24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég sé ekki minnstu ástæðu til þess að ræða um það við hv. þm., hvað hann hefir heyrt af sögum eftir trúverðugum mönnum, né hverju hann trúir af þeim og hverju ekki; það verður hann að gera upp við sjálfan sig. Það er ekki heldur minnsta ástæða til að greina honum frá því, hvernig samkomulag hafi verið milli stjórnarflokkanna á síðasta þingi. Hinsvegar þykir mér rétt að víkja að nokkrum öðrum atriðum í ræðu hans, þótt mest snerist hún um þetta tvennt, sem ég hefi drepið á.

Hv. þm. fullyrðir, að það sé fullkomið gerræði, sem beri vitni um fyrirlitningu fyrir þingræðinu, að setja bráðabirgðalög svo skömmu eftir þinglok. Ég hygg þetta hina mestu fjarstæðu. Það er á engan hátt hægt að miða nauðsyn bráðabirgðalaga við það, hvort langt eða skammt er liðið frá þinglokum. Sé á annað borð nauðsynlegt að nota heimildina til að setja bráðabirgðalög, skiptir engu, hvort langt eða skammt er liðið frá þinglokum, og slíka nauðsyn getur jafnt borið að, þótt skammt sé liðið frá þingi, eins og síðar. Mér skildist hv. þm. vilja telja vafasamt, hvort 23. gr. stjskr. heimilaði að gefa út bráðabirgðalög svona skömmu eftir þing. Að þeirri skoðun liggja engin rök, og er því raunar ekki ástæða til að svara henni. Það er augljóst, að það dregur ekkert úr heimild gr., þótt skammt sé liðið frá þinglokum.

Hv. þm. spurði, hvernig stæði á því, að ekki hefði verið flutt um þetta frv. á síðasta þingi og afgr. á venjulegan hátt, í stað þess að gefa út um það bráðabirgðalög. Ég svara því einu til um þetta efni, að sú aðstaða, sem myndaðist við það, að 2 stjórnarnefndarmenn verksmiðjanna sögðu af sér störfum, var ekki til fyrr en eftir þinglok. Ég hefi hinsvegar ekkert um það sagt — ég get gert hv. þm. það til geðs að segja það — hvort þetta kom mér mjög á óvart. Hitt liggur fyrir, að stjórn verksmiðjanna var fullskipuð, þegar þingi lauk, og þetta mál kom því ekki til úrlausnar fyrr en eftir þinglausnir. Þó vannst mér tími til að ganga úr skugga um, eins og ég sagði áðan, að þingvilji væri fyrir þeirri lausn, sem í bráðabirgðalögunum felst, og það er í þessu sambandi aðalatriðið.

Hv. þm. spurði, hverjir væru varamenn núverandi stjórnarnefndarmanna síldarverksmiðjanna. Ég skal játa, að ég man það ekki, en ég skal fá það upplýst fyrir framhaldsumr. þessa máls hér í d.

Ég sé svo ekki, að ræða hv. þm. gefi mér tilefni til að segja fleira, og get því látið þetta nægja að svo stöddu.