21.10.1937
Efri deild: 7. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (108)

2. mál, atvinna við siglingar

*Jóhann Jósefsson:

Ég tel vist, að það hafi verið réttmætar ráðstafanir hjá hæstv. ríkisstj. að fá sett þau bráðabirgðalög, sem hér um ræðir, og að þar hafi legið fyrir brýn nauðsyn. En í sambandi við það ástand, sem er að skapast á þessu sviði að því er snertir vélstjórana, og það ástand, sem mér er sagt, að sé að skapast, að því er snertir faglærða menn, þá vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort honum virðist það ekki vera orðið nokkuð íhugunarefni, samhliða vaxandi atvinnuleysi meðal ungra manna, hversu þröngur aðgangurinn er nú orðinn fyrir unga menn, sem vilja komast að sem lærlingar í ýmsum iðnfyrirtækjum, bæði til þess að afla sér þekkingar til lífsstöðu, og líka til þess að vinna sér inn tíma, ef svo má að orði kveða, við verklegt nám, sem skólarnir, t. d. vélstjóraskólinn, gera að inntökuskilyrði. Eins og kunnugt er, þurfa menn til þess að verða vélameistarar að hafa leyst af hendi ákveðið verklegt nám og unnið vissan tíma í landi við verklegt nám, og það er í fleiri greinum, sem þetta verklega nám er einmitt skilyrði fyrir því, að menn geti fengið að taka þátt í þeirri bóklegu menntun, sem líka tilheyrir vélameistarastöðu og öðrum slíkum stöðum. Mér er t. d. sagt, að nú sé mikið útlit fyrir, að það verði skortur á nægilega lærðum rafvirkjum m. a., og skortur á meisturum hefir þegar komið í ljós á þessu ári, en ég ætla, að þar muni það sama liggja til grundvallar, einmitt þessar þrengingar og tálmanir, sem hvarvetna mæta þeim mönnum, í flestum tilfellum og öllum tilfellum ungum mönnum, sem vilja komast að sem lærlingar. Það eru þessar tálmanir, sem orsaka skort á hæfilegum kunnáttumönnum í ýmsum greinum. Það hefir verið talsvert um það talað, og sannarlega ekki að óþörfu, að viðgerð á skipum ætti að fara fram hér heima, í stað þess að fara með skipin til útlanda til þess að láta vinna þar verk, sem Íslendingar gætu unnið sjálfir. Ég hefi talsvert kynnt mér þetta og veit, að einn farartálminn þar er einmitt sá, að það er ekki nóg af lærðum smiðum, þegar skipaviðgerð á að fara fram með dálitlum hraða, og það eitt út af fyrir sig, að þeir menn eru of fáir, sem geta unnið slíkt verk, er eðlilega oft nægileg ástæða til þess að gera það óárennilegt og illfært fyrir eigendur skipanna að láta framkvæma verkið hér á landi, þrátt fyrir það þótt vinnan sjálf sé eins vel af hendi leyst og ef til vill ekki miklu dýrari en annarstaðar. En bara þetta atriði, að viðgerðarstöðin hefir, ef til á að taka, alls ekki nægu liði á að skipa til þess að framkvæma viðgerðina með viðunandi hraða, nægir til þess að hindra það, að sú venja verði almennt upp tekin hér á landi að fara ekki með skipin til viðgerðar út úr landinu. Hér ber að sama brunni í þessu efni. Það skortir nægilega lærða menn, hæfa fagmenn, og skortur á slíkum mönnum verður enn meira áberandi, eftir því sem eftirspurnin verður meiri eftir faglærðum mönnum á ýmsum sviðum, og sérstaklega er hætt við, að hann geti orðið svo að segja óþolandi, ef áframhald verður á sömu tálmunum, sem fram til þessa hafa torveldað mönnum, sem hafa viljað læra handverk eða iðn, að fá að læra það. Þetta tel ég vera alvarlegt íhugunarefni og vil leyfa mér að spyrja hæstv. stj., hvort hún hefir komið auga á þetta og hvort hún hefði í hyggju að reyna að fá úr því bætt. Sérstaklega er þetta ástand fádæma hryggilegt í þjóðfélagi, sem verður að horfa upp á það daglega, að ungir menn gangi marga mánuði ársins iðjulausir um göturnar, sér og öðrum til leiðinda og fara sjálfsagt, eins og oft vill verða, af þeim ástæðum út á aðrar götur en skyldi. Mér virðist það liggja í augum uppi, að ef rýmkað yrði til, meira en nú er gert, fyrir mönnum að komast að því að læra járnsmíði, trésmíði, rafvirkjun o. fl., og ýms höft tekin burt, sem þar eru nú, þá mundi að mun minnka sá hópur atvinnulausra ungra manna, sem nú er til í landinu, því að það veit ég með vissu, að fjölmargir úr hóp þessara ungu atvinnuleysingja vildu mjög gjarnan komast að sem lærlingar til að byrja með, til þess að læra það starf, sem þeir gætu svo lagt fyrir sig seinna í lífinu.

Ég hefi nú ekki fleiri orð um þetta, en vegna þess að ég hefi af eigin reynslu talsvert rekið mig á þessi vandkvæði, virtist mér vera tækifæri til að taka þetta fram, þar sem hæstv. ráðh. leggur fram frv. til staðfestingar á bráðabirgðalögum, sem hann hefir orðið að gera til þess að leysa vandræði manna. Ég vildi nota þetta tækifæri til þess að minna á þennan mjög svo alvarlega ágalla á fyrirkomulagi atvinnumálanna hér, þennan vaxandi skort fagmanna.