09.12.1937
Efri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1290)

27. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn o. fl.

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) :

Ég tel víst, enda hefir það komið fram í þessum umr. og það má heita óskipt álit manna, að einhver allra líklegasti staður til stækkunar á síldarbræðslu sé einmitt á Raufarhöfn. Ég fyrir mitt leyti er eindregið þeirrar skoðunar. Þó verður maður að játa, að sú reynsla, sem þar er á veiðum við norðausturhornið, er ekki það löng, að ú henni megi byggja verulega til frambúðar, en hún gefur það sterkar vísbendingar, að ekki er ástæða til annars en leggja nokkuð mikið upp úr henni. Hinsvegar held ég, eftir athugun þá, sem fram hefir farið á þessu, að það megi heita útilokað, að hægt sé að koma upp 5000 mála verksmiðju fyrir næsta síldveiðatíma. Þar er ekki hægt að koma við til flutninga nema tiltölulega smáum skipum, svo verulegar hafnarbætur verður að gera. Auk þess verður að afla meira vatns og fleira og fleira, sem þarf að gera. Ef miðað er við 5000 mála verksmiðju og aðrar aukningar, sem þarna þarf, þá verður að teljast svo að segja vonlaust, að hægt sé að ljúka því fyrir síldveiðitímann næsta ár. Með því að minnka þetta niður í 2400 mála verksmiðju, þá myndi að sjálfsögðu verða léttara að koma þessu í framkvæmd fyrir þennan tíma. Samt sem áður verð ég að segja, að því fer fjarri, að ég sé viss um, jafnvel þó l. verði samþ. strax, að hægt sé að byrja á undirbúningi hérna megin við áramót. Það. sem veldur sérstökum örðugleikum þarna, er, að það er ekki ennþá fullráðið, hvaða hafnarbætur þarf að gera í sambandi við þetta, og það vantar fé til þess umfram það, sem ætlað er til verksmiðjunnar sjálfrar. Ég er því samt sem áður fylgjandi, að ríkisstj. sé veitt heimild til þess að gera stækkun á Raufarhöfn. Ég held, að sú verksmiðja. sem þar er nú, hafi unnið 1100-1400 mál, og mun þá vera nægilegt að gera ráð fyrir 2400 mála stækkun, ekki sízt ef þannig er frá því gengið, að hægt sé að koma við frekari umbótum, ef þörf er á því seinna.

Um hvað þetta kostar er ekki hægt að fullyrða, eins og hv. 2. þm. S.-M. sagði réttilega. Nýja verksmiðjan á Siglufirði, sem mun vera lík að stærð eins og þessi verksmiðja er ráðgerð, mun hafa kostað yfir 1 millj. kr. Verðbreytingar á vélum og þess háttar og byggingarefni hefir heldur orðið til hækkunar. Hvort horfið verður að því ráði að byggja eins rækilega á Raufarhöfn og um það, hvort byggt verður úr steini eða öðrum efnum, skal ég ekki fullyrða. Mér þykir ekki gerlegt undir neinum kringumstæðum að reikna með því, að 2400 mála verksmiðja yrði undir þeirri upphæð, sem ég nefndi. Miðað við síðastl. sumar, — en það er ekki allskostar rétt að miða við það, vegna þess, að verð á síld til bræðslu var geysilega hátt, og þessvegna allar byttur við þær veiðar. sem flotið gátu, — en reynslan sýndi, að tafir við losun urðu á fyrsta mánuði síldveiðitímana að meðaltali sem svaraði viku á skip, og var mikið tjón, því að tafirnar urðu náttúrlega mestar meðan aðalaflahrotan stóð. Hinn hluta veiðitímans gekk veiðin tregar, svo að verksmiðjurnar höfðu ekki nóg að starfa. Ég tel nú sumt, að reynsla síðasta sumars hafi sínt, — vegna þess, að maður hefir von um vöxt í útgerðinni —, að nokkra aukning megi gera á verksmiðjunum án þess að hætta sé á, að þar standi verklausar. Einmitt með það fyrir augum er Raufarhöfn sérstaklega framarlega í röð.

En fyrir þriðjung af því fé, sem líklegt er, að nýja verksmiðjan á Raufarhöfn mundi kosta, má gera 2400 mála aukning á ríkisverksmiðjunum á Siglufirði. Mér þætti því líklegt, að það væri bezta lausnin að auka um 2400 mál á Siglufirði og reisa verksmiðju fyrir önnur 2400 mál á Raufarhöfn. En vissara er að binda ekki ákvæði l. við það, að verksmiðjan verði komin upp í sumar, heldur nægi, ef henni verður lokið og tekin í notkun sumarið 1939. Því að sjálfsögðu þarf að fást fé til þessa, og nákvæmir útreikningar verða að sýna, að skynsamlegt sé að ráðast í bygginguna. Enda er hér aðeins um heimild að ræða fyrir ríkisstj.

Hv. 2. þm. S.-M. taldi, að það kynni að vera eins heppilegt að taka málið af dagskrá til að athuga möguleika til breytinga. En það er að sjálfsögðu hægt að bera fram brtt. fyrir 3. umr., ef svo sýndist. Ég vil fá málið afgr. nú til 3. umr. Það stafar fyrst og fremst af því, að ég er með brtt. á þskj. 554 og með frv. þannig breyttu, þó að mér þyki of þröngt að binda sig við að fullgera verksmiðjuna í sumar, þar sem hætt er við, að ómögulegt verði að láta hana taka þá til starfa. — Ég vil skjóta því til n., hvort hún geti ekki fallizt á að heimila hvoratveggja aukningu, bæði á Siglufirði og Raufarhöfn. Þá mundi nægja heimildin í 2. gr. um 1½ millj. kr. lántöku.

Ég sé ekki ástæðu til að svo komnu að breyta til um upphæðina. Ég vildi mælast til þess að n. athugaði þessi atriði þó að mér þyki ekki ástæða til að bera fram brtt. fyrr en við 3. umr.