15.04.1937
Neðri deild: 39. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Garðar Þorsteinsson:

Út af ummælum hæstv. ráðh. get ég endurtekið það, sem ég sagði áðan, að ég get nefnt nöfn fyrir honum. Hann getur að sjálfsögðu haldið því fram hér, að þetta séu ósannindi, en hvers vegna skyldu hans flokksmenn við síldarverksmiðjurnar á Siglufirði ekki viðhafa hlutdrægni, eins og vitað er, að hans flokkur yfirleitt gerir, og þar með þessi hæstv. ráðh., í sambandi við þau embætti, sem hann veitir? Hvers vegna skyldi það vera ótrúlegra, að hans verkstjórar við síldarverksmiðjurnar og aðrir starfsmenn, sem hafa aðstöðu til þess að viðhafa vinnuveitingu, þannig að þeir geti haft áhrif á þá, sem hjá þeim vinna, og sett að skilyrði ákveðnar pólitískar skoðanir, gætu beitt hlutdrægni við vinnuveitingu, þegar sjálfur atvmrh. veitir stöður eftir því, hvaða pólitískum flokki menn tilheyra? Ég fæ ekki séð, að það sé óeðlilegra, að þetta sé gert, þegar neðar dregur í mannfélagsstigann, heldur en ef æðsti maður sósíalista gerir það úr ráðherrastóli.