15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Gísli Guðmundsson:

Ég hefi leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv. á þskj. 321 þess efnis, að á eftir 5. gr. frv. komi ný grein, um það, að lög þessi falli úr gildi 31. des. þ. á., þ. e. a. s. að bráðabirgðalögin gildi aðeins þangað til.

Þessi bráðabirgðalög voru á sínum tíma sett af ríkisstjórninni til þess að ráða bót á því ástandi, sem skapazt hafði innan stjórnar ríkisverksmiðjanna. Framsfl. taldi rétt, eins og þá stóð á, að gefa út þessi bráðabirgðalög, og er því meðábyrgur um setningu þeirra. Hinsvegar lít ég svo á, og ég hygg, að samflokksmenn mínir séu mér yfirleitt sammála um það, að sú skipun þessa máls, sem bráðabirgðalögin gera ráð fyrir, sé ekki til frambúðar, og að skipulagið þurfi við ákveðinna endurbóta.

Á flokksþingi framsóknarmanna í vetur var ákveðin yfirlýsing gefin um það, hvernig Framsfl. hugsaði sér skipulag þessara mála í aðalatriðum, og eru þær samþ. öllum kunnar. En þótt ég telji, að breyta eigi um skipun á stjórn verksmiðjanna frá því, sem mælt er fyrir í bráðabirgðal., álít ég samt, að tæplega sé heppilegt, nema sérstök knýjandi nauðsyn sé fyrir hendi, að skipta um stjórn á miðju starfsári, sem yrði með því, ef ný lög um þetta gengju í gildi fljótlega að þingi loknu. Í samræmi við þetta álit hefi ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 321, þar sem lagt er til, að breytt verði um skipun á stjórn verksmiðjanna um næstu áramót, þá með nýjum leigum.

Ég skal taka það fram, að fyrir þinginu nú liggur frv. frá hv. þm. Eyf. um nýja skipun á stjórn verksmiðjanna. Tel ég þar í aðalatriðunum byggt á þeim grundvelli, sem æskilegur væri í þessu efni.