24.02.1937
Neðri deild: 8. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki að blanda mér inn í þessar umr., þótt ástæða gæti verið til þess að sumu leyti. Það er verið að tala um þessi bráðabirgðalög, sem rignt hafi yfir frá núverandi ríkisstj. Ég vil benda á, að það er á margan hátt eðlilegt, að á tímum eins og nú sé þörf fyrir að gefa út bráðabirgðalög oft meir aðkallandi heldur en á venjulegum tímum. Ég verð því að segja, að þau bráðabirgðalög, sem gefin hafa verið út, hafa verið óumflýjanleg. Það má kannske segja, að það hafi verið vont, að grípa varð til þess að gefa út bráðabirgðalög um breyt. á réttarfarslöggjöfinni, rétt eftir að sú löggjöf var sett, en slíkt var óumflýjanlegt, til þess að hægt væri að halda uppi réttarfari í landinu. Að bráðabirgðalögin, sem gefin voru út á milli þinganna, séu 9 talsins, er eflaust rétt, en hitt er víst, að þau eru sum ekki fyrirferðarmikil.

Samþykkt sú, sem hv. þm. G.-K. las upp og gerð var á flokksþingi Framsfl., var án efa rétt upp lesin hjá hv. þm. En út af fyrirspurn hv. þm. í sambandi við hana vil ég taka það fram, að það hefir jafnan verið vilji Framsfl., að aðalflokkar þingsins ráði stj. síldarverksmiðjanna. Samþykkt sú, sem flokksþingið gerði, er því aðeins árétting á þeim vilja flokksins, að 3 aðalflokkar þingsins hafi íhlutun um stjórn þeirra.