08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (1053)

101. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Gísli Sveinsson:

Þetta frv. kom fyrst fram í Ed. og virðist vera samkomulagsmál stjórnarflokkanna. Ég veit ekki, hvern þátt hvor flokkur á í þessari löggjöf. En um III. kafla, sem fjallar um eftirlit með bæjar- og sveitarfélögum, virðist mér ástæða til að segja í framhaldi af orðum hv. 5. þm. Reykv., að ég tel kaflann að ýmsu leyti varhugaverðan.

Ekki á ég við það, að það sé of hart að gengið að setja „kontrol“, sem réði of miklu, að sumra dómi, hjá bæjarfélögum. Slíkt eftirlit er óhjákvæmilegt, enda hefir nú þegar til þess komið.

Öll þessi mál eru hjá atvinnumálaráðuneytinu. Öll skýrslusöfnun í þessu sambandi og annað er undir stjórn ráðh. og að öðru leyti útreikningar gerðir hjá hagstofunni. Meðferð þessara mála, eins og nú er, kostar svo sem ekki neitt. Það mun vera borgað fyrir útreikninga og aðra vinnu, sem sérstaklega er unnin vegna þessara mála í hagstofunni, framfærslumál og annað slíkt, sem hér kemur til greina, um 600 kr. En ef til þess að fela þessi mál og öll afskipti af þeim, yrði skipaður sérstakur eftirlitsmaður sem virðist vera meiningin, þá mun það verða dýrt. Það er ekki ástæða til þess, og það getur varla verið meiningin að setja upp sérstaka skrifstofu til þess að fara með þessi mál. Enda er það í mesta máta varhugavert að taka þessi mál frá stjórnarráðinu, þar sem þeim er bezt borgið og þar sem þau að réttu lagi eiga að vera, því að stjórnarvöldin bera ábyrgð á þeim. Þessi braut er mjög varhugaverð, og hafa síðustu tímar sannað það. Það er því ekki hægt að ganga þegjandi framhjá hverri till., sem kallað er, að sé til umbóta, en miðar að því að koma á nýjum, óþörfum, kostnaðarsömum breyt., sem í þessu tilfelli mundu leggjast með sínum útgjaldaþunga á hin aðþrengdu bæjar- og sveitarfélög. Í stað þess sem eftirlit þessara mála nú kostar 600 kr., megum við, eftir því sem fram hefir farið undanfarið, búast við, að það kosti ekki aðeins 600 kr., ef farið væri að eins og hér er gerð till. um, ekki heldur, að slíkt skrifstofuhald kostaði aðeins 6 þús. kr., heldur upp undir 50–60 þús. kr. Því að reynslan er sú, að þó eitthvað slíkt sem þetta byrji með einum til tveimum mönnum og litlum kostnaði, þá hefir kostnaðurinn fyrr en varir komizt svo hátt, að skipta tugum þús. Hér er því fremur varhugavert að leggja inn á þessa braut, að fjölga skrifstofum, sem það er vitað, að þessi mál eru bezt komin þar, sem þau eru nú, hjá ráðuneytinu. Ennfremur ef einum manni væri falið þetta eftirlit, þá væri einum manni þar með fengið í hendur allt of mikið vald, þar sem hann getur eftir frv. haft vald til að ráða miklu um ekki aðeins meðferð fjár bæjar- og sveitarsjóða, heldur einnig um það, hvernig farið verði með fé það, sem veitt er til atvinnubóta, hvernig því skyldi úthlutað. En umráð með því eru nú sumpart í höndum bæjar- og sveitarfélaga, en sumpart í höndum ríkisstj. En þetta er sýnilega saman tekið þannig til þess að láta þessa nýju stofnun hafa nægilegt verkefni. Virðist mér hætt við, að þessi stofnun, ef á kemst, verði ekki hægt að kalla annað en bitlingastofnun.

Ég vil að síðustu beina því sérstaklega til hv. n., sem um málið mun fjalla, að ég tel þetta frv., ef að l. verður, ekki aðeins óþarft vegna þess, sem ég þegar hefi sagt, heldur einnig skaðlegt, þar sem til þess er stofnað hér að fleygja fé til einskis og fela einum manni óeðlilega mikið vald.