20.04.1937
Sameinað þing: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í D-deild Alþingistíðinda. (2523)

162. mál, dánarbætur o. fl.

*Páll Hermannsson:

Ég átti þátt í að undirbúa þessi lög. Og ég ætlaðist til, að ákvæði þeirra væru það vel úr garði gerð, eins og hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. Ak. hafa túlkað þau hér. Það getur verið, að 77 gr. og 82. gr. beri þennan skilning með sér, og einnig að hægt sé að draga svikamyllu um 79 gr. laganna.

Ég get ekki komizt hjá að mótmæla því, sem hæstv. atvmrh, sagði, að það hefði verið skoðun þess meiri hl., sem að lögunum stóð, að þau yrðu þannig framkvæmd eins og verið hefir síðan þau gengu í gildi. (Atvmrh.: Það sest í grg.). Ég er hræddur um, að ef hæstv. atvmrh. spyrði einhvern flokksbróður sinn, sem stóð að þessari löggjöf, um þetta atriði, þá myndi hann fá sama svarið. Ég vil geta þess, að framkvæmd þessara laga í sambandi við elli- og örorkubætur, er býsna ranglát, — svo ranglát, að sveitarfélög fá ekki til úthlutunar sem nemur jöfnunargjaldi ellistyrktarsjóðanna, þrátt fyrir það, þó þau leggi einhverja upphæð á móti. Ég skal ekki leggja mikið til málanna um hina lögfræðilegu hlið málsins, hvort till. hv. þm. N.-Þ. sé frambærileg eða ekki. Ég skildi og skil ennþá lögin þannig, að vextir ellistyrktarsjóðanna í sveitum ættu að vera sérstök upphæð án þess að teljast framlag lífeyrissjóðs sveitar- eða bæjarfélaga.