18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

1. mál, fjárlög 1938

Ólafur Thors:

Hv. þm. Ísaf., Finnur Jónsson, sagði, að ég hefði líkt sér við fjárpest. Fjárkláði hefði verið betri samlíking, — það játa ég.

Þetta á þó ekkert skylt við verðlag á síld til bræðslu, heldur það, að þegar maður, sem lokar fyrst öllum síldarmörkuðum með aðeins hálfu því síldarmagni, sem hægt er að selja þar, en semur síðan þannig, að strax og á reynir eru samningarnir haldlausir, og þegar auk þess beinlínis er upplýst, að um bakprovision er að ræða, þá þykir mér vel við jafnað að líkja slíkum manni við kláðamaur.

Ráðsmennska Finns Jónssonar yfir síldarbræðslunum er svipuð þessu. Sukkið og óreiðan keyra þar úr hófi. Nær alstaðar eru þar 2 menn fyrir einn, mikið pólitískur bitlingalýður, en af axarsköftunum er það stærst og þekktast, að byggð hefir verið þró, er kostar hátt á þriðja hundrað þúsund krónur, en gerir hvorki annað né meira gagn en þró, er kosta myndi um 1/3 hluta þess.

Siðferði þessa heiðursmanns má vel marka af árásum hans á Kveldúlf út af því að hafa ekki selt síldarlýsi frá Hjalteyrarverksmiðjunni fyrirfram, en rök hans voru þessi: „Allir seldu með þeim fyrirvara, að síldin veiddist“. Við þessu er nú fyrst þess að geta, að það er fyrir beinan atbeina F. J. og hans samherja, að Kveldúlfur gat ekki selt lýsið fyrirfram. Ef hæstv. atvmrh. Haraldur Guðmundsson, hefði ekki neitað að framlengja verksmiðjuleyfið, enda þótt honum væri kunnugt um, að Kveldúlfur í rauninni var búinn að tryggja sér lánið, myndi Kveldúlfur að sjálfsögðu hafa selt sitt lýsi í svipuðu hlutfalli og aðrir, og þótt Finnur Jónsson telji, að nægilegt hefði verið að setja þann fyrirvara, að „síldin veiddist“, skilja auðvitað allir aðrir, að frumskilyrðið hlaut þó að vera, að verksmiðjan kæmist upp, en frumskilyrði þess var aftur, að leyfi ráðherra til þess fengist, en það er nú einmitt eitt af afrekum sómamannsins F. J. og nokkurra annara slíkra pilta, að kúga hinn ístöðulitla ráðherra til þess að neita að framlengja byggingarleyfið. Það er því F. J. og nokkrir félagar hans, sem beinlinis eiga alla sök á því, að Kveldúlfur gat ekki selt sitt lýsi fyrirfram. Þeir ættu því að sjá sóma sinn í því að þegja um þetta.

Finnur Jónsson er nýsloppinn úr mesta gjaldþroti, sem hér þekkist. Hann ætti því að hafa þá vitglóru að þegja einnig um þrengingar þeirra, sem borgað hafa 50–60 milljónir í verkalaun, en 10 milljónir í skatta. En svo þessi ráðvandi maður hafi nú eitthvað að hugsa um þar til hann tekur hér næst til máls, vil ég upplýsa, að sama daginn og Alliance seldi sitt lýsi á £22 smálestina seldi F. J. fyrir £21, eða £1 lægra á smálest, og sama daginn og Kveldúlfur seldi á £19 seldi F. J. á £18, eða líka £1 lægra á smálest. Alls nam salan um 8000 smálestum, og er því þessi mismunur um kr. 180 þús., sem ríkið hefir skaðazt. Nú spyr ég þennan strangheiðarlega mann, hvort heldur hafi bilað, verzlunarvitið eða siðferðið. Bilunin er talsvert alvarleg, vegna þess að lýsi er opinberlega skráð vara, og þekkist víst trauðla tvennskonar verð sama daginn.

Hæstv. forsrh. hélt í gær eina af sínum alkunnu smáræðum, sem honum lætur svo einkar vel að flytja. Í henni var ekkert, sem um þarf að ræða. Ræða hans í dag var eitthvað dálítið stærri. og í henni var þetta athyglisvert: Ráðh. var að ræða um vinnulöggjöfina og sagði: „Ég tel rétt, að reynt sé að ná samkomulagi við verkamenn um málið og því bezt að bíða næsta þings“. Er þetta að vísu það sama og ráðh. hefir sagt frá upphafi málsins, og því fremur ómerkilegt orðið, en ráðh. bætti það þá líka upp með því að bæta þessu við:

„En fari svo, að það auðnist ekki, verður vitanlega að leiða verkamönnum það fyrir sjónir á annan hátt“.

Ég spyr nú hæstv. ráðh., hvað hann meini með þessu. Hvað hann eigi við með því, að náist ekki samkomulag við verkamenn um vinnudóm, skuli hann sannfæra þá „á annan hátt“.

Mér verður alltaf á að taka kommúnistana ekki alvarlega. Sjálfsagt er þetta yfirsjón, svo miklu fylgi sem þeir nú hafa náð. Blóðsúthellingar eru svo fjarri mínu skapi, að ég á erfitt með að trúa, að til slíks geti komið hér á landi, og mætti þó kannske vita betur, sbr. 9. nóv. 1932. En hvað sem því líður, — þessir kommúnistar hér á Alþingi eru eitthvað svo meinleysislegir, að mér dettur aldrei annað í hug, þegar ég sé þá og heyri, en eitthvað svipað því, sem grípur kristinn mann þegar hann hittir heiðingja fyrir sér. Míg langar að snúa kommúnistunum frá villu síns vegar, gera þá að góðum borgurum, trúum sonum síns ættlands, í stað þess að vera klafabundnir og villuráfandi í hjörð Stalíns, — viljalaus verkfæri erlends einvalds.

Í ræðu hæstv. fjmrh. eru nokkur atriði, sem ég tel rétt að víkja að.

Ráðh. sagði, að það væri rangt, að nýjar skattaálögur í hans tíð næmu 7 milljónum. Hann treysti sér þó ekki til að mótmæla því, að þær tölur hefði hann sjálfur tilgreint, þegar hann lagði skattafrumvarpið fyrir þingið, enda gat hann það ekki. Heldur greip hann til þeirra markhröktu falsraka, að úr því ríkissjóður fengi ekki nema 1–2 milljónum meira í skatta en áður, væri auðsætt, að hækkunin næmi ekki meiru en þeirri upphæð.

Sannleikurinn er sá, að vegna fátæktar verður þjóðin að neita sér um margt, er hún áður veitti sér. Af þeim ástæðum minnka tekjur ríkissjóðs. Hitt stendur óhrakið, að ríkissjóður tekur nú, eftir að þessi nýju skattalög hafa verið samþ., meira en tvær krónur fyrir hverja eina, er hann tók fyrir nokkrum árum. Það stafar af því, og er sönnun þess, hversu ægileg skattahækkunin er. Skal ég sem dæmi um skatthækkunina aðeins nefna það, sem ráðh. sérstaklega miklaðist af, að hann hefði aflétt 25% gengisviðauka af kaffi og sykri. Það er rétt. En hitt er líka rétt, að með stöðugum smáhækkunum eru kaffi- og sykurtollurinn nú komnir upp fyrir það, er þeir væru með 25% viðaukanum. Þá sagði ráðh., að þessir nýju skattar hefðu runnið til atvinnuvega. Þetta er líka rangt, og mun það sannað síðar í þessum umræðum.

Ráðh. sagði, að ég færi rangt með, að nýju skattarnir væru 2,65 millj, kr., vegna þess, að 400 þús. gengju til fiskimálan., en 700 þús. til jöfnunarsjóðs. Nú, en hvaðan kemur það fé? Það er tekið með hinum nýju skattalögum beint úr buddu almennings, alveg eins og aðrir skattar. Þetta skilur auðvitað fjmrh. ekki síður en aðrir.

Þá sagði ráðh., að við sjálfstæðismenn værum með framlagi til bænda vegna fjárpestarinnar, en vildum þó ekki samþykkja nýja skatta. Slík framkoma væri auðvirðileg. Nei, hún er það ekki, heldur rök ráðherrans.

Krafa okkar sjálfstæðismanna er sú, að fyrst sé skorið niður allt, sem hægt er að skera niður. og að því búnu sé gripið til buddu borgaranna. Þetta hefir að vísu verið gert í einstökum efnum, en alls ekki eins og hægt er á slíkum neyðartímum, — og enn segi ég: Þetta veit enginn betur en einmitt fjmrh.

Út af ummælum ráðh. um eigin afrek í sambandi við vöxt Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis þykir mér rétt að minna hann á, að okur kaupmanna í Reykjavík hefir til þessa ekki verið meira en það, að hvert einasta kaupfélag, er hér reyndi að keppa við þá, fór á hausinn, þar til nú, að hægt er að styrkja það í skjóli sérréttinda til innflutnings.

En annars er ráðh. ráðlegast að tala sem minnst um kaupmannaokur, því enn muna menn ummæli flokksbróður hans, Guðbrands Magnússonar, í útvarpsumræðum fyrir síðustu alþingiskosningar, þau, að kaupfélögin réðu verðlaginu í landinu.

Ég hefi áður, bæði í blaðaskrifum nú nýverið og hér á Alþingi, svarað þeirri firru ráðh., að Sjálfstfl. ætlaði að afgreiða fjárlög með 4–5 millj. tekjuhalla. Það skiptir minna máli, að engin tala, sem ráðh. nefndi, var rétt. Hitt er aðalatriðið, að enda þótt tölurnar hefðu verið réttar, eru rökin röng.

Sú talan, er mestu skipti, var 2150 þús., er hann sagði, að ætti að renna í bæjar- og sveitarsjóði og taldi okkur til skulda. Ég man ekki betur en það væri þessi ráðh., sem skipaði milliþinganefnd til að rannsaka möguleikana til tekjuöflunar bæjar- og sveitarsjóða. Það voru þeir Bernh. Stefánsson og Jónas Guðmundsson. Þeir töldu óumflýjanlegt að afla þessara tekna. Þörfin er því viðurkennd af stjórnarliðum og stjórninni sjálfri. Sá ber því ábyrgð á slíkum sköttum, sem valdið hefir þörfinni, en það er ráðherrann sjálfur og stjórnarliðið allt, sem með nýrri löggjöf hefir lagt nýjar og nýjar kvaðir á bæjar- og sveitarsjóði, án þess að afla þeim tekna í staðinn.

Þegar ég við þetta bæti útflutningsgjaldinu, sem ráðh. er í öðru orðinu að miklast af að hafa afsalað ríkissjóði, eru foknar 3 af 4 milljónunum. Sú eina, sem þá er eftir, fer að nokkrum hluta sömu leið, ef hún er krufin.

En að öðru leyti minni ég á margendurtekið tilboð okkar sjálfstæðismanna um að afgreiða hallalaus fjárlög. Allar útgjaldatillögur okkar ber því að skoða innan þess ramma, eingöngu sem uppástungu um, hvernig verja eigi örlitlum hluta þeirra mörgu millj., er árlega eru af þjóðinni teknar.

Ráðh. getur því sparað sér bæði hreystiyrðin og brigzl um kjarkleysi sjálfstæðism. í fjármálum. Við tókum fullan þátt í milljón kr. niðurskurði 1935. Við gerðum hið sama í ½ milljónar niðurfærslu á þessu þingi. Við fullyrðum, að enn er hægt að skera niður um milljónir. Okkur brestur til þess hvorki kjark né vilja. Ráðh. brestur ekki heldur viljann, en enn sem kennið er hefir hann brostið kjarkinn, ekki þó kjarkinn til að reiða til höggs gegn þeim, sem niðurskurðurinn bitnar á. — nei, til þess hefir hann þor, heldur kjarkinn til þess að rísa gegn vilja sósíalista, vegna þess að þá teflir hann ráðherradómnum í tvísýnu.

Þetta skora ég á ráðh. að hrekja, ef hann getur það.

Ég kem þá að ræðu hæstv. atvmrh. Haralds Guðmundssonar. Ég viðurkenni, að hann átti örðugan málstað að verja — vörn hans bar vott um. að sjálfum var honum það líka ljóst.

Höfuðádeilu mína leiddi þann að mestu hjá sér. Hann viðurkenndi, að ég hefði farið rétt með ummæli hans, er hann 16. apríl setti fram 5 aðalkröfur, krafðist, að þær yrðu uppfylltar, og tilkynnti, að ella væri slitið samvinnu á Alþingi og um stjórn landsins. Hann reyndi ekki að hrekja rök mín fyrir því, að ekki svo mikið sem ein einasta af þessum kröfum hefir náð fram að ganga, og hann færði engar varnir fram fyrir þeirri háðung, að hann samt sem áður situr í ráðherrastól, alveg eins og ekkert hefði í skorizt, aðrar en þær, að hann hefði sagt fleira þann 16. apríl, sem sé þessi orð:

„Alþýðuflokkurinn kýs þá hitt heldur, að málin, stefnurnar, séu lögð undir úrskurð kjósenda í landinu“.

En hverju raskar þetta?

Álítur hæstv. atvmrh., að vegna þess að þjóðin hefir dauðadæmt „málin, stefnurnar“, sem hann gerði að fráfararatriði, þá eigi hann sjálfur að hanga sem allra fastast í ráðherrastólnum.

Eða hvað ætlaði hæstv. atvmrh. að gera, ef flokkur hans, mál og stefnur hefðu ekki fengið dauðadóm, heldur fengið t. d. 14 þús. atkvæði í stað 11 þúsund.

Ætlaði ráðh. þá að segja af sér? þ. e. a. s. hanga, ef þjóðin var móti honum, en fara, ef fylgið jókst!!

Nei, þögn — alger þögn er skárri vörn en svona rökvillur. Það þýðir aldrei að ætla sér að hrekja augljósar staðreyndir, og vænti ég, að öllum almenningi sé ljóst, að samvinna stjórnarflokkanna er fullkomið brot á þingræði og lýðræði, og með áframhaldandi setu í ráðherrastól gerir Haraldur Guðmundsson sjálfan sig að vesaldarlegu háðsmerki aftan við stóryðaglamur 13. alþýðuþingsins og þær kröfur, er hann sjálfur gerði að fráfararatriði þann 16. apríl, — og þetta veit enginn betur en H. G. sjálfur.

Öll málsvörn hæstv. atvmrh. í gær sannaði vel vandræði hans. Hann greip til þess að lesa upp gamlar ræður eftir mig, sem vel rökstuddu það, er ég sagði, að við sjálfstæðismenn höfum reynzt of sannspáir. Hitt var auðvitað helber útúrsnúningur, og ekkert annað, að ég hefði talið íslenzku togarana manndrápsbolla. Ég sagði, og segi enn, að fái menn eins og Haraldur Guðmundsson að ráða í þessu þjóðfélagi, mun því enn fara fram, sem lengi hefir verið, að áníðslan á útgerðinni sé svo mikil, að hann geti aldrei eignazt neitt, en af því leiðir, að skipin að lokum verðu fúaduggur og ryðkláfar.

Hitt er rétt, að 1935 taldi ég, að útgerðin væri eignarlaus, og það var því miður satt. Hún var þá búin að tapa mestu af eigin fé. Síðan hefir hún tapað miklu af annara fé. Þetta veit væntanlega sjálfur atvinnumálaráðherra þjóðarinnar. —

Þá skildist mér helzt, að ráðh. vildi að menn féllu fram og tilbæðu hann, í þakklætisskyni fyrir að honum hefði tekizt að bjarga frá hungri, þrátt fyrir brestandi saltfiskmarkaði.

„Veit ekki ÓTh.“, spurði H. G., alveg yfirlætislaust, „að tvö síðustu árin hafa verið verst?“ — „Veit ekki ÓTh., að ofan á markaðsmissinn bætist svo þyngsta bölið, aflabresturinn?“

Jú, ef til vill veit ég svona viðlíka, hvað líður velfarnaði útvegsins, eins og ráðh. En ég veit þá líka, að síldin kom í stað þorsksins, og ég veit þá líka, að síldin var seljanleg, en þorskurinn ekki, og ég veit þá líka, að úr því þorskurinn var óseljanlegur, var það ekki þyngsta bölið, að afli var minni en venjulega, og loks veit ég, að ef þorskurinn hefði aflazt, en síldin brugðizt, þá hefði þorskurinn og Haraldur Guðmundsson til samans ekki megnað að bjarga þjóðinni frá voða.

Og þegar hæstv. atvmrh. með mikilli drýldni talar um, að síldin hafi orðið að notum, vegna þess að góðir menn eins og hann sjálfur hafi verið búnir að undirbúa móttökuna, langar míg aðeins að minna hann á að það voru sjálfstæðismenn, sem fyrstir Íslendinga starfræktu síldarbræðslu hér á landi. Það var líka á þeim tveim árum, sem sjálfstæðismenn höfðu æðstu völd þeirra mála, að afköstin jukust úr 7 og upp í 17 þús. mál á dag. Það eru sjálfstæðismenn, sem síðan hafa aukið afköstin upp í 26 þús. mál á dag, og það eru sjálfstæðismenn, sem nú vilja enn stórauka þau afköst.

Allt, sem hæstv. atvmrh. og hans lið hefir gert í þeim málum, er að róa lífróður gegn Hjalteyrarverksmiðjunni, og neita um og takmarka þau byggingarleyfi, sem um er beðið, eftir fremstu getu, alveg eftir því sem þeir þora.

Ég veit ekki, að hve miklu leyti hæstv. atvmrh. ætlast til, að tekin séu alvarlega ummæli hans um velgerðir stjórnarinnar við útgerðina, gjafatogarana og ágæti fiskimálanefndar.

Flest það, er ráðh. nefndi, að gera ætti fyrir útgerðina, var ýmist, að ekki myndi verða breytt eldri lögum í því skyni að níða útgerðina, svo sem lögum um tollfrelsi á hampi eða tunnum, ellegar að hætt yrði við einhverja af nýju tollunum, sem hann ætlaði að leggja á útgerðina, svo sem tolla af kolum, salti og olíu, eða að standa ætti við fyrirmæli eldri laga, svo sem um skuldaskilasjóð. Sé ég ekki, að það sé þakkarvert, heldur er hitt vítavert alvöruleysi, að ráðh. skuli í slíkum stórmálum vera að reyna að blekkja fólkið, sem nú er ráðþrota, sumpart af hans eigin völdum.

Var í upptalningu ráðh. ekkert nýtt annað en framlagið til gjafatogaranna. Rakti ég það hneyksli svo rækilega í ræðu minni í gær, að ég þarf þar engu við að bæta. En sé það þó svo, að sjálfur kjarni þessa máls sé enn dulinn þeim manni, sem er ráðh. útvegsmálanna, skal ég aðeins segja honum þetta:

Auðvitað er það út af fyrir sig æskilegt, að geta endurnýjað veiðiskipin, jafnt vélbáta sem togara. Eins og sakir standa er þetta þó ekki aðalatriðið, heldur hitt, að sjá farborða þeim flota, sem fyrir er í landinu. Til þess getur ríkisvaldið m. a. gert það tvennt, að létta sköttum af útgerðinni og að leggja fé fram til nýrra úrræða undir hæfri forustu.

Hvorugt er gert, en í þess stað er reytt útflutningsgjald af öllum sjávarafurðum frá ½% upp í 6–7%, og því varið í tvo gjafatogara. Þetta er hneyksli.

Mér þykir rétt að vekja enn á ný athygli á því, að það er hrein fjarstæða, er ráðh. talar um, að fiskimálan. geti greitt gjafatogarana á tveim árum. Sýnir það að vísu, að ráðh. hefir orðið skelkaður við rök mín fyrir því, hversu fjarstætt væri að verja þannig því fé, er ganga ætti til nýrra úrræða, en hitt er ljóst, að fiskimálanefnd á engar eignir nema tekjur líðandi stundar; og getur því alls engar slíkar skuldbindingar gefið fram í tímann, enda veit enginn, hvort henni er einu sinni ætlað líf lengur eða skemur. Vænti ég, að fjmrh. sjái fyrir þeirri hlið málsins.

Hæstv. atvmrh. taldi, að ég væri móti gjafatogurunum vegna þess, að ég væri alltaf móti öllu nýju á sviði útvegsmálanna. Ræddi ráðh. í því sambandi mikið um ágæti fiskimálanefndar.

Ég verð líklega að rifja upp fyrir hæstv. ráðh. (HG) það, sem ég áður hefi kennt honum, og hann sem allir aðrir veit, að er satt:

Það erum við sjálfstæðimenn, utan þings og innan, sem alla forustu höfum haft á öllum sviðum útvegsmálanna, allt frá öndverðu og fram á þennan dag.

Það voru sjálfstæðismenn, sem að því stóðu, að Íslendingar á fáum árum fjórfölduðu fiskframleiðslu sína, og ruddu alltaf framleiðsluaukanum braut á beztu mörkuðum heimsins.

Það erum við sjálfstæðismenn, sem sáum og sögðum fyrir, hvað koma ætti. Það vorum við, sem 1934 bárum fram frumvarpið um fiskiráð, þar sem við m. a. bentum á nauðsyn á hraðfrystingu, herðingu, niðursuðu, rýmkun saltfiskmarkaða í Suður- og Norður-Ameríku, Cuba, Argentínu o. fl., nýrri hagnýtingu ísfisksins, hraðfrystingu og reykingu síldar, sem og nýjum aðferðum við söltun og kryddun síldar, nýjum lifrarbræðslum, beinaverksmiðjum o. fl. o. fl., eða m. ö. o., allt það, sem hæstv. atvmrh. talar um sem einhvern nýjan sannleika, sem fiskimálanefnd hafi fundið upp, en enginn annar komið auga á.

Það erum við sjálfstæðismenn, sem fyrstir byrjuðum á karfavinnslunni. Það erum við, sem fyrstir Íslendinga starfræktum síldarbræðslur hér á landi.

En hvað hefir hæstv. atvmrh. og hans flokkur gert í þessum málum?

Þeir hafa gert tvennt:

Þeir börðust með öllum vopnum gegn því, að síldarverksmiðja yrði reist á Hjalteyri, og þeir hera ábyrgð á skipun Héðins Valdimarssonar til formennsku í fiskimálanefnd. Að skipa H. V. til forustu á sviði fiskimálanna, öldungis þekkingarsnauðan, einmitt þegar eldri markaðir eru að bregðast, en þjóðin hinsvegar á frelsi sitt og framtíð undir fjárhagsafkomunni, er réttilega jafnað til þess, að senda björgunarbát út í brimlöðrið undir stjórn þess manns, er aldrei hefir á sjó komið og ekki kann að stýra. Enda hefir allt gengið sem til var stofnað, og munu flestir hafa fundið, að vörn hæstv. atvmrh. var eins og málefni stóðu til. Hann reyndi að vísu að fegra málstað fiskimálan. á alla lund og sagði að lokum, að hún hefði með starfi sínu aukið útflutninginn um á 3 milljón. Auðvitað er þetta hin mesta fásinna og auðvirðileg blekking, því meginhluti — 99/100 — þess starfs, er þar lýsir sér, er af öðrum unninn. En segjum, að þetta væri rétt — segjum, að fiskimálan. hefði í raun og veru unnið það afrek að auka útflutninginn um á 3. milljón. Segjum, að hún verðskuldaði hið taumlausa lof ráðh., og segjum, að H. G. og H. V. mættu deila þeim heiðri. En leyfið mér þá að minna þessa herra á, að Hjalteyrarverksmiðjan hefir líka aukið útflutning um 2½–3 .milljónir, og ef barátta H. G. og H. V. gegn henni hefði lánazt, myndi á þann hátt að engu gert starf fiskimálanefndar.

En hér er svo bara sá munur á, að Hjalteyrarverksmiðjan hefir þegar aflað ríkissjóði á einu ári a. m. k. 200 þús. kr., en fiskimálan. þegið úr ríkissjóði milli 800 og 900 þús. kr., og auk þess lítið gert annað en klína stimpli sínum á annara verk. Engin nefnd hefir verið dýrari en fiskimálanefnd, og er þó sá skaðinn mestur, að þjóðin hefir verið svipt hæfri forystu í þessum miklu nauðsynjamálum.

Hæstv. atvmrh. hugðist að tefla á mig með því að leiða mig fyrir rétt út af kröfu útgerðarmanna um frjáls umráð eigin gjaldeyris. Spurði ráðh. í því sambandi, hvort ég vildi ganga inn á þá kröfu.

Það er alltaf óviðfelldið, að ráðherrar séu með allt of áberandi látalæti frammi fyrir þjóðinni.

Ráðh. veit, að með tillögum mínum hér á þingi hefi ég viljað heimila útvegsmönnum afnot eigin gjaldeyris til eigin þarfa. Lengra hefi ég að svo komnu ekki viljað ganga, annars hefði ég gert um það tillögur. Ráðh. þarf ekkert um þetta að spyrja, ef hann fylgist eitthvað með störfum þingsins. Hitt játa ég, að mjög er eðlilegt að útgerðin krefjist umráðaréttar yfir lögformlegri eign sinni, og það skal ráðh. sanna, að finnist engin önnur ráð til að forða frá því hruni, sem bankastjórarnir, Jón Árnason, Jónas Guðmundsson og trúnaðarmenn útgerðarmanna staðhæfa að sé framundan, þá verður ekki staðið gegn þessari kröfu útvegsmanna í einu formi eða öðru, og það alveg jafnt þótt krónan verði með því móti felld eitthvað meira en núverandi ríkisstjórn er búin að gera.

Ég ætla þá að lokum að víkja örfáum orðum að því, að hæstv. atvmrh. var að draga dár að því, er hann kallaði hljóðskraf formanns Framsfl. og mitt.

Það er að vísu alkunna, að lengi hefir verið fátt milli þess manns og mín, og hitt er líka rétt, að á þessu þingi höfum við átt mörg samtöl. En er ástæða til að harma það?

Veit ekki ráðh., að þjóðin er í voða stödd? Veit hann ekki, að pestin er að drepa jafnt búpeninginn sem allan velfarnað bændanna?

Veit hann ekki, að útvegurinn sér ekkert nema hrun framundan.

Heldur hann þá, að það sé fyrsta skylda mín, að rannsaka vel allar heimildir og athuga með Nygrens nákvæmni, hvort Jónas Jónsson hefir skammað mig meira eða minna en samboðið var sóma hans.

Heldur hann, að það sé helgasta hlutverk þjóðarfulltrúanna á þessum tímum að koma fram persónulegum hefndum?

Nei. Ráðherrann veit um þrengingar þjóðarinnar, og hann veit, að hér á Alþingi hafa menn almennt allt of lengi troðið illsakir hver við annan, sjálfum sér til lítils sóma, en þjóðinni til bölvunar. Hann veit, að á þeim tímum, er nú fara í hönd, er það ekki mesta nauðsynin, að þingmenn rækti víkingseðli, heldur hitt, að sem flestir taki höndum saman til þess að bægja vá frá dyrum almennings í landinu.

Ef við Jónas Jónsson með hljóðskrafinu höfum gengið á undan í þeim efnum, er það til lofs, en ekki lasis, og væri vel, að sem flestir fylgdu eftir. Mætti þá svo fara, að þessa þings yrði síðar getið að einhverju góðu.

Þetta ætti maður í ráðherrasæti að skilja, og er leitt til að vita, ef afbrýðisemi glepur honum svo sýn, að hann geri þetta að árásarefni.

Hitt er svo óheppni fyrir hann sjálfan, að hann skuli vera sérstaklega að minnast á biðilsbuxur, vegna þess, að hér á Alþingi hefir aldrei nokkur maður sézt í öðrum eins tötrum eins og þeim biðilsbuxna-görmum, sem þessi ráðherra gengur í. Á hnjánum hafa þær gatslitnað í leitinni að kommúnistum, en botninn er slitinn, máður og glansandi eftir mjög sitjandann í ráðherrastólnum.

Ég mun taka hér til máls aftur eftir 20 mínútur og þá svara því helzta, er mér þykir vansvarað.