01.11.1937
Neðri deild: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Ég vil með nokkrum orðum gera grein fyrir því, að hve miklu leyti þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 74, er frábrugðið núgildandi l. um sama efni, sem eru frá 9. jan. 1935.

Í 1. gr. frv. er ákvæði um það, að óheimilt sé að flytja til og frá útlöndum íslenzkan gjaldeyri. Einnig er í sömu gr. heimild til að ákveða með reglugerð, að allir, sem ferðast til annara landa, þurfi sérstök skírteini frá gjaldeyris- og innflutningsnefnd fyrir því, að þeir hafi á löglegan hátt aflað sér nægilegs erlends gjaldeyris til ferðarinnar. Og ennfremur er eigendum flutningatækja óheimilt að flytja fólk til annara landa, nema þessum skilyrðum sé fullnægt. Hér er um ný ákvæði að ræða, sem ekki eru í gildandi l., en reynslan hefir sýnt, að æskilegt er að fá til viðbótar.

Í 2. gr. er nýtt ákvæði um það, að við úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa á vörum sé farið eftir reglum, sem fjmrh. setur, að fengnum till. þeirra banka, sem fulltrúa eiga í gjaldeyris- og innflutningsnefnd. En í núgildandi l. er ákveðið, að reglurnar eigi. að samþ. af bönkunum. Það þykir réttara og meira í samræmi við það, sem venjulega hefir tíðkazt, að það sé ráðh., sem setur þessar reglur, að fengnum till. bankanna, en vitanlega hljóta þær alltaf að vera samdar í samráði við bankana, eins og áður hefir verið.

Í 3. gr. frv. er tekið upp ákvæði um það, að til þess að standast kostnað við gjaldeyris- og innflutningsnefnd, skuli allir, sem gjaldeyrisleyfi fá, greiða 2 0/00 af upphæð þeirri, sem leyfið hljóðar um. Mundu við þetta sparast um 40 þús. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð.

Í 5. gr. frv. er svo fyrir mælt, að skýrslur um inn- og útflutning skuli senda hagstofunni. Í núgildandi l. er svo ákveðið, að þær skuli senda gjaldeyris- og innflutningsnefnd. En framkvæmdin á þessu hefir verið sú undanfarin tvö ár, að skýrslurnar hafa verið sendar hagstofunni, sem vinnur úr þeim, og er það því eðlilegast, að þær séu sendar þangað beint.

Í 6. gr. frv., sem fjallar um sektarákvæði, er því við bætt, að heimilt sé að gera upptækar vörur og íslenzkan gjaldeyri, sem ólöglega er inn fluttur eða reynt er að flytja út á ólöglegan hátt.

Og í 7. gr. er það fram tekið, að upptækar vörur og gjaldeyrir verði eign ríkissjóðs, en um það eru engin fyrirmæli í núgildandi l.

Ég hefi þá gert grein fyrir því, að hverju leyti þetta frv. er frábrugðið núgildandi l., og eins og menn sjá við samanburðinn, þá er hér ekki um að ræða neinar breyt. í grundvallaratriðum á l. um gjaldeyrisverzlun. Það eru t. d. óbreytt ákvæðin um skipun gjaldeyris- og innflutningsnefndar og annað það, sem máli skiptir í því sambandi. Hér er aðeins um að ræða breyt., sem reynsla undanfarinna tveggja ára hefir sýnt, að æskilegt er að gera. Og þar sem hér er um lagafrv. að ræða, sem aðeins er í fáum gr., þótti okkur flm. réttara að semja nýtt frv. heldur en að bera fram brtt. við lögin.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði, að lokinni þessari umr., vísað til fjhn.