15.04.1937
Efri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (888)

24. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Um þetta mál urðu allmiklar deilur í Nd., og komu fram margar brtt., sem miðuðu að því, að hvert hérað byggi að sinni veiði, en þessar till. voru allar felldar, og var frv. samþ. eins og það kom frá 2. umr.

Menn hafa deilt um það, hvort dragnótaveiðarnar spilltu uppeldi fiska, en Árni Friðriksson fiskifræðingur telur lítil brögð að þessu. N. álítur, að eins og nú er komið fyrir smábátaútveginum, beri að rýmka leyfin til dragnótaveiða í landhelgi, og fellst hún því á þetta frv. Hafa smábátar, er stunda kolaveiðar, haft af þessu mikinn ágóða. Hafa 50 bátar á landinu stundað þessar veiðar, eftir nokkuð ófullkominni skýrslu Fiskifélagsins, og hefir meðalhlutur numið 300 kr. á mann. Þetta er betri útkoma en eftir þorskveiðarnar frá því í sumar og fram á haust. Hafa þær gefið hörmulega afkomu undanfarin ár, mest af því að afli hefir brugðizt við Norður-, Vestur- og Austurland, þar sem þessar veiðar hafa verið stundaðar áratugum saman eða lengur.

Hvort sem þessar veiðar kunna að spilla uppeldi ungviðis eða ekki, þá virðist það vera vísindalega sannað, að ekki eru mikil brögð að þessu. Og það má draga úr þessari hættu með því að setja reglur, er takmarka, hvaða fisk megi veiða smæstan, eins og gert hefir verið í Eystrasalti og Norðursjónum. Hafa England, Þýzkaland, Noregur og Svíþjóð sett ákvæði um það, að ekki megi veiða kola undir vissri stærð. Við hyggjum, að slíkar takmarkanir geti komið í veg fyrir, að ungviði verði spillt til muna. Raunar má alltaf búast við því, að nokkuð af smáfiski drepist við það að koma í botnvörpuna, þó að honum sé fleygt aftur. En það á ekki við um kolann. Hann er allra fiska lífseigastur og getur lifað 15–20 mínútur á þurru og verið jafngóður, þegar honum er fleygt aftur. Hafa menn oft, er menn koma í land, fleygt smæsta kolanum í sjóinn, og hefir hann lifað góðu lífi á eftir og ekki orðið meint af.

Árni Friðriksson sagði mér frá fundinum í London, þar sem 10 þjóðir lögðu til, að ekki mætti veiða smærri kola en 24 cm. Samkvæmt samningi Þýzkalands og Danmerkur hefir ekki mátt veiða smærri kola en 25,7 cm. Sumstaðar hefir lágmarkið verið sett 22 cm. Hjá okkur stendur nokkuð öðruvísi á en hjá þessum þjóðum. Við notum fremur aðrar fiskitegundir til manneldis, en koli þessarar stærðar og allt upp í 28 cm. selst varla á erlendum markaði, nema hann komi ísaður alveg nýr, en á því eru vandkvæði. Samkvæmt upplýsingum frá mönnum, er flutt hafa út slíkan kola undanfarin ár, hefir alltaf verið tap á honum, og telja þeir fjarstæðu að hirða hann. Og ætti að hraðfrysta hann, þá er enginn markaður fyrir þá vöru. Eina leiðin væri að ísa hann og senda hann út. Ég ætla ekki hér að stinga upp á neinni lágmarksstærð kolans fyrir n. hönd, en eftir upplýsingum, sem ég hefi frá sænska frystihúsinu, fiskimálan. og Árna Friðrikssyni, mun varla vera um að ræða að selja með hagnaði til útlanda minni kola en 28 cm. Hinsvegar mætti nota smærri kola hér heima. Árni Friðriksson leggur til, að ekki verði hirtur smærri koli en 27 cm., en smærri koli er ekki orðinn kynþroska og er lítils virði.

Það virðist svo, sem hér við Faxaflóa veiðist í dragnót ýmsir aðrir fiskar en koli, mest steinbítur og svo smáþorskur. En við Norðurland og norðausturland veiðist varla annað en koli með þessari aðferð, nema nokkuð af ýsu. — Ég get ekki gefið upplýsingar um það, hvaða möskvastærð væri hæfilegust að hafa við dragnótaveiðar, en ég legg áherzlu á, að nauðsynlegt er að setja slík ákvæði eða reglugerð um leið og l. yrðu staðfest.

Það er sérstök ástæða til þess nú að rýmka landhelgina, eins og í frv. er gert ráð fyrir. Við nokkrir nm. hefðum kosið sumt öðruvísi en í frv. er, en leggjum þó til, að það verði samþ., því að ef breyt. verður gerð á því, er hætt við, að það dagi uppi í Nd. Yfir smábátaútveginum við Norður- og Austurland vofir nú slíkt hörmungarástand, að ekki er von um þessa útgerð, nema hún fái að veiða kola til sölu á erlendum markaði.