20.04.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2513)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég vildi segja nokkur orð viðvíkjandi því, sem fram kom á fundi hér áðan, um fyrirspurn hæstv. fjmrh., hvort ég teldi, að eftir þessari brtt., sem ég hefi leyft mér að flytja og heimilar að greiða dánarbætur til foreldra fyrir fleiri en eitt barn, sem fellur frá, þannig, að þótt foreldrar missi eitt barn í dag og annað á morgun, þá eigi þau fullan rétt til dánarbóta. Með vinsamlegum skilningi á þessum kafla alþýðutryggingalaganna hygg ég, að óhætt muni vera að svara þessari spurningu játandi.

Út af orðum hv. þm. V.-Sk. um brtt. mína, þar sem hann gaf í skyn, að hún legði til, að lögin yrðu framkvæmd með því orðalagi, sem á þeim væri, þá er það alls ekki rétt. Það er farið fram á, að tryggingarstofnunin hafi framkvæmd þess kafla, og till. er eins vinsamleg og hún getur verið, og 11. gr. tryggingalaganna gefur tryggingastjórninni mikið vald hvað þetta snertir. Hún meti, að hve miklu leyti foreldrar eru á framfæri barnanna og hvort þeir eigi fullan rétt til dánarbóta. Ég álít, að þessi till. standi mikið til bóta, og hún heldur sér við þann grundvöll, sem með tryggingalögunum er lagður hvað snertir slysabætur, og þeim grundvelli er ekki hægt að raska nema með lagabreytingu.