18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (144)

1. mál, fjárlög 1938

Ólafur Thors:

Í:g hefi aðeins örfáar mínútur til umráða. Get því aðeins drepið á örfá atriði. Samverkamenn Finns Jónssonar hafa tjáð mér, að um bakprovision hafi verið að ræða, og það í stórum stíl, svo F. J. þýðir alls ekki að þræta fyrir það. Skal ég endurtaka þau ummæli utan þings og sanna fyrir rétti, ef óskað er.

Óskammfeilni hv. þm. Ísaf. (FJ) keyrir alveg úr hófi, að hann skuli dirfast að tala um óstjórn á verksmiðjum Kveldúlfs. Allir vita þó, að þar er komizt af með 1 mann fyrir hverja 2, sem taldir eru vinna og kaup taka þar, sem F. J. stjórnar.

Því seldi Kveldúlfur ekki fyrir £ 19? spyr hv. þm. Ísaf. Kveldúlfur seldi á £ 19. Þann sama dag seldi F. J. á £ 18, alveg eins og bann seldi á £ 21 sama daginn og Alliance seldi á £ 22.

Það getur verið, að hv. þm. Ísaf. telji, að þetta sé að ávaxta sitt pund vel, en það er áreiðanlega að ávaxta annara pund illa, og þess vegna er nú F. J. veginn og léttvægur fundinn.

Ég heyrði það eitt af síðustu ræðu hæstv. atvmrh. (HG), að hann spurði: „Hverjir eiga að stilla kröfum sinum í hóf? Eru það verkamenn eða þeir, sem nær standa Ó. Th.?“

Það eru m. a. menn eins og Haraldur Guðmundsson, sem stilla eiga í hóf. Hann hefir fyrstur ísl. ráðh. tekið 3000 krónur í risnufé til að halda sjómönnum og verkamönnum veizlur, sem mér er nú raunar sagt, að ekki séu byrjaðar ennþá!

Næstsíðustu ræðu hæstv. atvmrh. nefna menn hér í sölum þingsins uppgjöf sósialistanna. Rök ráðh. fyrir þrásetunni í ráðherrastóli eru nú þessi:

„Ég setti að vísu fram kröfur og ég lýsti því yfir, að ég færi úr stjórn, ef þær yrðu ekki uppfylltar. En ég bað líka um kosningar. Úrslit þeirra sýndu, að breiðfylkingin var í minni hluta. Átti ég þá að fara úr ráðherrastóli?

Nú, en voru þá kosningarnar ætlaðar til þess að koma breiðfylkingunni í meiri hluta, þessum voðalýð?! Ef ekki, hverju breyttu þær þá? Ef ráðh. að afloknum kosningum ætlaði að kyngja öllum kröfunum til þess að hanga, var þá ekki betra að gera það fyrir kosningar?

Eftir þessu hafa þá kosningarnar átt að vera til þess eins, að geta svikið út fylgi þjóðarinnar með kröfum, sem svo átti að svíkja, strax að afloknum kosningum.

Þetta er auma vörnin, — ég endurtek það, að þögnin hefði verið skárri.

Út af Hjalteyrarverksmiðjunni segi ég þetta: Ég kenni í brjósti um þann ráðh., sem vísvitandi segir ósatt til þess að reyna að komast úr klípunni.

Hæstv. atvmrh. sagðist hafa tvíframlengt verksmiðjuleyfið. Það er ósatt.

Hann sagðist hafa beðið eftir, að Landsbankinn svaraði beiðni um milljónalán handa Kveldúlfi. Það er líka ósatt. Kveldúlfur fór ekki fram á nema 150 þús. kr. lán hjá Landsbankanum til verksmiðjunnar, og á því svari stóð aldrei.

Nei, fyrst þorði ráðh. ekki að neita um byggingarleyfi af ótta við sjómenn. Síðan þorði hann ekki að endurnýja lyfið af ótta við Héðinn Valdimarsson og Finn Jónsson. Og loks skipaði þingið honum fyrir verkum, og þá þorði hann ekki annað en að hlýða.

Þetta er lítil saga, en ljót, og fríkkar ekkert, þegar sagt er frá því að þegar útséð var um, að sósar gætu kúgað þingið til að kúga bankann, — þegar þannig var sýnt, að verksmiðjan á Hjalteyri yrði reist, bar F. J. fram tillögu um, að hún yrði þó minnkuð um helming. Þannig birti þessi fíni maður hug sinn til sjómanna, og vissi þó vel, að með þessu hefði hann haft milljón kr. atvinnutekjur af þeim.

Hæstv. atvmrh. reynir nú að prýkka sig með því, að hafa leyft Kveldúlfi að stækka verksmiðjuna um 2400 mál. Hann gleymdi bara að segja frá pí, að Kveldúlfur bað um að stækka verksmiðjuna um 500 mál. Þessu neitaði ráðh., og reynir þannig í lengstu lög að þóknast Finni Jónssyni, en svíkja sjómenn.

Afbrýðissemi hæstv. atvmrh. út af hljóðskrafi okkar J. J. er brosleg. Hann langar óhemju mikið að vita, um hvað við erum að tala, — hvort við séum orðnir sammála um lausn vandans.

Ég er brjóstgóður. Ég skal segja hæstv. atvmrh., að enn er samkomulagið ekki lengra komið en það, að við höfum orðið sammála aðeins um eitt atriði, en það er líka stórt mál — stórt velferðarmál þjóðarinnar. Við erum sammála um að losa útveginn við kláðann, brjóta á bak aftur vald F. J. yfir síldarmálunum.

Ræða hv. fjármrh., Eysteins Jónssonar, var að mestu ein óslitin ósannindatugga, sem hann flutti nú í 10. sinn af gömlum vana. Hann þorir ekki að neita því, að hann hafi lagt 2 millj. kr. nýja tolla á þjóðina. En hann reynir að leyna því, með því að spyrja: Á þjóðin örðugra með að greiða 13–l4 millj. nú en 12 áður, af því bannaður er óþarfi? Nei, segjum það, en húsmæðurnar vita hitt, að af hverjum munnbita og hverri spjör tekur ríkissjóður nú 2 kr. fyrir 1 áður, og af þeim ástæðum verða þær nú að neita sér um ýmsa nauðsynlega björg í búið.

Ráðh. þykist heilmikill karl, þegar hann er að skora á mig að segja, hvernig Sjálfstfl. mundi geta lækkað útgjöldin um 1 milljón. Ég býst við, að völlurinn á honum minnki eftir ræðu hv. þm. A.-Húnv. (JPálm).

En svo langar mig að segja ráðh. þetta : 1934 sagði hann, að ekkert væri hægt að skera niður.

1935 var milljón skorin niður. Nú er enn skorið niður.

Heldur nú ráðh., að ef vilji er til, sé alls ekki hægt að skera meira niður?

Nei, hann veit vel, að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn í fjárveitingarn. voru sammála um, að miklu meira væri hægt að skera niður. En ráðh. sjálfur þorði ekki vegna H.V.

Það er fjmrh., en ekki stjórnarandstæðingar. sem eiga að hafa þar forustu. Þori hann það ekki þýðir ekki að tala um sparnað fyrr en búið er að skipta um mann í þeim sess, — en þá er það líka vandalaust.

Ráðh. reyndi að afsaka fjármálavandræði ríkisins með því að segja rangt frá fjárhag Reykjavíkur. Er það að vísu rétt, að álögur hafa hækkað í Rvík. En hverjum er það að kenna? Það er að kenna stjórnarfl., því þeir hafa samþ. hver lögin af öðrum, sem leggja ný og ný gjöld á Rvík, og mætti því vænta, að ráðh. sæi sinn sóma í því að þegja yfir þessu.

Loks reyndi ráðh. að miklast af skattlétti á útvegnum. En ráðh. veit vel, að með 2–6% nýjum tolli á nauðsynjar útvegsins og 12% nýjum álögum á alla eldri skatta hefir hann tekið tvo peninga — eða marga — af útvegnum fyrir hvern einn.

Ráðh. sér, að þetta er veik aðstaða og reynir að felu sig bak við mig. Í því skyni segir hann frá því, að á fundi með útvegsmönnum hafi ég svarað tómum vífilengjum.

Þetta eru bein, vísvitandi og sannanleg ósannindi.

Á þessum fundi lýsti ég því yfir, skýrt og skorinort, að ég væri reiðubúinn til skattléttis á útvegnum og til þess að semja við ráðh. um nýjar tekjur í staðinn, en vegna þess að ráðh. neitaði að ganga lengra en orðið er, teldi ég tilgangslaust að tefja þingið með fyrirfram dauðadæmdum tillögum — þetta heyrðu allir viðstaddir, og ráðh. ekki sízt, því til hans var því sérstaklega beint. Að dirfast síðan að fullyrða hið gagnstæða, sýnir aðeins, hve óvenju ófyrirleitinn þessi maður er í rökþrotum sínum.

Einar Olgeirsson sagði, að aðalvoði þjóðarinnar væri ekki fjárpestin, heldur makk okkar J. J. eins og hann orðaði það. Má að vísu vera, að við gætum orðið kommum viðlíka skæðir og fjárpestin sauðfénu, en þjóðin er áreiðanlega skaðlaus af því.

Þessum umræðum er nú að verða lokið. Sjálfstfl. hefir enn sem fyrr reynt að opna þjóðinni útsýni yfir stjórnmálaviðhorfið. Horfurnar eru ískyggilegri en nokkru sinni áður, framleiðslan komin að þrotum, þjóðin hlaðin þungum skuldum, en flokkadrættir draga úr viðnáminu.

Þjóðin stendur á tímamótum. Undir átaki okkar sjálfra eigum við það, hvort við að fáum árum liðnum fáum tekið í eigin hendur öll umráð allra okkar mála. Ég dreg ekki í efa, að yfirleitt skilji menn, hver áhrif afdrif þess máls hafa á alla framtíð niðja okkar. Hitt gera menn sér síður ljóst, að enda þótt fullur vilji sé til, veltur þó slík ákvörðun að sjálfsögðu á efnahagslegri afkomu þjóðarinnar. Við verðum því nú þegar að gera oss ljóst, verði þjóðin áfram þjökuð af hverskonar óáran, mergsogin af sköttum, sokkin í erlent skuldafen og auk þess sjálfri sér sundurþykk, mun hún aldrei reynast einráð málefna sinna.

Frelsið er fyrsta boðorð okkar sjálfstæðismanna — frelsi einstaklingsins og frelsi þjóðarinnar.

En frelsisþráin er fleirum en okkur í merg runnin. Hún er sameiginleg eign okkar arftaka þeirra manna, er heldur kusu að yfirgefa ætt og óðal en lúta drottinvaldi konungs, og einmitt í því sjáum við sjálfstæðismenn fyrirheitið um það, að enda þótt þjóðin hafi um skeið látið glepja sér sýn, eigum við þó vísan sigurinn í innanlandsbaráttunni, vegna þess hve nátengd stefna okkar er sterkasta þætti Íslendingseðlisins, — frelsisþránni.

Hitt er okkar mikli kvíði, að við vöknum of seint, leysumst of seint úr læðingi, og verðum af þeim ástæðum öðrum að bráð.

Það er heitasta þrá okkar sjálfstæðismanna að afstýra þeim voða, og því fer þess vegna svo fjarri, að við látum gamlar persónulegar væringar skyggja á þá göfugu og stóru hugsjón, að okkur beinlínis hrís hugur við slíkum hugsunarhætti.

Sameinaðir stöndum vér, — minnumst þess í dag og atla daga, Íslendingar.