18.12.1937
Neðri deild: 54. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1629)

63. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Finnur Jónsson:

Það er ekki lítið fjárhagsatriði fyrir útgerðina, að leyfður sé innflutningur á veiðarfærum. Til dæmis vil ég nefna verðið á lóðum og öngulflaumum hjá veiðarfæragerðinni íslenzku, borið saman við verð á norskum veiðarfærum. Óbikaðar 5 punda lóðir kostuðu hér til skamms tíma 115,50 kr. tylftin. Þó að afsláttur fengist, var verðið alltaf yfir 100 kr. komið á höfn út um land. Á sama tíma hefði mátt fá norskar lóðir fyrir 95–96 kr. frítt á höfn, að meðtöldum tolli. Óbikaðar 8 pd. lóðir voru. n 186 kr. tylftin hjá Veiðarfæragerðinni, en bikaðar lóðir um 6–8% dýrari, eða um 198 kr. frítt um borð í Rvík, á sama tíma sem fá mátti samskonar 8 pd. lóðir frá Noregi fyrir nálægt 150 kr. tylftina. — Þegar hægt var að fá norska öngultauma, 3/4 20 þumlunga fyrir 5,62 kr. frá Noregi, kostaði sama tegund fyrst 7,50 kr. og seinna 6,75 kr. hjá Veiðarfæragerðinni. — Verðlækkun hefir að vísu orðið nýlega hjá Veiðarfæragerðinni, er nemur allmiklu meira en sá afsláttur, sem hún veitti atundum frá eldra verðinu. — Nú kostar tylftin af 5 pd. lóðum óbikuðum kr. 98,50, 8 pd. lóðum óbikuðum kr. 169,00, 5 pd. lóðum bikuðum kr. 104,50, 8 pd. lóðum bikuðum kr. 178,00 frítt um borð í Rvík.

Veiðarfæragerðin treystir sér ekki til að gefa neinn afslátt frá þessu verði, og virðist ekki hægt að svo stöddu að framleiða þessa vörutegund ódýrar hér. En norska verðið er alltaf lægra. Ég hefi ekki orðið var við, að neitt hafi komið fyrir, sem geti orðið til þess, að það breytist. Og þrátt fyrir þýðing þess að fá þennan iðnað inn í landið tel ég fyrir mitt leyti, að þessi þungi skattur á útgerðinni sé algerlega óviðunandi.

Ég skal ekkert um það segja, hvaða leið á að fara til að bæta úr þessu ranglæti og létta af þessum mikla skatti, sem lagður er á alla, sem stunda lóðaveiðar. En einhverja leið til þess verður að finna. Og það má ekki ganga svo frá þessu frv. hér í d., að ekki séu opnaðir möguleikar til þess.