16.02.1937
Efri deild: 2. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Kosning fastanefnda

*Þorsteinn Briem:

Hv. þm. S.-Þ. var eitthvað að orða það, af hvaða rótum Bændafl. væri runninn. En hann misminnti furðulega um það atriði, því að honum má það bezt kunnugt vera, að Bændafl. er sprottinn af Framsfl. Hann er í fyrstunni sprottinn af því, að form. Framsfl. sýndi svo mikinn yfirgang í sínum flokki. Það var þetta, sem var frumrótin að Bændafl. Hirði ég ekki um að fara um það fleiri orðum að þessu sinni. Viðvíkjandi því, sem form. Sjálfstfl. kann að hafa sagt á þingi í fyrra, vil ég taka það fram, að þeim orðum var mótmælt þegar í stað af Bændaflokksmanninum í Nd. Form. Framsfl. virðist líta svo á, að það sé algild regla, að formenn flokkanna eigi atkv. og ráði yfir þeim, en ég skal nú minna hann á dæmi um það, að hún getur brugðizt. Ég hygg, að hann hafi orðið var við, meðal annars við síðustu kosningar, að hann átti ekki yfir þeim mönnum öllum að ráða, sem höfðu greitt hans flokki atkv. við næstu kosningar þar á undan. Það má vel vera, að ýmsir fyrrv. sjálfstæðismenn hafi kosið frambjóðendur Bændafl. við síðustu kosningar, en ég get fullvissað form. Framsfl. um það, að það voru miklu fleiri fyrrv. framsóknarmenn, sem kusu Bændafl., og það er ekki ólíklega til getið, að þeir verði jafnvel fleiri við næstu kosningar.