01.03.1937
Sameinað þing: 4. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (2369)

45. mál, sjávarágangur í Vestmannaeyjum

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég get vel fellt mig við, að málið fari til fjvn., fyrst þingsköp mæla svo fyrir, að það geti ekki farið til sjútvn., og vil ég þá breyta minni till. um það.

Hæstv. atvmnrh. gat þess, að hv. 3. landsk. hefði sagt sér, að Eiðið væri í hættu, og hefði hann þá snúið sér til vitamálastjóra. Það er líklegt, því að engum manni, sem er í Eyjum og hefir opin augum, getur dulizt, að þarna er hætta á ferðum, og er trúlegt, að hv. 3. landsk. hafi komið auga á þetta eins og allir aðrir.

Hæstv. ráðh. sagði, að það yrði að láta rannsaka þetta vel. Ég vil nú benda honum á, að í vitamálaskrifstofunni vinnur landskunnur verkfræðingur, sem hefir mikið verið riðinn við byggingu hafnarinnar í Vestmannaeyjum. Þessi maður er Finnbogi Rútur Þorvaldsson. Hann er eins kunnugur öllum staðháttum þarna eins og hver maður, sem á heima í Eyjum. Hann hefir dvalið þarna mánuðum saman og gert ýmiskonar athuganir um leið og hann hefir haft eftirlit með þeim mannvirkjum, sem ríkissjóður hefir haft hönd í bagga með á þessum stað. Aftur á móti ímynda ég mér, að vitamálastjóri sé tiltölulega ókunnugur þarna.

Fyrst farið er að minnast á þessar tvær leiðir, þá þykir mér rétt að geta þess, að sú aðferð, sem ég hygg, að vitamálastjóri hafi í huga, er svo gífurlega kostnaðarsöm, að en ímynda mér, að þetta yrði þá nokkurskonar eilífðarmál, ef átti að fara þá leið. Hinsvegar hefir verkfræðingur sá, sem ég minntist á, látið ótvírætt í ljós þá skoðun, sem fer í sömu átt og álit sjómanna í Eyjum, að það, sem gera eigi, sé að hressa upp á grandann eins og ég minntist á síðan. Það er aðgerð, sem er vel viðráðanleg og væri hægt að framkvæma mjög fljótlega. Hin leiðin, þessi „spoonsveggur“, yrði ákaflega kostnaðarsöm og hefði auk þess þann ókost, að ákaflega mikið fer í að kaupa útlent efni.

Hæstv. ráðh. sagði, að það yrði að bíða eftir áliti og till. vitamálaskrifstofunnar, og vil ég sætta mig við, að svo verði. En ég mun sjá svo um, að álit vitamálaskrifstofunnar verði gert kunnugt þeim, sem eiga að njóta þessa mannvirkis, og þeir fái að láta uppi álit sitt um, hvernig þeir óska eftir, að þetta verði framkvæmt, áður en fjvn. lýkur sínu starfi eða fellst á aðrahvora þessa leið, sem hér er um að ræða.

Ég vil að síðustu segja það, að hér er að vísu hlutur, sem þörf er að rannsaka, en hér er líka um hlut að ræða, sem á að framkvæma. Þess vegna vil ég benda hv. fjvn.mönnum, sem eiga að fjalla um þetta mál, á að athuga vel þær einföldu og ódýru leiðir, sem geta komið undireins til framkvæmda, um leið og þeir líta á þau stærri og meiri „plön“, sem útheimta meiri kostnað en hægt er að inna af hendi strax. Viðrétting Eiðisins er svo þýðingarmikil bæði fyrir jarðareiganda og landseta, að það má ekki draga úr hömlu, og undirbúningurinn má ekki taka það mikinn tíma, að ekki geti orðið úr framkvæmdunum næsta sumar.