06.03.1937
Neðri deild: 15. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

37. mál, sala Sanda í Dýrafirði

*Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Allshn. hefir athugað þetta frv., sem er fram borið af hv. þm. V.-Ísf., og er sammála um að leggja með því, að það nái fram að ganga. Kirkjujörðin Sandar liggur nálægt Þingeyri, og íbúar hreppsins hafa óskað eftir því að fá aukið land til ræktunar. Samkomulag hefir orðið um það milli hreppsnefndar Þingeyrarhrepps og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, að þessi kaup á Sandatorfunni skyldu fara fram til hreppsins, en þó með ákveðnum skilyrðum. Helztu skilyrðin eru þau, að prestssetrið fái að halda nokkrum hluta landsins til umráða fyrir prestinn og að landið geti ekki gengið úr eign hreppsins og safnazt á fárra hendur. Það er gert ráð fyrir að skipta landinu í minni skákir, svo að sem flestir fái tækifæri til að rækta landið og að þetta verði gert í samræmi við áætlun, sem Búnaðarfélag Íslands hefir látið gera. Hreppsnefndin hefir ákveðið að hafa samvinnuræktun þarna. Þykir því vera tryggt með þeim samningum, sem liggja á bak við þessi l., að landið verði notað til hagsbóta fyrir íbúa hreppsins. N. þykir því ekki nema til bóta, að frv. nái fram að ganga, og mælir eindregið með því.