21.12.1937
Neðri deild: 58. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

106. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

*Garðar Þorsteinsson:

Ég skal ekki lengja umr. mikið. Hv. þm. Ísaf. var mjög æstur og vondur út af orðum, sem ég lét falla út af orðum hans í sambandi við bráðabirgðaákvæði frv. Hann lýsti því yfir við þessar umr. að nú stæði eftir aðeins ein afborgun til dr. Pauls, en nú vill hann snúa sig út úr því með því að segja, að aðeins eitt ár væri eftir af afborgunartímunum. En það er ekki aðalatriðið, heldur það, hvað mikið er eftir af umsömdum greiðslum, og frv. ber það með sér, en þótt það væri ekki, þá má benda hv. þm. á, að einmitt við atkvgr. hér í kvöld upplýsti hann, að stæði eftir aðeins ein afborgun. Ég fór til hans og spurði hann, hvenær greiðslan hefði farið fram, en hann sagði, að hún hefði farið fram fyrir tveimur mánuðum. Þegar ég upplýsti með skýrslu frá Landsbankanum, að þetta væri rangt, þessi upphæð stæði ennþá á konto verksmiðjanna, en engar greiðslur hefðu farið fram eða yfirfærslur, þá vill hann ganga frá öllu saman og segja, að hann hafi aldrei sagt þetta. Ég vil svo ekki ræða þetta frekar, en mér skilst þetta upplýsa nokkuð vel málfærslu hv. þm.

Ég mun ekki heldur karpa við hann um það, hvernig flokksmenn hans og hann sjálfur hafi komið fram á Siglufirði að því er snertir atvinnuveitingar til verkamanna og sjómanna. Ég hefi of mörg dæmi sjálfur, sem sanna það, til þess, að ég fari að breyta í nokkru ummælum mínum um það efni. Ég hefi ummæli margra manna, sem þar hafa unnið, sem orðið hafa fyrir aðkasti vegna þess, að þeir hafa ekki viljað fylgja sósíalistum við kosningarnar á Siglufirði í sumar, og þeirra atvinna hefir verið í voða, og margir hafa sagt mér, að þeir kæmust þar ekki að vegna sinna pólitísku skoðana. Þessu til áréttingar vil ég vísa til þeirra ummæla, sem fóru fram á síðasta ári. í Ed. sérstaklega um þetta mál.

Ég vil svo aðeins minna á, að það er rangt hjá hv. þm. Ísaf., að ákvæði 9. gr. frv. séu sett fram, eða í raun og veru kúguð fram af Sjálfstfl. Ég vil minna þennan hv. þm. á, að þegar þetta frv. var til 1. umr. í Ed., þá tók Magnús heitinn Guðmundsson það fram sem meðflm. frv., að hann vildi, að þetta kæmi fram í frv. og hann mundi flytja brtt. við það. Ég hef ekki séð það koma fram frá sjálfstæðismönnum, að þeir væru á móti þessu ákvæði, og það þýðir ekki fyrir hv. þm. Ísaf. að ætla að reyna að gera Sjálfstfl. tortryggilegan fyrir ákvæði, sem hann hvorki beint né óbeint hefir tekið afstöðu til á þann veg, sem hv. þm. lýsir a. m. k. er víst, að þetta er að sjálfsögðu aðalatriðið í þessum ákvæðum frv., sem hér um ræðir, sem sé að heimilt sé, eins og áður var, að kaupa síldina fyrir fast verð. Það heimilar 9. gr. frv., og innihald hennar er nákvæmlega eins og áður var. Ég sé því ekki, hvers vegna sósíalistar breiða sig svo mikið út yfir þetta atriði, þegar þetta er komið inn í frv., sem þeir líka vilja og ég er þeim sammála um.

Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. sé í vafa um, að það skipti litlu máli, hvort ríkið sé í ábyrgð eða ekki fyrir þeim skuldum, sem verksmiðjurnar stofna til, því að síldarútvegurinn er svo mikill liður í atvinnulífi þjóðarinnar, að þjóðbankinn mundi aldrei neita um rekstrarlán til kaupa á síld, hvorki föstu verði eða á annan veg, en eins og l. bera með sér, þá er það atvmrh., sem á að samþ., hvort heimildin til að kaupa föstu verði er notuð eða ekki, og hann mun aldrei gera það, ef þar verður farið út í einhverja vitleysu.

Hv. þm. endaði ummæli sín áðan á því að segja, að endurtekin lygi yrði aldrei sannleikur. Þar er ég honum sammála, en ég vildi gjarnan vita, hvort það er nýlega, sem hann hefir rekið sig á það. Ég hygg, að hann hafi rekið sig á það a. m. k. einu sinni í dag, þegar hann margendurtók, að greiðslan til dr. Pauls hefði þegar farið fram, og það er fyrst, þegar ég visa til skýrslu veðbókar Landsbankans, sem hann rennur frá þessu. Ég vil svo að endingu vona, að næst þegar þessi hv. þm. tekur til máls, hafi hann í huga þessi sannindi, sem hann hefir nú komið auga á, að endurtekin lygi verður aldrei sannleikur.