20.11.1937
Efri deild: 31. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (1331)

98. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það má í raun og veru segja, að það sé að berjast við ský, að eiga orðastað við hv. stjórnarandstæðinga, því að það er ómögulegt að fá það skýrt út, hvað flokkurinn ætlast fyrir. Ég mun ekki að þessu sinni tala langt mál, þar sem umr: eru nú þegar farnar að verða nokkuð langar, en þó kemst ég ekki .hjá að víkja nokkrum orðum að hv. 9. landsk. (MG).

Hv. 9. landsk, spurði, hvort það væri meiningin, að stjórnarandstæðingar ættu engu að fá um það að ráða, hvernig tekna væri aflað handa ríkissjóði. Það vita nú allir, að þegar tveir flokkar standa að stjórn, þá gera þeir samning um aðalatriði hinna stærstu mála, og þykir engum það undarlegt. Hinsvegar er það, ef fram koma till. frá stjórnarandstæðingum, sem stjórnarflokkarnir telja til bóta, þá taka þeir þær sjálfsagt til greina. Ég vil því fyrirfram frábiðja mér allar getsakir í þá átt, að við viljum ekki fallast á góðar till., ef þær skyldu koma frá Sjálfstfl. Hitt er ekki óeðlilegt, þótt stjórnarandstæðingum þyki sínar till. betri en okkar till., en það, að við ekki föllumst á þær, kemur auðvitað af því, að við teljum okkar till. betri en þeirra.

Þá er það misskilningur hjá hv. 9. landsk., að í skattstiga frv. felist nokkur hækkun, frá því, sem er í gildandi l. Hv. þm. hefir flaskað á því að beru frv. saman við skattstigann í l. frá 1935, og fundið hækkun í frv. samanborið við þann skattstiga, en samanborið við núgildandi f. er ekki um neina hækkun að ræða.

Þá segja þeir, hv. 9. landsk. og hv. þm. Hafnf., að við höldum því fram, að þeir hafi ekki rétt til að koma með till. Það er ekki þetta, sem við finnum að, að þeir beri fram till., heldur hitt, að þeir skorast undan að gera grein fyrir því, hvernig eigi að standast útgjöldin. En þetta er aðalatriðið. Þegar farið er fram á aukin útgjöld, eins og þeir gera, þá verður að vita, hvaða útgjöld eiga að fara út úr fjárlfrv. í staðinn. (MG: Þannig fer hæstv. fjmrh. ekki að). Nú eru þó komnar ákveðnar tilI. um, hvað þeir flokkar, sem standa að stj., ætlast fyrir í þessu efni. Það hafa verið bornar fram ákveðnar till. um það, hvernig vega eigi móti auknum útgjöldum, sem nauðsynleg reynast. Það er því ekki óeðlilegt, þótt þeir séu spurðir, hvað þeir ætlist fyrir. Ég ætlast ekki til, að hv. stjórnarandstæðingar svari þessu í dag, en þeir verða að gera það bráðlega.

Ef alltaf er haldið fram, að auka beri útgjöldin, þá kemur það þeirri hugsun inn hjá fylgjendum Sjálfstfl., að það sé hægt í það óendanlega. Það þýðir ekkert að núa mér því um nasir, að ég hafi ekki skilið skattatill. á sama degi og fjárlfrv. var lagt fram, því að þær till: eru nú komuar fram. En frá sjálfstæðismönnum hafa ekki komið fram neinar heildartill. um þetta. Það mætti vel láta allar ásakanir falla niður í bili, ef sjálfstæðismenn væru nú að undirbúa slíkar till., en það er ekki vitað. (MG: Hví er hæstv. ráðh. þá sjálfur að byrja á þessum ásökunum?). Af því að sjálfstæðismenn hafa gefið tilefni til þess.

Hv. 9. landsk. sagði, að mikið af þeirri upphæð, sem sjávarútveginum væri rétt, væri tekið af honum aftur. Það er að vísu rétt, að í frv. er gert ráð fyrir nokkuð auknum tollum á sjávarútveginn, en á því leikur þó enginn vafi, að það eru mörg hundruð þús. kr., sem sjávarútvegurinn fær meira en af honum er tekið. Og það er auðvitað galli, að tolla skuli þurfa að leggja á nauðsynjar, en ég held, að allir séu sammála um, að hjá því verður ekki komizt. Ég get bent á það, að hjá okkur eru skattar og tollar á mann lægri en hjá nágrannalöndunum, og er það merkilegt, þar sem við erum aðeins 116 þus. hræður í svona stóru landi, sem hlýtur að leiða af sér, að allur kostnaður kemur þyngra niður á okkur en öðrum, t. d. vegakostnaður. Við losnum að vísu við herbúnaðarútgjöld, en aftur höfum við strandgæzluna, sem ekki mun verða miklu ódýrari á mann en herkostnaðurinn hjá öðrum þjóðum. Það er rétt hjá hv. þm., að þar eru hærri tekjur og eignir hjá mörgum mönnum en hér, en þó munar þetta ekki miklu, þegar meðaltal er tekið. Meðaltekjur á mann voru hér 710 kr. 1937, en í Noregi voru meðaltekjur 738 kr. 1936. Skattar voru þá í Noregi 128 kr. á mann að meðaltali, og hér ca. 128 kr. Í Danmörku voru meðaltekjur um þetta leyti 835 kr., en í Svíþjóð 951 kr. Svo að meðaltekjur manna í þeim löndum eru yfirleitt mun hærri en hér. En tekjur almennings hér á landi eru áreiðanlega ekki miklu lægri en í þessum löndum, sem sést á því, að þar er miklu meira af stóreignamönnum en hér. Þessar tölur eru auðvitað ekki fullnægjandi, en þær eru þó enganveginn villandi, og víst er þetta merkilegt atriði.

Þá sagðist hv. þm. ekki skilja þetta tal um, að gömlu tekjustofnarnir hafi brugðizt. Hafa þó oft verið lagðar hér fram tölur um það, hvernig verðtollur og vörutollur hefir lækkað síðan 1934, en tollar og skattar hafa aftur hækkað lítilsháttar. Það er rétt, að með þessu frv. er gert ráð fyrir, að skattar og tollar fari nokkuð fram úr því, sem var 1934–36. En ef ekki hefði orðið þessi óvænta þróun í utanríkisverzluninni, þá hefðu gömlu skattarnir og tollarnir getað nægt.

Ég hefi gert grein fyrir innflutningnum, eins og hann var 1936. Kemur þar í ljós, að þó að heildarinnflutningur það ár hafi verið hærri en áður, hefir þó minnkað innflutningur á nauðsynlegri vöru, en aftur hefir innflutningur nauðsynjavara hækkað. Tollatekjur hafa þó ekki hækkað að sama skapi, eins og eðlilegt er. Tolltekjur aukast nú minna en innflutningurinn. Og þó að innflutningurinn verði meiri 1937 en 1936, getur það aldrei numið því, að hægt sé að hverfa frá .því að hækka tollana 1938.

Hv. þm. sagðist ekki skilja, hvers vegna gjaldeyrisástæður væri nú verri en áður. Ég get t. d. bent honum á það í því sambandi, að í landinu liggja nú óseldar vörur fyrir 5–6 millj. Hv. þm. sagði, að árið 1937 væri bezta verzlunarár, sem komið hefði síðan 1930, því að útflutningurinn væri nú meiri en áður. En þetta er villandi, því að verðlag er nú lægra en nokkru sinni síðan 1930. Ef allar fyrirliggjandi vörur seldust nú þegar, yrði að vísu greiðslujöfnuður, en afgangur yrði samt ekki mikill. Menn mega því ekki blína á útflutningsmagnið eitt.

Hv. þm. sagði það rangt hjá mér, að sjálfstæðismenn hafi vitað um útgjöld þau, sem fyrirhuguð voru 1935. Það er nú satt að segja einkennilegt, ef hann vill halda því fram, að Sjálfstfl. hafi verið ókunnugt um tryggingal. eða nýbýlal. eða l. um skuldaskilasjóð, frystihúsastyrk, styrk vegna tjóns af ofviðri o. s. frv.

Hv. þm. kvað það undarlegt, að þeim sjálfstæðismönnum væri líkt við kommúnista. En ég sé ekki mikinn mun á till. þeirra. Báðir leggja áherzlu á að krefjast nógu mikils til þess að gera sig góða í augum kjósenda, en hvorugir gera sér far um að sýna fram á möguleikana til framkvæmda á þessum kröfum. Hv. þm. fannst undarlegt, að ég skyldi líkja þeim sjálfstæðismönnum við kommúnista, en ég hafði einnig líkt þeim við nazista, og ég stend við það. Aðaleinkenni nazista hefir verið það sama og kommúnista, að gera kröfur til þeirra, sem hafa farið með völdin, og telja allt, sem miður fer, aðeins fúlmennsku þeirra að kenna. Ég segi ekki með þessu, að sjálfstæðismenn séu kommúnistar eða nazistar, en till. þeirra eru ekki gætilegri.

Hv. þm. Hafnf. gerði þá fyrirspurn til mín, hvort mér fyndist frammistaða sjálfstæðismanna í þeim bæjum, þar sem þeir hafa farið með völdin, þannig, að ástæða væri til að efast um, að þeir gætu stjórnað ríkinu sæmilega. Hann spurði líka, hvort fjármálastjórn sjálfstæðismanna í bæjunum væri verri en jafnaðarmanna. Ég skal lofa þeim að deila um það, hvorir hafi stjórnað bæjunum betur. En árangurinn af bæjarmálastjórn sjálfstæðismanna gefur ekki góðar vonir um ríkisstjórn þeirra. Það hefir mikið verið gert úr .því, að Framsókn hafi hækkað útgjöld ríkissjóðs. Ég hefi gert grein fyrir því, að síðan 1926 hafa þessi útgjöld hækkað um 58%, en á sama tíma hafa útgjöld Reykjavíkurbæjar hækkað um 108%. Hér hefir mikið verið talað um, að ríkissjóður sé mjög skuldugur í bönkum og sé það til marks um hrörnandi fjárhag hans. Það er rétt, að ríkið skuldar nokkuð í bönkum, en þó hafa heildarskuldir ríkissjóðs ekki hækkað undanfarin 3 ár. Reykjavíkurbær skuldar t. d. sízt minna hlutfallslega af lausaskuldum. Fyrst hv. þm. Hafnf. byrjaði að tala um þetta, get ég upplýst það, að Reykjavik skuldar tiltölulega miklu meira en ríkið, enda þótt hún sé það bæjarfélag landsins, sem hefir bezta aðstöðu að öllu leyti. Ég er ekki kunnugur í Vestmannaeyjum eða öðrum bæjum, þar sem sjálfstæðismenn fara með stjórn. En um Reykjavík veit ég, að hún er tiltölulega miklu skuldugri en ríkið og að þær skuldir hafa aukizt síðustu 3 árin.

Þessu er venjulega svarað svo, að ríkið hafi neytt Reykjavík til að hækka útgjöldin, en þetta er ekki rétt. Að vísu hafa nokkuð verið hækkuð lögboðin útgjöld bæjarfélaganna, en það er bara lítið brot af auknum útgjöldum Reykjavíkurbæjar, sem þannig er til komið, og ríkið hefir auk þess lagt fram atvinnubótafé, sem létt hefir af miklu af þeirri fátækraframfærslu, sem áður hvíldi á bæjarfélögunum.

Hv. þm. Hafnf. sagði það ekki von, að sjálfstæðismenn vildu vera að bera fram till. um lækkun útgjalda, því að það væri svo óvinsælt, og við myndum þá nota tækifærið til að núa þeim um nasir, að þeir vildu lækka öll útgjöld. Þeir hafa nú ekki alltaf talið það óvinsælt að lækka bitlinga, sem þeir kalla og slíkt. Eru þeir nú orðnir hræddir um, að þeim yrði núið um nasir, að þeir vildu lækka bitlingana? Nei, í þessu felst viðurkenning á því, að hér sé ekki verið að deila um bitlinga, heldur hitt, hvort færa eigi niður gjöld, sem eru í sjálfu sér vinsæl, eða hvort heldur eigi að hækka tolla og skatta til að halda þeim uppi. Er þá ekki bezt að hætta að halda því fram, að hér sé aðeins um bein og bitlinga að ræða?

Ég ætla svo ekki að fara lengra út í þessar umr. að sinni, en mun ef til vill svara stuttlega, ef ástæða gefst til.