21.12.1937
Neðri deild: 56. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Það eru nú heldur þunnskipaðir bekkir hér í d. og kannske ekki ástæða til að fara mörgum orðum um þetta mál. Önnur ástæða gæti líka verið til, sem yrði þess valdandi, að þýðingarlítið sé að ræða þetta mál verulega. En hún er sú, að svo virðist, sem örlög þess séu ráðin, með samningi á milli Framsfl. og Sjálfstfl., og er það svo sterkur samningur, að það hefir ekki haft neina þýðingu að benda á það í sjútvn., sem um mál þetta fjallar, að frv. það, er fyrir liggur, felur í sér m. a. ákvæði, sem eru alveg röng. Og skal ég sem dæmi benda á bráðabirgðaákvæði í niðurlagi frv., þar sem sagt er með berum orðum, að eftir sé ennþá að greiða erlendum seljanda, dr. Pauls verksmiðjunni, tveggja ára afborgun. Nú er það sannað með reikningum verksmiðjanna, að ekki er eftir að borga nema eins árs afborgun.

— Það lítur helzt út fyrir, að meiri hl. sjútvn., þrátt fyrir það, að búið er að benda honum á þetta alranga ákvæði í lögunum, vilji samt sem áður lögleiða það, að erlendir seljendur verksmiðjanna fái 2 ára afborgun, þó sannað sé, að það sé aðeins ein, því að ekki hefir fengizt samkomulag um það í n. að fella burt þetta ramvitlausa og ranga ákvæði. Ég hefi gert tilraun til þess í n. að fá málið rætt þar, en það var mjög erfitt að fá samkomulag um það, heldur var krafizt tafarlausrar afgreiðslu. Sérstaklega var hv. þm. Barð. mjög órór á þessum stutta nefndarfundi okkar og sagði, að það væri ekki til neins að ræða þetta mál, því að það yrði að ganga fram svona eins og það væri. Nú skal ég fallast á það, að þessir 2 flokkar, sem sýnilega standa saman um afgreiðslu þessa máls, hafa sjálfsagt rétt til þess að ákveða, hve lengi umr. skuli standa á Alþingi, þó innan þess ramma, sem þingsköpin ákveða. Ég vil benda á og undirstrika, hve vandlega gerður þessi samningur litur út fyrir að hafa verið, þar sem ekki má breyta í frv. ákvæðum um að borga erlendum seljanda tveggja ára afborgun, þó sannanlegt sé, að ekki sé eftir nema ein afborgun. Ég hefi leyft mér að leggja fram brtt., til þess að freista þess, hvort hv. d. líti svo á, að það sé sæmandi Alþingi að afgr. frá sér í lagaformi önnur eins ákvæði sem þessi, sem eru sannanlega röng og villandi, og e. t. v. geta orðið þess valdandi, að sá erlendi seljandi gæti gengið eftir eins árs afborgun af verksmiðjunum í viðbót við það, sem hann á rétt á. Þetta ákvæði, ef það stæðist fyrir dómstólunum, myndi verða til þess að baka ríkissjóði a. m. k. 50 þús. kr. útgjöld, og þá sennilega vexti af þessum afborgunum, sem sá erlendi seljandi er búinn að fá.

Um frv. þetta að öðru leyti eða einstakar gr. þess vildi ég leyfa mér að fara nokkrum orðum. Það er alkunnugt, að snemma á árinu 1936 var orðinn svo mikill ófriður innan þáv. verksmiðjustj., að 2 verksmiðjustjórnarmenn sögðu af sér. Var það orðið sýnt og sannað, með því fyrirkomulagi, sem á stjórn verksmiðjanna var, að ekki var hægt að stjórna þeim af neinn viti. Nú mun meiri hl. Alþ., sem samanstendur af Framsfl. og Sjálfstfl., vera þess alráðinn að lögleiða á ný það fyrirkomulag um stjórn ríkisverksmiðjanna, sem hefir sýnt sig að vera þannig, að ekki var unnt að stjórna þeim. Ég hefi álitið það skyldu mína að benda þeim þingdm., sem annars kunna að vera ráðnir í því samkv. flokkssamþykkt að greiða þessu fyrirkomulagi atkv., á það, að það eru engar líkur til annars en að sækja muni í sama horfið um stjórnina. Ég vil leyfa mér að benda þeim á, að þeir taka á sig með atkvgr. um þetta mál ákaflega mikinn ábyrgðarhluta. Þar sem ræðir um svo stórt ríkisfyrirtæki, þá ber þeim í rauninni skylda til að ganga svo frá þessu máli, að nokkurnveginn sé full vissa fyrir því, að þessu stóra fyrirtæki sé stjórnað þannig, að bæði verði að gagni fyrir viðskiptamennina og fyrir ríkið í heild. Ég þykist að vísu sjá, að frá hálfu þeirra manna, sem mest hafa barizt fyrir þessum ákvæðum í síldarverksmiðjulögunum, sé að því stefnt, að þetta mál verði sýnilega þeirri ríkisstjórn, sem nú er við völd. að fyrsta og stærsta fótakefli. Því að það er alveg greinilegt, að ef ekki verður samkomulag milli stjfl. um það, hvernig eigi að fara með þetta stóra fyrirtæki, þá getur heldur ekki orðið samkomulag milli stjfl. um önnur atriði. Ég segi þetta vitanlega frá mínu sjónarmiði, en tala á engan hátt fyrir munn ríkisstj. Ég segi þetta frá mínu sjónarmiði sem þm. og sem fyrrv. stjórnandi ríkisverksmiðjanna. Ég býst við, að verði þetta mál afgr. svona, þá sé það einskonar .,mene tekel“ fyrir samvinnu núv. stjfl. og fyrir setu núv. ríkisstj. Hvort það leiðir strax að samvinnuslitum eða ekki, veit ég ekki um, en ég veit, að til þess mundi leiða fyrr eða síðar, ef þetta mál yrði afgr. í fullkomnu ósamlyndi milli flokkanna. Skal ég færa nokkur rök að þessu. Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að í stjórn ríkisverksmiðjanna verði kosnir 5 menn með hlutbundinni kosningu, og er öllum þingheimi vitað, að þetta ákvæði er fyrirfram upphugsað til þess að koma fyrrv. form. verksmiðjustj., Þormóði Eyjólfssyni, inn í verksmiðjustjórnina. Það hefir verið leitað samkomulags um það af hálfu Alþfl. við Framsfl., hvort ekki mætti setja það ákvæði inn í frv., að atvmrh. skipaði form. verksmiðjustj. Því hefir verið þverlega neitað, og verður þá það fyrsta, sem þessi verksmiðjustj. þarf að gera, að kjósa sér formann.

Nú er það et til vill eðlilegasti gangur þessa máls, að form. verksmiðjustj. yrði kosinn af Framsfl., þar sem Framsfl. er ætlað að hafa 2 menn í verksmiðjustj., en Alþfl. ekki nema 1 mann. En þó er það vitanlega að athuga, að verksmiðjan heyrir a. m. k. ennþá undir atvmrh., og atvmrh. hefir svo mikils að gæta við verksmiðjurnar, hver sem hann er á hverjum tíma, að eðlilegast er, að form. sé úr sama flokki og atvmrh. Nú geri ég ráð fyrir því, að það fyrsta, sem stj. geri, sé að kjósa sér form., þar sem vitanlegt er, að Framsfl. hefir lagt fyrst og fremst áherzlu á það, að þetta frv. yrði afgr. í þessu formi, til þess að koma Þormóði Eyjólfssyni, sem teist að vissu leyti forystumaður flokksins á Siglufirði, sem formanni inn í verksmiðjustj. Þá er vert að athuga, hverjar líkur væru til þess, að Alþfl. gengi inn á að kjósa Þormóð Eyjólfsson sem form. í stj., og ég fyrir mitt leyti tel, að til þess séu engar líkur, að alþýðuflokksmaður, hver sem hann er, fáist til þess nokkurn tíma, og það af þeirri ástæðu, að Þormóður Eyjólfsson, meðan hann var form. verksmiðjustj., gætti ekki hagsmuna verksmiðjanna á þann hátt, að það komi til mála að alþýðuflokksmaður nokkurntíma veiti honum það traust, að kjósa hann sem form. verksmiðjustj. aftur. Þó mér þyki það leitt, verð ég að draga utanþingsmann inn í þessar umr., af því að ég er að ræða um stjórnarfyrirkomulag á verksmiðjunum, þær líkur, sem fyrir því eru, að það stjórnarfyrirkomulag, sem stungið er hér upp á, geti orðið verksmiðjunum farsælt.

Ég hefi nú í fyrradag í Alþýðublaðinu leitt mjög sterkar sönnur á, að þessi maður, sem ég nefndi, hefir gætt hagsmuna ríkisverksmiðjanna á þann hátt meðan hann var þar stj. formaður, að Alþfl. mun aldrei greiða atkv. til þess, að hann verði það á ný, og mun aldrei geta sætt sig við það. Ég hefi bent á það, að Þormóður Eyjólfsson, jafnframt því að vera formaður verksmiðjustj., var umboðsmaður fyrir Sjóvátryggingarfélag Íslands. Og ég hefi bent á það, að það er alsiða að gefa viðskiptamönnum sjóvátryggingarinnar a. m. k. 10% og jafnvel 15% afslátt á sjóvátryggingariðgjaldi. Ég hefi bent á það, að í sögu ríkisverksmiðjanna . þekkist það ekki, nema lítinn hluta á árinu 1935, að þessi afsláttur væri greiddur. Gangur þessa máls er þannig, að umboðsmaður Sjóvátryggingarfélags Íslands, Þormóður Eyjólfsson, hefir ekki greitt formanni verksmiðjustj. afslátt af þessu iðgjaldi, svo sem þó venja er til, a. m. k. hefir verksmiðjan aldrei fengið þann afslátt. Nú hefi ég í þeirri grein, sem ég hefi skrifað um þetta, ekkert sagt annað en það, sem ég er alveg viss um, að er skjallega sannað og bókfest í fundarbók ríkisverksmiðjanna. Ég hefi í nefndri grein bent á það, að strax og núv. verksmiðjustj. varð þess áskynja, að þessi afsláttur hafði ekki verið greiddur, þá hafi hún hafizt handa um að heimta hann greiddan. En forstjóri Sjóvátryggingarfélagsins, sem í símtölum, að Þorsteini Jónssyni, fulltrúa framsóknarmanna, áheyrandi, hefir viðurkennt, að það væri fastur siður að greiða a. m. k. 10% —15% afslátt af sjóvátryggingargjöldum, hefir neitað að greiða afsláttinn nema fyrir tvö ár aðeins, og þó með því móti, að verksmiðjurnar héldu áfram föstum viðskiptum. En nú höfðu áður verið útveguð tilboð frá erlendu vátryggingarfélagi, og þar munaði 13 þús. kr. frá vátryggingartilboði Sjóvátryggingarfélagsins, hvað hin erlendu iðgjöld voru lægri. En vátryggingarskilmálar voru að öllu leyti þeir sömu. Og það munaði þessum 13 þús. kr. eftir að Sjóvátryggingarfélagið var búið að bjóða 15% afslátt, bæði á bruna- og sjóvátryggingum. Svona óhagstæð kjör voru það, sem umboðsmaður Sjóvátryggingarfélags Íslands bauð, og jafnvel formaður verksmiðjustjórnar, Þormóður Eyjólfsson, sætti sig við fyrir verksmiðjanna hönd ár eftir ár. Ég held því fram, að í þessari grein minni sé ekkert annað en það, sem er skjalfest í bókum ríkisverksmiðjanna, ekkert annað en það, sem er hægt að sanna hvenær sem er fyrir rétti. Ég hefi hinsvegar ekkert sagt um það, hvort ég álíti, að þessi afsláttur hafi verið greiddur Þormóði Eyjólfssyni. Það er þess vegna alrangt, sem haldið hefir verið fram í útvarpstilkynningu, að ég hafi dróttað því að Þormóði, að hann hafi dregið afsláttinn í sinn vasa. Ég hefi ekkert gert annað í mínu skrifi en að benda á það, að Þormóður sem formaður verksmiðjustj. gætti ekki þeirrar sjálfsögðu skyldu að sjá um það, að ríkisverksmiðjurnar fengju afslátt í sjóvátryggingariðgjöldum og sætu beztu kjörum um iðgjöld. Mér er þess vegna ekkert annað kærkomnara en að rannsókn fari fram í þessu máli. Ég veit, að þessi rannsókn hlýtur að leiða það í ljós, sem ég hefi hér sagt.

Ég sé í blaði framsóknarmanna frá í morgun, að það er verið að afsaka þetta — sem er óafsakanlegt — með því, að ríkisverksmiðjurnar hafi aldrei gert fastan samning við Sjóvátryggingarfélagið. En hver hefir ráðið því, að ekki hefir verið gerðir fastur samningur? Ég hefi farið gegnum bækur ríkisverksmiðjanna frá byrjun, og þar er aldrei minnzt á, að Þormóður Eyjólfsson hafi lagt til, að gerður yrði fastur samningur um þessa sjóvátryggingu. Og í öðru lagi er mér kunnugt um mörg fyrirtæki, sem fá þennan afslátt hjá Sjóvátryggingarfélaginu, án þess að hafa um þetta nokkurn skriflegan fastan samning, eða yfir höfuð nokkurn fastan samning. Það er því þess vegna ekkert annað en víðbára, að það hafi verið ástæða fyrir því, að verksmiðjurnar fengu ekki afslátt, að ekki hafi verið gerður fastur skriflegur samningur. Alveg tilgangslaus og ástæðulaus viðbára, sem ekki að neinu leyti stenzt þá reynslu, sem menn hafa af viðskiptum við Sjóvátryggingarfélag Íslands. Nú verð ég að segja það, að ég fæ ekki skilið, að viðskipti ríkisverksmiðjanna við Sjóvátryggingarfélagið hefðu getað verið fastari en sem segir í bréfi hr. Þormóðs Eyjólfssonar til ríkisverksmiðjanna, þar sem hann segir, að ríkisverksmiðjurnar hafi frá því fyrsta bæði bruna- og sjóvátryggt allar vörur sínar á sjó og landi hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands. Og að koma svo með þá réttlætingu fyrir því, að verksmiðjurnar hafa verið sviknar um þennan afslátt, að ekki hafi verið fastir samningar, það er vitanlega ekkert annað en tilgangslaus mótbára.

Ég hefi hér í fórum mínum bréf undirskrifað af hr. Þormóði Eyjólfssyni, þar sem hann lýsir því í upphafi síns máls, hvernig verksmiðjurnar hafi frá byrjun vátryggt allt á sjó og landi hjá Sjóvátryggingafélaginu. Orðrétt hljóðar þetta svo í bréfinu: „Frá því síldarverksmiðjur ríkisins hófu starfsemi sína 1930 hefir stjórn verksmiðjanna alltaf bruna- og sjóvátryggt allar vörur verksmiðjanna, hvort heldur var á landi eða sjó, hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands h.f.“ Ég fæ ekki betur séð en að þessi orð sanni að öllu leyti það, sem ég hefi sagt, að ríkisverksmiðjurnar hafi öll árin haft svo föst viðskipti við Sjóvátryggingarfélag Íslands, að um fastari viðskipti gat ekki verið að ræða, jafnvel þó að gerður hefði verið um þau skriflegur samningur. Enda vil ég ítreka það, að ég sagði áðan, að mér er fullkunnugt um ýms fyrirtæki, sem að staðaldri hafa vátryggt hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands. að þau hafa fengið þennan afslátt án þess nokkurntíma að gerður hafi verið um það nokkur fastur skriflegur samningur. Þetta bréf Þormóðs Eyjólfssonar varpar kannske nokkuð skýru ljósi yfir það, hvernig á því stendur, að hann hefir ekki gætt hagsmuna ríkisverksmiðjanna eins og honum bar skylda til, heldur hefir fyrst og fremst hugsað um hagsmuni Sjóvátryggingarfélags Íslands. Því að hann segir í bréfinu, að það, að búið sé að færa vátryggingarnar fyrirvaralaust frá Sjóvátryggingarfélaginu, sé harkaleg aðferð við svona stóran og góðan viðskiptamann. M. ö. o. að Sjóvátryggingarfélag Íslands hafi verið í hans augum stór og góður viðskiptamaður við ríkisverksmiðjurnar. En ríkisverksmiðjurnar, sem þó hafa vátryggt „allt á sjó og landi“ hjá Sjóvátryggingafélaginu frá byrjun, þær eru ekki í hans augum stór og góður viðskiptamaður Sjóvátryggingarfélagsins. Eftir hans áliti er það hans hlutverk. sem þó var form. verksmiðjustj., fyrst og fremst að gæta hagsmuna Sjóvátryggingarfélagsins sem viðskiptamanns við ríkisverksmiðjurnar, en ekki hagsmuna ríkisverksmiðjanna sem viðskiptamanns við Sjóvátryggingarfélagið. Og það er þetta viðhorf gagnvart hagsmunum ríkisverksmiðjanna, sem þarna kemur fram, sem hlýtur að vera þess valdandi, að enginn alþýðuflokksmaður nokkurn tíma getur kosið Þormóð Eyjólfsson sem form. í stj. ríkisverksmiðjanna. Maður, sem hefir þarna opinberlega haft tvö embætti á hendi, annað sem formaður verksmiðjustj., en hitt sem umboðsmaður Sjóvátryggingarfélagsins, og hefir borið hagsmuni verksmiðjanna algerlega fyrir borð, þann mann getur ekki orðið samkomulag milli Alþfl. og Framsfl. um að kjósa sem formann verksmiðjustj.

Nú skeður það undarlega, að því er ekki neitað, að þessi afsláttur hafi staðið til boða, heldur er þvert á móti sagt í blaði Þormóðs Eyjólfssonar 1. des. þ. á., „að afslátturinn hafi alltaf staðið til boða ríkisverksmiðjunum“. Hvernig stendur á, að boðinu var ekki tekið? Það er þetta, sem ég hefi spurt um, og ekkert annað. Og ég hefi bent á, að þessi afsláttur nemur nokkuð mörgum þúsundum fyrir verksmiðjurnar, þar sem verksmiðjurnar spöruðu á einu ári um 13þús. kr. á vátryggingu með því að færa vátrygginguna til annars félags, eftir þó að Sjóvátryggingarfélagið er búið að hljóða þessi 15% í afslátt. Ég skal taka fram, að það er fjarri því að þetta vátryggingarmál sé nokkurt flokksmál í verksmiðjustj. Fulltrúi Framsfl. var alveg sömu skoðunar og ég. Og sá þriðji stjórnarnefndarmaður, Þórarinn Egilsson, taldi alveg óhæfilegt, að verksmiðjurnar fengju ekki þennan afslátt. Í fundarbók verksmiðjustj. frá 6. júlí er hið nýja tilboð Sjóvátryggingarfélagsins um 15% afslátt tekið fyrir, og síðan er tíminn notaður í nokkra daga til þess að athuga þetta tilboð. En gengið var frá þessu máli í fundabókinni 30. júlí. Og þar eru athuguð nánar þau tilboð, sem fyrir lágu. Ennfremur er lögð fram skýrsla um iðgjaldagreiðslur verksmiðjanna fyrir bruna- og sjóvátryggingar á árunum 1930–1936, að báðum árunum meðtöldum. Sýnir skýrslan það, að iðgjöld fyrir brunatryggingar hafa numið samtals 37677.65 kr., en iðgjaldagreiðslur fyrir sjóvátryggingar 83343.51 kr., eða alls iðgjöld greidd Sjóvátryggingarfélaginn 121011.16 kr. Nú vil ég skjóta því inn í, að Sjóvátryggingarfélagið bauð þegar í stað, þegar farið hafði verið fram á það af verksmiðjustj., 18% afslátt af bruna- og sjóvátryggingum. þannig að reikna má með, að það, sem verksmiðjurnar hafi tapað á því, að ekki var krafizt beztu kjara við Sjóvátryggingarfélagið, sé a. m. k. um 18 þús. kr., þó miðað sé eingöngu við hið nýja tilboð Sjóvátryggingarfél., en miklu meira, ef miðað er við hin erlendu tilboð. Svo er haldið áfram og sagt, að samkv. hinu nýja tilboði Sjóvátryggingarfélagsins um brunatryggingar, hafi verksmiðjurnar greitt frá 2,8% á Siglufirði upp í 8% fyrir brunatryggingar á Siglufirði, en á Sólbakka 6,4% fyrir lýsi á tanka, en 12,8% fyrir vörur í verksmiðju og geymsluhúsum. Eins og hv. þm. heyra, eru þetta engin smávæg iðgjöld. Þá segir ennfremur: „En á Raufarhöfn voru greidd 16% fyrir mjöl og lýsi. Býður nú Sjóvátryggingarfélagið 15% afslátt af bunatryggingum á Siglufirði, en ekkert tekið fram um neinn afslátt af iðgjöldum á Raufarhöfn og Sólbakka“.

Í bókun verksmiðjustjórnar segir svo: „Samkvæmt skýrslu skrifstofustj. hafa verksmiðjurnar greitt Sjóvátryggingarfélaginu 3/4 –1% af sjóvátryggingum fram til 15. ágúst 1934, en síðan 0,5–0,75%, og aldrei fengið neinn afslátt frá þessum iðgjöldum, nema rúmar 500.00 kr. á árinu 1935“. En þessar 500 kr. eru aðeins afsláttur, sem ætti að dragast frá þeim 18 þús. kr., sem ég tel, að síldarverksmiðjur ríkisins hafi sætt verri kjörum en þær hefðu átt að fá frá Sjóvátryggingarfélaginu. Þá segir enn: „Í símtölum þeim, sem verksmiðjustjórnin hefir átt við forstjóra Sjóvátryggingarfélagsins, hélt forstjórinn því fram í fyrstu, að afsláttur hefði ætíð verið gefinn frá þessum iðgjöldum, er næmi 10% af þeim. Staðfesti hann, að þetta væri föst venja félagsins við þá viðskiptamenn, sem tryggðu allar vörur sínar hjá því. Þegar síðar var farið að ganga eftir afslættinum, sagði forstjórinn, að afslátturinn myndi hafa verið gefinn öll árin, nema á árinu 1936, því að þá hefði ekki fastur samningur verið gerður um vátryggingarnar. Við athugun á bókum verksmiðjanna hefir komið í ljós, að enginn afsláttur hefir fengizt, nema sem að framan segir, enda hefir ekki fundizt neitt um það í fórum verksmiðjanna, að nokkurn tíma hafi verið gerður fastur samningur um vátryggingarnar. Þegar svo verksmiðjustjórnin vildi fá afsláttinn greiddan, hefir Sjóvátryggingarfélagið ekki gefið þess neinn kost, nema fyrir árin 1935 og 1936, og það því aðeins, að verksmiðjustjórnin skuldbindi sig til að láta félagið hafa allar sjóvátryggingar á þessu ári með þeim kjörum, sem áður getur. Þrátt fyrir ýtarleg tilmæli verksmiðjustjórnar telur félagið sér alls ekki fært að gefa betri kjör.

Verksmiðjustjórnin hefir fengið tilboð í sjóvátryggingar frá Ásgeiri Þorsteinssyni verkfræðing fyrir hönd E. W. Payne & Co., Ltd., í London, og ennfremur frá firmanu Gordner Mounterin & Dambrumenil Ltd., í London“. Það er fyrir milligöngu Guðjóns Teitssonar skrifstofustjóra.

„Sjóvátryggingarfélagið býður sjóvátryggingar fyrir 0,5% á tímabilinu frá 1. apríl til 30. sept., en aðra tíma árs fyrir 0,75% á mjöli innanlands, 38% að sumri og 5/8% að vetri, þetta hvorttveggja — 15%. Ásgeir Þorsteinsson fyrir hönd E. W. Payne býður sjóvátryggingar fyrir mjöl utanlands tímabilið 1. apríl til 30. sept. 0,275%, en á öðrum tímum fyrir 0,4125%, innanlands á öllum tímum árs fyrir 0,75%, fyrir lýsi 11,313% á öllum tímum árs. Gardner M. býður sjóvátryggingar á mjöli apríl-sept. fyrir 0,275%, en á öðrum tímum fyrir (1,4375%, en fyrir síldarlýsi á tönkum 0,5%, þetta allt — 9%.

Eins og framanrituð bókun ber með sér, er tilboð Ásgeirs Þorsteinssonar langlægst, og verður mismunurinn á tilboði hans og Sjóvátryggingarfélagsins bezti fundinn með því að reikna út, hvað vátryggingariðgjöldin nema miklu á þessu ári miðað við áætlað verðmæti af mjöli og lýsi“.

Svo er hér reiknað nákvæmlega út í fundabókinni mismunur á tilboði Ásgeirs Þorsteinssonar og tilboði Sjóvátryggingarfélagsins, eftir að það er búið að lækka sín iðgjöld um 15%, og komizt að þeirri niðurstöðu, að á sjóvátryggingum einum sé tilboð Ásgeirs kr. 10814.65 lægra. Þessi áætlun hefir staðizt það, að mismunur reynist að vera um 11 þús. kr. Og auk þess er mismunur á brunatryggingum 3 þús. kr., eða samtals 13 þús. kr., miðað þó við hið lækkaða tilboð Sjóvátryggingarfélagsins um 15% frá þeim iðgjöldum, sem Þormóður Eyjólfsson, form. verksmiðjustj., gerði sig ánægðan með. Þá segir ennfremur: „við þetta bætist mismunur á vátryggingu karfaafurða, sem gera má ráð fyrir, að geti numið talsvert hærri upphæð. Afsláttur sá, sem Sjóvátryggingarfélagið lét í ljós, að það fengist til að gefa af vátryggingariðgjöldum 1935–1936; gegn framhaldandi viðskiptum, nam samtals kr. 4382.90. Þrátt fyrir það, þó mismunur á kjörum Sjóvátryggingarfélagsins og E. W. P. væri svo mikill, sem að framan greinir, þá leitaði verksmiðjustjórnin enn á ný til Sjóvátryggingarfélagsins og reyndi að fá hjá því betri kjör en það þegar hafði boðið, með það fyrir augum að halda áfram viðskiptum við það, ef það byði einhver þau kjör, sem verksmiðjustj. sæi sér fært að ganga að, en þar sem þessar tilraunir reyndust með öllu árangurslausar, þá samþykkti verksmiðjustjórnin, eftir að hafa leitað álits atvinnumálaráðherra og fjármálaráðherra, að taka tilboði Ásgeirs Þorsteinssonar fyrir hönd E. W. Payne, með þeim iðgjöldum, sem að framan segir, enda séu sjálf vátryggingarkjörin að engu leyti lakari en hjá Sjóvátryggingarfélaginu og gjaldeyrisleyfi fáanlegt fyrir iðgjöldunum. Báðir ráðherrarnir, sem leitað var álits hjá. töldu sig samþykka gerðum stjórnarinnar í þessu máli“.

Nú er að vísu dálitið óvanalegt, býst ég við, að leita álits fjmrh. um gerðir stjórnar síldarverksmiðjanna. En ástæðan fyrir því, að það er gert, mun hafa verið sú að fulltrúi framsóknarmanna í verksmiðjustjórninni — þó að hann hefði að vísu enga aðra skoðun á þessu máli en hinir aðrir nefndarmenn — mun hafa litið svo á, að af því að Þormóður Eyjólfsson var mjög mikið í ráðum með Framsfl., mundi réttara að bera málið einnig undir fjmrh., til þess að hafa bakhjarl í þessu máli, ef á verksmiðjustjórnina yrði ráðizt fyrir þessa vátryggingu, sem hefir sýnt sig, að Þormóður Eyjólfsson hefir síðar gert. Hann hefir látið skrifa í blað sitt á Siglufirði 1. des. þ. á. árás á verksmiðjustj. fyrir að hafa flutt vátrygginguna frá íslenzku félagi, sem hann svo orðaði það, og til erlends félags. Og tilefni þess, að greinin er skrifuð á fullveldisdaginn. er það, að það þykir vel við eigandi á slíkum degi — eins og segir í greininni — að minnast þess, að slíkar vátryggingar hafi verið fluttar út úr landinu. Þá er spurt um það í þessari sömu grein, hve miklu fé þetta nemi fyrir verksmiðjurnar; og það er ennfremur upplýst í greininni og beinlínis sagt, að ríkisverksmiðjunum hafi alltaf staðið til boða 10% afsláttur hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands sem föstum viðskiptamanni. Það, sem ég hefi gert í greininni, sem ég skrifaði, er það, að ég hefi lagt á borðið öll plögg, sem ég hefi fram að leggja í þessu máli. Ég hefi skýrt nákvæmlega frá bókun verksmiðjustj. Ég hefi skýrt frá því, að ríkisverksmiðjurnar hafa, eins og Þ. E. orðar það, vátryggt allt á sjó og landi hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands, og að þær hafa aldrei fengið neinn afslátt. Menn geta dregið af þessu þær ályktanir, sem þeim sýnist. Má vel vera, að einhverjir hafi dregið þá ályktun af þessum plöggum, að ég væri með aðdróttanir í garð Þ. E. En ég er þess fullviss, að þó að sú grein, sem ég hefi skrifað um þetta, sé lesin með hinum nákvæmustu rannsóknaraugum, finnist engar aðdróttanir, nema mönnum finnist það grunsamlegt athæfi að síldarverksmiðjurnar hafa ekki fengið neinn afslátt.

Ég sé, að það er sagt hér í blaði framsóknarmanna í dag, að Þ. E. hafi snúið sér til dómsmrh. og óskað eftir opinberri rannsókn. Ég er fullviss um það, að opinber rannsókn í þessu máli leiðir það í ljós, sem ég hefi fyllilega sannað og staðfest með játningu Þ. E. sjálfs og bókun verksmiðjustj., sem hefir verið undirskrifuð af öllum stjórnarnefndarmönnunum. Hún leiðir það eitt í ljós, sem ég hefi áður haldið fram í minni grein, að það er föst venja hjá Sjóvátryggingarfélaginu að gefa afslátt. Í öðru lagi, að verksmiðjurnar hafa aldrei fengið þennan afslátt, að undanskildu árinn 1936, og í þriðja lagi býst ég við, að hvorki Þ. E. né Sjóvátryggingarfélagið taki það aftur, sem báðir þessir aðiljar hafa sagt undir votta, að afslátturinn hafi alltaf staðið til boða.

Ég veit, að því verður ekki mótmælt og að það verður ekki afsannað, sem Þ. E. hefir sagt í skrifum sínum um þessi mál, að viðskiptin hafi alltaf verið föst, og nú er spurningin, hvað leiðir sú rannsókn, sem Þ. E. hefir beðið um, í ljós um ástæðurnar fyrir því, að verksmiðjurnar fengu ekki þennan afslátt, sem alltaf stóð þeim til boða, eftir því sem Þ. E. og Sjóvátryggingarfélagið hafa sagt.

Í blaði framsóknarmanna er því haldið fram, að ég hafi borið eitthvað svipaðar sakir á Þ. E. eins og á mig hafa verið bornar í síldarútvegsmálum. Ég neita þessu algerlega. Ég hefi engar sakir borið á hann, bara skýrt frá staðreyndum, og þær einu sakir, sem hægt væri að fala um, er það, að mönnum finnist þær staðreyndir grunsamlegar.

Ég er nú svo vanur því, að það sé sagt sitt af hverju um það, sem ég hefi gert í síldarmálum, að ég hefi ekki hirt um það, þótt ég hafi haft ástæðu til, að fara í meiðyrðamál út af því. Enda geri ég ráð fyrir því, að það myndi fara ákaflega mikill tími og miklir starfskraftar í meiðyrðamál, ef ég legði þau fyrir mig. enda hefi ég séð, að það, sem mér hefir verið fundið til ámælis, hefir verið þannig, að það hrin ekki á mér. Hitt er það, að ef ég hefði séð lagðar fram einhverjar þær staðreyndir, sem mér hefðu virzt vera þannig, að almenningur gæti álitið, að þær væru á einhverjum rökum byggðar, gæti vel verið, að ég hefði leitað málshöfðunar. En ég hefi aldrei séð þetta.

Ég heyrði það í ræðu hv. þm. G.-K. í útvarpinu í fyrrakvöld. að hann var að tala um það, að síldarverksmiðjur ríkisins hefðu selt lýsið einu pundi lægra heldur en aðrar verksmiðjur á síðasta vetri. Og hv. þm. spurði, hvað orðið hefði af þessu pundi, sem hefði verið mismunurinn. Ég vil upplýsa þetta mál svolítið. Þessu er þann veg háttað, að lýsi fór hækkandi frá því í október, þá stóð það í á að gizka 16 £, en í febrúar 1937, þegar ríkisverksmiðjurnar seldu, þá var það komið upp í 21 £. Ríkisverksmiðjurnar áttu kost á að fá þetta verð á tveimur stöðum fyrir síldarlýsi sitt, þann dag, sem selt var. Verksmiðjan á Djúpavík seldi aftur á móti þennan sama dag fyrir 22 £. En umboðsmaðurinn, sem seldi fyrir þessa verksmiðju, seldi sama dag og sama klukkutíma fyrir aðra verksmiðju, en honum var ómögulegt að fá meira en 21 £ fyrir það lýsi. Það hefir því verið eitthvað sérstakt verð, sem umboðsmaður verksmiðjunnar á Djúpuvík fékk hjá þessum eina kaupanda, og aðeins fyrir þetta magn, sem um var að ræða, sem enginn annar átti kost á að fá á þeim sama degi. Nú stóð þetta þannig með lýsisverðið, að það hafði farið hækkandi allan tímann frá því í október, og feitmeti allt hafði farið hækkandi, en þessar vörur voru byrjaðar að falla, þegar ríkisverksmiðjurnar seldu sitt lýsi, og voru þá búnar að falla í þrjá daga. Og ef ríkisverksmiðjurnar hefðu ekki selt á 21 £ þennan dag, hefðu þær ekki getað borgað 8 kr. verðið fyrir síldina í sumar. Möguleikarnir til að borga 8 kr. fyrir síldina í sumar urðu til einungis fyrir þá heppilegu sölu, sem síldarverksmiðjurnar gerðu á síldarlýsi fyrirfram, og fyrir það, að verksmiðjustj. hækkaði það síldarlýsismagn, sem venja er að selja fyrirfram, úr 3000 tunnum upp í 5575 tonn. Og hefði hún ekki selt fyrirfram, myndi ekkert 8 kr. verð hafa verið borgað fyrir síldina í sumar. Þetta má sjá m. a. á því, að sú eina verksmiðja, sem ekki notaði sér þetta háa verð á síldinni, verksmiðja h/f Kveldúlfs, fékk hæstu sölu á lýsi 19 í pr. tonn, og það var salan til Þýzkalands. Hv. þm. G.-K. sagði að vísu, að Kveldúlfur hefði selt lýsi fyrir 19 £ á sama tíma og ríkisverksmiðjurnar seldu fyrir 18 £. Enda hefir það alltaf verið svo, að það hefir verið hægt að fá einu £ hærra verð fyrir lýsi í Þýzkalandi heldur en að selja það á opinberum markaði annarsstaðar. Og Kveldúlfur fékk notið þeirra hlunninda að selja 1900 tonn til Þýzkalands, og fyrir þau fékk hann 19 £. Það er því ekkert undarlegt, þótt ríkisverksmiðjurnar seldu fyrir lægra verð en Kveldúlfur, og þar að auki er þess að gæta, að það leið langur tími á milli lýsissalanna, og verðið hafði farið lækkandi allan tímann. Og nú er það komið niður 15–16 £ tonnið.

Ég sé enga ástæðu til þess, þó að hv. þm. spyrji í sambandi við þessa lýsissölu, hvað orðið hafi af þessu í hjá verksmiðjunum, að fara í meiðyrðamál út af því. Ég get gefið á þessu fullkomnustu skýringu, sem ég veit, að nægir öllum þeim, sem vilja athuga þetta mál hlutdrægnislaust. Mér hefði beinlinis fundizt það hlægilegt, ef ég hefði farið fram á það við dómsmrh., að það færi fram opinber rannsókn út af ummælum hv. þm. G.-K. um lýsissöluna. A. m. k. vil ég segja það til framsóknarmannanna hér í d., að ef þeim finnst eitthvað undarlegt við það, að ég skuli ekki fara í meiðyrðamál, finnst þeim þá ekki undarlegt, að þeirra fulltrúi skuli ekki heimta rannsókn?

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta. Ég hefi fært hér fullkomin rök fyrir því, hvernig á því stendur, að ekki komi til neinna mála, að það verði samvinna um það milli Framsfl. og Alþfl. að kjósa Þ. E. fyrir formann síldarverksmiðjustj. (JJ: Og ekki Finn Jónsson). Ég veit ekki til þess, að Jónas Jónsson hafi neitt málfrelsi hér í d., en ég myndi óska þess eindregið, að við fengjum að leiða saman hesta okkar á öðrum vettvangi. Það lítur út fyrir, að þessi utandeildarmaður hafi misst stjórnar á skapi sinu, eins og stundum hendir hann, sem skiljanlegt er. En úr því að þessi utandeildarmaður er kominn hér í d. og farinn að hefja umræðu, vildi ég segja það við hann –og ætlast ekki til, að það gefi tilefni til óróa í d. —, að hann hélt því fram fyrir nokkrum árum, og hefir raunar oft sagt það opinberlega, að einn af fyrrv. meðlimum í síldarverksmiðjustj. hafi orðið þess valdandi, að líf annars meðstjórnanda hans í verksmiðjustj. hafi orðið styttra en menn gerðu sér vonir um. Nú hefir þessi hv. þm. beitt sér fyrir því hér á þingi, að það fvrirkomulag yrði á ný lögleitt, að þessi gamli vinur hans gæti komizt í stj. aftur, og ég fyrir mitt leyti, þó að mér þyki ekki gaman að sjá mína gömlu vini í niðurlægingu, verð ég að skoða það sem einskonar kaldhæðni örlaganna, að slíkt eigi eftir að koma fyrir þennan utandeildarmann, að berjast fyrir sínum gömlu fjandmönnum á þennan hátt.

Ég lýsti því yfir áðan, að ég er mjög ánægður yfir því, að það fari fram rannsókn á þessum vátryggingarmálum, og ég veit, að hún mun leiða í ljós það, sem fyrirfram er sannað í málinu. Hitt má vel vera, að þessi rannsókn leiði það einnig í ljós, að það sé enginn óheiðarleiki, sem hafi verið hafður hér í frammi, heldur hafi hér eingöngu verið um að ræða það atriði, að þegar einn maður á að gera upp á milli tveggja fyrirtækja og gæta hagsmuna beggja, þá hafi honum skotizt hreinlegla yfir að gæta skyldu sinnar f. h. annars aðiljans. Og ég tel a. m. k., að það sé sannað fyrirfram í málinu, bæði með framburði Sjóvátryggingarfélagsins og fyrrv. form. verksmiðjustj., Þ. E., sjálfs.

Ég get svo látið útrætt um 4. gr. frv. En ég vildi benda á það, að ég teldi, að hvort sem stjórnarmeðlimirnir yrðu 3 eða 5, ætti að vera ákveðið, að jafnframt séu hafðir varamenn. Stj. á að vera þingkosin til 3. ára, og ef það veljast sömu menn í stj. og áður voru þar, og verður mikið ósamlyndi, gæti komið fyrir, að einhverjir færu úr stj. í voveiflegan hátt, þannig að það þyrfti að kjósa menn í þeirra stað á kjörtímabilinu. Teldi ég því varlegra að hafa varamenn í stj.

Viðvíkjandi 5. gr. hefi ég leyft mér að bera fram brtt. þess efnis, að endurskoðendur síldarverksmiðjanna verði tveir. Ég tel óþarfa kostnað fyrir verksmiðjurnar að hafa þá þrjá, eins og gert er ráð fyrir í frv.

Þá hefi ég komið með brtt. um það, að 7. gr. falli niður. Hún er um það, að ríkissjóður beri eigi ábyrgð á þeim skuldum síldarverksmiðjanna, sem stofnað er til eftir 31. des. 1937.

Það er kunnugt, að það hafa verið uppi hér á Alþingi alvarlegar till. um það — þótt þær að vísu hafi ekki komið fram í verksmiðjustjórninni — að greiða ekki nema 85% af síldarverðinu við móttöku. Og jafnframt hefir verið höfð í frammi hótun um það af einum utandeildarmanni, sem var að tala hér í d. áðan, að hann skyldi sjá til þess gegnum bankaráð Landsbankans, að sú regla yrði tekin upp. Ég skal ekki fara langt inn á þetta mál, en ég vildi benda á, að fyrir fáum árum var síldarverðið ekki nema 3 kr. til sjómanna og útgerðarmanna. Ef það hefði átt að halda 13% eftir af þessu lága verði, þannig að borga 2.40 kr. við móttöku, þá var það sama og að segja sjómönnum og útgerðarmönnum, að skipum þeirra yrði ekki haldið úti þessi ár. Það vita allir, sem einhverja þekkingu hafa á útgerð, að það verður ekki farið á flot með neitt skip á síldveiðar, ef ekki á að borga nema 2.45 kr. fyrir málið. Hvorki myndu útgerðarmenn fá fyrir veiðarfærum, olíu eða öðrum þörfum, né heldur myndu sjómenn geta lifað af þeim litla hlut, sem þeir fengju, jafnvel ekki yfir blásíldartímann. Nú hefir verið sett inn í frv. aftur heimild til þess að kaupa síldina. En ég vil benda á, að ákvæði 7. gr. um það, að ríkið beri ekki ábyrgð á skuldum verksmiðjanna, eru þannig vaxin, að þau hljóta að rýra mjög mikið það traust, sem ríkisverksmiðjurnar hafa haft, til þess að fá lánað rekstrarfé. Og það getur orðið til þess, að þær skaðlegu till., sem sérstaklega hefir verið barizt fyrir af hv. þm. S.-Þ., fengju nokkra stoð, ef þetta atriði næði fram að ganga, þannig að Landsbankinn gæti sett það sem skilyrði fyrir rekstrarfjárláni til ríkisverksmiðjanna, að þær borguðu ekki út nema 85% af síldarverðinu við móttöku. Ég þarf ekki að leiða rök að því fyrir þeim hv. þdm., sem þekkja eitthvað til síldveiða, hve skaðlegt þetta ákvæði yrði. Ég hefi þess vegna borið fram brtt. um það á þskj. 431, að þessi gr. verði felld niður. og vil skora á þá hv. þdm., sem annars vilja gæta hagsmuna útvegsins, að samþ. þá till.

Þá á ég tvær brtt. við 11. gr. Önnur er um það. að ekki skuli reiknuð nema 2% fyrning af vélum og áhöldum. Ástæðan fyrir þessari brtt. er ekki sú, að 5% fyrning sé of há, ef ekki væri að ræða um annað. En þar sem allar afborganir verksmiðjanna eru teknar með í rekstrarreikninginn og reiknaðar sem rekstrarkostnaður, er engin ástæða til þess að hækka fyrningargjaldið. Ég skal játa, að væri fyrningin ekki talin með í rekstrarkostnaði, þyrfti hún jafnvel að vera hærri en 5%, en úr því að það er gert, er þessi ráðstöfun ástæðulaus.

Þá hefi ég gert lítilsháttar orðabreytingartill. við síðustu málsgr. 11. gr. Þar er talað um það, að kaupa síld „á fast verð“. Mér finnst þetta engin íslenzka og þinginn til minnkunar að afgr. slíka málleysu. Legg ég til, að í staðinn komi: keypt föstu verði.

Enn hefi ég lagt til, að ákvæðið um kostnaðarverð í 12. gr. falli niður og verðið á síldarmjöli innanlands sé ákveðið með hliðsjón af erlendu markaðsverði, enda sé verðið aldrei hærra en það, að frádregnum öllum kostnaði, þar með talin umboðslaun.

Þetta kostnaðarverðsákvæði hefir verið nokkur ár í síldarverksmiðjul., en það hefir aldrei verið hægt að framkvæma það. Og það er jafnóframkvæmanlegt nú eins og það hefir verið, og er því þýðingarlaust að halda því í lögunum.

Þá hefi ég lagt til, að gjald það, sem ríkisverksmiðjurnar eiga að greiða til bæjar- og sveitarfélaga, verði lækkað úr ½ niður í og ennfremur. að þetta gjald skuli greiða í fyrsta skipti fyrir rekstur ársins 1938. Eins og l. eru nú og ef þau verða staðfest fyrir áramót, myndu verksmiðjurnar þurfa að greiða 40 þús. kr. til bæjar- og sveitarfélaga, og það eru gjöld sem ekki hafa verið tekin með á áætlun ríkisverksmiðjanna á þessu ári, og tel ég af þeim ástæðum ófært að láta þau ákvæði verða lögfest eins og þau eru í frv. Ég hefi lagt til, sé þetta gjald verði fært niður um helming, og skuli ekki greiðast fyrr en 1938. Vona ég, að hv. þm. séu mér sammála um, að það sé hvorki viturlegt né sanngjarnt að leggja svo þungan skatt á verksmiðjurnar, er þær yrðu að standa undir, hvort sem ágóði eða tap yrði á rekstri þeirra.

Þá vil ég benda á atriði í „ákvæði til bráðabirgða“, sem ég tel fullkomið hneyksli, að skuli standa þar ennþá. Þar gefur að líta eftirfarandi: „Fyrningargjöld af dr. Pauls verksmiðju, sem nú er eign ríkisins, skal eigi reikna þau tvö ár, sem eftir er að greiða fyrrv. eiganila afborganir af andvirði verksmiðjunnar samkvæmt samningi“. Því er þarna slegið föstu í bráðabirgðaákvæðinu, að það sé eftir að greiða fyrrv. eiganda verksmiðjunnar, dr. Paul, tveggja ára afborganir, En samkv. reikningum verksmiðjanna er aðeins eins árs afborgun eftir. Verði þetta látið standa, tek ég það sem merki um það að svo órjúfandi leynisamningar séu fyrir hendi um afgreiðslu þessa frv., að það verði samþ., hversu vitlaust sem það er. En ég teldi það fullkomið hneyksli, ef Alþ. slægi því föstu í lögum, að eftir væru ógreiddar tveggja ára afborganir til erlends manns, þegar ekki í raun og veru væri ógreidd nema eins árs afborgun. Mér skilst, að það geti verið teoretisk hætta á því, að viðkomandi krefjist þessarar upphæðar, ef því er slegið föstu í lögum, að hún sé óborguð.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en ég sá ástæðu til að gera grein fyrir því, sem mér og þar með Alþfl. þykir athugavert við frv. þetta, sem að almannarómi er talið flutt til þess eins að koma Þormóði Eyjólfssyni að sem formanni verksmiðjustjórnarinnar og rjúfa núverandi stjórnarsamvinnu.