08.12.1937
Efri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bernharð Stefánsson:

Ég vil þakka hv. 1. og 2. minni hl. fyrir undirtektir þeirra í málinu. (SÁÓ: Svo?) Hinsvegar sé ég ekki ástæðu til að þakka hv. 3. minni hl., og ég held, að það hafi verið verr farið en heima setið, að hv. 3. landsk. fór að blanda sér í þessar umr.

Ég mun þó ekki fara ýtarlega út í brtt. hans, enda munu þær allar vera dauðvona fæddar. Þó vil ég minnast lítið eitt á brtt. hans við 14. gr., þar sem ákveðið er, að 1% af brúttóandvirði renni í sjóð hlutaðeigandi sveitar- eða bæjarfélags. Þetta vill hv. 3. landsk. fella niður og skipta þar með bæjarsjóð Siglufjarðar þessum tekjum, en tekjurnar renni í jöfnunarsjóð. Ég held, að ef út á þessa braut er farið, væri eins sanngjarnt að krefjast þess, að allir embættismenn ríkisins gyldu skatt í sameiginlegan sjóð. Það væri miklu eðlilegra.

Hv. þm. taldi upp ýms óbein hlunnindi, sem Siglufjörður hefði af verksmiðjunum, hve margir sjómenn kæmu þangað o. s. frv., en hvað mætti þá segja um Reykjavík? Hæstv. atvmrh. sagði, að hér væri aðeins að ræða um skatt á verksmiðjurnar. En ætli ekki megi þá segja hið sama um fyrirtæki, t. d. útsvör Kveldúlfs til Arnarneshrepps? Hann sagði, að með þessu móti greiddu verksmiðjurnar öll gjöld sumra hreppa. En það er hægt að koma í veg fyrir þetta með því að ákveða, að þær greiði aldrei meira en 25% af gjöldum hreppsfélagsins.

Það er rétt að Siglufjörður óskaði eftir verksmiðjunum, og jafnvel einstakir menn þar vegna vonar um aukna atvinnu, en það er vísi um það, að ef verksmiðjurnar væru í Reykjavík, myndi hv. 3. landsk. ekki fara fram á að þær væru skattfrjálsar. Í Siglufirði bera verksmiðjurnar samkv. gildandi l. allt að 1/3 útsvar, og myndi bærinn því tapa miklu við það, að gjaldið yrði fært niður í 25%. Annars hefir það ekki verið praktiserað áður, að atvinnusveitir fengju einhvern vissan útsvarshluta, heldur verið lagt á fyrirtækin „eftir efnum og ástæðum“.

Ég vil að lokum spyrja hv. 3. landsk., hvort skilja beri 5. brtt. svo, að heimild til að kaupa síld til vinnslu falli niður, ef samþykki atvmrh. segir ekki til. þetta er aðeins fyrirspurn.