17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

1. mál, fjárlög 1938

Ólafur Thors:

Það er nú orðin föst venja við útvarpsumræður frá Alþingi, að beina máli sínu til hlustenda utan þingsalanna. Ég mun því nú, er mér í fyrsta skipti eftir kosningar gefst færi á að ná eyra kjósenda Sjálfstæðisfl. um land allt, leyfa mér að snúa máli mínu til þeirra og færa þeim þakkir fyrir ötula framgöngu við kosningarnar. — Kosningaúrslitin sýndu, að stefna Sjálfstfl. á nú meiri ítök með þjóðinni en nokkru sinni fyrr. Hitt, að Sjálfstfl. fær ekki nema 17 þingmenn með milli 24 og 23 þúsund atkvæðum, en Framsfl. hinsvegar fær kosna 19 þingmenn með einum 14 til 15 þúsund atkvæðum, sýnir aðeins og sannar, hversu því fer fjarri, að ákvæði stjórnarskrárinnar tryggi lýðræði hér á landi.

Við síðustu kosningar gerðu frambjóðendur stjórnmálaflokkanna og aðrir forráðamenn þeirra þjóðinni grein fyrir aðstöðunni til þeirra aðalmála, er um hafði verið barizt síðasta kjörtímabil og á dagskrá voru þegar kosningar fóru fram. Mun ég ekki, svo skammt sem um er liðið frá kosningum, rifja upp þá sögu nema að örlitlu leyti, heldur snúa mér að því, sem gerzt hefir eftir kosningarnar, og þá einkum á þessu þingi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að snemma í nóvember gerðu stjórnarflokkarnir með sér nýjan samning, sem á að gilda fyrst um sinn til næsta þings. Þessir samningar hafa sætt gagnrýni okkar sjálfstæðismanna, bæði að formi og efni, og mun ég alveg sérstaklega gera þá að umræðuefni.

Ég vil þá fyrst minna á viðburði síðasta þings, þess er rofið var í aprílmánuði síðastl. Urðu þá, sem kunnugt er, viðsjár miklar með stjórnarflokkunum, og harðnaði sú deila er leið á þingið. Báru þá jafnaðarmenn fram mörg frumvörp og gerðu samþykkt þeirra að skilyrði fyrir áframhaldandi stjórnarsamvinnu. Lauk þeirri deilu með yfirlýsingum þeim, er ráðherrarnir, Haraldur Guðmundsson fyrir hönd Alþfl. og Hermann Jónasson fyrir hönd Framsfl., gáfu við útvarpsumræður, sem fram fóru frá Alþingi þann 16. apríl síðastl.

Haraldur Guðmundsson mælti þá á þessa leið: „Alþýðuflokkurinn getur ekki sætt sig við það, að einstök smærri atriði séu tekin út úr frumvörpum hans, en meginatriðin, þau sem mest veltur á, séu felld . .

Og ennfremur segir Haraldur Guðmundsson: „Svör Framsfl. við frumvörpum þeim, sem ég hefi gert hér að umræðuefni, sýna, að sá skilningur og vilji til aðgerða er því miður nú ekki fyrir hendi. Af þeim ástæðum, sem ég hefi nú greint, verð ég fyrir hönd Alþfl. að tilkynna hæstv. forsrh., að Alþfl. getur ekki haldið áfram samstarfi á Alþingi við Framsfl. né samvinnu við hann um stjórn landsins, að óbreyttri þessari aðstöðu Framsfl.“

Þessari yfirlýsingu Alþfl. svarar Hermann Jónasson forsrh. þannig:

„Er þá bersýnilegt, að ágreiningurinn milli stjórnarflokkanna er aðallega um þau stórkostlegu þjóðnýtingaráform, er fram koma í frumvörpum Alþfl. um sjávarútvegsmálin, og í sambandi við það gerbreytta fjármálastefnu.

Og þegar Alþfl. ber sérstefnumál sín fram hér á Alþingi og krefst þess, að þau verði þar samþ., þá hlýtur hann að gera sér það ljóst fyrirfram, að það leiddi til samvinnuslita við Framsfl.“

Með þessum yfirlýsingum voru stjórnarflokkarnir formlega skildir að skiptum. Stjórnin hafði ekki lengur stuðning meiri hl. þings, og var því eigi þingræðisstjórn, og hefði því borið að segja af sér, sem hún þó ekki gerði. En þar eð upplýst var, að að óbreyttri aðstöðu flokkanna á þingi var ekki unnt að mynda stjórn á þingræðisgrundvelli, var þing rofið og stofnað til nýrra kosninga. Úrslitin urðu þau, sem kunnugt er, að Framsfl. og Alþfl. fengu til samans meiri hl. á hinu nýkosna Alþingi.

Við sjálfstæðismenn litum þannig á, að það sé algert brot á þingræði og lýðræði, að þessir tveir flokkar skuli nú að nýju hafa tekið höndum saman um samstarf á Alþingi og í stjórn landsins. Við rökstyðjum þá fullyrðingu með því að benda á, að:

Jafnaðarmenn lofuðu því fyrir kosningar, að bera fram til sigurs hin miklu þjóðnýtingaráform sín, og önnur þau málefni, er þeir létu valda samvinnuslitum.

Kjörfylgi sitt fengu þeir vegna þessara loforða.

Framsóknarflokkurinn lofaði hinsvegar að standa gegn þessum sömu málum, og aflaði sér síns kjörfylgis með þeim loforðum.

Milli þessara flokka var því alls engin brú, önnur en sú, að gera með sér nýjan málefnasamning, en rjúfa síðan þing og boða til nýrra kosninga, til þess þannig að leita samþykkis kjósenda beggja flokkanna á hinum nýja málefnasamningi.

Hinir nýju stjórnarsamningar eru því, hvað formið áhrærir út af fyrir sig, fullkomin brigðmælgi við kjósendur af hendi annarshvors flokksins eða beggja, og brot á anda alls þingræðis og lýðræðis. Þetta er augljóst og ótvírætt. Hitt er svo rannsóknarefni, hve stór er sök hvors flokksins um sig í þessu máli, og mun ég síðar víkja að því.

Þetta er formshlið samninganna.

Að efni til eru samningarnir í höfuðdráttum þannig:

Leggja skal nýjar álögur á þjóðina, er samkv. áætlun fjmrh. nema árlega 2 millj. 650 þús. króna. Er ætlað að ná helmingi þeirrar upphæðar með því að innheimta alla eldri tolla og akatta með 10% álagi, en afganginn með nýjum tollum á allar innfluttar vörur, er nema frá 2–5% af andvirði vörunnar.

Í meðferð þingsins lítur út fyrir, að á þessu verði gerðar þær breytingar, að hætt verði við að leggja nýja tolla á kol, salt, olíu, girðingarstólpa og áburðarefni, og stjórninni veitt skilorðsbundin heimild til að endurgreiða toll af salti og kolum, sem notuð yrðu til saltfiskveiða.

Í þess stað myndi 5% verðtollurinn hækkaður í 6% og 10% álagið á eldri skattstofna hækkað í 12%.

Ætlað er, að réttur helmingur þessa fjár gangi til vaxandi þarfa ríkissjóðs, en hinum helmingnum verði varið þannig:

1. Afnám útflutningsgjalds af saltfiski 225 þús. kr.

2. Nýtt framlag til fiskimálanefndar 400 þús. kr.

3. Til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga 700 þús. kr.

Það verður ekki með sanni sagt, að samningur þessi tryggi almenningi nein fríðindi, sem að verulegu haldi megi koma.

Þær 700 þús. kr., er ætlaðar eru til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga koma í stað 250 þús. kr., sem nú eru á fjárlögum í því skyni, og er því sá auki 450 þús., en ekki 700 þús. Ætla má, að það verði til bóta, svo langt sem það nær.

Svo sem kunnugt er hafa sjálfstæðismenn í mörg ár krafizt þess, að afnumið verði útflutningsgjald af sjávarafurðum. Hafa stjórnarflokkarnir æfinlega staðið gegn þeirri sjálfsögðu réttlætiskröfu, og nú enn á ný eytt málinu, og skammtað í þess stað aðeins nokkurn hluta þess, er krafizt var, þ. e. a. s. að útflutningsgjaldinu verði létt eingöngu af saltfiski, og þó ekki nema að nokkru leyti, því enn á að gjalda af saltfiskinum ½% til fiskimálasjóðs. Er það í samræmi við annað úr þeirri átt í garð útvegsins.

Þá hafa stjórnarflokkarnir vísað frá eða eytt öllum merkustu umbótamálum sjálfstæðismanna útvegnum til framdráttar, en í þess stað úthlutar fiskimálanefnd framangreindum 400 þús. kr. Það er þessi makalausa rausn í garð sjávarútvegsins, þessar 400 þús. kr., sem skína eiga í augum þjóðarinnar eins og demantur í hinni nýju stjórnarkórónu.

Er því rétt að staldra við og virða hann fyrir sér.

Frumv. það, er um þetta fjallar, er flutt af nokkrum stjórnarliðum. Með beinum ákvæðum þess og upplýsingum, er nú liggja fyrir um framkvæmd málsins, er því slegið föstu, að af þeim 400 þús. kr., er um ræðir, eigi að verja a. m. k. 350 þús. kr. þeim til styrktar, er ráðast vilja í að kaupa tvo nýtízku togara. Má í þessu skyni styrkja „félög sjómanna, verkamanna eða annara“, — menn taki eftir, „eða annara“, — án allra skilyrða, annara en þeirra, að eigendur leggi fram 15–20% af byggingarverði skipanna, og að félagið sé stofnað undir eftirliti fiskimálanefndar, þ. e. a. s. Héðins Valdimarssonar. Er helzt að sjá, að fyrra skilyrðið sé sett til að útiloka sjómenn og verkamenn, því framlag eigenda á að vera frá 210–280 þús. kr., en hið síðara til þess að Héðinn Valdimarsson fái ráðið því, hverjir þessir „aðrir“ verða, sem þiggja eiga þessar 350 þús. krónur.

Þegar svo búið er að afhenda þessa gjöf, eru í hæsta lagi eftir einar aumar 50 þús. kr. til frystihúsa, niðursuðu og margvislegra annara nýrra úrræða, sem þörfin kallar á, auk þess skattgjalds, er af útveginum hefir að undanförnu verið reytt í hít fiskimálanefndar, og þar hefir að mestu horfið í skyssur og slys, laun og risnu.

Það er nú fyrst í þessu máll, að eins og alkunnugt er, hefir fiskimálanefnd fyrir löngu, og mjög að verðleikum, glatað svo trausti alls þorra útvegsmanna, að þeir hafa margkrafizt þess, að hún yrði tafarlaust lögð niður, en verkefni hennar falið S. Í. F. Það er því út af fyrir sig misráðið, og beinlínis vítavert, að fá henni til umráða það fé, sem ætlað er útvegnum til hagsbóta. En þótt sú hlið málsins sé látin liggja milli hluta, er einnig að öðru leyti mikill skortur framsýni og fyrirhyggju í þessu máli, og liggja til þess mörg rök.

Það er fyrst, að ríkisstj. hefir nú um hríð haft handa á milli skýrslur, er sanna, að meðalrekstrartap ísl. togaranna var í fyrra 70 þús. kr., er í ár 49 þús. kr., og yrði að ári, ef kaupkröfur þær, er fyrir liggja, næðu fram að ganga, en að óbreyttu aflamagni og verðlagi, 109 þús. kr. Sýnist því eigi sérstök ástæða til, að hið opinbera ýti undir nýjar erlendar lántökur til aukningar á þessari útgerð, og raskar í því máli engu, þótt talað sé um nýtízku togara. Er því fjarri, að hér sé að ræða um nokkurt nýtt fyrirbrigði, því Íslendingar gerþekkja allt hið nýjasta í þeim efnum, og enda þótt útgerð nýtízku skipa yrði eitthvað ódýrari, er þó fyrirsjáanlegur taprekstur á þeim, að óbreyttum kringumstæðum.

En hér við bætist svo, að enda þótt þorskveiði hafi brugðizt hér við land undanfarin ár, svo að saltfiskframleiðslan hefir eigi einu sinni náð helmingi af meðalframleiðslu áranna 1930 –'35, þá höfum við þó, svo sem kunnugt er, ekki getað losnað við fiskinn nema með því að selja hann langt undir kostnaðarverði. Allar líkur benda því til þess, að strax og afli glæðist munum við lenda í mestu vandræðum með sölu saltfisksins.

Af þessu leiðir alveg augljóslega tvennt: Að Íslendingar geta með engu móti byggt afkomuvonirnar á auknum saltfiskveiðum, og

að það er alveg ófrávíkjanleg nauðsyn, að að því sé hiklaust gengið með framsýni og fullum krafti, að breyta til um verkun og sölu framleiðsluvöru útvegsins.

Þetta er kjarni málsins, en af því leiðir, að fyrr ber að veita opinberan styrk til nýrra úrræða um verkun og sölu aflans, er komi öllum útvegnum að notum, en aukningar flota til saltfiskveiða. Stjórnarliðið gengur þessa heldur ekki dulið, því í sjálfri greinargerð nefnds. frv. er í fyrsta lagi skýrt frá því, að saltfiskútflutningur Íslendinga hafi fallið úr 36 millj. króna árið 1936 ofan í 14,6 millj. í fyrra, og „er ekkert útlit, að útflutningur á saltfiski aukist að mun í náinni framtíð“ eins og flutningsmenn frumv. sjálfir orða það. Jöfnum höndum taka flutningsmenn með mörgum og fögrum orðum undir gömul og ný rök okkar sjálfstæðism. um nauðsyn nýrra úrræða, og viðurkenna án allra undanbragða, að eftir þeim leiðum verði Íslendingar að sækja á til sjálfsbjargar, og að afkomuhorfur þjóðarinnar beinlínis velti á því, hversu til tekst um þá sókn.

En þegar svo að því kemur að ráðstafa því fé, sem hið opinbera leggur fram útveginum til framdráttar, þá er öllu snögglega snúið við, þá leggja þeir til, að hverjum eyri sé varið til kaupa á skipum, er að miklu eða jafnvel mestu leyti verða að byggja afkomuna á saltfiskframleiðslu, en litlu eða engu sé varið til þess, sem allt ætti að ganga til, þ. e. a. s. frystihúsa, niðursuðu, eða annars þess, er til nýrra úrræða horfir.

Í rauninni er þessi aðstaða stjórnarflokkanna með öllu óskiljanleg. Sennilega er þó skýringin sú, að sósialistar telji sig eitthvað bættari með þessum gjafa-togurum. En þeir eru í því jafnglámskyggnir sem öðru, því bæði er nú það, að nú kemur upp, að þeir eru runnir frá bæjar- og ríkisútgerð, en auk þess mun ekki einn einasti Íslendingur vilja kaupa þessa tvo gjafa-togara því verði, að til þeirra gangi allt eða nær allt það fé, sem hið opinbera ver útvegnum til framdráttar. Mun fylgisauki þeirra fáu manna, er að gjöf eiga að fá þessar 350 þús. kr., reynast léttur . á metum, enda mun gjöfin mælast enn verr fyrir, þegar þess er minnzt, að einustu rökin, sem færð eru henni til ágætis, eru þau, að nýtízku togarar séu ódýrari í rekstri en þeir eldri, og því arðvænlegra að reka þá en hina, sem fyrir eru. Á því hér að taka fé af þeim, sem betur eru settir, og munu sjómenn og útvegsmenn almennt una því illa að þurfa að halda áfram að greiða útflutningsgjald af fiski, hrognum, lýsi og yfirleitt öllum útfluttum sjávarafurðum, öðrum en saltfiski, eingöngu í því skyni, að fiskimálanefnd, undir forystu Héðins Valdimarssonar, geti gefið nokkrum mönnum ¼ hluta af byggingarkostnaði tveggja nýrra togara, eða alls 350 þús. kr., meðan útvegurinn að öðru leyti er eftir skilinn án allrar aðstoðar í baráttunni við brestandi saltfiskmarkað og margvíslega aðra örðugleika.

Dómur almennings um þetta aðaldjásn stjórnarsamninganna verður því þessi:

Öllum nauðsynjamálum útvegsins er bægt frá. Haldið er áfram að kreista út úr útvegnum mestan hluta útflutningsgjaldsins, og það fé fengið þeirri nefnd í hendur, er enginn ber traust til. Síðan er með beinum lagafyrirmælum og samningsákvæðum beinlínis girt fyrir, að þessi nefnd geti nokkurt verulegt gagn gert, enda þótt hún hefði til þess bæði vit og vilja.

Og allt er þetta gert með ráðnum hug, í þeirri tálvon, að afla sósíalistum kjörfylgis við bæjarstjórnarkosningarnar.

Ég hefi þá gert grein fyrir þeim gjöfum, sem þjóðinni eru gefnar með hinum nýju stjórnarsamningum, og sýnt, hversu efnt er fyrirheitið um „alhliða viðreisn sjávarútvegsins“.

Hinar nýju kvaðir, þriggja milljóna skattana. sem enn á að leggja á þjóðina, er síður þörf að fjölyrða um, því af reynslu undanfarinna ára geta menn gert sér í hugarlund, hvað í vændum er, þ. e. a. s. hækkun á vöruverði, minnkandi kaupgeta, sennilega vaxandi atvinnuleysi og auknir örðugleikar almennings.

Mjög er það eftirtektarvert, að stjórnin lýsir nú yfir því, að búið sé að hækka svo gífurlega beina skatta hér á landi, að eigi verði lengra komizt í þeim efnum.

Eru þau rök framfærð því til skýringar, að stjórn hinna vinnandi stétta, stjórnin, sem gaf fyrirheitið um að létta tollum af nauðsynjum almennings, fer nú framan að almenningi og tekur þessar 3 millj. að mestu leyti beint af öllum nauðsynjum þjóðarinnar. Skyldi maður þó sannarlega halda, að einnig þar hefði stjórn hinna vinnandi stétta talið bikarinn fylltan, enda eru strax á haustþinginu 1934 lagðir á nýir tollar og skattar, er samtals námu á þriðju milljón króna.

Á þinginu 1935 var bætt við um 1700 þús. kr., en nú eru lagðar ofan á nær 3 millj. Eru allar þessar tölur miðaðar við áætlun sjálfs fjármálaráðherrans, er hann lagði skattafrumvörp þessi fyrir þingið. Eru hinir nýju tollar og skattar þannig nær 7 millj., auk milljónagróðans á afnámi hannsins. Er mjög mikill hluti þessara álaga hreinir neyzlutollar, beinlínis lagðir á nauðsynjar almennings, og hefir þó í þeim efnum aldrei verið lengra gengið en nú, er fyrst eru teknar a. m. k. 11–12 hundruð þús. með hinum nýja verðtolli, sem lagður er á nauðsynjar fólksins nær alveg undantekningarlaust, en síðan er jafnhá upphæð tekin með því að leggja 12% ofan á alla tolla og skatta, er nú hvíla á þjóðinni.

Þannig eru þá þessir nýju friðarsamningar, þessi ársfjórðungslíftrygging ríkisstj.

Sýnist mér, að vel fari saman form og efni, lítilsvirðing á lýðræði og þingræði annarsvegar, en nýir skattar í stað fríðinda hinsvegar.

Hér í sölum Alþingis, þar sem flestir þó eru vel kunnir öllum málavöxtum, hefir það vakið mikla undrun, að sósíalistar skyldu dirfast að ganga að þessum skilmálum, enda verður að játa, að í íslenzku stjórnmálalífi þekkjast þess engin dæmi, að nokkur flokkur hafi nokkru sinni staðið jafnbeygður og heillum horfinn í augsýn alþjóðar sem sósíalistar nú gera.

Skal ég nú færa þeim orðum stað.

Mönnum er enn í fersku minni, er hið volduga 13. þing Alþfl., með miklu yfirlæti, hóf störf hér í bænum í fyrra haust. Samþykkti það alveg spánýja stefnu,krá fyrir Alþfl., tók upp í hana nær öll stefnumál kommúnista, en sendi síðan Framsfl. þau skilaboð, að þess sé krafizt, að þessi nýja kommúnistíska starfsskrá sé „í öllum atriðum lögð til grundavallar löggjafarstarfi og stefnu núverandi ríkisstjórnar“, eins og það var orðað, og skuli Framsfl. „innan þriggja mánaða hafa gengið að þessum kostum“ ella „skuli slíta samvinnu um ríkisstjórnina“.

Alþýðublaðið lét svo viðeigandi skýringar fylgja þessari vinarkveðju, og sagði m. a.: „Alþýðublað verður að láta leiðandi menn Framsfl. vita það í eitt skipti fyrir öll, að þess er krafizt. að hvert einasta atriði í starfsskrá Alþfl. verði framkvæmt á næstu tveim árum“.

Minna dugði nú ekki þá, meðan mest voru mannalætin.

Líður nú og bíður og gerðist ekkert til tíðinda, en þó báru sósíalistar sig borginmannlega, og enduðu þau hreystiyrði með yfirlýsingu Haralds Guðmundssonar, þeirri er að framan getur, er hann 16. apríl síðastl. lýsti því hátíðlega yfir á Alþingi, að slitið væri samvinnu við Framsfl. á þingi og um stjórn landsins“. Segir síðan ekki af köppunum fyrr en nýtt alþýðusambandsþing, háð hér í Reykjavík í síðastl. mánuði, sendir Framsfl. nýja orðsending, og er nú völlurinn talsvert minni. Þar segir:

Fjórtánda þing Alþýðuflokksins telur samvinnu Alþfl. og Framsfl. í ríkisstjórn og þingmálum nauðsynlega, enda væntir þingið þess, að gagnkvæmrar sanngirni gæti af hálfu beggja flokkanna.

Hér eru ekki harðir kostir settir og ekki heldur neinar kröfur fram bornar, ekki um eitt einasta, hvað þá „hvert einasta atriði“ í starfsskrá 13. alþýðuþingsins og ekkert minnzt á að „slíta samvinnu“. Nei, nú eru mögru kýrnar búnar að gleypa þær feitu, — 14. þingið búið að renna hljóðalaust niður öllum stóryrðum 13. alþýðuþingsins. Nú er það „gagnkvæma sanngirnin“! sem á að ráða.

Mönnum verður á að brosa og líta til ráðherrans, sem 16. apríl tilkynnti, að vegna þess að hann sætti sé ekki við, að minni atriðin úr málefnakröfum sósíalista væru tekin út úr og lögfest, en þau stærri felld, þá segði hann slítið við Framsfl. „á þingi og um stjórn landsins“. Og þegar nú þessi maður enn hittist í ráðherrastól, er rétt. að rifjaðar séu upp kröfurnar, er hann bar fram á Alþingi 16. apríl og gerði að skilyrði fyrir áframhaldandi þátttöku í stjórn landsins, og þær bornar saman við hina nýju stjórnarsamninga.

Hvað var það nú, sem ráðherrann krafðist 16. apríl?

Hann krafðist í fyrsta lagi, að samþ. yrði frumv. Alþfl. um, að meginhluti stórútgerðarinnar yrði á þessu ári gerður gjaldþrota, en útgerðin síðan rekin af ríki og bönkum. Skyldi ríkið í því augnamiði taka tveggja millj. króna nýtt lán.

Hann krafðist í öðru lagi, að rekstur h/f Kveldúlfs yrði tafarlaust stöðvaður og félagið gert gjaldþrota.

Hann krafðist í þriðja lagi, að fiskimálasjóður tæki á ábyrgð ríkisins þriggja millj. króna lán, og skyldi fiskimálasjóður fyrir það fé eignast lá hluta í 6 nýtízku togurum í ríkis- og bæjarútgerð og ¼ hluta í frystihúsum, smáfiskimjöls-, síldar-, karfavinnslu- og niðursuðuverksmiðjum. Skyldu frystibús og verksmiðjur þessar reistar í sem flestum verstöðvum landsins, og allur þessi rekstur að sem mestu leyti vera í höndum og háður áhrifavaldi fiskimálanefndar og hins opinbera.

Hann krafðist í fjórða lagi, að tafarlaust yrði breytt yfirstjórn Landsbanka Íslands.

Og loks krafðist ráðherrann í fimmta lagi, að samþ. yrði frumv. Alþfl. um stækkun iðnlánasjóðs, og skyldi ríkið leggja fram í því skyni milljón króna, en auk þess skyldi iðnlánasjóður fá 1% af aðfluttum iðnaðarvörum, þar til höfuðstóllinn næmi 8 millj. króna.

Það voru þessar kröfur, sem ráðh. setti fram í ræðu sinni á Alþingi 16. apríl og gerði að skilyrði fyrir að vera í ráðherrastól.

Og nú spyrja menn:

Er ef til vill búið að uppfylla kröfurnar á þessu þingi?

Eða felast kannske fyrirheitin um það í hinum nýja málefnasamningi?

Þingskjölin svara fyrir sig. Þau sýna, að hvorki ráðh. né flokkur hans hafa svo mikið sem borið fram frumv. til uppfyllingar einni einustu af þessum 5 aðalkröfum ráðherrans.

Þar eru engin milljónalán, ekkert „uppgjör“ Kveldúlfs eða annara útgerðarfélaga, engin þjóðnýting, enginn ríkisrekstur, engin breyting á stjórn Landsbankans, engin krafa um iðnlánasjóð, ekkert nema vonir um að geta gefið einhverjum skjólstæðingum Héðins Valdimarssonar 350 þús. kr. til smíða tveggja togara, með því skilyrði þó, að á þeim verið engin ríkisrekstur.

En stjórnarsamningarnir?

Sýna þeir kannske, að nú eigi að framkvæma „hvert einasta atriði“ úr starfsskrá 13. alþýðuþingsins?

Eða sýna þeir ef til vill, að Alþfl. hafi látið sér nægja að eiga von á að fá framgengt þessum 5 kröfum ráðherra síns?

Nei, ónei. Þeir sýna hvorugt. Þeir sýna allt annað.

Þeir sýna, að um ekkert hefir verið samið umfram það, sem lagt hefir verið fram á þinginu.

Þeir sýna, að Alþfl. hefir engri kröfunni fengið fullnægt, hvorki alþýðuþingsins né ráðherrans. Þeir sýna, að ráðh. þarf ekki lengur að fjargviðrast út af því, að „einstök smærri atriði af kröfum hans verði tekin út úr, en meginatriðin séu felld“, eins og hann orðaði það 16. apríl. Nei. Þar hefir ekkert verið tekið út úr, hvorki „smærri atriði“ né „meginatriði“. Því hefir öllu verið vísað á bug, öllu nema ráðh. sjálfum. Hann situr enn kyrr í ráðherrastól, alveg grafkyrr með einn lítinn utan-stefnudósent í hnappagatinu. En kannske ráðherrastóllinn sé líka „meginatriðið“ í augum ráðherrans?

Kjósendur Alþfl. munu þó sennilega telja hitt enn stærra atriði, að þeir hafa verið sviknir um allar milljónirnar, alla „viðreisnina“, en í þess stað fengið á sig hátt á þriðju milljón í nýjum sköttum og tollum — nýtt risagjald í ríkissjóðinn af hverjum einasta munnbita og hverri spjör.

Þessi mynd er af þeirri hliðinni er að Alþingi veit og samstarfi sósíalista og Framsfl. Ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að þetta framferði eykur ekki virðingu almennings fyrir lýðræðinu og þingræðinu, enda munu þess hvergi dæmi í þingræðislöndum, að ráðh. í umboði flokks síns setji í alþjóðar áheyrn ákveðin skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi, þing sé rofið vegna þess að samstarfsflokkurinn neiti að fullnægja settum skilyrðum, en síðan sé, að afloknum kosningum, samstarfinu haldið áfram, án þess að svo mikið sem einu einasta af settum skilyrðum sé fullnægt, rétt eins og ekkert hafi í skorizt.

Hitt er svo aukaatriði, þó það auki auðvitað óvirðingu og niðurlægingu Alþfl., að síðan, að afloknum kosningum, réðust sósíalistar heiftuglega á kommúnista, kölluðu þá óvini alþýðunnar, sprengingarliðið, málalið frá Moskva, sem í einu og öllu dansaði eftir fyrirskipunum Stalíns, o. s. frv.

En í sumar hefir svo hvert biðilsbréfið rekið annað frá Alþýðusambandinu til kommúnista, og er tæplega sjálfrátt. hversu áfjáðir sósíalistar eru í að komast í sem allra innilegasta sambúð við mennina, er þeir töldu ekkert nema verkfæri erlends einvalds.

Það er von, að almenningur sé eigi aðeins vonsvikinn, heldur og alveg undrandi og höggdofa.

Það er von, að spurt sé, hvað það sé, sem breytt hafi andúð og fyrirlitningu sósialista á Moskva-þýjunum, sem þeir kölluðu, í svo skjótri svipan í heita samstarfsþrá við þessa sömu menn.

Það er von, að menn spyrji, hvers vegna l4. alþýðuþingið hafi gleypt í einum bita allar hugsjónir hins volduga 13. alþýðuþings.

Svarið er: Stóridómur kosninganna. Kosningaúrslitin sönnuðu sósialistum, að fólkið fordæmir lélega og lúalega blaðamennsku þeirra, persónulegar ofsóknir, innantómt hugsjónaglamur og algeran skort á málefnalegri sannfæringu. Sósíalistar skildu þá, að fólkið var búið að koma auga í, að atvinnan hafði ekki vaxið, heldur atvinnuleysið, tollum hafði ekki verið létt af, heldur lagðir á nauðsynjar, og að það var ekki alþýðan, heldur alþýðuforingjarnir, sem neituðu í orði kommúnistum og öllu þeirra athæfi, en rændu síðan öllum aðalmálum þeirra og tóku þau upp á sína eigin baráttuskrá.

Allt þetta rann upp fyrir sósíalistum, þegar kosningatölurnar sýndu hrun flokksins, ekki sízt hér í aðalvigi þeirra, þar sem þeir töldu sér 8000 atkvæði, en fengu aðeins rúm 4000, eða aðeins um 2/5 hluta á móti okkur sjálfstæðismönnum.

Það er þessi dómur þjóðarinnar, sem runninn er frá vaxandi skilningi almennings á viðfangsefnum stjórnmálalífsins, sem svo gersamlega hefir lamað sósialista, að þeir síðan eru sem villuráfandi sauðir í pólitísku hjörðinni, sem ýmist híma við húsvegg kommúnista eða leita skjóls og saðnings við jötu Framsóknar.

Það kann að vera, að mannlegt sé, að ýmsir foringjar sósíalista kvíði þeirri lífsvenjubreytingu, sem kynni að bíða þeirra, ef þeir reyna að standa við stóru orðin, a. m. k. þeir, sem tekið hafa ellefu þúsundir fyrir tæpt tveggja mánaða starf. En um það getur enginn ágreiningur verið, að allt lýðræði og þingræði er ekki eingöngu dregið ofan í sorpið, heldur raunverulega að engu gert ef ekki má taka meira mark á yfirlýsingu ráðh. í allra veigamestu þjóðmálunum, yfirlýsingu, sem gefin er samkv. umboði og í nafni flokks hans, en um gersamlega ómerkt óvitahjal væri að ræða. Ég hefi þá innt af hendi þá skyldu stjórnarandstöðunnar, að gagnrýna hina nýju stjórnarsamninga og jafnframt, til frekari skýringar á þeim, rakið lítið eitt raunasögu sósialista og varpað birtu yfir hina alveg einstöku niðurlægingu þeirra.

Ætla ég þá, eftir því er takmarkaður ræðutími minn leyfir, að víkja að nokkru því helzta, er fyrir liggur.

Eins og ég áður drap á, höfum við sjálfstæðismenn lengi séð, hver nauðsyn var til að breytt yrði um meðferð og sölu sjávarafurðanna. Höfum við, sem kunnugt er, borið fram margar tillögur í þeim efnum, sem flestar hafa verið alveg að vettugi virtar, en einstaka þó teknar upp, en þá venjulega eyðilagðar í framkvæmdinni.

Á þessu þingi höfum við haldið þessari bar

áttu áfram og borið í því skyni fram mörg nýtileg frumvörp, svo sem um styrk og lánsfjáröflun til að reisa niðursuðuverksmiðjur og frystihús, um afnám útflutningsgjalds á sjávarafurðum, um efling fiskveiðasjóðs, um að útvegsmenn fái frjáls afnot gjaldeyris til eigin þarfa, um nýjar síldarbræðslustöðvar, um efling landhelgissjóðs o. fl. Öllum þessum frumvörpum hefir stjórnarliðið vísað á bug og ekkert látið koma í staðinn, annað en áðurnefnt framlag til fiskimálanefndar, þ. e. a. s. 350 þús. kr. gjöf til örfárra manna, og smávægilega tilslökun á tollum, sem þó er tekin aftur með hinni hendinni, þ. e. a. s. nýjum tollum.

Allt þetta framferði valdhafunna er misráðið og vítavert.

Ég vil í þessu sambandi og því til skýringar, hversu allt sinnuleysi um afkomu útvegsins er hættulegt, leyfa mér að skýra frá því, að á aðalfundi S. Í. F., er haldinn var í októberlok síðastl., var, í tilefni af hinum sívaxandi þrengingum útvegsins, stjórn, framkvæmdarstjórn S. Í. F. og 5 öðrum trúnaðarmönnum útvegsmanna falið að koma málefnum útvegsins á framfæri víð þing og stjórn. Lögðu útvegsmenn fram skýrslur, er sönnuðu, að með öllu er vonlaust að reyna að fást við útgerð að óbreyttum kringumstæðum, en stjórn S. Í. F. ritaði ríkisstj. bréf, er skýrði hinar sívaxandi þrengingar útvegsins. Segir þar m. a.:

Það er kunnugt, að síðan 1931 hefir útgerðin verið rekin með stórtapi . . .Undanfarin ár hafa útgerðarfyrirtæki landsmanna sífellt safnað skuldum, og virðist nú svo langt komið í þessu efni, að tími sé til kominn að taka til alvarlegrar íhugunar, hvort fært er fyrir útvegsmenn að halda áfram á þeirri braut, ef ekki reynist kleift að koma þeim atvinnuvegi á þann grundvöll, að hann geti borið sig í meðalaflaári . . Af framansögðum ástæðum leyfir stjórn S. Í. F. sér að beina því til ríkisstj. og Alþingis að gera nú þegar þær ráðstafanir, sem tiltækilegastar virðast til að forða útveginum frá því hruni, sem óumflýjanlegt er framundan, ef haldið verður áfram að reka þessa atvinnugrein með fyrirsjáanlegu tapi“.

Bréf þetta er undirritað af allri stjórn S. Í. F., þar á meðal þeim tveim mönnum, er þangað eru settir samkv. tilnefningu atvmrh., þeim Jóni Árnasyni framkv.stj. í S.Í.S. og Jónasi Guðmundssyni framkvstj. Alþýðuflokksins.

Allir áðurnefndir umboðsmenn útvegsmanna áttu síðan fund með ríkisstjórn, formönnum stjórnmálaflokkánna og bönkunum. Lögðu þeir fram nokkrar uppástungur til bóta, en fóru þess að öðru leyti á leit, að stjórn, þing og bankar tækju málið til meðferðar.

Ég get svo stytt þá sögu. Valdhafarnir hafa, að heita má, leitt málið hjá sér, og er þá framundan óumflýjanlegt hrun útvegsins eins og bankastjórar Landsbankans og Útvegsbankans, trúnaðarmenn ríkisstj. í fiskimálunum og umboðsmenn útvegsmanna komast að orði.

Ég viðurkenni, að úrlausn þessa máls er miklum vanda bundin, og má vel vera, að okkur verði ofraun að glíma við þá örðugleika. Hitt fullyrði ég, að með öllu sé óverjandi að taka málinu með því alvöruleysi, er raun ber vitni um, og fæ ég ekki nógsamlega harmað það.

Það, sem allir hefðu átt að geta verið sammála um, er þetta:

Að heimila útvegnum að nota sinn eigin gjaldeyri.

Að skera niður útgjöld fjárlaganna eftir fremstu föngum, létta síðan tollum og sköttum af framleiðslunni og leggja jafnframt fram álitlega fjárfúlgu, er fyrir forgöngu þar til hæfra manna yrði varið til að ryðja nýjar brautir samkv. tillögum sjálfstæðismanna, og

Að forðast að heita innflutningshöftunum til verðhækkunar á þörfum útvegsins.

Ekkert af þessu hefir verið gert, en í þess stað eru teknar 400 þús. kr. í útflutningsgjald af þessum sligaða útvegi, til að gefa nokkrum skjólstæðingum Héðins Valdimarssonar, er eignast vilja tvo nýtízku togara, og til rökstuðnings þessari vitleysu er svo það fært fram, að arðvænlegra sé að reka togarana, sem gjöfina þiggja, en þann útveg, sem á að kosta gjöfina.

Menn verða að afsaka, að mig brestur orð til að lýsa skoðun minni á öllu þessu framferði. Af mörgum öðrum gagnlegum tillögum, er við sjálfstæðismenn höfum borið fram á þessu þingi, en ekki hafa náð fram að ganga, vek ég aðeins athygli á því stærsta: Vinnulöggjöfinni. Hefir verkfallsvitfirran þó magnazt og verið mjög til meðmæla slíkri löggjöf. Má og fullyrða, að tveir stærstu flokkarnir eru sammála um nauðsyn slíkrar lagasetningar, og hafa blöð Framsfl., undir forystu formanns flokksins og Jóns Árnasonar framkvstj., fært á það ágætar sönnur. Að málið samt sem áður er þagað í hel, er aðeins ein af mörgum sönnunum þess, hve örðugt er að koma góðum málum fram með sósíalistum.

Af löggjöf þingsins er breytingin á mjólkurlögunum hvað skaðlegust. Er það of langt mál og flókið til þess að því verði nokkur skil gerð í slíkum eldhúsumræðum, en reynslan mun sanna, að þau fyrirmæli munu að lokum reynast flestum til ills, en engum til góðs.

Tvennt hefir þingið vel gert.

Breyting sú á lögunum um síldarbræðslustöðvar ríkisins, er svipta þingmann Ísfirðinga, Finn Jónsson, völdum yfir bræðslustöðvunum, er hið mesta hagsmunamál útvegsins.

Og tilraunir Alþingis til að draga úr sárustu afleiðingum fjárpestarinnar eru virðingarverðar. Veit ég að vísu, að tjón bænda er óbætanlegt, er bústofninn hrynur þannig niður og bændur missa jafnt af starfi sinu sem voninni um lífvænlega afkomu. En aðgerðir þingsins sanna þó, að þegar ógæfan sækir bændur heim, stendur þingið alveg samhuga að því að meta meir þörf bændanna en þrengingar og getuleysi ríkissjóðs.

Af málefnum landbúnaðarins hefir að öðru leyti lítið legið fyrir þinginu annað en frv. sjálfstæðismanna um byggingar í sveitum. Verður og að viðurkenna, að á þessum krepputímum, þegar gjaldeyrisskorturinn er að verða óþolandi og tekjur þegnanna og ríkisins þverra, er eðlilegt, að mest sé til útvegsins litið.

Öllum er ljóst, að afkoma útvegsins hefir nú um langt árabilverið og verður á næstunni grundvöllur undir afkomu annars atvinnureksturs landsmanna og tekjum ríkissjóðs. Án viðunandi afkomu útvegsins fer því allt í rústir hér á landi.

Um versta embættishneyksli síðari ára, utanstefnudósentinn, munu fara fram sérstakar útvarpsumræður. Læt ég nægja að segja um það, að með einni embættisveitingu hefir engum íslenzkum ráðh. áður tekizt að baka sjálfum sér neitt svipað því eins mikla andúð, svo vægilega sé nú að orði kveðið, sem kennslumálaráðh. nú hefir tekizt, enda kannske enginn ráðh. átt þess kost að svívirða jafneftirminnilega allt í senn, kirkju landsins, æðstu menntastofnun þjóðarinnar og flest það, er sæmileg siðmenning og innræti vill í heiðri hafa.

Þessari embættisveitingu var í öndverðu engu betur tekið af framsóknarmönnum en okkur sjálfstæðismönnum. Brugðust þeir hinir reiðustu við og hugðu á hefndir. Úr þessu hefir þó minna orðið en ætlað var, og fer vel á því, að úr því Haraldur Guðmundsson í allri sinni niðurlægingu átti að fá einskonar auðmýktaruppbót, með því að stjórna gerðum Frmsfl. í einhverju einstöku máli, þá skyldi til þess valið einmitt langóþrifalegasta verkið, sem hann hefir gerzt sekur um í ráðherrastól.

Við sjálfstæðismenn höfum á undanförnum árum litlu ráðið um gang þjóðmálanna, en við höfum gert þá skyldu að gagnrýna og aðvara, og ég held, að það verði varla vefengt, að við höfum reynzt sannspáir, mér liggur við að segja allt of sannspáir.

Hér á Alþingi hafa margar tilraunir til úrbóta verði gerðar. Við höfum reitt fram 1½ tug milljóna í kreppuhjálp bænda, útvegsmanna og sveitar- og bæjarfélaga. Sumir héldu, að það mundi nægja. Nú vitum við allir og viðurkennum þann raunverulega sannleika, að við erum alveg jafnnær. Allt er á kafi í skuldafenum eftir sem áður.

Frá sjónarmiði okkar sjálfstæðismanna liggur meinið að nokkru leyti í því, að örðugleikarnir eru teknir skökkum tökum.

Stjórnin hefir að undanförnu hneppt allt framtak í viðjar. Við sjálfstæðismenn játum, að ýms bönd voru óumflýjanleg, en það skilur okkur frá stjórnarliðum, að við trúum á frelsið og viljum því sem allra minnst hefta framtakið, en stjórnarliðar trúa langt úr hófi á ágæti þess, að hið opinbera sé forsjón einstaklingsins, og hafa því a. m. k. í upphafi fagnað því. að ekki varð komizt hjá þvingunarráðstöfunum og gengið allt of langt í þeim efnum.

Á sviði fjármálanna hefir ágreiningurinn lýst sér í því, að þegar óhagstætt verð útflutningsvörunnar, hátt kaupgjald, þungir skattar og takmarkað athafnafrelsi tók að lama atvinnulífið, taldi stjórnin það sína skyldu að hlaupa í skarðið og halda þá þegar uppi þeirri atvinnu, er niður féll sakir samdráttar einkaframtaksins. Þetta kostaði auðvitað fé, mikið fé. Samtímis og af sömu ástæðum, þ. e. a. s. vegna minnkandi viðskiptaveltu, er leiddi af óhagstæðum framleiðsluskilyrðum og minnkandi framleiðslu, biluðu að verulegu leyti ýmsir skattstofnar ríkissjóðs. Stjórnin sá ráð, — aðeins eitt ráð þ. e. a. s. að leggja á nýja milljóna-skatta, til þess þannig að vega á móti rénandi tekjum, en vaxandi gjöldum ríkissjóðs.

Afleiðingin hefir orðið sú, að fleiri hafa gefizt upp, færri hafa greitt gjöldin og ríkissjóður er nú í meiri vandræðum og atvinnulífið verr farið en nokkru sinni áður.

Við sjálfstæðismenn vildum frá öndverðu, og viljum enn, fara aðra leið, þá að draga sem allra mest úr útgjöldum ríkissjóðs, en létta síðan sem allra mest sköttum af framleiðslunni og sýna henni velvilja og greiðvikni á alla lund. Við trúum því, að með þessum hætti megi endurvekja meðfædda hneigð Íslendinga til sjálfstæðs framtaks, svo að einkaframtakið hefji sókn og taki í sína þjónustu hinar mörgu og margbreytilegu auðlindir landsins og hafsins, sem umlykur strendur þess. Takist þetta, mun atvinnan aukast, hagur almennings blómgast og ríkissjóður fá tvo peninga fyrir einn.

Verði því haldið fram, að við sjálfstæðismenn lifum aðeins í trú, getum við vísað til reynslu fyrri valdaára, og raunar miklu víðtækari reynslu þjóðarinnar, og enda þótt margt sé nú breytt og aðstaðan að ýmsu önnur, er þó full ástæða til þess að gefa orðum okkar, ráðum og vilja gaum, og það því fremur, sem reynslan hefir þegar dómfellt stefnu núverandi valdhafa, m. a. á þann hátt, að því meira sem hið opinbera leggur fram til atvinnuauka, því meira verður atvinnuleysið í landinu.

Og hér í sölum Alþingis er nú enginn sá, að hann treystist til að andmæla því, að heildarsvipurinn er þessi:

Versnandi afkoma til sveita og sjávar, vaxandi örbirgð og atvinnuleysi í réttu hlutfalli við hinn síaukna skattþunga á gjaldþegnana, og vaxandi íhlutun og umráð hins opinbera á sviði athafnalífsins.

Ég veit ekki hvað við tekur, hvorki um stjórnarsamvinnu né löggjöf. Hitt veit ég, að framundan eru hörð átök í þjóðfélaginu.

Í þeirri baráttu standa annarsvegar þeir menn, sem náð hafa völdum með því að gera kröfur á hendur öðrum, jafnt framleiðendum sem ríki, án allrar hliðsjónar af gjaldgetunni.

Hinumegin hljóta þeir að safnast, sem viðurkenna, að eins og nú er komið högum Íslendinga, eigum við einskis annars úrkostar en að láta framleiðsluna bera sig og sætta okkur við það hlutskipti, sem misjafnt árferði þannig skammtar okkur.

Ég hefi þá trú, að dómur reynslunnar muni smátt og smátt einangra kröfumennina.

Ég hefi þá trú, að óbærilegur, sívaxandi skattþungi sannfæri almenning um það, að nú verður að stilla í hóf um kröfur á hendur ríkissjóði, til alls annars en þess, sem eflir atvinnulífið.

Ég hefi þá trú, að fólkið skilji, að með því að samþykkja nær 15 milljóna kreppuhjálp til útvegsmanna og bænda hafi sjálfir kröfumennirnir viðurkennt, að af framleiðendum sé þegar búið að krefjast of mikils.

Og ég er viss um. að þeir sem af þessu ekki láta sér skiljast, að úr því búið er að reyta allt af flestum, hlýtur kröfupólitíkin að vera ófrjó og dauðadæmd, þeir muni þó láta sannfærast, þegar þeir athuga gerðir þessa þings, því þar sést, að sjálfir kröfumennirnir eru í raun og veru gengnir af trúnni og krefjast nú þess að eins, að mega halda sínu, — fá að búa áfram í þeim fáu gróðurreitum, sem enn sjást í hinni miklu eyðimörk sósíalismans.

Baráttan við kröfumennina getur vel orðið hörð. Úrslitin velta svo sem nú er komið fyrst og fremst á því, hvort Framsfl. ætlar að halda áfram að veita sósialistum viðnám, og eigi aðeins neita þeim um samfylgd á ógæfubrautinni, heldur og að snúa við og eiga þátt í að færa margt til rétt horfs, hvort sem sósíalistum líkar betur eða miður, eða hvort Framsfl. hinsvegar fellur í fyrri farveg og flýtur þar með sósiallistum að feigðarósi.

En á úrslitum þessarar baráttu veltur framtíð Íslendinga.