19.03.1937
Neðri deild: 22. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

41. mál, verkfræðingar, húsameistarar eða iðnfræðingar

*Frsm. (Emil Jónsson):

Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, þá er efni þessa frv. mjög einfalt, svo að ég þarf ekki að hafa um það mörg orð.

Frv. fer fram á það, að þessum atvinnustéttum þjóðfélagsins, verkfræðingum, húsameisturum og iðnfræðingum, verði veittur einkaréttur til þess að nota þessa titla, bæði til þess að tryggja þá sjálfa fyrir því, að aðrir komi inn í atvinnu þeirra heldur en sanngjarnt er, og svo á þetta líka að vera til öryggis fyrir það fólk, sem leitar til þessara manna eftir stuðningi og aðstoð, að það fari ekki til annara en þeirra, sem hafa fullkomið vit á þessum hlutum, og geti haft vissu fyrir að fá nokkurnveginn þá aðstoð, sem það þarf á að halda. Ég gat þess líka við 1. umr., að aðrar stéttir, svo sem lögfræðingar, læknar, skipstjórar o. fl., hafa þennan rétt. Margar stéttir hafa ekki aðeins einkarétt til að nota þessi nöfn, heldur líka einkarétt til að inna þau störf af hendi, sem þær stunda. Það mega ekki aðrir menn fara með skip heldur en skipstjórar, ekki aðrir eiga við lækningar heldur en læknar, og iðnaðarmenn hafa líka samkvæmt lögum einkarétt til að stunda þá iðn, sem þeir hafa lært, o. s. frv. Það, sem hér er farið fram á, er ekki nema beint áframhald að þessu, og fullkomlega sanngjarnt.

Frv. skiptist í þrjá aðalkafla. Fyrsti kaflinn er um verkfræðingana, annar um húsameistarana og þriðji um iðnfræðingana. Þessir kaflar eru allir hliðstæðir, og nægir því að lýsa einum þeirra, t. d. þeim fyrsta, um verkfræðinguna. Þar segir, að ekki megi aðrir kalla sig verkfræðinga en þeir, sem fengið hafa til þess leyfi ráðh., og að engum megi veita þetta leyfi, nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í verkfræði við fjöllistaskóla eða tekniskan háskóla og hafi auk þess fengið meðmæli stéttarfélags verkfræðinga hér á landi til þess, að honum verði veitt þetta leyfi. Mjög svipuð ákvæði eru sett um húsameistarana og iðnfræðingana. Til þess að þeir megi kalla sig þessum heitum, verða þeir fyrst og fremst að fá leyfi ráðh., og ráðh. á áður en hann veitir þessi leyfi, að leita um þau umsagnar viðkomandi stéttarfélaga.

Til þess að sýna, að þetta er ekki neitt einsdæmi, þá skal ég geta þess, að í afarmörgum löndum álfunnar er það a. m. k. svo, að þessir menn hafa þennan rétt, og enda í sumum löndunum miklu fyllri. Iðnn., sem hefir haft þetta mál til athugunar, hefir fengið í hendur skýrslu um, hvernig ástatt er í þessu efni, t. d. að því er snertir húsameistarana í 15 löndum. Þar af er heitið lögverndað í 12 löndum, og í sumum þeirra atvinnurétturinn einnig. Ég ætla ekki, að svo komnu máli, að fara að rekja það nánar, í hvaða löndum þetta er tryggt með lögum, en er reiðubúinn að benda á það, ef á þarf að halda.

Iðnn., sem haft hefir frv. þetta til meðferðar, er á einu máli um það, að ákvæði frv. séu nauðsynleg og sjálfsögð, en n. er þó ekki sammála um eitt atriði, nefnilega þá menn, sem nú þegar hafa tekið sér þessi nöfn. Eins og sest á frv., er í því gert ráð fyrir, að þeir menn, sem fá leyfi til að kalla sig þeim nöfnum, sem frv. fjallar um, hafi lokið ákveðnu prófi í sinni lærdómsgrein, en tveir nm., hv. þm. Ak. og hv. 6. þm. Reykv, sem nú flytja sérstakar brtt. á þskj. 109, vilja, að allir þeir menn, sem kallað hafa sig þessum nöfnum í sex ár eða lengur, áður en l. þessi ganga í gildi, skuli fá að halda þeim heitum með leyfi ráðh., án þess að ganga undir nokkurt próf eða að álits stéttarfélags í viðkomandi fræðigrein sé leitað. Meiri hl. iðnn. taldi rétt, að félag faglærðra manna í viðkomandi grein fengi að láta í ljós álit sitt á því, hverjir þeirra manna, er borið hafa verkfræðings-, húsameistara- eða iðnfræðingsheiti til þessa, ættu að hafa rétt til þess að hafa þau eftirleiðis. Í þessu einu er fólginn ágreiningur innan n. í þessu máli. Að hinu leyti er n. sammála um frv. og brtt. á skj. 91 og 92, í þá átt, að í stað stéttarfélaga komi skólar í viðkomandi greinum, og sömuleiðis er n. sammála um þá brtt., sem minni hl. n. hefir tekið upp, að í stað 10 ára í 2. gr. frv. komi 6 ár. N. er því sammála í þessu máli, að þessu eina atriði undanskildu, og geri ég ekki ráð fyrir, að þörf sé að ræða málið frekar, að öðru leyti en því er snertir þá menn, sem ágreiningurinn er um.

Það hefir verið svo, meðan frjálst var að nota þessa titla, að fleiri hafa tekið sér þá en höfðu til að bera tekniska þekkingu á þeim greinum, er þeir kenndu sig við. Meiri hl. n. fannst sjálfsagt, að á því fengist dómur fróðra manna, hverjir þessara manna fengju að halda þeim titlum, er þeir hafa tekið, og taldi meiri hl. ekki öruggt, eins og minni hl. leggur til, að leggja það eingöngu undir dóm ráðh., sem lítil eða engin skilyrði kynni að hafa til að fella úrskurð í hinum einstöku tilfellum, þótt allur væri af vilja gerður. Finnst meiri hl. því tryggilegra, að um þetta fjalli þeir menn, sem skyn bera á hlutina. Það má náttúrlega segja, að margir þeir, er tekið hafa þessa titla, hafi starfað þannig, að þeir eigi fyllilega skilið að halda þeim, þótt aldrei hafi þeir tekið háskólapróf, en meiri hl. finnst réttara, að sérfróðir menn fái að segja álit sitt um slík tilfelli, áður en nokkru er slegið föstu.

Um brtt. hv. minni hl. n. á þskj. 109 þarf ég ekki að tala langt mál. Þar segir, eftir að tilgreind eru þau skilyrði, sem menn þurfa að uppfylla, til þess að mega kallast verkfræðingar o. s. frv. eftir þessum lögum: „Sama rétt eiga og þeir menn aðrir, er að undangengnu verkfræðinámi (sömu ákvæði um húsameistara og iðnfræðinga) hafa kallað sig verkfræðinga og starfað sem slíkir a. m. k. 6 ár, áður en lög þessi öðlast gildi, og sanna fyrir ráðh., að þeir hafi leyst verkefni af hendi, er beri vitni um kunnáttu og dugnað.“ Það er náttúrlega ákaflega teygjanlegt, hvað vitnar um kunnáttu og dugnað, og gæti orðið sérstaklega erfitt fyrir ráðh. að greina það, ef hann hefði ekki umsögn kunnáttumanna. Ég held því, að mér sé óhætt að mælast til þess fyrir munn meiri hl. n., að brtt. hv. minni hl. á þskj. 109 verði felldar, en frv. ásamt brtt. á þskj. 91 og 92 samþ.