09.04.1937
Efri deild: 35. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

87. mál, skráning skipa

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það er rétt, að þetta getur orkað tvímælis, en n. leit þó svo á, að í þessu sérstaka tilfelli væru ákvæði frv. nógu skýr, þar sem tekið er fram, að nöfn skipa megi ekki vera svo lík, að það geti valdið misskilningi. Nú er hið sameiginlega heiti „foss“ á skipum Eimskipafélagsins í augum og eyrum útlendinga einkennandi fyrir skip félagsins, og sá hluti skipsnafnsins, sem þeir festa í minni. En við erum ekki svo lögfræðir í n., að við séum vissir um, að þetta standist fyrir dómstólunum. Hinsvegar fannst okkur ófært að binda einkaleyfin við einhverja tegund nafna, fjalla- og fljótanöfn eða þess háttar. Okkur fannst ekki geta komið til greina að veita einstökum skipaeigendum einkarétt á slíkum tegundaheitum. En um Eimskipafélagið stendur alveg sérstaklega á, þar sem seinni partur nafnsins er ávallt sameiginlegur, bæði að efni og formi. Ég vil láta athuga þetta í n., en býst við því, að erfitt verði að finna ótvírætt orðalag. En ég veit, að n. er öll fús til að fallast á breyt., sem miða að því að gera þetta ákvæði skýrara.