15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (1162)

52. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég ætla ekki að fara að bera hönd fyrir höfuð hætsv. forseta Nd. vegna meðferðar hans á þingmálum. (JBald: Ég sagði, að form. landbn. Nd. hefði skýrt frá því, að fyrir þeirri hv. n. hefðu legið 10 mál, sem þeir í landbn. treystu sér ekki til að afgr.; þessi nefndarformaður er hv. þm. Mýr., hálfgerður samþm. 6. landsk.). Ég þóttist líka hafa heyrt getið hæstv. forseta Nd. í þessu sambandi hjá hv. 9. landsk. Má vera, að það hafi verið misskilningur.

Ég get getið þess, að ég var algerlega sammála ræðu hv. 9. landsk. í flestum atriðum, því hún var mestmegnis sem tal fyrir einni þáltill., sem við höfum sameiginlega borið fram á þessu þingi. En ég ætla ekki að fara frekar út í það, af því að það kemur ekki beint þessu máli við, sem hér er nú til umr. En ég tek það fram að einmitt það, sem hann hélt fram í ræðu sinni, virtist vera, að þetta frv. veiti tryggingu fyrir því, að landeigendur fái innleyst veiðirétt sinn.

Við vitum allir, að það er hægara að skipa fyrir um veiðiaðferðir í ám, þar sem veiðin er stunduð af föstum félagsskap manna, heldur en þar, sem hver einstaklingur er að borast út af fyrir sig með að veiða, án félagsskapar. Og þess vegna álít ég heppilegt að stuðla að slíkri félagsveiði í ám. Hygg ég, að það gæti, ásamt öðrum þörfum lagaákvæðum, orðið til þess, sem er sameiginlegt áhugamál okkar beggja, ha-. 9. landsk. og mín, að fiskurinn friðist meira í veiðivötnunum og veiðin aukizt. Og að því ber að stuðla, ekki sízt nú, þegar mjög miklir erfiðleikar ganga yfir landbúnaðinn. Virðist mér ræða hv. 9. landsk. hafa í raun og veru miðað að því að styðja þetta frv., en ekki verið á móti því. Þegar hv. þm. athugar þetta betur, þá veit ég, að hann mun fallast á þetta frv. og sleppa öllum brtt. við það; en svo berjumst við fyrir okkar þáltill., sem við gerðum sameiginlega. Það fer miklu betur á því.

Ég held, að þetta mái liggi skýrt fyrir. Hér er aðeins verið að framlengja um tíma þann rétt, sem menn hafa haft, en einstakir menn hafa orðið of seinir til þess að nota sér, e. t. v. fyrir vangá. Ef við tökum þetta í sambandi við önnur 1., svo sem framlenging stimpillaga, þá sjáum við, að þar hefir það ekki valdið neinum erfiðleikum, þó að menn í þeim sökum hafi orðið heldur seinir til. Ég man ekki betur en að l. um það efni í sama tilgangi sem þetta frv., þ. e. a. s. um hliðstæða framlengingu, hafi verið samþ. með shlj. atkv. hér í deildinni.

Hitt atriðið, sem ég drap á og hv. 9. landsk. sagði ekkert um, er það, að hið opinbera veiti mönnum aftur vernd sína, sem það hefir svipt þá með löggjöf, sem ég gat um, verndun til þess að ná rétti sínum gagnvart veiðiþjófum, sem vaða uppi og eyðileggja veiðina í veiðiánum. Fyrir veiðiþjófum, sem stela veiðinni í ám og veiðivötnum, eiga veiðieigendur siðferðislega kröfu á verndun þess opinbera, þannig að veiðieigendum sé nóg að kæra þessi mál og þau verði þá tekin í hendur þess opinbera og rekin sem almenn lögreglumál. Það er sjálfsögð réttlætiskrafa, að löggjöfinni verði breytt þannig, að þessu verði svona fyrir komið, til þess að mál gegn slíkum ofbeldismönnum þurfi ekki að reka sem einkamál. Það er óviðurkvæmilegt í þessu þjóðfélagi, að slík mál séu ekki rekin sem almenn lögreglumál.