08.12.1937
Efri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (1198)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Frsm. 1. minni hl. (Ingvar Pálmason):

Ég sá ekki ástæðu til þess að kveðja mér hljóðs fyrr en þeir nm., sem eiga hér brtt., höfðu gert grein fyrir þeim, því eins og ég hefi tekið fram í nál., get ég vel sætt mig við, að frv. verði samþ. óbreytt. Hinsvegar geta komið þær brtt., sem ég gæti fallizt á, annaðhvort af því, að ég tel þær til bóta eða þá áliti, að þær skiptu ekki svo miklu máli, að ekki sé rétt að verða ekki við því að samþ. þær, ef það mætti verða til þess, að betra samkomulag næðist um málið.

Um málið almennt ætla ég ekki að ræða að þessu sinni. Það var gert við 1. umr. En ég mun snúa mér að brtt. og skýra frá afstöðu minni til þeirra. Tek ég þá fyrst brtt. frá 2. minni hl. sjútvn., og skal ég reyna að vera stuttorður. Það er skemmst af að segja, að ég er brtt. mótfallinn. Ég skal geta þess, að það leit út fyrir það um tíma, að ég gæti orðið 2. minni hl. samferða í nál., en þegar til þess kom að fella niður tvær fyrstu gr. frv., gat ekki orðið úr því.

Ástæðurnar fyrir því, að ég er mótfallinn þessum brtt., eru nokkurnveginn þær sömu og hæstv. atvmrh. hefir lýst. Ég tel, að þegar um svo fjárfrek fyrirtæki er að ræða og síldarverksmiðjurnar eru, sé með öllu óréttmætt að þau séu ekki undir eftirliti ríkisstj. Og á meðan ríkið er stærsti einstaki iðnrekandinn á þessu sviði, tel ég einnig af þeirri ástæðu alveg sjálfsagt, að eftirlit sé haft með byggingu slíkra verksmiðja. Hitt er jafnsjálfsagt, að ég tel, að það eigi ekki að koma til greina nein óeðlileg hindrun, meðan verksmiðjurnar eru ekki fleiri en það að álíta verður, að þær geri ekki meira en fullnægja framleiðsluþörfinni. Ég sé enga ástæðu til þess að neita einstaklingum um að byggja nýjar síldarverksmiðjur, ef þeir geta fært líkur fyrir því, að þeir geti fjárhagslega staðið undir þeim. En það er atriði, sem verður að taka til athugunar í hvert skipti, hvort viðkomandi umsækjandi geti virkilega komið þessu í framkvæmd, vegna þess, að af því getur leitt fjárhagslegt tjón fyrir ríkisheildina, ef mikið fé situr fast í slíku fyrirtæki og ekki er hægt að fullgera það.

Um 3. brtt. á þskj. 256 get ég verið stuttorður. Tel ég hana meinlitla og í sjálfu sér ekki annað en skýringu á frvgr. Ég hygg, að það verði að telja, að framkvæmdarstjórn, sem ferðast í þarfir verksmiðjanna, t. d. á milli þeirra, heyri undir það að hafa dvalarstað á Siglufirði, og sé ég enga ástæðu til að leggja á móti þeirri brtt.

Þá er það 4. brtt., við 6. gr. frv. Hún er um það, að breyta nokkuð þeim takmörkum, sem sett eru um heimild fyrir verksmiðjustj. til þess að láta gera umbætur á verksmiðjunum og bæta við þær. Ég skal játa það, að mér virðist svo í fljótu bragði, að upphæðin, sem ákveðin er í frv., geti í einstaka tilfelli orðið of lág, og ég skal lýsa því yfir, að ég fyrir mitt leyti er fús til að athuga þetta atriði milli umræðna, og mun ég geta fallizt á þessa brtt.

Út af ræðu hæstv. atvmrh. vil ég taka það fram, að það dæmi, sem hann nefndi, að nú lægi fyrir að koma upp löndunartækjum við síldarverksmiðjurnar á Siglufirði, er þannig vaxið, að allir sjá, að ekki er óeðlilegt, að slík ákvörðun sé borin undir Alþingi. Er nægur tími til þess að fá þetta samþ. á þessu þingi. Þetta er framkvæmd, sem ekki verður gerð á hverju ári. Og ég álít, að það sé ekki réttmætt, þótt hægt sé að benda á þessa og hina endurbót, sem kosti svo og svo mikið fé á einu ári, að nefna það sem dæmi þess; hvað mikið verksmiðjurnar þurfa árlega, til þess að geta fullnægt eðlilegri þróun. Eg held sem sagt, að enn sem komið er sé ekki ólíklegt, að þessi upphæð, sem fæst með 4% gjaldi af stofnkostnaðarverði verksmiðjanna, mundi nægja.

Ég hefi þá lýst þessum brtt. og get, eins og ég hefi þegar sagt, fallizt á þær sumar. Hinsvegar verð ég að lýsa mig andvígan brtt. hv. 3. landsk. sérstaklega brtt. um fyrningargjaldið. Ég get unað við, að það sé 5%, þótt það sé sennilega fulllítið, en hitt finnst mér ganga fjarstæðu næst, að lækka það niður í 3%.