21.12.1937
Efri deild: 55. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (1492)

124. mál, alþýðutryggingar

*Árni Jónsson:

Ég fer að gera mér von um það, sem ég gerði ekki áður, að einhver af brtt. mínum á þskj. 457 nái samþykki, fyrst hæstv. ráðh. ætlar nú á annað borð að „opna“ frv. Bæði það, sem ég hefi sagt, og eins orð hv. 1. þm. Reykv. ætti að hafa fært hæstv. ráðh. heim sanninn um, að 1. brtt. mín er byggð á fullri sanngirni, og eigi á annað borð að fara að senda frv. milli deilda, þá vil ég treysta því, að sú till. verði samþ. Annars þykir mér undarlegt, að hæstv. ráðh. skuli nú fara að opna frv. fyrir brtt. Það kemur illa heim við afstöðu samflokksmanna og samstarfsflokksmanna hæstv. ráðh. hér í hv. d. Þeir hafa lýst því yfir í nál., að þeir hafi rekið sig á galla í frv., er þeir telji varhugaverða, en þeir hafa ekki reynt að bæta úr þessum ágöllum, vegna þess, að þeir litu svo á, að allar brtt., sem yrðu samþ. úr þessu, gætu orðið til þess að stofna frv. í hættu. Alltaf hefir klingt við sú röksemd, að orðið væri svo áliðið, að ekki væri óhætt að senda frv. milli deilda. Þetta hefir orðið til þess, að ég og ýmsir aðrir, sem hefðu annars flutt brtt., hafa álitið þýðingarlaust að bera þær fram. En nú kemur hæstv. atvmrh. sjálfur og ætlar að opna frv. upp á gátt fyrir sjálfan sig, og það vegna atriðis, sem ekki skiptir neinu máli. Þetta sýnir bara það sama, sem kemur í ljós með önnur mál, er svona er flaustrað af, — það eru alltaf að finnast nýir og nýir gallar á frv., sem nauðsynlegt er að laga. Mér virðist því flest benda til þess, að frv. hefði haft gott af því að bíða til næsta þings.