19.04.1937
Sameinað þing: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í D-deild Alþingistíðinda. (2478)

85. mál, milliþinganefnd í bankalöggjöf o. fl.

*Frsm. minni hl. (Sigurður Einarsson):

Ég sé enga ástæðu til að karpa lengi um þetta mál við hv. flm. og hæstv. fjmrh. Ég hefi líka tekið aðalatriði minnar afstöðu svo greinilega fram í nál., að þess gerist ekki þörf. Hinsvegar gleður það mig, að hæstv. fjmrh. hefir játað, að í sumar af till. þeim, sem Alþfl. hefir borið fram, hafi verið lögð mikil vinna og bak við þær standi nauðsynleg rannsókn á málinu, og þetta var einnig játað af hv. flm. En svo segir hæstv. fjmrh. alveg út í bláinn, að það hafi verið lögð lítil vinna í aðrar till. flokksins, en um það veit hann ekki neitt. Hann hefir enga hugmynd um það, enda segir hann þetta eingöngu vegna þess, að þær hafa ekki komið frá n„ sem skipuð hefir verið opinberlega, en það er engin sönnun þess, að ekki hafi verið eins vandaður undirbúningur þeirra till. eins og frv. um seðlabankann.

Hæstv. ráðh. finnur afstöðu okkar alþýðuflokksmanna það til foráttu, að með frv. okkar sé að ræða um stofnun nýrra banka. Það má orða það svo, en réttara væri þó að segja, að í þeim felist ráðstafanir til að skapa nýja lánsfjármöguleika fyrir fyrirtæki og atvinnurekstur, sem er þess mjög þurfandi og hefir ekki fyrirgert rétti sínum til þess að verða slíks aðnjótandi frá hinu opinbera. Því að þar sem iðnaðurinn er, þar er um nýjan atvinnuveg að ræða, sem brotizt hefir upp úr engu og er að verða stór liður í hagkerfi okkar.

Ég get ekki ímyndað mér, að hæstv. ráðh. finnist það óeðlilegt, þótt ýmsir menn geti vel hugsað sér þá möguleika, að lánsfjármöguleikum ýmsra atvinnuvega verði ráðstafað og komið fyrir þannig, að þeir séu ekki á vegum þeirrar bankastarfsemi, sem nú er rekin. Það er vitað að því er iðnaðinn snertir, að hann hefir átt ákaflega erfitt uppdráttar, vegna þess að bankarnir hafa komizt inn á vissar brautir í starfsemi sinni, sem ekki hefir verið svo auðvelt að hverfa af, þar sem fjármagnið hefir verið takmarkað, sem þeir hafa haft yfir að ráða á hverjum tíma. Það verður aldrei hægt fyrir hæstv. ráðh. að gera neitt tortryggilegt út úr því, þó Alþfl. hafi hallazt að þessari leið. Og sízt getur hann látið sér koma þetta spánskt fyrir sjónir, þegar svo er komið, að hann sjálfur virðist vera orðinn augasteinn þeirra manna og fyrirtækja, sem aðallega hafa holað innan gömlu bankana, svo að gagnvart hinum nýja atvinnurekstri eru þeir ekki nema skelin ein.

Þótt ég kunni að hafa komizt svo að orði um mþn. þá, sem í ráði er að skipa, að hún væri ruslakista, þá var það eingöngu sagt með tilliti til þess, að það eru hirzlur, sem látnir eru í þeir hlutir, sem ekki er ætlunin að taka upp fyrst um sinn. Ég er sannfærður um, að till. um breytingar á starfsemi bankanna, sem fram kynnu að koma á næsta þingi, mun verða bægt frá á þeim grundvelli, að mþn. í bankamálum sé starfandi, sem sjálfsagt sé að tæki afstöðu til slíkra till.

En það er eitt, sem athuga má í þessu sambandi, og vil ég beina fyrirspurn til hæstv. fjmrh. út af því. Dagblað eitt hér í bænum hefir verið með óviðurkvæmilega og ósæmilega aðdróttun um það, að hæstv. forseti Sþ. hafi nú beitt forsetavaldi sínu gagnvart þessu máli, þar sem gefið er í skyn, að þetta muni hann hafa gert af því að honum leiki hugur á að koma í veg fyrir rannsókn á því bankafyrirtæki, sem hann veitir forstöðu ásamt 2 öðrum mönnum. Ég geri ráð fyrir, að sumir þeir menn, sem fram að hinum síðustu dögum hafa tekið blað hæstv. fjmrh. alvarlega, hafi rekið upp stór augu. Ég hefi ekki vitað til, að í vændum væri nein rannsókn á því bankafyrirtæki. Ég vildi mega spyrja hæstv. ráðh., hvað það sé, sem stendur til. Er honum kunnugt um, að fara eigi fram sérstök rannsókn á þessu bankafyrirtæki, svo að hæstv. forseti Sþ. sjái ástæðu til að misbeita forsetavaldi sínu til þess að hindra, að slík rannsókn færi fram? Sé svo ekki, þá er um svo ósæmilega blaðamennsku að ræða í sambandi við þetta mál, að maður fer að fá grun um, að ekki sé mjög hreint mjöl í pokanum hvað till. snertir, þegar gripið er til slíkra meðala. Mér dettur í hug, að það geti staðið í sambandi við það, sem ég, sagði áður um það, þegar hv. þm. G.-K. og hæstv. fjmrh. stóðu hér hlið við hlið og sneru bökum saman og vörðu afstöðu sína í viðkvæmu bankamáli fyrir skemmstu. Mér datt í hug það, sem sagt var einu sinni um persónu, sem var augasteinn annarar: „Mitt er þitt og þitt er mitt, og þú veist, hvað ég meina.“