15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ræða hv. þm. G.-K. gefur mér ekki tilefni til langra andsvara. Hann sagði að vísu, að Framsfl. hefði verið á móti þessum bráðabirgðalögum, þegar þau voru sett, en það er ekki rétt; ég veit það ósköp vel sjálfur, að þau voru sett með fullu samþ. Framsfl. Vinahót hv. þm. G.-K. við hv. þm. N.-Þ. eru hinsvegar gagnkvæm, og læt ég þau afskiptalaus.

Mér skildist á ræðu hv. þm. G.-K., að hann væri að grennslast eftir, hvort þingrof og kosningar væru í vændum. Ég get svarað því fyrir mitt leyti, að ég sé ekki ástæðu til þess að létta af honum þeirri óvissu, er ef til vill skapar nokkurn óstyrk í taugakerfi hans nokkra daga a. m. k. Það sýnir sig á sínum tíma, en ég geri ráð fyrir, að hann og hans flokkur verði ekki spurðir ráða um það, þegar til kemur.

Hv. þm. G.-K, sagði, að ef málið væri á ný leyst með bráðabirgðarlögum, sem sett væru gegn þingvilja, væri þar með gefið fordæmi fyrir allar aðrar stjórnir, sem ef til vill tækju við síðar. Og mér fannst nærri því á orðum hv. þm., að það fordæmi myndi verða notað, ef hann kæmist í þá afstöðu að hafa eitthvað þar um að semja. Út af þessu vil ég engu svara honum öðru en því, að ef þetta mál ber í annað sinn að á svipuðum grundvelli og það bar að síðastl. vor, þá verður hvaða ráðh. sem er að gera þær ráðstafanir, sem megna að koma málinu á sæmilegan grundvöll. Það er skylda hans sem ráðh.