21.12.1937
Efri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (1165)

52. mál, lax- og silungsveiði

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Þetta mál hefir legið fyrir landbn., og hefir þar ekki fengizt samkomulag um það og ekkert nál. verið gefið út.

Í frv. er farið fram á að framlengja um nokkur ár það ákvæði laxveiðil., að menn geti keypt undir jarðir laxveiðirétt, sem undan þeim hefir gengið. Í l. átti þetta að gilda til 5 ára, en það kemur ekki fram í gr. eins og hún er í l., hver hafi verið meining löggjafans, nema að nokkru leyti. Þegar þetta mál var til umr. á Alþingi, kom greinilega fram í umr., að meining allra þeirra, sem til máls tóku, var sú, að þessi kauparéttur næði til alls veiðiréttar, sem hefðu verið seldur undan jörðunum. Sérstaklega höfðu menn þó í huga það, sem hafði verið selt undan jörðunum í seinni tíð. En gr. er svo orðuð, að hún getur eins átt við það, sem selt hefir verið undan jörðum fyrir nokkrum hundruðum ára eða hefir verið gefið með sérstöku gjafabréfi í vissu augnamiði, eins og oft hefir verið tilfellið. Það er spurning, hvort Alþingi hefir heimild til að lögskipa að selja undir jarðir veiðirétt, sem hefir verið gefinn þannig með sérstöku gjafabréfi í ákveðnum tilgangi til ákveðinna hluta, eins og er með veiðirétt, sem er nú í eign kirkna eða annara trúar- eða líknarstofnana í landinu á nokkrum stöðum.

Nú horfir málið þannig við, eftir að þetta ákvæði hefir verið í gildi í 5 ár, að búið er að kaupa undir jarðir aftur svo að segja allan veiðirétt, sem seldur hefir verið undan þeim á seinni árum, en sá veiðiréttur, sem eftir er, er aðallega sá, sem gefinn hefir verið undan jörðunum fyrir löngu síðan. Nú stendur t. d. að taka yfir í Borgarfirði, hvað eigi að gera við Gljúfurá hvað þetta snertir. Þar hefir verið farið fram á að kaupa veiðirétt, sem gefinn var fyrir geysilöngu siðan. Slík dæmi eru til fleiri. Þess vegna leit ég svo á, að tilgangi löggjafans með þessu ákvæði hafi þegar verið náð. Þannig er þetta í meginatriðunum, og maður veit ekki til með aðallaxveiðiárnar, að neitt hafi verið selt undan þeim. Þannig er það t. d. með Þjórsá og Ölfusá og árnar, sem í hana renna. Aftur á móti er Korpúlfsstaðaá ennþá séreign. Hún var seld undan jörðunum fyrir löngu síðan. En það þarf ekki að framlengja þetta ákvæði hennar vegna, því að það er búið að biðja um að fá hana keypta aftur undir jarðirnar.

Þegar við komum í Borgarfjörð, þá er þar Laxá, sem ein jörð hefir veiðirétt í, en á ekki nema lítinn hluta af landinn, sem að ánni liggur. Þetta er eitt af þeim tilfellum, þar sem veiðrétturinn hefir fallið undir jörð með gjöf fyrir mörgum áratugum og hæpið er, hvort þetta 5 ára ákvæði nær, jafnvel þó að það yrði framlengt, nema að gr. yrði jafnframt breytt. Lengra uppi í Borgarfirði hingað og þangað er svipað ástatt. Hvanneyrarkirkja hefir t. d. með gjöf fyrir löngu síðan haft veiðiréttindi í fleiri en einni á, sem ekki hafa enn verið kaupt undan jörðinni, heldur eru þau eign kirkjunnar, og eins og ég hefi sagt, tel ég vafasamt, hvort lög ná til þess, að hægt sé að kaupa þau undan. Eina stóráin á þessum slóðum, sem þannig stendur á um, að þetta gæti ef til vill náð til, er Haffjarðará, sem er á einni hendi, en ekki undir allar jarðir, sem að ánni liggja, en sá, sem ána á, er eigandi flestra jarðanna, því að hann hefir keypt þær, og það lítur út fyrir, að höfuðtilgangurinn eða ef til vill eini tilgangurinn með frv. sé sá, að með því að framlengja þennan innlausnarfrest á veiðiréttindunum um 5 ár sé búizt við, að menn muni fá einhvern vilja fyrir því hjá þeim mönnum, sem eiga lönd að Haffjarðará, að kaupa réttindin til sín aftur. En það hefir enn engin krafa komið fram um það á þessu tímabili, sem þetta ákvæði hefir verið í gildi. Því kann ég illa við, að búin séu til l. til þess að reyna að ná undir jarðirnar aftur einni einstakri á, og það því fremur, sem meðferðin á þeirri á hefir, síðan hún komst á eins manns hendur, verið einhver sú bezta, sem verið hefir á nokkurri á hér á landi, og öllum ber saman um, að veiðin í þeirri á hafi vaxið, að laxgangan í henni hafi aukizt óvenju mikið á þessu tímabili, enda hefir verið bæði skynsamlega veitt í henni og klakið í hana. Og þá komum við að öðru atriði þessa máls, sem sé því, að það lítur út fyrir, því miður, að þegar bændur eigu að veiða hver í sinu landi, þá vilji ákaflega oft verða misnotkun á veiðiréttinum og að árnar séu notaðar til að veiða úr þeim á þann hátt, að veiðin skemmist meira og minna, og eyðilegst stundum alveg. Eitthvað er þetta væntanlega að lagast nú á seinni árum með skilningnum á þessu, en ég fullyrði, að það vantar ákaflega mikið á, að sá skilningur sé almennt kominn í meðvitund þeirra, sem veiðiréttinn eiga, þegar fjöldi manna á í sömu ánni, að rétt og skynsamlega þurfi að fara með hana, svo að veiðin gangi ekki til þurrðar, og það lítur út fyrir, eftir reynslunni hér á landi, að þegar á er á hendi eins manns, þá séu miklu meiri líkur fyrir, að skynsamlega sé með hana farið heldur en þegar hún er á fleiri höndum. Að vísu hafa nú á síðustu árum verið mynduð veiðifélög um notkun einstöku ár, en þó er það svo enn með þessi veiðifélög, að alstaðar innan þeirra ríkir metingur um það, hvað hver jörð eigi að hafa og hvernig ána eigi að nota, og hann er svo mikill víða, að það eru eins miklar líkur til þess, að sum félögin liðist í sundur aftur eins og að þau geti haldizt við. Þess vegna er langt frá því, að ég sé viss um, að það sé nokkuð heppilegra, að veiðin falli undir þessar jarðir aftur, heldur en að árnar komi á eina hönd, og ég tala ekki um, ef þær komast á hönd ríkisins. Það er það langákjósanlegasta í þessu máli. Ég held, að það sé miklu skynsamlegri stefna heldur en að reyna að búta veiðina niður, svo að hún falli undir hverja einstaka jörð, sem land á að ánni. Ég tel það skynsamlegri stefnu, að gerðar séu ráðstafanir til þess, að árnar komist á hönd þess opinbera og gerðar séu ákveðnar reglur um það, hvernig eigi að veiða í hverri einstakri á, svo að trygging sé fyrir því, að sú veiðiaðferð sé notuð, sem bezt á við, til þess að hvorttveggja sé tryggt, að laxganga í ánni haldist og að sem beztur arður fáist af henni. Þetta verður varla gert með því að láta ána á margra manna hendur. Ég held þess vegna, að það sé ekki rétt að samþ. þetta frv. Hitt held ég, að sé mikið réttara, sem reyndar er búið að samþ. hér í hv. d., að laxal. séu yfirleitt endurskoðuð og að settar séu reglur um veiðiaðferðirnar og notkun hverrar ár, ef ekki er bægt að hverfa að því ráði, sem ég teldi albezt, að láta veiðiárnar yfirleitt komast í hendur þess opinbera og nota þær með hagsmuni fólksins fyrir augum. En ég geri ekki ráð fyrir, að sú stefna hafi meiri hl. með sér, og þá vil ég taka það næstbezta, og það er að samþ. reglur um veiðiaðferð og notkun hverrar ár út af fyrir sig. En það veit hver maður, hvort sem hann hefir nokkurn tíma séð lax eða ekki, að það hlýtur að vera ákaflega misjafnt, hvernig á að veiða í ám. Það eru notaðar allar veiðiaðferðir, allt frá því að „húkka“ hann upp í að taka hann í kistur, lagnet, ádráttarnet og veiða hann á stöng. Það þekkist engin veiðiaðferð til að ná lax í ám, sem ekki er notuð hér á landi af einhverjum, og bara með tilliti til þess, hvað mikill lax næst, án nokkurs tillits til þess, hvað framtíðarviðkomu laxins viðvíkur. Það er hægt að framkvæma laxveiði í ám þannig, eins og margsinnis hefir sannazt, að hún gefi mikinn arð eitt eða nokkur ár, en oftast er það gert á kostnað framtíðarinnar, og það borgar sig yfirleitt aldrei fyrir þjóðfélagið að reka neitt þannig, að það sé gert á kostnað komandi ára. Það þarf nefnilega að hugsa bæði um nútíð og framtíð, og ekki sízt þegar um veiði í ám er að ræða, sem getur orðið til þess, að laxinn gangi til þurrðar, eins og átakanleg dæmi eru um hér á landi. Ég er þess vegna á móti þessu frv. og tei það algerlega óþarft, m. a. vegna þess, sem ég hefi minnzt á, að það er búið að samþ. till. um endurskoðun laxalöggjafarinnar, og vegna þess, að ég álít, að þessi breyt. sé á móti einstökum manni, eiganda Haffjarðarár, og ég tel mjög vatasamt, hvort rétt sé með 1. að ganga inn á þá braut, að hægt sé að kaupa veiðiréttindi undir jarðir og ónýta þar með gjafabréf, sem gert hefir verið í ákveðnu augnamiði; en það litur út fyrir, að það eigi nú að teygja skilning l. inn á það svið. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Ég legg til, að. frv. verði fellt af þeim ástæðum, sem ég hefi tekið fram, ég tel óþarft og óviðeigandi og óréttmætt, að Alþ. framkvæmi ofsókn á hendur einstökum manni.