14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Bergur Jónsson:

Það er auðséð af þessum umr., að þeim er ekki ætlað að upplýsa málið, a. m. k. ekki frá hendi hv. þm. Ísaf., heldur var ræða hans aðeins málþóf til að tefja málið, svipað eins og aðalandstæðingar hans, sjálfstæðismenn, hafa stundum viðhaft hér á Alþingi.

Í raun og veru kom hann með lítil rök gegn því. sem ég sagði. Það hefir komið eitthvað illa við hv. þm., sem ég sagði, að illa gæti farið, ef ábyrgðarlítil stjórn væri fyrir verksmiðjunum. Ég tók það þó fram, að ég væri ekki að leggja dóm á núv. stjórn með þessum ummælum. Hitt vil ég segja, að ég álit, að teflt hafi verið á tæpasta vað með 8 kr. verðið í fyrravor, í stað þess að fara eftir till. Þorsteins Jónssonar um að greiða ekki nema ákveðinn hundraðshluta af verðinu fyrirfram. Eða hefði ekki verið varlegra að ákveða verðið ekki hærra fyrirfram en t. d. 1 kr.? (FJ: Hafa það hvað?). Hafa það ekki svo hátt, t. d. aðeins 7 kr. Ég spurði hv. þm., hvort hann væri viss um, að verksmiðjurnar stæðu við það verð, sem þær borguðu út í sumar. Í stað þess að svara spurningu minni, snýr hann spurningunni að mér og spyr mig, hvort verksmiðjurnar muni þola verðið. Hvernig á ég að svara? Ég veit það er mikið óselt af lýsi. Nei, það er hans að svara því, hvort niðurstaðan verður sú, að reksturinn beri sig. Hv. þm. hefir ekki svarað þessu, enda getur hann það ekki, vegna þess, að hann veit ekki, hvort hann getur selt.

Hv. 5. þm. Reykv. hélt hér eina af þessum vanalegu ræðum sínum, fullur af þjósti, rétt eins og hann sé að tala á sellufundi. Það var ein hugsun, sem gekk í gegnum alla hans ræðu, að bankavaldið væri hér að kúga Íslendinga. Þetta svokallaða bankavald er draugur, sem þessi hv. þm. og flokksmaður hans eru sífellt að glíma við, hvort sem nokkurt tilefni er til eða ekki. Var að skilja á honum, að form. Framsfl. hefði verið að veifa „bankavaldinu“ framan í hv. Ed. Ég vil benda hv. þm. á það, að kritík vinstri flokkanna á hendur bönkunum fyrir tap þeirra á einstökum fyrirtækjum stafar af því, að bankarnir hafa ekki gætt þess að setja nægilega örugg skilyrði fyrir sínum lánum til þeirra. Hér er um það að ræða, ef greiddur verður ákveðinn hundraðshluti af áætluðu verði til síldareigenda, en ekki fullt verð, og einkaverksmiðjur ætluðu svo að borga hærra verð, þá er spurningin sú, hvort heimilt væri fyrir bankana að setja það skilyrði fyrir lánum til þessara verksmiðja, að þær borgi ekki hærra verð en ríkisverksmiðjurnar. Mér finnst eðlilegt, að bankarnir settu þetta skilyrði til samræmis. Ég játa það, að ekki er hægt með l. að skuldbinda einstök fyrirtæki til að gefa ákveðið verð fyrir vöru og ekki hærra, en hinsvegar er það mögulegt fyrir bankana. Bankarnir eiga að setja þeim, sem þeir lána, það skilyrði, að þeir útborgi ekki hærra verð en svo, að reksturinn sé tryggur. Það kemur ekki í bága við löggjafarvald Alþingis. Það er skylda bankanna, sem þeir því miður hafa ekki ætið gætt, og þess vegna hafa þeir tapað á lánunum.

Hv. 5. þm. Reykv. var að tala um, að það þyrfti að setja ákvæði í l. um það, að verksmiðjurnar skyldi reka með hag almennings fyrir augum. Hann skoðar þetta mál líklega af sama sjónarhól og hann stóð á hér í gær. Ég veit nú ekki betur en það sé einmitt stefnt að því með þessu frv. Það er allt undir því komið, að svo stór fyrirtæki sem ríkisverksmiðjurnar geti borið sig, því þá aðeins verða þær til stuðnings atvinnuvegunum í landinu: (FJ: Hafa verksmiðjurnar ekki verið það?) Ég er hræddur um, að síðastl. sumar hafi þar verið teflt á tæpasta vaðið. Hið eina öryggi, sem verksmiðjurnar hafa, er að bjóða ekki hærra verð í síldina en það, sem þær geta staðið við. Ef verksmiðjurnar eru látnar kannske ár eftir ár yfirborga þá vöru, sem þær vinna úr, þá leiðir það óhjákvæmilega til hruns, ekki aðeins fyrir verksmiðjurnar sjálfar, heldur alla þjóðina.

Þessir þm. báðir, hv. 5. þm. Reykv. þó meir, ganga nú á það lagið að reyna að espa útgerðarmenn og sjómenn sem mest gegn síldarverksmiðjunum. Þeir fara nú sömu leiðina og hv. þm. Ísaf. var að átelja sjálfstæðismenn fyrir að vilja fara 1936. Árið 1936 stóð hv. þm. Ísaf. sig sæmilega, svo að verksmiðjurnar gátu nokkurnveginn staðið við það verð, er þá var útborgað. Ef farið hefði verið eftir till. sjálfstæðismanna þá, veit hv. þm. Ísaf., hvernig farið hefði.

Hv. þm. Ísaf. var að tala við mig eins og barnakennari. Hann hélt víst, að ég vissi ekki, að undanfarið hafa verksmiðjurnar keypt síld við föstu verði, þó lögin mæli svo fyrir, að aðallega eigi að taka vöruna með áætlunarverði, þar sem nokkur hluti sé útborgaður við móttöku. Hann þurfti ekki að upplýsa mig um þetta. Ég hefi alltaf haldið því fram, að sú leið væri hin eina örugga; þó að kaup við föstu verði gætu komið til greina undir vissum kringumstæðum, þá felst í hinni aðferðinni hin eina höfuðtrygging fyrir því, að ekki sé farið gapalega og glannalega með fjárhag verksmiðjanna.

Hv. þm. Ísaf. viðurkenndi það, að sjálfsagt væri, að þingið hefði íhlutun um skipun verksmiðjustj., svo hann ætti að geta verið ánægður með ákvæði frv. um þetta efni. Það er að vísu rétt, að við hv. þm. Ísaf. fluttum hér um árið frv. til l. um ríkisverksmiðjur, þar sem atvmrh. átti að skipa alla verksmiðjustj. En síðar gerðust þau undur, að jafnaðarmenn í verksmiðjustj. tóku höndum saman við Svein Benediktsson gegn framsóknarmanninum í verksmiðjustj. og gerðu allt samstarf í verksmiðjustjórninni ómögulegt.

Annars finn ég ekki ástæðu til að rifja upp þessa atburði, en læt nægja að vísa til þess, er ég áður sagði, að það er sjálfsagt að haga rekstri þessa fyrirtækis svo, að hagur almennings, ríkis og höfuðatvinnuvegirnir sitji í fyrirrúmi fyrir öllu öðru.

Stundum tæpti hv. þm. Ísaf. á því, sem haldið hefir verið fram í blaði hans, Alþýðublaðinu, undanfarna daga, að leynisamningar ættu sér stað um lausn þessa máls milli Framsfl. og Sjálfstfl. Ég benti honum á, að þær aðgerðir, sem farið hafa fram í málinu, eru allar fyrir opnum tjöldum. Honum fannst það eitthvað hneykslanlegt, að fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. í þeirri n., er undirbjó frv., urðu sammála um skipun stjórnarinnar og ýms önnur atriði frv. En eins og hann veit, var sumu í frv. breytt í hv. Ed. með atkv. hv. sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna á víxl. Þar var alls ekki einhliða atkvgr., eins og hv. þm. veit, en af því hann er sífellt að blanda Kveldúlfi, Sambandi ísl. fiskframleiðenda og fiskimálanefnd inn í umr., tek ég þetta fram, án þess ég ætli mér að fara að svara fyrir þessar stofnanir. Ég býst við. að fulltrúar Kveldúlfs svari fyrir sig, enda sé ég ekki, hvað þetta kemur þessu máli við.