12.04.1937
Neðri deild: 36. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Ég tel mér skylt sem frsm. sjútvn. að taka til máls út af þeim brtt., sem hér eru fram komnar. Við afgreiðslu málsins til 3. umr. virtist það koma greinilega fram í þessari hv. d., að meiri hl. þm. væri nú loks farinn að fá nokkurn skilning á þeirri nauðsyn, sem á því er, ekki sízt á þeim erfiðleikatímum, sem nú eru fyrir smáútveginn, að veita honum aðgang að því bjargræði, sem dragnótaveiðarnar geta verið og hafa verið yfir sumarmánuðina fyrir þá, sem smáútveginn stunda. En hér hafa nú gerzt til þess tveir hv. þm., að koma hreppapólitík inn í málið og fleyga það þannig, að ég tel þessu nauðsynjamáli stofnað í mikla hættu, og geta þeir þá haft það á samvizkunni, ef þeir verða til þess með till. sínum að eyðileggja þá bjargræðismöguleika, sem hér standa opnir fleiri hundruð sjómönnum og aðstandendum þeirra. Ef þeir Vestfirðingar, sem hv. þm. V.-Ísf. ber fyrir brjósti, og þeir Snæfellingar, sem hv. þm. Snæf. ber fyrir brjósti, geta ekki þolað, að neinir aðrir landsmenn veiði í þeim sjó, sem að þeirra lögsagnarumdæmum liggur, þá er engin ástæða að þola þeim, að þeir sæki mið undan landi annara lögsagnarumdæma. Ég hélt satt að segja, að það mundi sízt koma fyrir, að það yrði vakin hér upp aftur sú hreppapólitík, sem felst í 8. gr. l. um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi og samþ. var við 2. umr. að fella niður. Hvernig ætlast menn til, að þetta komi verulega til framkvæmda? Hvernig eiga varðbátarnir að geta greint það í misjöfnu skyggni, hvort bátarnir, sem sjást að veiðum, eru merktir frá Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu eða einhverjum öðrum lögsagnarumdæmum? Ég held, að eftirlitið yrði nokkuð gloppótt í þessu efni. Það mundi sennilega haldast það ófremdarástand, sem með dragnótaveiðunum hefir verið innleitt, að bátarnir veiða jöfnum höndum innan landhelginnar og utan, eru svo dregnir fyrir lög og dóm, veiðarfærin tekin af þeim og þeir dæmdir í sektir, er nema tugum þúsunda og vitanlegt er, að þeir geta ekki borgað. Þessar sektir nema oft hærri upphæð heldur en skipin eru metin. Það er orðinn blettur á íslenzku réttarfari og löggjöfinni til háðungar, að láta þetta ástand haldast. Þetta vilja þeir hv. þm. halda í, sem koma hér og vilja fleyga þetta mál. Ég held, að þeir hv. þm., sem vilja koma málinu fyrir kattarnef með þessu móti — því annar er tilgangurinn sýnilega ekki — ættu að athuga betur en þeir virðast hafa gert, til hvers þeir eru að stofna með sínum brtt. Þeir stofna beinlínis til þess, að engar rýmkanir á l. um bann gegn dragnótaveiðum verði lögfestar, og þar sem þær rýmkanir, sem nú eru í lögum, ganga úr gildi á þessu ári, er þar með loku fyrir það skotið, að landsmenn geti hagnýtt sér þessar veiðar nokkursstaðar innan landhelgi nema á ólöglegan hátt. Til þessa stofna hv. þm., þótt þeir viti bæði það, að árangurinn af dragnótaveiðum síðasta árs var yfirhöfuð ágætur, og eins hitt, að fjöldi bátaútvegsmanna, sem eru aðþrengdir eftir aflaleysi fyrri vertíða og vertíðarinnar í vetur, telja það sína einu bjargarvon, að geta haft gagn af dragnótaveiðum í sumar. Þetta telja víst flm. þeirra fleyga, sem hér eru fram bornir, lítils virði samanborið við þá hreppapólitík, sem þeir bera fyrir brjósti. Ég vil mælast til þess, að hv. d. felli þessar brtt., því að samþ. þeirra mundi sennilega leiða til þess, að þessi lög nái ekki fram að ganga, eða til þess óréttlætis ella, sem ósamboðið er Alþingi að stofna til.

Hv. þm. Snæf. minntist á, að þetta ákvæði hefði verið í lögum áður, að bátar, sem gerðir eru út við Faxaflóa og Breiðafjörð, skyldu vera einir um dragnótaveiðar á þessum flóum, og aðrir landsmenn mættu þar ekki nærri koma. Það er rétt, að þetta komst inn í frv. um breyt. á l. um bann gegn dragnótaveiðum við síðustu umr. þess í Ed., ég held á þinginu 1933, og var það gert til þess að snoppunga þm. Vestm. fyrir það, að hann hafði leyft sér að fara fram á breyt. á þessum l. Mér var vel ljóst, hvað til grundvallar lá hjá þeim hv. þm. Ed., sem komu þessu ákvæði inn í frv. En þetta gerðist á næstsíðasta degi þingsins, og var því á engan hátt hægt að nema þetta burtu úr frv. aftur, þegar það var þangað komið, nema það yrði málinu að fjörtjóni. Ég varð því að láta mér lynda, að mínir sveitungar, Vestmannaeyingar, væru ofurliði bornir í þessu máli og látnir sæta misrétti, þannig að öllum landsmönnum var opin leið til að fiska við Vestmannaeyjar, en Vestmannaeyingar máttu hinsvegar hvergi nærri landhelginni koma á Faxaflóa og Breiðafirði með sín veiðarfæri. Ég held, að hv. þm. Snæf. ætti að athuga það betur, ef hann metur nokkurs jafnrétti þegnanna í þessu landi, að þótt þessu ólukkans ákvæði væri smeygt inn í löggjöfina á þann hátt, sem ég hefi lýst, þá er það sízt til eftirbreytni fyrir nokkurn hv. þm. að viðhalda eða koma fram með á ný slík ákvæði, sem mismuna þegnunum svo gífurlega eins og till. hans og hv. þm. V.-Ísf. stefna að.

Ég vil svo að lokum endurtaka tilmæli mín til hv. dm., að þeir athugi vel, hvað þeir gera í þessu alvöru- og nauðsynjamáli bátaútvegsins, sem aldrei hefir verið eins þýðingarmikið og nú fyrir afkomu manna.