12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

116. mál, jarðræktarlög

*Hannes Jónsson:

Ég get tekið undir það með hv. 2. þm. N.-M., að ég gleðst yfir því að samkomulag hefir orðið um þetta mál. Út úr þessari eldraun hefir Búnaðarfél. komið miklu sterkara en áður. Og það er orðið viðurkennt, að félagið á að vera sjálfstætt eins og frekast er hægt. Það hefir þegar fangið fullt vald yfir öllum sínum málum. Þetta er mikið atriði. Og þó að breytt sé um skipulag Búnaðarfél. sjálfs, þá verður að viðurkenna, að sú breyt., sem búnaðarþingið gerði í því efni, hafði mikið fylgi bændanna á bak við sig. Og það út af fyrir sig var ekkert atriði, sem barizt var um, hvernig Búnaðarfélagið sjálft skipaði þessum málum sínum. Hitt var barizt um, hvort löggjafarvaldið ætti, að setja því ákveðnar reglur til þess að fara eftir. Og það er alveg ástæðulaust nú, eftir að fullt samkomulag og friður hefir náðst, að reyna að koma af stað óánægju og deilum milli þeirra aðilja, sem þarna hafa samið.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að nú væri hægt, eins og l. félagsins og jarðræktarlögin væru, að svíkjast aftan að bændum með því að breyta kosningafyrirkomulaginu. Hverjir eiga að svíkjast aftan að bændum? Þeir sjálfir geta ekki svikið sjálfa sig. Þeir munu fara eftir því, sem þeim þykir á hverjum tíma réttast. Ég hefi ekki ástæðu til að ætla, að þeir á næstunni láti sér detta í hug verulegar breyt. í þessum efnum. Þó er vitanlega ekki fyrir það að synja, að einhverntíma geti orðið breyt. á þessum hlutum. En ég geri þá ráð fyrir, að það verði í fullu samræmi við vilja bændanna sjálfra, og er þá ekkert hægt að hafa á móti því. Við erum ekki svo framsýnir, að við getum á hverjum tíma séð langt fram í hinn ókomna tíma og sett það skipulag, sem ástæðulaust sé að breyta nokkurn tíma. Það getur ekki komið til mála, að það verði svikizt aftan að bændum í þessum efnum. Verði gerð einhver breyt., þá er mikil ástæða til að ætla, að hún verði eftir vilja bændanna. Og ég geri ráð fyrir, að það megi treysta dómgreind þeirra og að þeir muni ekki ráðast í neinar slíkar breyt., nema þær séu til bóta.

Ég vil vænta þess, að það verði ekki hér á þingi reynt að koma af stað ósamlyndi út af þessum málum alveg að ástæðulausu og öllum til skaðsemdar.