16.04.1937
Efri deild: 42. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

14. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Jón Auðunn Jónsson:

Mér þykir það undarlegt, að hv. 1. þm. Eyf. skuli telja það einhverja stefnu til bóta að ganga inn á það, að þessi bráðabirgðalög standi til ársloka. Hann veit þó, að stjórnarflokkarnir hafa framlengt a. m. k. 6–7 lög á hverju þingi, skattalög og annað, sem gilda áttu til eins árs, og ég get hugsað mér, að svo verði framvegis. En hitt undrar mig ennþá meira, þegar hv. 1. þm. Eyf. neitar því, að honum sé kunnugt um það, að hlutdrægni hafi verið beitt við veitingu starfa hjá síldarverksmiðjunni á Siglufirði. Hv. þm. hlýtur að vera um þetta kunnugt, því að maður, sem honum er mjög handgenginn og ræður miklu í hans flokki á Siglufirði, hefir látið þetta í ljós við mig og ekkert legið á því, þannig að það hlýtur einnig að hafa borizt til eyrna hv. 1. þm. Eyf.

Ein saga, sem ég hefi heyrt og skjalfest er og sönnuð, sýnir ákaflega vel, hvernig þessi mál eru rekin. Þegar búið er að fullráða við verksmiðjuna á Raufarhöfn og neita mörgum um vinnu, þá er, þegar vinna er byrjuð, sendur þangað maður með bréf frá framkvæmdastjóranum á Siglufirði, eða stjórn verksmiðjanna, þar sem fyrirskipað er að taka hann í vinnu. Þetta var alþekktur jafnaðarmaður, en sagður lítt hneigður til vinnu. Hann var svo þarna við verksmiðjuna í 10–12 daga og fékk sitt kaup, en þá seldi hann vinnuréttindin til annars manns fyrir 83 kr., en þóttist eiginlega illa svikinn síðar, er hann frétti, að maðurinn hafði haft meira upp úr sér en hann hafði búizt við. Ég skal gjarnan upplýsa það, hvað þessi maður heitir, ef farið verður fram á það, og lesa upp samninginn, sem hann gerði við manninn á Raufarhöfn, þegar hann seldi honum atvinnuréttindin.

Það er í sannleika sagt dálítið erfitt að eiga samstarf við menn eins og hv. 1. þm. Eyf. um að ráða bót á ástandi, sem er óþolandi, þegar runnið er frá öllu, og þau verk, sem maður vinnur í samráði við þá, eru gerð ónýt eða verra en það.