20.04.1937
Sameinað þing: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (2508)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Gísli Sveinsson:

Ég lét þess getið áðan, að það mundi ekki vera formlega rétt að ætlast til, að framkvæmd yrði þáltill., sem bryti í bága við gildandi l. En hér er fyrst á það að líta, eins og líka hefir verið tekið fram, að það liggur fullkominn þingvilji á bak við efni þessarar till. Þetta hefir forseti að vísu viðurkennt, en þó ekki séð sér fært að bera till. upp, þar sem l. eru fyrir um það, sem till. fer fram á. Þetta mun þó ekki vera allskostar fordæmalaust, allra sízt þegar um fjárveitingu er að ræða, því aðvið fjárveitingar úr ríkissjóði er það tiltölulega algengt, að þær séu veittar með þáltill., og jafnvel með ályktunum, sem breyta til frá því, sem samþ. er í l., a. m. k. fjárl., og það eru líka l. En hvað sem þessu líður, þá er það vitanlega aðalatriðið bæði fyrir mér og öðrum, að rekspölur komist á málið og bætur verði greiddar til foreldra. Nú eru allir orðnir sammála um það, að bætur þessar eigi að greiðast, þó sumir vildu ekki viðurkenna það í fyrra. Ég mun fylgja þessari till., enda þótt ég telji það skipta litlu máli í raun og veru að vera endilega að flaustra þessu af núna, því væntanlega kemur þingið saman aftur á þessu ári, og væri þá hægt að bera þetta fram sem breyt. á þeim.