ég vildi þó taka það fram, að þar sem er farið fram á það í till. að heimila notkun á varðskipinu Þór til þessara rannsókna, þá er eru auðvitað ekki annað en heimild til að notfæra sér þetta skip í þessum tilgangi, ef það kemur ekki í bága við landhelgisgæzluna. En í því sambandi skal ég taka það fram, að eftir þeim skýrslum, sem Árni Friðriksson fiskifræðingur hefir gefið, þá kemur í ljós, að þessar rannsóknir í fyrra virðast hafa verið mjög í lausu lofti; jafnvel þó að árangur virðist hafa af þeim orðið, og það talsvert mikill, þá er það sýnilegt, að leiðangrar þessir hafa verið á ákaflega miklu flökti. Ég þykist sannfærður um, að heppilegra mundi að taka fyrir minna svæði og gera rannsóknirnar meira til hlítar. Jafnframt vil ég benda á, hvort ekki muni heppilegt að sameina rannsóknir á fiskimiðum og sjómælingar, þannig að hvortveggja gæti notið sína til fullnustu. Ég hygg, að það muni nauðsynlegt fyrir ríkisstj. að hafa í þessum málum ráð þeirra manna, sem sérfróðir eru á hvoru þessu sviði fyrir sig, áður en gerðar eru áætlanir og starfssvið markað í hvert skipti. Fiskifræðinginn höfum við, þar sem er Árni Friðriksson, en við höfum líka mann, sem er allvel að sér á hinu sviðinu, þótt ekki sé hann sérfróður maður í þeirri grein, en það er Friðrik Ólafsson skipherra. Ég teldi það heppilegt, að rannsóknirnar færu fram undir stjórn þessara manna. Það er engum vafa bundið, að sjómælingum hér við land verður haldið áfram, og er þetta því ágæt undirstaða, sem þarna gæti fengizt. Ég skal geta þess, að Íslendingur, að nafni Pétur Sigurðsson, hefir nýlega lokið sérfræðinámi í sjómælingum, og verður hann í sumar við sjómælingar með dönskum leiðangri. Er gott til þess að hugsa, að þef til vill getum við í framtíðinni notið krafta þessa manns. Árangur rannóknanna í fyrra virðist hafa verið fullkomlega eftir vonum. En það þarf ekki að efa, að ef unnt væri að hafa 2 skip í þessum rannsóknum, annað við sjómælingar og hitt til fiskirannsóknanna, þá mundi nást betri árangur. Þór er sjálfsagt ekki vel fallinn til að gera rannsóknir á fiskimiðum, þar eða hann er kraftlítið skip, en oft þarf að toga á miklu dýpi. Ég vildi þá sérstaklega beina því til hæstv. stj., að ef till. þessi verður samþ. — hvort hún vilji ekki athuga, hvort ekki sé heppilegt að binda rannsóknirnar við minna svæði en í fyrra.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta en vildi mælast til þess að ef till. færi til n., þá yrði henni vísað til sjútvn.