17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

1. mál, fjárlög 1938

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Góðir áheyrendur. Ræða hæstv. fjmrh. og ræða hv. þm. Dal. — eða réttara sagt fyrirlestur — gefa mér ei tilefni til sérstakra athugasemda, að öðru leyti en því, að ég get ekki stillt mig um að samgleðjast hv. þm. Dal. um það, að hafa nú loks komizt til föðurhúsanna, ef svo mætti segja. Því að ég heyrði ekki betur í hans ræðu heldur en sá greinarmunur, sem hingað til hefir verið reynt að gera á Sjálfstfl. og Bændafl., væri nú með öllu þurrkaður út, og að hann ætlaði að fara að kenna formanni Sjálfstfl., hvernig ætti að reka útgerð hér á landi, þannig að hún gæti borið sig, og að hann væri að keppa við hann um þekking og fróðleik í þeim efnum.

Við hv. 1. landsk. vildi ég bara segja það í sambandi við það, sem hann sagði um sameiningu verkalýðsins á Íslandi og ósk sína um það, að hún mætti takast, að Alþfl. er reiðubúinn og hefir þegar boðið sameiningu á þeim grundvelli. sem samþ. var á síðasta þingi Alþýðusambands Íslands, sem haldið var s. l. haust. Það tilboð var að vísu miðað við það, að sameining færi fram 1. des. s. l. En því var hafnað af Kommfl. Ef sá flokkur sér sig um hönd og vill ganga að sameiningartilboðinu, sem liggur fyrir, þá geri ég ráð fyrir, að auðvelt verði að koma sameiningunni á. En sameining milli Alþfl. og Kommfl. á kommúnistískum grundvelli kemur að minni hyggju ekki til nokkurra mála. Um þau einstöku atriði, sem hann að öðru leyti drap á í ræðu sinni, get ég verið fáorður. Ég er sammála hæstv. fjmrh. um það, að mikið af þeim tekjum, sem þeir benda á, kommúnistar, í sinum frv., sé sýnd veiði, en ekki gefin. Þó skal ég taka fram, að ég er sammála honum um, að fullkomin ástæða sé að athuga vaxtaskatt og fasteignaskatt, sérstakan stighækkandi skatt á verðmiklu landi. Geri ég ráð fyrir, að þetta verði tekið til athugunar síðar. Þó vil ég taka fram, að af þeim síðarnefnda tel ég ekki tekna að vænta í byrjun.

Ég held, að öðrum atriðum í ræðu þessa hv. þm. geti ég að mestu svarað um leið og ég svara formanni Sjálfstfl., hv. þm. G: K., því að nokkru leyti var sama hljóðið í báðum, — auðvitað um það, að leggja miklu meira fé fram og gera meira en gert er, án þess þó að gera um leið grein fyrir, á hvern hátt ætti að fá til þess fé, heldur gefa þeir í skyn, að allt þetta megi gera samtímis því, að hægt er að minnka skatttekjur ríkissjóðs, sem vitaskuld er sú mesta firra.

Um ræðu hv. þm. G.-K. mætti í raun og veru margt segja. Hann hefir nú haft það fyrir venju, ýmist í eldhúsi eða við áramót, að tilkynna þjóðinni það, að stóratburðir væru í vændum, að stórtíðindi myndu brátt gerast. Hann kom inn á þetta sama svið nú, því að hann sagði, að börð átök væru framundan. Hann gerði ekki nákvæmlega grein fyrir því, í hverju þessi hörðu átök ættu að liggja og að hverju þau ættu að beinast. En hann gaf það svo greinilega í skyn, að ekki getur orkað tvímælis, við hvað hann átti. Hann sagði í lok ræðu sinnar: Ætlar Framsfl. að veita sósíalistum viðnám? — Þ. e. að fella þau mál, sem jafnaðarmenn beita sér fyrir. Eða ætlar hann að falla í fyrri farveg? — Þ. e. að halda áfram samvinnu við Alþfl. Og öll ræða hans var, ef svo mætti segja, eitt óslitið „vinstra bros“ frá upphafi til enda. Ekkert annað en bónorðsför til Framsfl., svo áleitin, að ég minnist ekki að hafa heyrt hana jafnáleitna í opinberri ræðu. Hann forðaðist vandlega að mæla nokkurt styggðaryrði til ráðherra Framsfl. eða til þess flokks yfirleitt. En að sjálfsögðu lítur hann á mig sem væntanlegan meðbiðil sinn sérstaklega. Þá taldi hann skyldu sína að lýsa öllum stærri ágöllum á mér og mínum flokki, enda hneig meiri hlutinn af ræðu hans í þá átt. Ég get ekki sagt, að þessi bónorðsför hv. þm. komi þingmönnum mjög á óvart, vegna þess að það er á almanna vitorði í þinginu, að form. Framsfl. hefir varla frið til að sitja þingfundi fyrir því, að hv. þm. G.-K. hefir svo mikið við hann að tala á einmæli, að það tefur tíma hans frá þingstörfum. Einu sinni hefðu nú þetta þótt tíðindi, að svo dátt gerðist með þessum tveimur mönnum. En svona hefir það verið á þessu þingi. Ég verð að segja það, að ýmsir menn leita sér nú kvonfangs og fara í biðilsbuxur, án þess að það verði svona átakanlega áberandi eins og það var í þessari ræðu hv. þm. G.-K. nú, og eins og það yfirleitt hefir verið á þessu þingi. Ég skal í sjálfu sér engu um það spá, hversu undirtektir verða hjá Framsfl. undir þetta bónorð hv. þm. fyrir hönd Sjálfstfl.; það verður náttúrlega tíminn að leiða í ljós. En hv. þm. vék að einu atriði sérstaklega í sambandi við mig og Alþfl., sem ég ekki get látið ósvarað. Hann taldi, að með þeirri yfirlýsingu. sem ég gaf fyrir hönd Alþfl. á þingi í apríl s. l., hafi því verið yfirlýst af Alþfl., að hann gæti ekki sætt sig við, að Framsfl. samþ. aðeins nokkur smáatriði úr frv. hans, heldur mundi hann kjósa að slíta samstarfinu. Þetta er alveg rétt tilvitnun í mína ræðu. En niðurlaginu er sleppt : Að þá kysi Alþfl. heldur, að málin væru lögð undir dóm kjósendanna og þeir skæru úr. Og hann gleymdi að geta þess, að vegna þess að ekki náðist samkomulag um lausn þessa máls á seinasta þingi, þá var þingið rofið og alþingiskosningar fóru fram. Eftir þær kosningar var sýnt, hver var vilji kjósendanna í landinu. Vilji kjósendanna í landinu var ekki sá, að Breiðfylkingin svokallaða tæki við völdum. Þvert á móti vilji kjósendanna kom alveg ótvírætt í ljós í þessu efni, að áframhaldandi yrði reynt að halda uppi samstarfi á svipuðum grundvelli og verið hafði milli Alþfl. og Framsfl. Yfirlýsing mín gilti að sjálfsögðu á því þingi. Og afleiðingin af minni yfirlýsingu var laukrétt, að kosningar fóru fram og málin voru lögð fyrir dóm kjósendanna. Og sá dómur féll á þann veg, sem kunnugt er. Hv. þm. sagði, að kosningarnar hafi verið stóridómur yfir Alþfl. Ég skal hreinskilnislega játa, að mér og Alþýðuflokksmönnum flestum var kosninganiðurstaðan nokkur vonbrigði. Við bættum við okkur svo að segja engum atkvæðum. En kosningarnar hafa verið stóridómur líka um fleiri en Alþfl., og ánægjulegt að sjá, liggur mér við að segja, að hv. þm. G.-K., formaður Sjálfstfl., sér og viðurkennir þennan dóm. Fyrir kosningarnar var svo komið málefnum flokksins undir hans forustu, að hann taldi vonlaust, að hann næði meiri hl. á þingi. Eina vonin til þess, að Sjálfstfl. gæti fengið stjórnaraðstöðu á þingi, lá í því, að hann gæti náð bandalagi við Bændafl., og til þess var Bændafl. stofnaðar.

Ólafur Thors setti sig niður og reiknaði saman atkv. Bændafl. og Sjálfstfl. í flestum kjördæmum landsins, og sjá, niðurstaðan varð sú: jú, jú, við komum að svo og svo mörgum við kosningarnar, og við náum meiri hl. saman. — þeim grundvelli var bandalagið gert, vegna þess að formaður Sjálfstfl. var vonlaus um, að hann næði meiri hl. En útreikningar hv. þm. brugðust mjög herfilega. Það sýndi sig, að það er annað að reikna með tölum á blaði en að reikna með lifandi fólki með heilbrigða skynsemi. Niðurstaðan af þessu herbragði var sú, að Sjálfstfl. lánaðist að ganga af Bændafl. dauðum án þess að bæta sinn hag nokkurn skapaðan hlut. Niðurstaðan varð sú, að þjóðin lýsti því yfir svo greinilega sem frekast varð á kosið, að hún vill ekki, að Sjálfstfl. fari með stj., ekki einu sinni þó að Bændafl. sé þar með. Það er sá stóridómur, sem hv. þm. verður að hlíta hér. Þess vegna er þessi hv. þm. kominn á þessar nýju bónorðsbuxur, sem hann var að flíka með nú frammi fyrir þingheimi og áheyrendum. Nú er hann líka orðinn vonlaus um að ná þingmeirihl. með Bændafl. Nú er eina vonin að geta náð bandalagi við Framsfl., og í það hefir hans orka nú farið á þessu þingi, og í þá átt, til þess að undirbúa slíka samvinnu, hneig ræða hans öll. Öllu ámáttlegri uppgjöf, öllu meiri vantraustsyfirlýsingu á sjálfan sig sem foringja og flokk, sem hann kallar stærsta flokk landsins, er naumast hægt að hugsa sér. Mér er ánægja, að þessi hv. þm. gerir sér grein fyrir, hvernig þessi stóridómur síðustu kosninga er.

Hv. þm. taldi, að þeir samningar, sem gerðir hafa verið milli Alþfl. og Framsfl. um lausn mála á þessu þingi og áframhaldandi stjórnarsamvinnu, væru á þann veg, að heiðri Alþfl. væri stórlega misboðið með því að ganga að slíkum samningum. Ég mætti að sjálfsögðu vera hr. þm. þakklátur fyrir þá umhyggju, sem hann virðist bera fyrir Alþfl., en ég held, að honum væri nær að hugsa um velferð sins eigin flokks, því að þar getur hann áreiðanlega fengið nóg að starfa. En ég tel rétt vegna þessara ummæla hv. þm. að gera grein fyrir þessum samningum milli stjórnarflokkanna um lausn mála á þessu þingi, og get ég þá um leið svarað nokkru því, sem hefir verið drepið á í umr.

Í fyrsta lagi hefir verið samið um stuðning við sjávarútveginn, og skal ég koma nánar að því síðar í sambandi við ummæli hv. þm. um fiskimálasjóð.

Í öðru lagi var samið um frv. um alþýðutryggingar, sem ekki gekk fram á síðasta þingi. Felur það aðallega í sér þá breyt., að framlag til ellilauna er hækkað um 1/3, eða 50 þús. kr. Styrkur, sem greiddur er til sjúkrasamlaga, er hækkaður um 1 kr. fyrir félaga úr bæjar- og sveitarsjóðum og 1 kr. frá ríkissjóði, og ennfremur er verulegur hluti af sjúkrakostnaðinum færður yfir á ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, þannig að þeir, sem eru haldnir virkum langvinnum sjúkdómum, færast yfir á þessa framfærslu, en verða ekki tryggingunum til byrði. Yfirleitt má segja, að tryggingarnar hafi á þessu þingi fengið verulegar umbætur frá því, sem áður var. Og það er mín von, að takast megi áframhaldandi á næsta þingi að endurbæta þau svo, að þau komist skjótlega í það horf, sem við teljum æskilegt.

Þá hefir orðið samkomulag um, að sveitar- og bæjarfélög hækki fasteignaskattinn að vissu marki af lóðum og húsum og leggja úr ríkissjóði til þeirra um 700 þús. kr., til þess að jafna útgjöld vegna fátækraframfærslu og vegna ellilauna og kennaralauna. Þessi upphæð er hækkuð um 450 þús. kr. frá því, sem verið hefir, og þótt segja megi, að æskilegra hefði verið, að hún hefði getað verið hærri, þá má þó með þessu bæta mjög úr erfiðleikum þeirra bæjarfélaga, sem við erfiðust kjör eiga að búa.

Þá hefir verið samkomulag um að gera nauðsynlegar ráðstafanir gagnvart sauðfjárpestinni, bæði sem varnir gagnvart útbreiðslu hennar og líka óhjákvæmilega hjálp til handa þeim bændum, sem mest afhroð hafa þar goldið.

Þá hefir verið samið um, að fjárlög skuli afgr. greiðsluhallalaust og séð fyrir tekjustofnum í því skyni að mæta þeim nýju útgjöldum. Ég skal játa, að með þessu, að afgr. greiðsluhallalaus fjárlög, er tekinn á sig ákaflega þungur baggi, þegar afborganir fara næstum því upp í 1½ millj. kr. Það þarf vissulega mikið átak til að greiða svo mikið af skuldum, en það er óhjákvæmilegt að standa að fullu í skilum, ef lánstraust okkar á ekki að biða hnekki, en á engu er þjóð eins og okkur jafnmikil þörf eins og að halda góðu lánstrausti, vegna þess hvað lítið fjármagn er til innanlands. Mér er því ánægja að skýra frá því, að upplýst er, að nú er nokkurnveginn víst, a. m. k. mjög sennilegt, að okkur standi til boða 2 erlend lán til framkvæmda hér á landi, sem bæði nema milljónum. Þau eru bæði ensk og með sæmilegum vaxtakjörum. Það er fullvist, að ef við hefðum ekki staðið að fullu í skilum með greiðslur, þá væru þessir möguleikar nú ekki til. Ég nefni þetta til þess að sýna fram á, hver nauðsyn er að standa að fullu í skilum við erlenda lánardrottna.

Þá hefir orðið samkomulag um að breyta mjólkurlögunum, og mun verða nánar um það rætt síðar.

Til þess að mæta þessum útgjöldum á að leggja 10%, sem hefir í meðferð þingsins verið hækkað upp í 12%, á þá tekjustofna, sem ríkið hefir fyrir. Var talið, að komizt yrði næst sanngirni með því að leggja á þá skattstofna, sem áður höfðu verið samþ. af þinginu. Þá var viðskiptagjaldið hækkað um 2% og á einstökum flokkum 5–6%.

Þetta eru grundvallaratriðin, sem stjórnarflokkarnir hafa orðið sammála um á þessu þingi. Það segir sig sjálft, að þegar tveir flokkar semja, verða þeir að taka tillit hvor til annars, og hvorugur getur fengið allt, sem hann vill. en báðir verða að fá nokkuð, og tel ég, að þessir samningar beri þess vott.

Ég skal benda á, að fjárl. hjá okkur eru með því sniði, sem ég hygg, að vart muni þekkjast annarsstaðar. Þegar frv. var lagt fram, var gert ráð fyrir, að til verklegra framkvæmda og beins stuðnings við atvinnuvegina væri lagt yfir 7 millj. kr., en í meðförum þingsins hækkaði það um 500–600 þús. kr., þannig að helmingur aföllum tekjum ríkissjóðs fer til beinna ráðstafana til að draga úr erfiðleikum kreppunnar og jafna aðstöðuna milli þjóðfélagsþegnanna og láta þá, sem betur mega sín, leggja fé til opinberra þarfa til þess að bæta aðstöðu þeirra, sem verr eru settir. Þá er gert ráð fyrir því, að til trygginga og sjúkrahjálpar verði varið um 2½ millj., til fræðslumála, vísinda, bókmennta og lista næstum því 2 millj. samtals. Með breyt. Alþingis á frv. verður það því 12 af 16 millj., eða fullir ¾ af öllum útgjöldum fjárl., sem gengur til verklegra framkvæmda, stuðnings við atvinnuvegina, fræðslumála og vísinda, tryggingarmála og sjúkrahjálpar. Mér þætti fróðlegt að heyra þá menn, sem nú geipa hæst um sparnað samtímis því sem þeir bera fram till. um milljónaútgjöld, benda á, hverjir af þessum liðum þeir vilja, að séu felldir niður.

Þá er eitt atriði úr samningum stjórnarflokkanna, sem enn er órætt, en það er stuðningurinn við sjávarútveginn, en það er því nauðsynlegra sem hv. þm. G.-K. gerði það atriði sérstaklega að umtalsefni. Á þeim fundi, sem hv. þm. gat um, að útgerðarmenn hefðu komið á ásamt ríkisstj., báru þeir fram tilmæli um ívilnanir og stuðning sjávarútveginum til handa af hálfu þess opinbera. Þessi tilmæli voru í 8 liðum. Þar var farið fram á afnám útflutningsgjalds, fella niður skyldu til að hafa vélstjóra, athuga um lækkun vaxta, frjálsan ráðstöfunarrétt útgerðarmanna og útgerðarfélaga yfir öllum erlendum gjaldeyri, sem fæst fyrir afurðir útgerðarinnar, og frjálsan innflutning á öllu. sem til útgerðarinnar þarf. Stj. hefir þegar svarað þessum málaleitunum að svo miklu leyti sem það er í hennar valdi að svara þeim, og svörin eru á þessa leið:

Í fyrsta lagi hefir hæstv. fjmrh. gefið yfirlýsingu um það, að hann muni taka til athugunar í samráði við bankana, hvort hentugra muni að veita innkaupafélögum útgerðarmanna leyfi til að nota gjaldeyrinn fyrir afurðir sínar til greiðslu á útgerðarvörum, svo og að gera sitt til þess, að eigi standi á innflutningsleyfum fyrir útgerðarvörur. Í sambandi við innflutning á veiðarfærum, sérstaklega línum, hefir hann tjáð mér, að hann muni hlutast til um, að leyfður verði innflutningur á línum, ef verðlag á innlendum línum fer verulega fram úr því, sem erlendar línur kosta.

Að því er snertir skatta og tolla, þá hefir þingið samþ. að fella niður útflutningsgjald af saltfiski. Nemur það 225–230 þús. kr. miðað við 2 síðustu ár, en meira, ef útflutningurinn eykst. Í frv. um tolla og skatta, sem fyrir Alþingi liggur, hefir verið samþ. að fella niður nýja skatta af kolum, salti og olíu, ennfremur tollundanþágu fyrir hamp til veiðarfæragerðar og tunnuefni.

Þá hefir ríkisstj. leitað eftir heimild Alþingis til að endurgreiða fiskiskipum kolatollinn á saltfisksvertíðinni, en á ísfisksvertíðinni kaupa skipin kolin erlendis, ennfremur að fella niður innheimtu tolla af mótorolíu og salti, að því tilskildu, að hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög veiti þar tilsvarandi ívilnanir.

Um verðlag á útgerðarvörum er það að segja, að Alþingi hefir samþ. l., um eftirlit á verðlagi, og nær það einnig til útgerðarvara. Verð á hráolíu hefir verið lækkað um 1 eyri kg., úr 17 niður í 16 aura. Verð á línum hefir einnig verið lækkað. Þær kostuðu 115,74 dus., en hafa verið lækkaðar niður í 98,50, sem er sagt, að sé ekki langt frá því verði, sem er nú á norskum línum; verðmismunurinn mun ekki vera meiri en 2 kr., er mér sagt, án þess að ég hafi fullar sönnur fyrir því.

Um önnur atriði, sem rætt var um á þessum fundi, hefir stj. ekki getað veitt ákveðin svör ennþá, því að það stóð ekki í hennar valdi.

Ég vil þá að lokum draga saman nokkurnveginn þann stuðning, sem þetta þing, sem nú situr, hefir samþ. að veita og mun veita sjávarútveginum, sumpart með beinum framlögum og sumpart með eftirgjöfum á sköttum. Það verður á þessa leið:

1. Framlag til fiskveiðasjóðs eldra

40000

kr

1. Framlag til skuldaskilasjóðs

160000

3. Framlag til fiskimáiasjóðs

400000

4. Framlag til sama, eldra

120000

Fjárframlög samtals

720000

kr.

Þá eru tollaeftirgjafir, afnumin útflutningsgjöld og endurgreiðslur.

.

l

Afnám útflutningsgjalds á saltfiski

230000 kr.

2.

Tollur af kolum og olíu

100000 -

3

.

Tollur af tunnum, hampi o. fl.

50000 -

380000 kr.

Bein framlög og niðurfelling eða ívilnanir skatta og tolla samtals — ein milljón og eitt hundrað þúsund kr. —, sem Alþingi hefir samþ. og mun samþ. til styrktar útgerðinni. Þetta er allt nýtt nema 40000 til fiskveiðasjóðs og 120 þús. til fiskimálasjóðs, sem var samþ. fyrir 2 árum.

Í sambandi við það, hversu mjög þungum búsifjum útgerðin hafi sætt af stj., þykir mér rétt að rifja það upp, að fyrstu vikuna eftir að stj. tók við 1934 var afnumið sérstakt útflutningsgjald af síld, 1 kr. á tunnu; það, sem var endurgreitt fyrir 1934, nam 125000 kr. Ef þessi tollur hefði ekki verið afnuminn, þá hefði þessi skattur á síldarframleiðendur numið yfir 500000 kr. Þá var lagt til fiskimálasjóðs milli 800 og 900 þús. kr.; 1935 var greitt upp í ofviðristjón á bátum og veiðarfærum yfir 100 þús. kr.; 1936 var svo ástatt fyrir útgerðarmönnum við Faxaflóa, vegna aflabrests, að þeir gátu ekki greitt aflahlut, og þá var veitt sérstök hjálp þeim til handa, 230 þús.; 1937 var Vestmannaeyingum og fleirum veitt samskonar hjálp, 120 þús. Auk þess var stofnaður skuldaskilasjóður fyrir vélbáta og línuveiðara, sem veitti lán með 4½% vöxtum til 18 ára, og samið um gamlar skuldir svo mörgum millj. skipti, sem annars hefðu á þeim hvílt.

Ég ætla, að af þessu sé sýnt, að stjfl. hafa séð erfiðleika útgerðarinnar og hafa jafnan sýnt viðleitni til hjálpar.

Hv. þm. G.-K. talaði þannig, að ætla mætti, að hagur útgerðarinnar væri nú svo mjög bágborinn vegna skattpyntinga og skilningsleysis stj. En ég hefi fyrir mér vitnisburð, sem hann getur ekki vefengt, að svo getur ekki verið. Hann hefir verið vanur á hverju þingi, síðan stjórnarskiptin urðu, að lýsa ástandi landsins þannig, eins og dómsdagur væri á hurðabaki og hversu allt væri komið í hrun á því augnabliki, sem hann hélt ræður sínar á. Árið 1934 segir hann svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir tveimur árum fór fram rannsókn á hag bænda. Hún leiddi til þess, að Alþingi samþykkti tólf millj. króna fjárframlag til bjargar þeim bágstöddustu. Enn er þó allt í óvissu, og þó raunar heldur voða um fjárhagsafkomu bænda, þar eð búskapurinn ber sig ekki.

Milliþinganefndin í sjávarútvegsmálum hefir nú upplýst, að ennþá verr eru útvegsmenn farnir. Hálfum öðrum milljónatug hafa þeir tapað í síðustu 5 árin og standa nú uppi eignalausir með óarðbæran atvinnurekstur.

Hér við má bæta fátækum verkalýð og illa höldnum embættismönnum. Þá sjá menn þjóðarauðinn, þó að því viðbættu, að skuldir okkar erlendis eru orðnar milli 90 og l00 millj. króna, en nýjar, geigvænlegar utanaðkomandi hættur steðja að þjóðinni, svo að allt má heita í óvissu um sölu framleiðsluvörunnar“.

Þannig lýsir þessi hv. þm. ástandinu 1934, sama haustið og stjórnarskiptin urðu. Þá hafði Magnús Guðmundsson verið atvmrh. sem fulltrúi Sjálfstfl., og þannig er þá ástandið í atvinnumálunum, þegar hann lætur af völdum.

Enn kveður við sama tón 1933. Þá er niðurstaðan af hugleiðingum hans þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„Kreppan, sem leiða kann af hruni saltfisksmarkaðanna, er enn ekki komin fram nema að óverulegu leyti, og þrengingarnar, sem við nú tölum mest um, stafa í rauninni ekki aðallega frá neinum nýjum örðugleikum í atvinnulífinu, því þar hefir ekkert nýtt skeð. En nú er búið að eta upp eignirnar. Nú er lánstraustið þrotið. Nú er ekki lengur hægt að leyna þjóðina sannleikanum, því nú verður íslenzka þjóðin eins og hver annar fátæklingur að láta afrakstur líðandi stundar nægja fyrir þörfunum“.

Þannig lýsir hann þá ástandinu fyrir tveimur árum. Allt í kaldakoli, og þó er kreppan vegna söluörðugleika á saltfiskinum ekki farin að gera vart við sig. En veit hann það ekki, þessi hv. þm., að tvö síðustu ár, árin, sem liðin eru síðan hann gaf þessa lýsingu, hafa að ýmsu leyti og reyndar að öllu leyti, sérstaklega að því er snertir þorskveiðarnar, verið þau langerfiðustu ár, sem nokkurntíma hafa yfir Ísland komið. Spánarmarkaðurinn hefir gersamlega lokazt og Ítalíumarkaðurinn lokazt að hálfu leyti. Þar við bættist svo óminnilegur aflabrestur, að nærri lá, að við gætum ekki aflað þess fiskjar, sem við þó máttum selja á hina þröngu markaði. Heldur hv. þm. ekki, að það hafi verið örðugt að halda öllu gangandi þessi ár eftir að ástandið er eins og hann hefir lýst því áður en kreppan byrjaði? Ég get fullvissað hv. þm. um, að ef haldið hefði verið áfram samskonar stjórn og sama lagi á þessum málum og hafði verið til þess tíma, þá hefði verið ómögulegt að fleyta sér yfir þá erfiðleika, sem yfir okkur hafa gengið þessi tvö síðustu ár.

Það er satt, síldveiðin var mikil og blessaðist vel í sumar, — en hvers vegna? Vegna þess að búið var að gera þann undirbúning, sem þurfti bæði til að notfæra sér síldina og líka til að fyrirbyggja, að menn í óviti söltuðu hver í kapp við annan og eyðileggðu söluna hver fyrir öðrum. Norðmenn veiddu ekki síður en við, en hvaða hagnað höfðu þeir af þeirri veiði? Mikið af síldinni varð ónýtt og varð að fara í bræðslu, eftir að búið var að salta hana niður í tunnur. Fyrir það skipulag, sem sett hafði verið á þessi mál, á síldarmálin og fisksölumálin, fyrir þá lögvernd, sem samtök útgerðarmanna hafa fengið í fiskimálunum og síldarmálunum, og fyrir þær auknu síldarbræðslur, sem komið hefir verið upp hér á landi, hefir verið hægt að hafa svo mikið upp úr síldinni sem raun varð á.

Ég hefi gert grein fyrir, hvað gert hafi verið á þessu þingi til að mæta erfiðleikum sjávarútvegsins. Á þessu eina þingi hefir verið lagt fram í afnámi skatta og tolla og í beinum framlögum um 1100 þús. kr. til sjávarútvegsins. Hv. þm. segir, að þetta sé hégóminn einn. Ég man þá tíð, að hv. þm. sagði, að ef útflutningsgjaldinu væri aflétt, væri hag útgerðarmanna borgið. Ég man þá tíð, þegar Jóni Þorlákssyni var hælt fyrir þann stuðning, sem hann hefði veitt sjávarútveginum, þegar hann féll frá innheimtu á 25% gengisviðauka á tolli af salti og kolum. Það var rómað mjög. En hvað er það hjá því, ef tollinum er nú létt af og svo að segja allt útflutningsgjaldið af saltfiski og allt hitt útflutningsgjaldið og meira til er lagt til sjávarútvegsins? Hann segir, að þetta sé lítilsvert, og vera kann, að honum finnist það. Þegar Jón Þorláksson var við stjórn, var það stórvirki að létta af 50 aura tolli. Nú er einskis vert að létta af 1 kr. tolli auk alls annars, sem gera á fyrir þennan atvinnuveg og ég hefi nú lýst.

Út af þeim áætlunum, sem útgerðarmenn lögðu fram við stj. í þeim viðræðum, sem ég hefi áður minnzt á, vil ég taka fram, að eins og þær eru, er vonlaust að hægt sé að fylla í þau skörð, sem þær sýna. Það er gert ráð fyrir, að togarar fiski á saltfisksveiðum 1400 skippund, og söluverðið sé 70 kr. hvert skippund af fullverkuðum fiski. En það er að minni hyggju ekki hægt að gera neinar ráðstafanir, sem tryggja rekstur togara yfir vetrarm. með slíkum afla. Það mun rétt vera, að á síðustu vertið, 50 dögum, fiskuðu togararnir 1450 skippund. En er nokkur ástæða til að byggja áætlanir á útkomu þess versta árs, sem yfir þennan atvinnuveg hefir komið?

Það má telja líklegt, að selja megi blautfisk sæmilegu verði upp úr áramótum, sem getur svarað til 90 kr. á skippund. Og ég verð að segja það, að það væri herfilegt slys, ef ekki eru þeir möguleikar notaðir, sem þar kynnu að vera í boði. Í sambandi við þessi viðtöl öll kom greinilega fram, að þeir, sem orð höfðu fyrir útgerðarmönnum, töldu í raun og veru lítils um vert þær skattaívilnanir, sem farið var fram á, en meira vert, að útgerðarmenn fengju sjálfir heimild til að selja þann gjaldeyri, sem þeir fá fyrir sinar afurðir. Í staðinn fyrir að halda föstu gengi, fengju útgerðarmenn að selja erlendan gjaldeyri fyrir það verð, sem vera kann á hverjum tíma þ. e. a. s. að ísl. krónan lækkaði í verði, — og ekki einasta það, heldur væri laust gengi, eftir því sem hægt væri að selja á hverjum tíma. Það var aðalatriðið, að þeirra hyggju. Þeir viðurkenndu, að þó að þeir fengju allir óskir sínar uppfylltar um fækkun manna og skattaívilnanirnar, þá mundi áætlunin um 110 þús. kr. tap á hvern togara, eins og þeir áætluðu það, ekki minnka nema um 20–25 þús. kr. Ég hefi spurt hv. þm. G.-K. að því, hvort hann væri fylgjandi því, að gjaldeyrisverzlunin væri gefin frjáls eða gengið lækkað. Hann hefir farið undan í flæmingi og neitað að svara. Hann sagði í ræðu sinni áðan, að útgerðarmenn teldu rétt, að þeir fengju sjálfir sinn eiginn gjaldeyri. Hvað meinar hann? Vill hann, að gjaldeyrisverzlunin verði gefin frjáls? Að útgerðarmenn fái gjaldeyrinn og selji hann hæstbjóðanda á hverjum tíma. Vill hann gengislækkun og laust gengi? Þetta er þýðingarmikið mál, og honum er óhjákvæmilega skylt að svara því, ekki sízt eftir þær viðræður, sem fram hafa farið, þar sem ýmsir útgerðarmenn töldu skattaívilnanir og annað slíkt ekki megnugt að hjálpa, heldur verði að fara þessa leið eina. Ég hirði ekki að ræða nú um afleiðingarnar af slíku. En það er broslegt, að maður, sem óskapast út af dýrtíðinni, hann telji það líklegasta ráðið að fella íslenzka krónu, guð má vita hvað mikið, og láta „spekúlera“ með hana eins og hverja aðra vöru, sem menn óska að hafa í brask. Ég vildi óska, að hv. þm. vildi svara þessari spurningu greinilega í næstu ræðu.

Þá kemst ég ekki hjá því að minnast á það, sem sagt var, að væri veitt til fiskimn. Hann nefndi 350 þús., sem verja ætti til togarakaupa, og þá væru aðelns 50 þús. kr. eftir í annað. Þetta er rangt. Að vísu er gert ráð fyrir, að fiskimálasjóður sé styrktur til kaupa á tveimur togurum að fjórða parti, sem ætti að geta numið 370 þús. kr. fyrir bæði skipin. En svo er til ætlazt, að þessu fé verði skipt niður á tvö ár, þannig að þetta nemur 180–190 þús. kr. hvort árið. Eldri tekjur sjóðsins eru 120 þús. kr., og með tekjum af eignum og fleiru er þetta samtals 550 þús. kr., þannig að eftir verður til annara starfa enn um 350 þús. kr. Og jafnvel eftir fyllstu kröfum um það, hvað leggja skuli mikið til frystihúsa og niðursuðuverksmiðja, þá nægir þetta næstu tvö árin. Því að það er öllum ljóst, að það þýðir ekki að byggja hraðfrystihús og niðursuðuverksmiðjur örar en hægt er að selja vörurnar, sem framleiddar ern. Það er óunninn markaður a. m. k. fyrir niðursuðuvörur algerlega, og að verulegu leyti fyrir hraðfrystan fisk. Þó hefir lánazt á þessu ári til nóvemberloka að selja fyrir 1085000 kr. hraðfrystan fisk, það er að segja 11 sinnum meira en 1933. Og þetta hefir gerzt fyrir starf fiskimálan. En að því er kaup á togara snertir, þar getur hann nú ekki séð neitt annað en Héðin; hann sér ekki nema einstaka menn, Héðin í fiskveiðunum og Finn í síldarútveginum, þó að flokksmenn hans séu í nefndinni og séu sammála hinum. Um togaraflotann sagði þessi hv. þm. árið 1934, með leyfi hæstv. forseta: „Svo hörð er lífsbaráttan, svo örðug glíma við hið lága afurðaverð og sligandi skattpyndingar ríkisvaldsins, að útvegsmenn gefa sér hvorki tíma til þess að líta. um öxl eða horfa fram á veginn, en einblina á þann hjallann, sem næstur er, til þess að missa ekki fótanna. Þannig draga þrengingar liðandi stundar athyglina frá þeim voða, sem framundan bíður, þegar útvegsmenn, sjómenn og verkamenn, þegar öll íslenzka þjóðin vaknar til fulls skilnings á þeirri hræðilegu staðreynd, að fiskiskipin eru orðin mannskaðabollar, ósjófærar fleytur, sem samt verða notaðar, af því að okkar fátæka þjóð á ekki annars úrkosta til lífsframfæris, notaðar þar til þeim smáfækkar sem líkkistum dugmestu sjómanna heimsins.“

Þetta er lýsingin, sem hv. þm. gaf fyrir þremur árum, og segir, að alltaf hafi hallað undan fæti síðan. En nú telur hann það svo óskaplegt að gera tilraun til að fá ný skip í stað þeirra gömlu, sem eru að týnast úr tölunni. Annað eins ósamræmi hefi ég ekki vitað nokkurn ábyrgan stjórnmálamann leyfa sér að bera fram í opinberum málflutningi. Ég lít svo á, að einmitt vegna þess, að svo sterkar líkur eru færðar fyrir því, að togaraútgerðin, með þeim tækjum. sem við höfum nú, sé yfirleitt rekin með tapi, þá sé það lífsnauðsyn fyrir þjóðina íslenzku, sérstaklega fyrir útgerðina og sjómannastéttina, að fá úr því skorið, hvort hægt sé .með því að byggja nýtízku skip, svo sparneytin sem unnt er, búin fullkomnum tækjum til þess að hagnýta allt, smátt og stórt, bein og roð og ugga og þess háttar, sem óhjákvæmilega hlýtur að fara meira og minna í súginn hjá okkar skipum, — fá úr því skorið, hvort þetta getur borgað sig. Ef það getur ekki heldur borgað sig, þá er ekki til neins annað en að viðurkenna þá sorglegu staðreynd og leita annara úrræða. En ef það sýnir sig, að svona útbúið skip getur borið sig, þá er ekki vafi á, að það risa margir menn, sem vilja nota fé sitt og orku til þess að reka slík atvinnutæki. Það er vitað, að þau Skip í togaraflotanum, sem bezt bera sig á síðustu árum, eru nýjustu skipin og bezt útbúnu. Ef skip, sem keypt er og búið er nýjustu tækjum og þarf ekki að skulda meira en 60% af kaupverði, getur fengið sæmilega útkomu á rekstri, — og það sjáist, að svo ætti að geta orðið, þá er þar með blásið nýju lífi í togaraútgerðina á Íslandi. Og það er það, sem við þurfum að fá. Ég held persónulega, að það séu möguleikar fyrir slík skip. Ég hefi nokkuð athugað útgjaldaliði fyrir togara. Aðeins viðhald og fyrning á þessum skipum á hverju einasta ári er meira en vextir af nýtízku togara, fullbúnum með öllum tækjum. Af togara, sem metinn er á 200 þús. kr., er þetta hvorki meira né minna en 55 þús. kr. Það er meira en 5% af heilli milljón. Á þessa leið eru margir tilkostnaðarliðir. Það er enginn vafi á, að togarar eyða meiri kolum en þyrfti að vera, þá vantar vinnslutæki um borð o. fl. o. fl. Ég lít svo á, að einmitt þessa tilraun hér sé bein skylda gagnvart þjóðinni að gera nú. Einstakir menn kjósa ekki eða hafa ekki fjármagn til að gera slíkt óstuddir. Þess vegna á hið opinbera að taka áhættuna og leggja fram þau 25%, sem mest áhættan fylgir. Mig furðar að vísu ekki, þótt hv. þm. G.-K. sé á móti þessu. Hann hefir yfirleitt verið á móti allri þeirri nýbreytni, sem hafin hefir verið í sjávarútveginum á síðustu þremur árum. Hann var á móti karfaveiðunum og rækjuveiðunum. Flokkur hans og blöð hafa gert gys að þessum rauðu smádýrum, sem rauðu flokkarnir væru nú farnir að vingast við, og fleira þess háttar. En rækjur hafa verið fluttar frá lítilli verksmiðju fyrir 150 þús. kr. Karfaveiðarnar voru litið stundaðar í ár, vegna þess hve síldveiðin tók langan tíma, en gáfu þó 750 þús. kr. Harðfiskur var fluttur út fyrir 500 þús. kr. og freðfiskur fyrir 1100 þús. kr. Nú til loka nóvembermán. er búið að flytja út fyrir hátt á þriðju milljón vörur, sem aflað var eða verkaðar voru með nýbreytni fyrir tilstilli fiskimálanefndar. Yfirleitt má segja, að hv. þm. G.-K. og flokkur hans hafi ekki einasta verið á móti þessari nýbreytni, heldur reynt að afflytja nefndina, sem að þessu hefir unnið, og afflytja þessar tilraunir og tortryggja og rógbera. Og það er býsna mikil fífldirfska að mælast til þess hér, að honum og þeim, sem eru slíks sinnis gagnvart nýbreytni, sé falið að annast þetta, manni, sem lýsir yfir því oft, að hann viti ekki hvort nýtízku togari beri sig, manni, sem hefir helzt ekki annað viljað sjá en saltfiskmarkað á Spáni. Ég er ekki í vafa um, að við munum geta selt verulegt af saltfiski til Spánar þegar ástandið batnar í heiminum, og aukið okkar útflutning. En það er engin ástæða til að auka hann mikið á næstunni frá því, sem verið hefir nú undanfarið, og við munum varla þola að festa 50 þús. tonn í saltfiski án þess að nokkur hætta stafi af.